Leit
Loka

Námstími:            2 ár 

Kennslustjóri:    Valtýr Stefánsson Thors með netfangið: valtyr@landspitali.is

Á Barnaspítala Hringsins er viðurkennt sérnám í barnalækningum. Miðað er við að barnasérnámslæknar (BASL) geti tekið tvö ár af skipulögðu námi á Barnaspítalanum skv marklýsingu sem samþykkt hefur verið af Leyfis- og hæfnisnefnd Heilbrigðisráðuneytisins.

Kennslustjóri framhaldsnáms á Barnaspítala Hringsins er Valtýr Stefánsson Thors, barnalæknir og sérfræðingur í smitsjúkdómum barna.

Kennsluráð:

Valtýr Stefánsson Thors kennslustjóri
Ásgeir Haraldsson, prófessor
Kristján Óskarsson, yfirlæknir
Ragnar Bjarnason, yfirlæknir
Þórður Þórkelsson, yfirlæknir
Fulltrúi sérnámslækna

 Skipulag og innihald sérnáms

 
Sérnám í barnalækningum við Barnaspítala Hringsins felur í sér allt að tveggja ára starfsnám, sem byggir á reglubundinni viðveru og klínískri vinnu á deildum Barnaspítalans, þátttöku í vöktum, teymisvinnu og skipulagðri menntun skv. námsáætlun. Námslæknar taki þátt í gerð verklagsreglna og rannsóknum/fagrýni/gæðaverkefnum á námstímanum auk þess að taka þátt í kennslu læknanema og annarra starfstétta eftir atvikum. Framganga í sérnáminu er metin á u.þ.b. hálfs árs fresti á skipulögðum matsfundi með sérnámslækni, handleiðara, kennslustjóra og forstöðumanni fræðasviðs þar sem skráning á þekkingu og klínískri færni í námsskrá (loggbók), niðurstöður prófa og frammistöðumat eru meðal þeirra þátta sem lagðir eru til grundvallar.


Á seinna ári sérnámsins hefur sérnámslæknirinn vaxandi ábyrgð. Felur það m.a. í sér að sérnámslæknirinn gengur einn stofugang og ræðir síðan um sjúklingana við viðkomandi sérfræðilækni og leggur til meðferð. Einnig mun sérnámslæknirinn vinna náið með sérfræðingum hinna ýmsu undirsérgreina, m.a. á göngudeild. Þá tekur hann aukinn þátt í kennslu læknanema og símenntun barnalækna og annarra starfsstétta.
Formleg kennsla fyrir sérnámslæknahópinn er einn eftirmiðdagur í viku að jafnaði. Að auki er kennsla fyrir alla námslækna eftir morgunfund (tilfellafundir eða endurlífgunaræfing) og í hádeginu þrjá daga vikunnar (þriðjudag til fimmtudags). Grand Round er á föstudögum. Á fimmtudögum eftir morgunfund er fræðslufundur Barnaspítalans. Á 3-4 mánaða fresti er greinafundur (journal club). Ætlast er til að sérnámslæknar taki þátt í þessari fræðslu/kennslu og skrásetja þátttöku sína

 

Marklýsing

Kennsla sérnámslækna er bæði klínísk/verkleg og bókleg

Formlegir fyrirlestrar og fundir eru:

Þriðjudagar: klínískt tilfelli

Miðvikudagar: hádegisfundur
Fimmtudagar. Fræðslufundur Barnaspítala Hringsins
Föstudagur: Grand – round
Föstudagur: Formleg BASL-kennsla

Auk þess taka BASLarar þátt í verklegri kennslu læknanema. Einnig eru fræðsluerindi læknanema (greinakynningar) á morgunfundum Barnaspítala Hringsins.

Sérfæðingar sjá um kennslu á föstudögum,
skrá yfir fyrirlestra og fyrirlesara er hér


BASL-dagar
BASL-dagur að vori er helgaður faglegum og fræðilegum efnum, rannsóknum BASLara eða annarra o.s.frv.
BASL-dagur að hausti er meira helgaður klínískum verkefnum, gæðaskjölum, klínískum leiðbeiningum o.s.frv.

 

Almenn handleiðsla
Hver sérnámslæknir hefur sinn handleiðara sem fylgir námslækninum eftir í öllu námsferlinu. Handleiðarinn þarf að hafa lokið handleiðaranámskeiði Royal College of Physicians (educational supervisor). Sérnámslæknir og handleiðari hittast a.m.k. á tveggja mánaða fresti á formlegum fundi þar sem farið er yfir framvindu námsins, væntingar, samskipti við sjúklinga og starfsfólk og hugsanleg vandamál rædd. Námslæknir og handleiðari hittast oftar ef ástæða er til auk þess sem ófromleg samskipti allra sérfræðinga og sérnámslækna á Barnaspítala Hringsins eru mikil. Einnig er handleiðslan vettvangur til að ræða möguleika á vinnu við gæðaverkefni og rannsóknir, starfsþróun og áætlanir um frekara sérnám. Handleiðarinn fer einnig reglulega yfir skráningu í námsskrá sérnámslæknis.

Klínísk handleiðsla
Um er að ræða handleiðslu hjá þeim sérfræðingi á þeirri deild sem sérnámslæknir vinnur á hverju sinni og snýst einkum um daglega klíníska vinnu. Handleiðslan fer m.a. fram með því að handleiðari fylgist með störfum sérnámslæknis og veitir honum endurgjöf, með beinum samtölum þar sem tiltekin mál eru rædd og með því að sérfræðingurinn les yfir og ræðir skráð sjúkragögn sérnámslæknis. Flestir sérfræðingar Barnaspítalans hafa tekið þátt í námskeiði Royal College of Physicians um klíníska handleiðslu.

Einu sinni eða oftar á ári eru haldnir fundir námslæknis með handleiðara, kennslustjóra og forstöðulækni fræðasviðs þar sem farið er yfir framgang hans í sérnáminu. Það sem einkum er lagt til grundvallar er námsskrá, sjálfsmat námslæknis og endurgjöf frá klínískum handleiðurum og öðru samstarfsfólki. Farið er yfir framvindu námsins, styrkleikar námslæknis skoðaðir auk þess sem betur má fara og væntingar sérnámslæknir ræddar

Sjá frekari upplýsingar í kafla 5 í marklýsingu

Kennslustjóri er Valtýr Stefánsson Thors með netfangið: valtyr@landspitali.is

Yfirlæknir sérnáms á Landspítala hefur yfirumsjón með umsóknarferli um sérnám í sérgreinum á Landspítala, þ.m.t. í barnalækningum.

Þegar umsóknir hafa borist eru þær sendar ásamt fylgigögnum til kennslustjóra sérnáms í barnalækningum á Barnaspítala Hringsins. Í kjölfarið fara fram inntökuviðtöl með formlegum hætti og aðkomu kennsluráðs, forstöðumanns fræðasviðs, og annarra starfsmanna Barnaspítalans skv. ákvörðun kennsluráðs.

Inntökuskilyrði fyrir sérnám í barnalækningum eru að umsækjandi hafi embættispróf í læknisfræði frá HÍ eða sambærilegri erlendri læknadeild, hafi lokið kandídatsári (eða því verði lokið þegar námsstaða hefst) og sé kominn með íslenskt lækningaleyfi (eða verði með slíkt leyfi þegar námsstaða hefst). Formlegur námssamningur er gerður og undirritaður í upphafi sérnámsins. Þessi samningur er með endurskoðunarákvæði eftir sex mánuði.

Samvinna hefur verið staðfesti milli SAk og barnalækninga um sérnám og er gert ráð fyrir að sérnámslæknar vinni á báðum stöðum nema sérstakar aðstæður leyfi það ekki.

Sérnámslæknir er ráðinn til starfa í 100% starf á Barnaspítalanum og tekur fullan þátt í vöktum almennra lækna á meðan sérnámi stendur (frá vori 2024)

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir
Af hverju ekki?