Leit
Loka



Nýsköpun á Landspítala

Landspítali er leiðandi í vísindum og menntun og í framvarðarsveit í þekkingarþróun og nýsköpun í heilbrigðisþjónustu. 
Hér er leitast við að gera grein fyrir umhverfi nýsköpunar á Landspítala, ferlum og helstu verkefnum.
Átt er fyrst og fremst við nýsköpun í hugbúnaðarþróun, lækningatækjum, tæknibúnaði og nýtingu gagna og verkferla.

 

<a href="http://www.freepik.com">Designed by vectorjuice / Freepik</a>

 

Stafræn framþróun og nýsköpun

Landspítali hefur síðustu 15-20 ár lagt sérstaka áherslu á þróun rafrænna kerfa fyrir heilsufarsskrár. Eins og m.a. kom fram í skýrslu McKinsey snemma árs 2021 stendur spítalinn sig vel í sinni stafrænu vegferð og er fremstur meðal jafningja á alþjóðlega vísu, samanber myndina hér fyrir neðan:

Þróun stafrænna lausna er forsenda árangurs í starfsemi flestra fyrirtækja og stofnana. Landspítali er engin undantekning og því hafa stjórnendur lagt ríka áherslu á stafræna þróun undanfarin ár.
Gott dæmi um þetta er kerfi sem Landspítali hefur þróað og smíðað í samvinnu við sérfræðinga, bæði innan spítalans og utan, og heldur utan um mikilvægustu vinnugögnin, þ.e. sjúkraskrána.

Kerfið heitir „Heilsugátt“ og er aðgengileg viðmótslausn ofan á tæplega 100 klínísk hugbúnaðarkerfi sem eru í notkun við fjölbreytta klíníska starfsemi á Landspítala.
Í Heilsugátt er aðgengi að sjúkraskrárgögnum úr öllum undirliggjandi kerfum og allar helstu aðgerðir í boði; panta rannsóknir, ávísa lyfjum, skrifa nótur, bóka tíma, hefja fjarfundi o.s.frv.

Heilsugátt les og birtir jafnframt sjúkraskrárgögn frá öðrum stofnunum auk þess sem flest lækningatæki skila gögnum inn í kerfið. Einnig er lögð áhersla á að ytri kerfi, t.d. sérhæfðar nýsköpunarlausnir, geti tengst sjúkraskrá Landspítala í framtíðinni og því hafa verið útbúin gagnaskil til samþættingar við slíkar lausnir.

Þessi aðferðafræði hefur reynst ákaflega vel þar sem áhersla hefur verið á stuðning við klíníska verkferla og flæði sjúklinga innan spítalans. Í því sambandi hafa fjölmargar einingar verið þróaðar innan Heilsugáttar sem nýtast almennt. Þar má nefna:

  • Skjáborð – rauntímayfirlit yfir alla sjúklinga á legudeildum og bráðamóttökum
  • Vinnuhólf – Yfirlit yfir öll rannsóknarsvör og erindi sem heilbrigðisstarfsmaður þarf að sinna
  • Tímalína – Öll gögn um sjúkling úr öllum kerfum í tímaröð
  • Hópar – Skilgreindir sjúklingahópar með alls kyns upplýsingum. Yfir 12.000 hópar
  • Form – Hægt að hanna klínísk skráningarform sem verða hluti af sjúkraskrá sjúklings
  • Spjallkerfi – Klínískt samskiptakerfi starfsmanna, leysir símann af hólmi
  • Regluvélar - Útbúa klínískar reglur til að vakta sjúklinga, skref í átt að notkun gervigreindar
  • Árangursmælar – Rauntíma árangursmælar á klíníska starfsemi
  • Fyrirmæli - Klínísk fyrirmæli lækna

Með Heilsugátt hefur reynst mögulegt að leysa fjölmargar klínískar þarfir hratt og vel. Þar má nefna þjónustu við sjúklinga á Covid göngudeildinni, nýrri brjóstamiðstöð og fleira.  Auk þess sem heilbrigðisstarfsfólk Landspítala nýtir Heilsugátt í daglegu starfi hafa flestar heilbrigðisstofnanir og einkareknar stofur aðgang að kerfinu og þar með nauðsynlegum sjúklingagögnum á spítalanum sem eykur skilvirkni og bætir öryggi sjúklinga.

Stefna Landspítala er að auka vægi nýsköpunar og stafrænna lausna og vera þekktur fyrir nýsköpun á vettvangi heilbrigðisvísinda. Landspítali leggur áherslu á að stuðla að nýsköpun með því að vinna með fyrirtækjum að lausnum og auðvelda notkun lausnanna innan spítalans.

Unnið er að því á Landspítala að móta ferla fyrir móttöku og framgang nýsköpunarverkefna. Stefnt er að því að auðvelda fyrirtækjum að stofna til samstarfs við Landspítala í að koma hugmyndum á framfæri og fjölga tækifærum til samstarfs og samtals milli nýsköpunarfyrirtækja og spítalans.

Nýsköpunarsamstarf - lógó stofnanaÍ mörg ár hefur Landspítali verið mjög atkvæðamikill í allri nýsköpun. Hér er yfirlit yfir nokkur verkefni sem unnið hefur verið að á sviði heilbrigðisupplýsingatækni en auk þeirra eru fjölmörg önnur nýsköpunarverkefni í gangi á hverjum tíma annars staðar á spítalanum.

Á árunum 2020-2021 vann Landspítali með atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, heilbrigðisráðuneyti, og fjármála- og efnahagsráðuneyti að framkvæmd „Stafræns heilbrigðismóts“. Alls voru 9 verkefni unnin í samstarfi Landspítala og fyrirtækja frá september 2020 fram í júní 2021. Í öllum tilfellum var samstarfið á milli klínískra sviða Landspítala með aðkomu heilbrigðis- og upplýsingatæknideildar spítalans (HUT) þar sem við átti.

Verkefnin:

  • Áhættureiknir á augnsjúkdómum vegna sykursýki - unnið í samstarfi við RetinaRisk ehf
  • App (smáforrit) fyrir inniliggjandi sjúklinga á Landspítala - unnið í samstarfi við Advania
  • Rekjanleg ferli sjúklinga með brjóstakrabbamein - unnið í samstarfi við Heilsugreind
  • Fjarvöktun ónæmismeðferðar krabbameina - unnið í samstarfi við SidekickHealth
  • Rafræn samskipti sjúklinga og geðþjónustu - unnið í samstarfi við Origo, Geðhjálp, Trans Ísland
  • Nútímalegt sjúkraskrárviðmót á Landspítala - unnið í samstarfi við Fleygiferð ehf
  • Spálíkan fyrir gjörgæslur Landspítala - unnið í samstarfi við Heilsugreind
  • Ný leið í atferlisþjálfun ungmenna á barna- og unglingageðdeild, BUGL - unnið í samstarfi við Beanfee
  • DNA hraðgreiningar fyrir SARS-CoV2 og fleira - unnið í samstarfi við ArcanBio

Mjög vel tókst til og eru mörg þessara verkefna í áframhaldandi þróun.

Landspítali var á haustmánuðum 2021 í samstarfi við „Nýsköpunarvikuna“ um „Lausnarmót 2021“ en í því fólust þrjú nýsköpunarverkefni þar sem leitað var lausna við áskorunum sem mögulega verða að þróunarverkefnum.

Verkefnin þrjú:

  • Rafrænt sjálfvirkt eftirlit með eftirlitsskyldum lyfjum - unnið í samstarfi við Mojo
  • Áætlaður biðtími á bráðamóttöku Landspítala - unnið með teymi hugbúnaðarverkfræðinga og tölvunarfræðinga með reynslu úr verkefnum hjá Marel ehf og DK hugbúnaði ehf
  • Rafræn matardagbók vegna meðferða við átröskun - unnið með Beanfee

Að auki er Landspítali í samstarfi við Heilsugreind ehf. við eftirtalin verkefni:

  • Betri röðun skurðaðgerða
  • Betri miðlun upplýsinga í aðdraganda skurðaðgerða
  • Betra Covid spálíkan
  • Gæðavísir fyrir gjörgæslur
  • Röðun lyfjagjafa á 11B

Landspítali vinnur einnig ötullega að nýsköpun og þróun innan spítalans og þar má nefna meðal annars eftirtalin verkefni:

  • Staðsetningalausnir. Staðsetning búnaðar, sjúklinga og starfsfólks með það fyrir augum að auka og bæta þjónustu við sjúklinga, auka öryggi og hámarka afköst
  • Áframhaldandi þróun á sjúklingaappi Landspítala
  • Þróun Heilsugáttar, þar á meðal notkun gervigreindar

Nýsköpun og hringrásarhagkerfið

Í þvottahúsi Landspítala falla til árlega um 8 tonn af textíl sem ekki er hægt að nýta lengur vegna aldurs eða þess að þau spillast í þvotti með pennum sem gleymist að taka úr. Nokkur nýsköpunarverkefni í hringrásarhagkerfinu eru í vinnslu:

  1. Stúdíóflétta https://www.studiofletta.is/ hafa með styrk frá Hönnunarsjóði og nýsköpunarsjóði námsmanna greint tækifæri og gert tillögu að fimm gerðum að svokölluðum „pennaveskjum“. Hluti textílsins eru ný föt en pennar hafa þvælst með í þvott og skemmt efnin. Hönnunarteymið hefur hannað tískutöskur, innkaupapoka ofl. með pennaslettunum til þess að minna starfsfólk á að tæma vasa en einnig til að gera verðmæti úr góðum efnum.
  2. Sjúklingar hjartadeildar nota um 1400 einnota poka fyrir mælitæki sem kosta deildina 1.150.000 kr. - árlega. Múlabær, dagþjálfun fyrir aldraða, tók að sér að sauma margnota telemetríupoka fyrir hjartadeild. Strax kom í ljós að önnur deild getur nýtt sér þessa poka. Enn er verið að sauma. Pokarnir eru sniðnir úr ónýtum yfirbreiðslum þvottavagna og gömlum blússum starfsfólks. Þegar upp er staðið geta sparast um 1.800.000 kr/árlega og textíl er komið í umferð.
  3. Fleiri hugmyndir eru í skoðun eða eiga eftir að spíra.
Heilbrigðistæknisetur Háskólans í Reykjavík

Heilbrigðis- og upplýsingatæknideild er samstarfsaðili og einn af stofnendum heilbrigðistækniseturs Háskólans í Reykjavík. Heilbrigðistæknisetrið var stofnað til að efla samstarf og framþróun á sviði heilbrigðistækni og hefur um árabil verið í fararbroddi á heimsvísu í notkun þrívíddarprentaðra líffæra við undirbúning flókinna skurðaðgerða á Landspítala. Undir heilbrigðistæknisetri er starfrækt stofnun í heilbrigðis- og taugaverkfræði (Institute of Biomedical and Neural Engineering) til þess að skapa grundvöll fyrir stórum rannsóknarverkefnum með þátttöku HR, HÍ, Landspítala og fyrirtækja í heilbrigðistækniiðnaði. Samstarfið hefur skilað rannsóknum á sviðum eins og merkjagreiningu lífmerkja (biomedical signal processing), hreyfi- og sjóveiki, tauga- og vefjaverkfræði ásamt lífaflfræði (biomechanics).

Forstöðumaður setursins er Paolo Gargiulo, doktor í heilbrigðisverkfræði og prófessor við heilbrigðisverkfræðideild HR. Hann er jafnframt starfsmaður vísíndadeildar Landspítala. Paolo hefur sérhæft sig í myndvinnslu klínískra myndgagna, taugaverkfræði, þrívíddarprentun og heilbrigðistækni. Hann hefur m.a. þróað ferli sem nýtir myndvinnslu og þrívíddarprentun til undirbúnings fyrir flóknar skurðaðgerðir á Landspítala og hefur nú þegar verið notuð í yfir 200 skurðaðgerðum með góðum árangri. Paolo vinnur að því að koma á fót sambærilegum ferlum og innviðum í samvinnu við stofnanir á Ítalíu og í Bretlandi.

Medagogic ehf

Medagogic er íslenskt sprotafyrirtæki sem er að þróa sýndarveruleika þjálfun fyrir barnalækna. Fyrirtækið er í þróunarsamstarfi við tvo spítala í Svíþjóð, Sahlgrenska og Kiruna.

Samstarf við HUT: 
Medagogic ehf. er að þróa sýndarveruleika hugbúnað sem tekur við og birtir læknisfræðilegar myndir á DICOM formi í samstarfi við HUT (heilbrigðis- og upplýsingatæknideild) Landspítalans. Með honum getur skurðlæknir notað sýndarveruleika gleraugu til að rýna myndir á gagnvirkan hátt í þrívídd. Skurðlæknir mun hafa aðgang að tólum sem auka við skilning og undirbúning s.s breytilegan styrkleika myndar (e. intensity) og greinarmun á mjúk og harðvefjum.

Tíró

Tíró er íslenskt tæknifyrirtæki sem brúar bilið milli talmáls og ritmáls. Röntgendeild Landspítala hefur verið í samstarfi við Tíró í nokkur ár um þróun talgreinis fyrir íslensku til notkunar fyrir röntgenlækna. Ávinningur þess að nota talgreini við svörun myndgreiningarrannsókna er fjölþættur og ber þar helst að nefna styttri svartíma sem eykur öryggi sjúklinga. Von er til þess að fleiri deildir geti tekið upp talgreininn þegar fram í sækir.

Glooko Pilot-verkefni

Glooko er smáforrit (app) sem aðstoðar við meðhöndlun á sykursýki. Lausnin safnar saman nauðsynlegum upplýsingum frá einstaklingum um ýmsa þætti daglegs lífs sem hafa áhrif sjúkdóminn (lyfjagjafir, mataræði, hreyfing) og býður uppá að deila þeim með heilbrigðisstarfsfólki. Ávinningurinn felst í snemmíhlutun og sértækari meðferð fyrir skjólstæðinga LSH.

Care to translate Clinic Pilot-verkefni

Care-to-translate (C2T) Clinic smáforrit (app), er samskiptatól, notað fyrir erlenda sjúklinga sem geta hvorki tjáð sig á ensku né íslensku. Þetta þýðingartól inniheldur fyrir fram skilgreinda frasa, setningar, orð ofl (á rúmlega 40 tungumálum) er einnig vottað fyrir heilbrigðisstofnarnir. C2T Clinic er notað víða, m.a á mörgum heilbirgðissofnunum í Svíþjóð. Lausnin er aðgengileg strax, allan sólarhringinn, uppsett á spjaldtölvur LSH og því þarf ekki að hringja á utanaðkomandi túlk. Verkefnið er skref í þróun sjúklingafræðslu og vandaðra samskipta í heilbrigðiskerfinu.

NúnaTrix ehf

NúnaTrix ehf. er nýsköpunarfyrirtæki sem sérhæfir sig í gerð kennsluleikja fyrir heilbrigðisgeirann. Slíkir leikir eru í vaxandi mæli þróaðir til að nota í sjúklingafræðslu, annarri meðferð sjúklinga og kennslu heilbrigðisstétta.

Kennsluleikir á formi tölvuleikja byggjast á vísindalegum grunni þar sem heilbrigðisvísindi, menntavísindi og tölvuleikjafræði hitta fyrir hönnun og tækni.
Á ensku kallast slíkir leikir „serious games“ enda hafa þeir önnur og að einhverju leyti alvarlegri markmið en skemmtun eina saman – það útilokar þó alls ekki að þeir geti verið skemmtilegir! Þvert á móti getur skemmtanagildið aukið áhugahvöt og þannig stutt við nám þess sem spilar leikinn.

Stofnendur NúnaTrix eru Brynja Ingadóttir og Katrín Jónsdóttir sem eru hjúkrunarfræðingar með áratuga reynslu af hjúkrun og sjúklingafræðslu og þekkja því vel þau tækifæri sem leynast fyrir tölvuleiki í þróun fræðslu fyrir sjúklinga og heilbrigðisstarfsfólk. Eigendur, auk Brynju og Katrínar eru Landspítali og Háskóli Íslands.

Þessi lausn er m.a notuð sem fræðsluefni á vegum miðstöðvar sjúklingafræðslu á Landspítala og er notað í tengslum við undirbúning ungra barna fyrir svæfingu á innskriftarmiðstöð svæfingar.

Um 3.500 heilbrigðisstarfsmenn utan Landspítala, bæði á einkastofum og opinberum stofnunum svo sem heilbrigðisstofnunum vítt um landið, sjúkrahúsum, heilsugæslum og öldrunarheimilum, hafa aðgang að ýmsum kerfum spítalans ýmist til uppflettingar á sjúkraskráupplýsingum eða til að nota sérhæfð kerfi, t.d. rannsóknar- og úrvinnslukerfi. Aðgangur notenda er sniðinn að þörfum þeirra og verkefnum, t.d. nota tíu stofnanir utan Landspítala þjónustur spítalans til blóðrannsókna sem og sýkla- og veirufræðirannsókna.

Heilsugátt Landspítala hefur þannig auðveldað aðgang að upplýsingum og þjónustu sem spítalinn veitir á landsvísu en að meðaltali eru um 1.200 ytri notendur að kerfum spítalans á hverjum degi.


Nordic Proof er norrænn samstarfsvettvangur heilbrigðisstofnana og prófunaraðila á sviði heilbrigðistækni. Markmið samstarfsins er að auka nýsköpun og framþróun í heilbrigðisþjónustu með því að skapa vettvang þar sem leitast er við að tengja saman fyrirtæki og stofnanir. Nordic Proof er að hluta fjármagnað af Nordic Innovation sem hefur að markmiði að Norðurlöndin séu fremst í heiminum í þróun, nýsköpun og samkeppni.

Samstarfsnetið veitir heilbrigðistæknifyrirtækjum sem eru að leita að samstarfsaðilum til að prófa hugmyndir sínar, vörur eða lausnir greiðan aðgang að réttu starfsfólki, aðstöðu og faglegri þjónustu til prófana og samvinnu. Nordic Proof samstarfinu er ætlað að auðvelda fyrirtækjum að prófa og sannreyna nýjar heilbrigðislausnir, opna Norðurlönd sem heimamarkað fyrir fyrirtæki með því að auðvelda að hefja samstarf við heilbrigðisstofnanir sem og að láta fleiri fyrirtæki prófa lausnir sínar í norrænu ríkjunum.

Frá 2018 til 2021 hefur Nordic Proof sinnt alls 600 prófunarfyrirspurnum frá fyrirtækjum vegna lækningatæki og rafrænna heilsulausna. Með aðild að þessu samstarfi vonast Landspítali til þess að skapa vettvang fyrir aukið samstarf við aðrar norrænar heilbrigðisstofnanir svo og nýsköpunarfyrirtæki á sviði heilbrigðistækni.

Sjá nánari upplýsingar um Nordic Proof

Ferli nýsköpunar á Landspítala

Markmið þessa ferils er að gera mögulegum samstarfsaðilum á sviði nýsköpunar skýrara og auðveldara að nálgast Landspítala um samstarf. Ferillinn er einfaldur og gagnsær á öllum stigum samstarfsins.

Þessi ferill snýr fyrst og fremst að upplýsingatækniverkefnum en ekki t.d. verkefnum á sviði vísinda- og rannsóknarstarfs eða klínískrar nýsköpunar. Til að geta unnið með ytri aðilum að nýsköpun þarf Landspítali að fjárfesta verulega í innviðum (t.d. prófanaumhverfi) til að styðja við þessa vegferð. Mörg kerfa Landspítala vinna með mjög viðkvæm gögn og um þau gilda strangar reglur og lög sem þarf að virða í hvívetna. Öryggi þessara gagna og kerfa í rekstri er alltaf í forgrunni. Á næstu árum verða byggðir upp nauðsynlegir ferlar og innviðir sem á meðan gæti þó komið niður á hversu hratt verður hægt að sinna verkefnunum sjálfum.

Landspítali á aðild að NordicProof um samstarf, prófanir og innleiðingu á lausnum fyrir heilbrigðistækni, sjá nánar hér. (setja inn link) NordicProof stuðlar að víðtækari samvinnu við aðrar norrænar heilbrigðisstofnanir og nýsköpunarfyrirtæki.

Matsnefnd Landspítala um nýsköpunarverkefni tekur erindið fyrir á reglulegum fundum. Þar er m.a. horft til eftirfarandi þátta:

  • Hversu vel lausnin hentar inn í umhverfi Landspítala og hvort þörfin er til staðar
  • Hversu tilbúin hugmyndin og lausnin er til að vinna með hana
  • Hversu vel verkefnið er fjármagnað
  • Hversu vel viðkomandi fyrirtæki er í stakk búið að ráðast í verkefnið og þjónustuna
  • Hvort og þá hvaða aðrar sambærilegar lausnir eru í notkun hjá spítalanum
  • Hversu vel lausnin fellur að stefnu og framtíðaráformum spítalans.
  • Er mögulega um hagsmunaárekstra að ræða vegna verkefnisins.

Framkvæmd

Ef umsókn fær framgang eru næstu skref að ganga til samninga við umsækjanda. Mikilvægt er að góður skilningur sé á verkefninu áður en hafist er handa við framkvæmdina og leitast verður við að skipuleggja það í byrjun. Einnig er mikilvægt að ganga frá nauðsynlegum samningum:

  • Hugverkaréttur
  • Vörður og útgönguskilyrði
  • Þjónustu- og rekstrarsamningar

Snemma í ferlinu og við mat matsnefndar getur verið nauðsynlegt að fara í gegnum áhættumat og MÁP (Mat á áhrifum á persónuvernd). Mikilvægt er að öllum sé ljóstí hvers konar og hvaða gögn eigi að vinna með og á hvaða hátt. Hér neðar er að finna hlekki á sniðmát að

Nýsköpun á Landspítala - Nokkur vel valin myndskeið

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir
Af hverju ekki?