Leit
Loka

Námstími:               2 ár

Kennslustjóri:        Margrét Sigurðardóttir með netfangið: margrsi@landspitali.is

Meinafræðideild Landspítalans býður upp á skipulagt sérnám í meinafræði, sem samþykkt var af mats- og hæfisnefnd í maí 2018.

Um er að ræða tveggja ára almennt grunnnám í meinafræði, en nám til sérfræðiréttinda í meinafræði, samkvæmt reglugerð nr. 467/2015 um menntun, réttindi og skyldur lækna og skilyrði til að hljóta almennt lækningaleyfi og sérfræðileyfi, tekur a.m.k. fimm ár. Því er gert ráð fyrir að sérnámslæknar ljúki sérnámi erlendis til afla sér frekari reynslu og sérþekkingar.

Mikilvægustu og víðtækustu reynsluna og þekkinguna í sérnáminu öðlast sérnámslæknarnir í gegnum daglegu vinnuna sem að miklu leyti er unnin undir umsjón og í nánu samstarfi við sérfræðinga, þar sem mikil kennsla er samfara, en einnig eru reglulegir fræðslufundir á deildinni og gert ráð fyrir sjálfsnámi sérnámslækna.
Í tveggja ára sérnáminu á Íslandi vinna sérnámslæknar reglubundið úr og fá kennslu í greiningum á sýnum úr flestum líffærakerfum og öðlast þannig breiðan grunn í almennri meinafræði og góða færni í algengri og einfaldri greiningarvinnu en einnig töluverða færni í flóknari meinafræði-/greiningarvinnu.

Sérnámslæknar fá einnig þjálfun í framkvæmd og úrvinnslu krufninga, grunnþjálfun í frumumeinafræði og kynningu og kennslu í sameindameinafræði.
Námið fer allt fram á meinafræðideild Landspítalans við Hringbraut, sem er tiltölulega lítil deild, þar sem persónuleg nánd og samvinna er á milli allra fagstétta deildarinnar.


Marklýsing sérnáms í læknisfræði

Sérnámið byggist að mestu leyti á vinnslu/úrskurði vefjasýna og smásjárskoðun og vefjagreiningu sýnanna. Sérnámslæknar sjá um úrskurð og makróskópíska lýsingu á vefjasýnum, sem þeir smjásjárskoða sjálfir fyrst og útskrifa svo með sérfræðingi í tvíhöfða smásjá.

Aðrir verklegir námsþættir eru móttaka og forvinnsla ferskra sýna frá skurðstofum, þátttaka í frystiskurðargreiningum, þar sem vefjagreiningar eru gerðar á sýnum frá sjúklingum, sem liggja á skurðarborðinu og framkvæmd sjúkrahúskrufninga. Allir þessir þættir eru gerðir undir eftirliti sérfræðinga í meinafræði og/eða reyndari sérnámslækna.

Með hinum ýmsu sérgreinum eru haldnir vikulegir klínískir-pathológískir samráðsfundir, aðallega í tengslum við meðferð illkynja sjúkdóma (tumour board). Reyndari sérnámslæknar (á seinna námsári) taka eftir atvikum þátt í þessum fundum og sjá jafnvel um þá, en undir eftirliti sérfræðinga.


Sérnámslæknar fá úthlutað handleiðara við upphaf sérnáms. Margir af sérfræðingum meinafræðideildar hafa lokið handleiðaranámskeiði í námstengdri handleiðslu (educational supervision), og þar með klínískri handleiðslu (clinical supervision), hjá Royal Collage of Physicians. Sérnámið í meinafræði fer allt fram á sömu deild og sökum smæðar deildarinnar og mikillar daglegrar nándar sérfræðinga og sérnámslækna, er ekki þörf á sérstökum klínískum handleiðurum, en mikil almenn handleiðsla á sér stað í daglegri vinnu á deildinni.

Handleiðari og sérnámslæknir funda mánaðarlega með formlegum hætti, en sérnámslæknir hefur auk þess greiðan aðgang að handleiðara sínum þess á milli. Handleiðari tekur að sér að styðja, leiðbeina og hafa umsjón og eftirlit með því að námslæknir tileinki sér þá þekkingu og færni, sem marklýsing kveður á um. Á mánaðarlegum fundi sínum með sérnámslækni er farið yfir framgang sérnáms, líðan í náminu og gefur handleiðari ráð varðandi sérstaka þjálfun ef þörf krefur.

Námsbók: Sérnámslæknar halda úti námsbók (logbók) fyrir hvort námsár sem inniheldur yfirlit yfir þá þætti, sem námslæknir þarf að læra og geta staðið skil á í lok árs. Í námsbókina skrá námslæknar niður öll unnin verk í samræmi við það og fá þannig góða yfirsýn til þess að meta hvort þeir séu að öðlast þá þjálfun og reynslu, sem marklýsing kveður á um.

Könnun á verklegri færni (Direct observation of practical skills (DOPS)): Fylgst er með verklegri færni sérnámslækna við lýsingu og úrskurð á vefjasýnum og framkvæmd krufninga.

Umræða um tilfelli (Case –based discussions (CBD)): Sérnámslæknir fer yfir tilfelli með sérfræðingi, sem sérnámslæknir er að vinna upp, þar sem rædd er verkleg framkvæmd, smásjárskoðun og greining.

Fjölátta endurgjöf (Multi-source feedback (MSF)): Matskerfi, þar sem ýmsar stéttir innan deildarinnar leggja mat á þætti í fari sérnámslæknis, s.s. framkomu, samstarfs- og teymishæfni og samskiptahæfni.

Verklegt próf í vefjameinafræði/frumumeinafræði (smásjárgreining): Í lok hvors námsárs verður lagt verklegt próf fyrir sérnámslækna til þess að kanna hvort þeir hafi náð námsmarkmiðum í smásjárskoðun og vefjagreiningum skv. marklýsingu.

Almennt mat (símat): Hæfismat sérnámslækna hvað varðar faglega færni og faglega þekkingu fer einnig fram sem símat, þar sem mikil dagleg samvinna og kennsla fer fram milli sérnámslækna og sérfræðinga við daglega vinnu. 

Matsfundur: Í lok hvors námsárs er haldinn sérstakur matsfundur, þar sem kennslustjóri, handleiðari og yfirlæknir/forstöðulæknir meinafræðideildar funda með sérnámslækni varðandi framvindu sérnámsins, sérstaklega m.t.t. hvort námslæknir hafi náð settum markmiðum og sé tilbúinn að færast upp um stig/skref í sérnáminu.
Vaktir: Sérnámslæknar skipta með sér bakvöktum á virkum dögum, sem standa frá kl. 16-19 og um helgar frá kl. 8-19.


Vinnuskipulag sérnámslækna

Samráðsfundir: Námslæknar sitja daglega samráðsfundi með sérfræðingum á meinfræðideildinni við fjölhöfða smásjá. Þar er einkum farið yfir flókin eða sjaldgæf vefjasýni, sem eru erfið í greiningu, sem hefur kennslugildi fyrir námslækna
Kennslufundir námslækna: Sérstakir kennslufundir, eingöngu fyrir námslækna, eru að jafnaði einu sinni í viku. Sérfræðingar í meinafræði sjá um kennsluna, sem er ýmist í fyrirlestrarformi eða við smásjá.
Fræðslufundir: Reglulegir fræðslufundir deildarinnar eru haldnir einu sinni í viku hið minnsta. Að hluta til sjá sérfræðingar í meinafræði og námslæknar um fræðsluna, en einnig er um erlenda fyrirlestra á rafrænu formi að ræða, þar sem þekktir, erlendir sérfræðingar úr heimi meinafræðinnar fara yfir meinafræði hinna ýmsu líffærakerfa með áherslu á nýjungar og greiningarskilmerki.

Sjálfsnám: Læknir í sérnámi stundar sjálfsnám með lestri fræðibóka í meinafræði og vísindagreina, m.a. í tengslum við uppvinnslu vefjasýna. Ýmislegt annað kennsluefni í meinafræði er til staðar á meinafræðideildinni, sem sérnámslæknar geta nýtt sér.

Námskeið og námsferðir: Námslæknir í heilsársstöðu á samningsbundinn rétt á námsferð erlendis einu sinni á hverju námsári. Ferðir þessar geta tengst almennu sérnámi í meinafræði og/eða rannsóknarverkefnum námslækna. Handleiðarar aðstoða með að velja þau þing/námskeið, sem hæfa viðkomandi sérnámslækni miðað við stöðu þeirra í náminu.


Landspítali auglýsir sérnámsstöður lækna tvisvar á ári í janúar og september.

Gert er ráð fyrir að sérnámslæknar hefji störf 1. mars og í lok júní árlega. Í fyrstu viku er skylt að mæta á formlega móttökudaga sem eru kynntir þegar nær dregur.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir
Af hverju ekki?