Leit
Loka

Námstími:        5 ár fullt sérnám

Kennslustjóri:  Geir Tryggvason sérfræðilæknir

Sérnámssamningur 

Marklýsing

Sérnámsferlið er að minnsta kosti 5 ár eftir sérnámsgrunnsár til að fá nauðsynlega þjálfun og menntun til að geta fengið sérfræðileyfi sem háls-, nef- og eyrnalæknir. Hluti af þeim árum verður notaður til að öðlast færni í skyldum fögum svo sem heyrnarfræði (á Heyrnar- og talmeinastöðinni) og greinum innan Landspítala, s.s. lýtalækningadeild, heila- og taugaskurðlækningum, ofnæmislækningadeild. Frekari sérhæfing í undirsérgreinum er ekki í boði á Íslandi, en ætti að fara fram erlendis á stærri sjúkrahúsum með skilgreindar undirsérgreinadeildir, s.s. krabbameinsskurðlækningar, eyrnaskurðlækningar.

Námsskráin og þjálfunin stuðlar að því að sérnámslæknirinn verði hæfur og með fulla getu til að takast á við sjúkdóma fagsins á breiðum grundvelli, bæði á göngudeild, skurðstofu, samráðsfundum og á legudeild, ásamt því að vita hvenær rétt sé að vísa vandamálum áfram til undirsérgreinalæknis.

Sérnám samhliða klínískri vinnu á háls-, nef- og eyrnadeild Landspítala sem aðal sérnámsstað, og með stigvaxandi ábyrgð og sjálfstæði í klínískum störfum undir umsjón handleiðara, kennslustjóra og kennsluráðs eftir því sem líður á sérnámstímann.


Á fyrstu 2 árunum er stefnt að því að sérnámslæknir fari í 3 mánuði á Heyrnar- og talmeinastöð Íslands þar sem viðkomandi mun fá þjálfun í heyrnarfræðum og að 6 mánaða valtímabil (má skipta upp í 3+3 mánuði) sé tekið á deildum innan LSH sem kennsluráð hefur viðurkennt en hinir 15 mánuðirnir eru á HNE deildinni.

Á síðari 3 árunum er síðan lögð áhersla á aukna ábyrgð í samræmi við marklýsingu en einnig við kennslu yngri sérnámslækna og nema ásamt auknu sjálfstæði á skurðstofu, þó alltaf undir handleiðslu og á ábyrgð sérfræðilækna deildarinnar.

Helstu verkefni sérnámslæknisins snúa að vinnu á göngudeild, bráðagöngudeild, skurðstofu og legudeild. Eins sinna sérnámslæknar ráðgjöf fyrir aðrar deildir spítalans og utan spítala fyrir aðrar heilbrigðisstofnanir með stuðningi vakthafandi sérfræðings sem og vaktavinnu.

Í samræmi við vaxandi getu og hæfni sérnámslæknisins verða fleiri tækifæri þegar líður á sérnámið til að vinna með vaxandi sjálfstæði. Mikilvægt er að sérnámslæknir þekki mörk sinnar getu og þekkingar og læri hvenær leita eigi eftir meiri leiðsögn og meiri sérfræðiþekkingar þegar það er viðeigandi.

Sérnámslæknir ber ábyrgð á að fylgjast með námsframvindu sinni í verklegu námi og leita eftir tækifærum til að uppfylla námsáætlun sína og geta uppfyllt skilyrði logbókarinnar4 fyrir lok sérnámsins.


Hver sérnámslæknir gerir námsáætlun (e. personal educational plan) í samráði við sérnámshandleiðara og kennslustjóra. SNL ber ábyrgð á eigin námi og er ábyrgur fyrir því að öll skráning samkvæmt marklýsingu og ákvörðunartóli sé aðgengileg við árlegt framvindumat. Sérnámslæknirinn heldur síðan utan um eigin þjálfun með yfirliti yfir aðgerðafjölda og önnur námstækifæri sem hann hefur getað nýtt sér, þannig að breið mynd fáist af inntaki sérnámsins í ákvörðunum um framvindu.

Framvindumat og matsblöð
Notast verður við logbók til að skrá niður framvindu náms og fylgjast með námsmarkmiðum sérnámslæknisins. Logbókin er frá evrópsku háls-, nef- og eyrnalæknasamtökunum og er notuð til grundvallar próftökurétts í sérfræðiprófi samtakanna.

Reglulega skal meta frammistöðu sérnámslæknis og veita endurgjöf með hjálp matsblaða, s.s. mini-CEX (mini-Clinical Evaluation Exercise), DOPS (Direct Observation of Procedural Skills) og CbD (Case-based Discussion). Umfangsmeira þverfaglegt mat er 360° mat eða svokallað heildarmat (sérfræðilækna og annara samstarfsmanna) á sérnámslækni þar sem farið er yfir klíníska færni, þekkingu, ásamt getu og hæfni sérnámslæknisins í samskiptum við sjúklinga, aðstandendur og samstarfsfólk.

Árlegt framvindumat (ARCP) fer fram með tilvísun í Gullbókina. Sérnámslæknir tekur til ákvörðunartól (e. Decision aid; viðauki 2), matsblöð og aðgerðalista ásamt því að sérnámshandleiðari skilar ESR (e. educational supervisor report) til kennslustjóra og kennsluráðs.

Handleiðsla
Hver sérnámslæknir hefur sérnámshandleiðara sem hefur hlotið þjálfun í handleiðslu. Endurgjöf er gefin reglulega og farið yfir námsmatsþætti, framvindu í logbók og matsblöð.

Árlegt framvindumat (ARCP) fer síðan fram í lok hvers árs þar sem sérnámslæknirinn og handleiðari fara yfir logbækur, námsframvindu ásamt því að matsblöð (sjá að neðan) eru gerð upp og staða sérnámslæknisins í náminu er könnuð. Sérnámshandleiðari skilar inn ESR (e. educational supervisor report) . Þó eru styttri fundir ársfjórðungslega þess á milli þar sem haldið er utan um fyrrgreinda þætti.

Sérfræðivottun
Þegar sérnámslæknirinn er kominn á lokaár sérnámsins er skylda að taka sérfræðipróf samtaka evrópsku háls-, nef- og eyrnalæknasamtakanna. Um er að ræða próf í tveimur stigum þar sem fyrst undirgengst sérnámslæknirinn skriflegt próf og nái hann því fer viðkomandi í munnlegt próf. Það er á ábyrgð sérnámslæknisins að skrá sig í prófið og kanna að viðkomandi uppfylli öll skilyrði próftöku. Eitt af skilyrðum próftöku er að hafa útfyllta logbók samtakanna sem unnið verður með í sérnáminu hérlendis.

Sérnámslæknirinn fær sérfræðiréttindin viðurkennd þegar viðkomandi hefur náð prófinu ásamt því að uppfylla kröfur skv. þessari marklýsingu og að minnsta kosti 5 ára verklegu sérnámi undir handleiðslu


Til grundvallar bóklega hluta námsins er lögð fram bókin Otorhinolaryngology, Head & Neck Surgery eftir W. Arnold og U. Ganzer. Springer, 2010

Vikulega er gert ráð fyrir yfirferð úr efni í kennslubók og annarri klukkustund í tilfellamiðaða kennslu. Miðað er við að ná einum undirkafla úr kennslubókinni í hverri kennslustund en þar sem margir kaflanna eru langir þarf að dreifa þeim á fleiri kennslustundir. Með þessu móti nýtist kennslubókin stærstan hluta sérnámsins hjá hverjum sérnámslækni.

Sérnámslæknirinn er síðan hvattur til að lesa reglubundið eftirfarandi tímarit með yfirlitsgreinum fræðigreinarinnar ásamt því að fylgjast með helstu tímaritum í greininni.

  • Otolaryngologic clinics of North America
  • Current opinion in Otolaryngology Head and neck surgery
  • Operative Techniques in Otolaryngology

Námskeið og kennsla verða ákveðin af kennsluráði í samstarfi við yfirlækni sérnáms lækna á Landspítala og framhaldsmenntunarráðs lækninga á Íslandi.

Ætlast er til að sérnámslæknirinn nýti tækifæri til að sækja bæði erlend og innlend þing til að auka þekkingu sína. Mælst er til þess að sérnámslæknirinn sæki fræðsluþing á vegum Evrópusamtökum ungra háls-, nef- og eyrnalækna sem verður er reglulega. Þingið er helgað uppfærðum leiðbeiningum um meðferð helstu háls-, nef- og eyrnavandamála frá Evrópsusamtökum háls-, nef- og eyrnalækna. Fræðslan byggir á tilfellamiðaðri kennslu og er hugsuð sem hluti af undirbúningi fyrir sérfræðipróf evrópsku háls-, nef- og eyrnalæknasamtakanna sem sérnámslæknirinn þarf að undirgangast fyrir sérfræðivottun sína.

Rannsóknir
Æskilegt er að sérnámslæknirinn vinni að rannsóknum á deildinni á meðan á sérnámi stendur. Miðað er við eina rannsókn eða eitt gæðaverkefni að lágmarki. Sérnámshandleiðari og kennslustjóri geta veitt sérnámslækninum leiðsögn og aðstoð.

Æskilegt er að niðurstöður þessara rannsókna verði birtar í ritrýndum tímaritum og/eða kynntar á þingum hérlendis eða erlendis.


Landspítali auglýsir sérnámsstöður lækna tvisvar á ári í janúar og september.

Gert er ráð fyrir að sérnámslæknar hefji störf 1. mars og í lok júní árlega. Í fyrstu viku er skylt að mæta á formlega móttökudaga sem eru kynntir þegar nær dregur.

Sérnám fer að mestu leyti fram á Landspítala en einnig á Heyrna- og talmeinastöðinni.

Frekari upplýsingar veitir Geir Tryggvason sérfræðilæknir með netfang: geirt@landspitali.is

Skrifstofustjóri sérnáms er Jóna K Kristinsdóttir með netfangið jonakk@landspitali.is - sími: 824-0358


Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir
Af hverju ekki?