Leit
Loka

Námstími:           1,5 ár

Kennslustjóri:    Pétur Guðmann Guðmannsson með netfangið: peturgg@landspitali.is

 

Hið hefðbundna verkefni réttarlæknis er líkrannsókn (jafnan réttarkrufning; ytri og innri skoðun) til ákvörðunar á dánarorsök og dánaratvikum - stundum dánartíma. Réttarlæknir skoðar einnig lifandi einstaklinga með tilliti til mögulegra áverka og viðlíka ummerkja, skrásetur og túlkar þau. Aðrir þættir eru m.a. skoðun uppgrafinna líka (e. exhumation), kennslaburður og mat á myndgögnum. Í samræmi við sérþekkingu sína gefa réttarlæknar sérfræðiálit fyrir dómi í málum er varða dauða og/eða ofbeldi.

Meinafræðideild Landspítalans býður upp á skipulagt sérnám í réttarlæknisfræði, sem samþykkt var af mats- og hæfisnefnd í maí 2018.

Á Meinafræðideild eru framkvæmdar u.þ.b. 200 réttarkrufningar og 50 áverkarannsóknir á ári. Tilfellin eru fjölbreytt og geta gefið sérnámslækninum yfirgripsmikla grunnþekkingu í réttarlæknisfræði og grunnfærni í aðferðum greinarinnar, sem og stór- og smásærri formfræði sjúkdóma og áverka.

Um er að ræða eins og hálfs árs almennt grunnnám í réttarlæknisfræði, en nám til sérfræðiréttinda í réttarlæknisfræði tekur a.m.k. um fimm ár. Því er gert ráð fyrir að sérnámslæknar ljúki sérnámi erlendis til afla sér frekari reynslu og sérþekkingar.

Mikilvægustu og víðtækustu reynsluna og þekkinguna í sérnáminu öðlast sérnámslæknar í gegnum daglega vinnu, sem að miklu leyti er unnin undir umsjón og í nánu samstarfi við sérfræðinga, þar sem mikil kennsla er samfara, en einnig eru reglulegir fræðslufundir, fræðslunámsdvalir til samstarfsaðila, s.s. Tæknideildar lögreglunnar, Héraðssaksóknara og Rannsóknastofu Háskólans í lyfja- og eiturefnafræði, og gert ráð fyrir sjálfsnámi sérnámslækna.

Í eins og hálfs árs sérnáminu á Íslandi vinna sérnámslæknar úr eigin tilfellum og fá kennslu í aðferðafræði réttarkrufninga og við mat á áverkum lifandi og látinna. Þannig öðlast sérnámslæknirinn breiðan grunn í almennri réttarlæknisfræði og góða færni í algengri og einfaldri vinnu við rannsókn á dauðsföllum, skrásetningu og mati á áverkum og öðru liðsinni við lögreglu eða önnur yfirvöld – og einnig töluverða færni í flóknari réttarlæknisfræðivinnu.

Sérnámslæknar fá einnig þjálfun í túlkun rannsókna, kennslaburði, samskiptum við lögreglu, saksóknara og aðstandendur.

Námið fer að mestum hluta fram á Meinafræðideild Landspítalans við Hringbraut, sem er tiltölulega lítil deild, þar sem persónuleg nánd og samvinna er á milli allra fagstétta deildarinnar.

 

 

Sérnámið byggist að mestu leyti á:

a) rannsókn dauðsfalla; framkvæmd réttarkrufninga, úrskurði og smásjárskoðun vefjasýna og ritun krufningarskýrslu þar sem meginþungi er lagður á túlkunarhluta sem er skýr og vissustig gegnsætt,

b) skoðun lifandi einstaklinga að beiðni lögreglu eða Héraðssaksóknara með tilliti til skrásetningar og túlkunar áverka og kjölfarandi ritun matsgerðar þar sem meginþungi er lagður á túlkunarhluta sem er skýr og vissustig gegnsætt,

c) mat á innsendum gögnum (texti, ljósmyndir, videomyndir) með tilliti til áverka eða áverkaferla og túlkun þar á, og kjölfarandi ritun matsgerðar þar sem meginþungi er lagður á túlkunarhluta sem er skýr og vissustig gegnsætt.

Aðrir verklegir námsþættir eru móttaka sýna sem talin eru geta verið bein eða annar vefur úr manneskju og mat á því; vitjun á dánarvettvang að beiðni lögreglu m.a. vegna mats á dánartíma; mat á kennilegum spurningum frá lögreglu eða héraðssaksóknara, og samskipti við lögreglu, saksóknara, aðstandendur, lækna og fleiri aðila í tengslum við stök tilfelli, og kennslaburður. Allt þetta fer fram undir handleiðslu sérfræðings/-a í réttarlæknisfræði.

Reglulega eru haldnir fræðslufundir, stundum í samstarfi við sérnámsprógramm í meinafræði og farið í styttri námsdvöl hjá ólíkum aðilum sem hafa snertiflöt við starf réttarlæknisins, svo sem Tæknideild lögreglunnar, Héraðssaksóknara og eiturefnafræðingum. Þess er vænst að sérnámslæknirinn taki þátt í kennslu 3. árs læknanema í meinafræði (krufningasýning) og 6. árs læknanema (réttarlæknisfræðileg líkskoðun).

Marklýsingu má finna hér

Kennslufundir námslækna: Sérstakir kennslufundir, fyrir sérnámslækni og sérfræðinga í réttarlæknisfræði, sem oft og gjarnan geta einnig verið sóttir af sérnámslæknum og sérfræðingum í meinafræði, eftir því hvaða efni er fjallað um. Slíkir fundir eru haldnir einu sinni í viku. Sérfræðingar í réttarlæknisfræði sjá um kennsluna, sem er ýmist í fyrirlestrarformi, við smásjá eða í krufningasalnum. Mætingarskylda er á þessa fundi fyrir sérnámslækna og ætlast er til að þeir taki virkan þátt.

Sjálfsnám: Læknir í sérnámi stundar sjálfsnám með lestri fræðibóka og vísindagreina í réttarlæknisfræði. Ýmislegt annað kennsluefni í réttarlæknisfræði er til staðar á Meinafræðideildinni sem sérnámslæknirinn getur nýtt sér.

Námsdvalir: Gert er ráð fyrir því að sérnámslæknirinn fái innsýn í starf eftirtaldra aðila til fáeinna daga í senn: Tæknideild LRH, Héraðssaksóknari, dómstóll (helst héraðsdómur), Rannsóknastofa í lyfja- og eiturefnafræði og rannsóknardeild lögreglunnar.

Námskeið og námsferðir: Sérnámslæknir í heilsársstöðu á samningsbundinn rétt á námsferð erlendis einu sinni á hverju námsári. Ferðir þessar geta tengst almennu sérnámi í réttarlæknisfræði og/eða rannsóknarverkefni sérnámslæknisins. Handleiðarar aðstoða við að velja þau þing/námskeið sem hæfa viðkomandi sérnámslækni miðað við stöðu þeirra í náminu.

Kennsluráð sérnáms í réttarlæknisfræði: Pétur G Guðmannsson kennslustjóri, Jón Gunnlaugur Jónasson yfirlæknir, Anna Margrét Jónsdóttir formaður Félags Rannsóknarlækna og Bjarni A Agnarsson formaður fræðasviðs meinafræði við Háskóla Íslands

Sérnámslæknar fá úthlutað handleiðara við upphaf sérnáms. 

Handleiðari og sérnámslæknir funda mánaðarlega með formlegum hætti, en sérnámslæknir hefur auk þess greiðan aðgang að handleiðara sínum þess á milli. Handleiðari tekur að sér að styðja, leiðbeina og hafa umsjón og eftirlit með því að sérnámslæknirinn tileinki sér þá þekkingu og færni sem marklýsing kveður á um. Á mánaðarlegum fundi með sérnámslækni er farið yfir framgang sérnáms, líðan í náminu og gefur handleiðari ráð varðandi sérstaka þjálfun ef þörf krefur.

Námsbók: Sérnámslæknar halda úti námsbók (logbók) fyrir hvort námsár sem inniheldur yfirlit yfir þá þætti sem sérnámslæknir þarf að læra og geta staðið skil á í lok árs. Í námsbókina skrá sérnámslæknar niður öll unnin verk og fá þannig góða yfirsýn til þess að meta hvort þeir séu að öðlast þá þjálfun og reynslu sem marklýsing kveður á um.

Könnun á verklegri færni (Direct observation of practical skills (DOPS)): Fylgst er með verklegri færni sérnámslækna við m.a. krufningu, líkamsskoðun og meðhöndlun á sýnum.

Umræða um tilfelli (Case –based discussions (CBD)): Sérnámslæknir fer yfir tilfelli með sérfræðingi, sem sérnámslæknir er að vinna upp, þar sem rædd er verkleg framkvæmd, túlkun og miðlun niðurstaðna.

Fjölátta endurgjöf (Multi-source feedback (MSF)): Matskerfi, þar sem ýmsar stéttir innan deildarinnar leggja mat á þætti í fari sérnámslæknis, s.s. framkomu, samstarfs- og teymishæfni, og samskiptahæfni.

Almennt mat (símat): Hæfismat sérnámslækna hvað varðar faglega færni og faglega þekkingu fer einnig fram sem símat, þar sem mikil dagleg samvinna og kennsla fer fram milli sérnámslækna og sérfræðinga við daglega vinnu. 

Matsfundur: Í lok hvors námsárs er haldinn sérstakur matsfundur, þar sem kennslustjóri, handleiðari og yfirlæknir/forstöðulæknir meinafræðideildar funda með sérnámslækni varðandi framvindu sérnámsins, sérstaklega m.t.t. hvort sérnámslæknir hafi náð settum markmiðum og sé tilbúinn að færast upp um stig/skref í sérnáminu.

Fyrir umsækjendur

Sérnám í réttarlæknisfræði krefst áhuga og lærdómsvilja í líffærafræði, meinafræði, getu til að vinna fumlaust með höndunum, nákvæmni og vísindalegs þankagangs. Tilfellin sem unnið er með, hafa þá náttúru að geta íþyngt þeim sem koma að – umsækjendur skulu gefa þessu gaum og athuga það að starfið krefst jafnlyndis og hófstillts viðhorfs gagnvart þeim mannlega harmleik sem oft er fólginn í þeim málum sem rannsökuð eru. 

Lausar námsstöður í réttarlæknisfræði verða auglýstar sameiginlega með öðrum námsstöðum á spítalanum með samræmdu ráðningarferli í kjölfarið. Næsta auglýsingaferli verður í mars og gert ráð fyrir að sérnámslæknir hefji störf í ágúst.

Landspítali auglýsir sérnámsstöður lækna tvisvar á ári í janúar og september.

Gert er ráð fyrir að sérnámslæknar hefji störf 1. mars og í lok júní árlega. Í fyrstu viku er skylt að mæta á formlega móttökudaga sem eru kynntir þegar nær dregur. Losni námsstöður utan hefðbundins ráðningartíma verða þær auglýstar sér.

Fyrir frekari upplýsingar um sérnámið, hafið samband við Pétur G Guðmannsson, kennslustjóra sérnáms í réttarlæknisfræði: peturgg@gmail.com

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir
Af hverju ekki?