Leit
Loka

Forstjóri og framkvæmdastjórn

Meginhlutverk forstjóra er að tryggja að á Landspítala sé veitt fullkomnasta heilbrigðisþjónusta sem á hverjum tíma eru tök á að veita í samræmi við hlutverk stofnunarinnar innan heilbrigðisþjónustunnar.  Forstjóri skal vinna að því að spítalinn ræki hlutverk sitt hvað snertir þjónustu, kennslu og rannsóknir og skal m.a. eiga ríkt samstarf við háskólasamfélagið.

Áður en forstjóri tekur mikilvægar ákvarðanir er varða þjónustu og rekstur Landspítala skal hann taka mál upp á vettvangi framkvæmdastjórnar og leita ráðgjafar og álits hennar. Þá ber forstjóra að leita álits fagráðs um mikilvægar ákvarðanir sem varða heilbrigðisþjónustu og skipulag spítalans.

Runólfur Pálsson tók við starfi forstjóra Landspítala 1. mars 2022. 

Runólfur lauk kandídatsprófi í læknisfræði frá Háskóla Íslands árið 1985, sérfræðinámi í lyflækningum frá Hartford Hospital og University of Connecticut árið 1991 og sérfræðinámi í nýrnalækningum frá Massachusetts General Hospital og Harvard Medical School árið 1996. Runólfur hefur starfað á Landspítala samfellt frá árinu 1996 og gegnt þar ýmsum stjórnunarstöðum, síðast starfi forstöðumanns lyflækninga- og bráðaþjónustu.  Hann hefur jafnframt verið prófessor við læknadeild Háskóla Íslands.
Runólfur tók í október 2021 tímabundið við starfi framkvæmdastjóra meðferðarsviðs á Landspítala af Guðlaugu Rakel Guðjónsdóttur, sem gegndi tímabundið starfi forstjóra spítalans.

 

Helstu verkefni forstjóra

Forstjóri Landspítala er skipaður af heilbrigðisráðherra til fimm ára í senn. Í erindisbréfi frá nóvember 2022 er helstu verkefnum forstjóra tilgreind:

 • Hafa með höndum yfirstjórn Landspítala.
 • Sitja fundi stjórnar Landspítala, nema stjórn ákveði annað í einstökum tilvikum.
 • Gera stjórnskipurit fyrir spítalann í samráði við framkvæmdastjórn, sé slík starfandi, stjórn spítalans og fagráð þess og leggja tillögu fyrir heilbrigðisráðherra til kynningar.
 • Gera árlega starfs- og ársáætlun fyrir spítalann í samráði við framkvæmdastjórn og stjórn spítalans.
 • Gera áætlanir fyrir spítalann til þriggja ára í senn í samráði við framkvæmdastjórn, stjórn spítalans og í samræmi við ákvæði laga um opinber fjármál nr. 123/2015.
 • Stjórna daglegum rekstri spítalans, ráða starfsmenn og bera ábyrgð á starfsmannahaldi.
 • Tryggja að mönnun sé í samræmi við hlutverk spítalans. 
 • Vinna að nýjungum og umbótum í starfsemi spítalans með gæði þjónustu að leiðarljósi.
 • Stuðla að gæðaþróun og árangursmati í starfi spítalans.
 • Vinna að samhæfingu þjónustuþátta.
 • Vinna að því að spítalinn annist starfsnám í heilbrigðisgreinum í samvinnu við menntastofnanir og aðrar heilbrigðisstofnanir.
 • Efla teymisvinnu og þverfaglegt samstarf við aðrar heilbrigðisstofnanir.
 • Vinna önnur verkefni sem heilbrigðisyfirvöld fela forstjóra.

Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir er framkvæmdastjóri meðferðarsviðs.

Guðlaug Rakel er fædd árið 1961. Hún brautskráðist sem hjúkrunarfræðingur árið 1986 og starfaði sem slíkur í 10 ár. Í kjölfarið sinnti hún ýmsum stjórnunarstörfum, m.a. í lyfjageiranum, sem hjúkrunarforstjóri á St. Jósefsspítala og sviðsstjóri hjúkrunar á Landspítala.

Guðlaug Rakel hefur lokið MBA gráðu og bætt við sig þekkingu í lýðheilsuvísindum. Hún tók við starfi framkvæmdastjóra bráðasviðs við stofnun þess árið 2009 og gegndi síðan starfi framkvæmdastjóra flæðisviðs frá 2014 til 1. október 2019 þegar nýtt skipurit Landspítala tók gildi og meðferðarsvið varð til.

Guðlaug Rakel gengdi starfi forstjóra tímabundið frá október 2021, þegar Páll Matthíasson lét af störfum, og þar til nýr forstjóri tók við starfinu 1. mars 2022. 

Netfang: gudrakel@landspitali.is

 

 


Gunnar Ágúst Beinteinsson

 

Gunnar Ágúst lauk prófi í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands árið 1991 og meistaranámi með áherslu á stefnumótun og stjórnun frá Viðskiptaháskólanum í Kaupmannahöfn árið 2002.

Gunnar Ágúst hóf störf hjá Actavis Group árið 2004 sem forstöðumaður stefnumótunar og á árinu 2006 sem framkvæmdastjóri mannauðsmála.

Árið 2015 varð Gunnar Ágúst framkvæmdastjóri rekstrar og mannauðsmála hjá Xantis Pharma AG í Sviss. Frá því á fyrri hluta ársins 2020 starfaði hann við við eigið ráðgjafarfyrirtæki í Sviss.

Gunnar Ágúst spilaði handbolta með FH og íslenska landsliðinu á árunum 1985-2000.

Netfang:

Hlíf er fædd 1966 og lauk prófi í læknisfræði frá Háskóla Íslands árið 1992. Eftir kandídatsár og störf sem deildarlæknir stundaði Hlíf sérfræðinám í lyflækningum og blóðlækningum við Karolinska sjúkrahúsið í Stokkhólmi.

Hlíf hefur starfað samfellt á Landspítala frá árinu 2000, sem sérfræðilæknir í blóðlækningum og sem yfirlæknir blóðlækninga. Frá 1. september 2014 var hún framkvæmdastjóri lyflækningasviðs eða þar til nýtt skipurit Landspítala tók gildi og breytt aðgerðasvið varð til.

Netfang: hlifst@landspitali.is

Jón Hilmar Friðriksson er fæddur árið 1962 og útskrifaðist úr læknisfræði við Háskóla Íslands árið 1988. Hann stundaði framhaldsnám í barnalækningum, nýburagjörgæslu og barnagjörgæslu í Bandaríkjunum og Kanada á árunum 1991-1998 og starfaði eftir það sem sérfræðingur og yfirlæknir í Bandaríkjunum til ársins 2007.

Jón Hilmar hefur starfað á Landspítala frá árinu 2007. Hann tók við starfi framkvæmdastjóra kvenna- og barnasviðs í maí 2009. Því  gegndi Jón Hilmar til ársins 2016 þegar hann fluttist í starf framkvæmdastjóra rannsóknarsviðs sem hann gegndi til 1. október 2019 þegar nýtt skipurit Landspítala tók gildi og þjónustusvið varð til. Frá 2011 hefur hann jafnframt borið ábyrgð á heilbrigðis- og upplýsingatækni spítalans.

Netfang: jhf@landspitali.is

 

 

 

Ólafur Darri Andrason

Ólafur Darri Andrason er fæddur 1963.  Hann er með BS-próf í hagfræði frá Háskóla Íslands og MS-próf í viðskiptafræði með áherslu á fjármál frá sama skóla.

Ólafur Darri tók við starfi framkvæmdastjóra fjármála 1. apríl 2019. Hann var settur ráðuneytisstjóri í heilbrigðisráðuneytinu og starfaði um þriggja ára skeið sem skrifstofustjóri á skrifstofu hagmála og fjárlaga í velferðarráðuneytinu. Áður var hann í þrettán ár deildarstjóri hagdeildar Alþýðusambands Íslands og um sex ára skeið fjármálastjóri Fræðslumiðstöðvar Reykjavíkurborgar og fjárreiðustjóri borgarinnar. Enn fremur starfaði hann um árabil í menntamálaráðuneytinu.

Netfang: darri@landspitali.is

Hrund Scheving Thorsteinsson verður framkvæmdastjóri hjúkrunar á Landspítala frá 26. september 2022 til áramóta, þar til gengið hefur verið frá ráðningu nýs framkvæmdastjóra hjúkrunar í stað Sigríðar Gunnarsdóttur.

Hrund útskrifaðist sem hjúkrunarfræðingur frá hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands 1982, með meistaragráðu í hjúkrunarfræði frá University of Wisconsin – Madison 1990 og með doktorsgráðu í hjúkrunarfræði frá hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands 2013. Hún hefur starfað á ýmsum deildum Landspítala síðan 1982, lengst af við stjórnun auk þess að sinna kennslu við hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands. Hún er deildarstjóri menntadeildar spítalans.

Tómas Þór Ágústsson er framkvæmdastjóri lækninga á Landspítala frá og með 23. júlí 2022 í fjarveru Ólafs Baldurssonar. 

Auk áframhaldandi þróunar gæða-, skráningar- og öryggismála, menntamála og vísindastarfa mun Tómas vinna að frekari uppbyggingu lækninga á Landspítala á vettvangi framhalds- og símenntunar ásamt aukinni áherslu á vinnuskipulag og starfsumhverfi lækna.

Tómas þór lauk embættisprófi í læknisfræði frá Háskóla Íslands 2001. Hann stundaði framhaldsnám í Oxford og Lundúnum 2002-2012 en hefur síðan verið sérfræðilæknir í lyf- og innkirtlalækningum á Landspítala. Frá febrúar 2020 hefur Tómas verið yfirlæknir sérnáms á Landspítala og formaður framhaldsmenntunarráðs frá 2018.

Tómas hefur verið lektor við heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands frá 2017 ásamt því að standa fyrir uppbyggingu handleiðaraþjálfunar og menntavísinda lækna í samstarfi við aðra heilbrigðisstofnanir og menntavísindasvið HÍ. Hann hefur einnig tekið virkan þátt í félagsstörfum, m.a. innan Fræðslustofnunar Læknafélags Íslands og gegnt formennsku Samtaka um meðferð sára..

Netfang: tomasa@landspitali.is

 

 

 

 

Ólafur Baldursson framkvæmdastjóri lækninga er í ársleyfi frá og með 23. júlí 2022
til að gegna starfi yfirmanns lungnaþjónustu á Karolinska-háskólasjúkrahúsinu
í Stokkhólmi.

Ólafur er fæddur árið 1964. Hann lauk cand.med. et chir.-prófi í læknisfræði frá Háskóla Íslands 1990. Ólafur lauk sérnámi í lyf- og lungnalækningum við University of Iowa árið 2000 og doktorsprófi frá HÍ í samvinnu við University of Iowa 2004.

Ólafur hefur verið skipaður framkvæmdastjóri lækninga frá árinu 2011 og stýrir skrifstofu hjúkrunar og lækninga, ásamt Sigríði Gunnarsdóttur, framkvæmdastjóra hjúkrunar. Skrifstofan gegnir forystuhlutverki á Landspítala í vísindum, menntun og gæðamálum.

Ólafur starfar einnig við lyf- og lungnalækningar, meðal annars á göngudeild fyrir lungnasjúklinga.

Áður var hann aðstoðarmaður framkvæmdastjóra lækninga 2007-2009 og starfandi framkvæmdastjóri lækninga 2007-2009, lektor við lyfjafræðideild HÍ og í starfi á skrifstofu kennslu-, vísinda- og þróunar á Landspítala. Hann hefur stundað vísindarannsóknir og tekið þátt í starfi Lífvísindaseturs HÍ frá stofnun þess. Hann átti þátt í stofnun sprotafyrirtækisins EpiEndo Pharmaceuticals og situr í stjórn þess.

Netfang: olafbald@landspitali.is

 

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir
Af hverju ekki?