Leit
Loka
FRÉTT // Ódýr árskort í Strætó hlotið frábærar viðtökur hjá starfsfólki Landspítala
  • 28. febrúar 2020
  • Fréttir

FRÉTT // Ódýr árskort í Strætó hlotið frábærar viðtökur hjá starfsfólki Landspítala

Samgöngusamningur starfsfólks Landspítala felur meðal annars í sér að hægt er að kaupa samgöngukort Strætó á sérkjörum, 29.500 kr., en það er liðlega helmingsafsláttur miðað við listaverð. Hulda Steingrímsdóttir segir hér nánar frá, en hún er umhverfisstjóri Landspítala. 300% FJÖLGUN KORTA Á ÁRI Frá því að samstarfið við Strætó hófst árið 2019 hefur starfsfólki Landspítala með virk árskort fjölgað um 300% og eru nú liðlega 500. Af þeim nota um 80% kortin daglega. MARGFALDUR ÁVINNINGUR Samgöngusamningum starfsfólks er ætlað að hvetja til vist- og heilsuvænni ferðamáta starfsfólks, auk þess sem þeir eru talsverð kjarabót. SEX ÁRA VERKEFNI Starfsfólki Landspítala hefur undanfarin sex ár staðið til boða að gera svonefndan samgöngusamning við vinnustaðinn. Samningurinn snýst um mánaðarlegar greiðslur til starfsfólks gegn því að það ferðist með vistvænum hætti til vinnu. AÐ GERA SAMNING Nauðsynlegt er að fara á innri vef Landspítala og fylla út viðeigandi samning, samkvæmt kröfu Ríkisskattstjóra, til að geta notið ofangreindra sérkjara. Mikilvægt er að velja réttan samning í upphafi, annað hvort 40% eða 80%. Ferlið er þannig, að yfirmenn senda undirritaða samninga til launadeildar Landspítala, sem skráir samninga og sendir síðan viðeigandi upplýsingar til Strætó með reglubundnum hætti. Að því ferli loknu getur fólk keypt kortið, en það tekur nokkra daga. NÁNARI UPPLÝSINGAR Frekari upplýsingar fyrir starfsfólk Landspítala er að finna á innri vef Landspítala undir Starfsmaðurinn > Heilsa og öryggi > Samgöngusamningur.
FRÉTT // Nýjung á Norðurlöndum: Lífsmörk send beint í sjúkraskrá
  • 23. janúar 2020
  • Fréttir

FRÉTT // Nýjung á Norðurlöndum: Lífsmörk send beint í sjúkraskrá

Nú er að ljúka framsæknu tilraunaverkefni á deild A4 hjá Landspítala í Fossvogi, en það er háls-, nef- og eyrna-, lýta-, bruna- og æðaskurðdeild. Um er að ræða þráðlausa vörpun á upplýsingum úr mælitækjum beint inn í sjúkraskrá. Tímasparnaðurinn og hagræðingin er ótvíræð, en áætlað er að fyrsti fasi verkefnisins spari Landspítala um 82 klukkustundir á sólarhring, sem eru allnokkur stöðugildi. Verkefnið snýst þó ekki síður um aukin gæði upplýsinga og enn meira öryggi fyrir sjúklinga. Það er keyrt áfram í góðu samstarfi heilbrigðis- og upplýsingatæknideildar (HUT) og gæðadeildar, en hún tileyrir skrifstofu framkvæmdastjóra hjúkrunar og lækninga. Helstu samstarfsaðilar innanhúss hjá Landspítala eru sjúkraliðar, sem að öllu jöfnu hafa umsjón með þessum mælingum. Til að byrja með er verkefnið innleitt fyrir 43 mæla á A4 og víðsvegar annars staðar á spítalanum. Í seinni fasa bætast 65 mælar við. Velgengni verkefnisins gefur vonir um að álíka tækifæri leynist víðar á spítalanum. Mikill ávinningur er fólginn í að útrýma handskráningu gagna inn í sjúkraskrá. Þess má til gamans geta að í þessari tilteknu þróun skipar Landspítali sér í fremstu röð framsækinna sjúkrahúsa á Norðurlöndum og þar með á heimsvísu. Viðmælendur okkar eru þær Hanna Kristín Guðjónsdóttir verkefnastjóri, Ingibjörg Guðmundsdóttir deildarstjóri og Halldóra Jónsdóttir sjúkraliði á A4 og Adeline Tracz verkfræðingur hjá HUT.
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir
Af hverju ekki?