Leit
Loka
292977422
  • 10. október 2018
  • Fréttir

292977422

Óráð er tíður fylgikvilli veikinda og dvalar á sjúkrahúsi. Algengi óráðs hjá sjúklingum á lyflækningadeildum er til dæmis 20-30% og hjá sjúklingum eftir skurðaðgerðir er það 10-50%. Óráð er heilkenni sem einkennist af truflun á meðvitund, vitrænni getu og skyntúlkun. Þetta er ákveðið ruglástand, sem veldur breytingum á því hvernig fólk hugsar og hegðar sér. Með því að bregðast hratt og rétt við má hins vegar stöðva, stytta eða koma í veg fyrir það og bæta þannig batahorfur sjúklinga. Í meðfylgjandi myndskeiði greinir Sigurpáll Sigurðsson frá sinni reynslu af óráði eftir af hafa undirgengist hjartaskipti. Maki hans, Erna B. Ingadóttir, var honum ómetanleg stoð og stytta gegnum veikindin og segir einnig frá sinni hlið. Því til viðbótar fjallar Steinunn Arna Þorsteinsdóttir, sérfræðingur í hjúkrun, um óráð og það fræðsluefni og klínískar leiðbeiningar sem finna má á vefsvæði Landspítala. Þess má geta að sumir sjúklingar með ofvirknieinkenni óráðs geta verið eirðarlausir, órólegir og árásargjarnir, en aðrir halda sig til baka og eru hljóðir og sofandalegir -- enda er þetta stundum kallað þögult óráð. Það getur verið erfitt að greina blandað og þögult óráð, einnig að greina á milli óráðs og heilabilunar (dementiu) og sjúklingur getur verið með hvort tveggja. Fræðsluefni fyrir aðstandendur um óráð: landspitali.is/library/Sameiginlegar-skrar/Gagnasafn/Sjuklingar-og-adstandendur/Sjuklingafraedsla---Upplysingarit/Skurdlaekningasvid/orad_2017.pdf Klínískar leiðbeiningar um greiningu, forvarnir og meðferð við óráði: landspitali.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=dd2b7a54-f8af-11e4-9ea2-005056be0005&download=true
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir
Af hverju ekki?