Leit
Loka
1000 svefnöndunarvélar til meðferðar kæfisvefns
  • 13. janúar 2023
  • Fréttir

1000 svefnöndunarvélar til meðferðar kæfisvefns

Meira en helmingur fólks sem var á biðlista eftir svefnöndunartæki þann 1. nóvember 2022 er nú kominn með slíkt tæki. Göngudeild svefntengdra sjúkdóma hefur verið að afhenda og innstilla á svefnöndunartæki eftir að sérstök fjárveiting fékkst til tækjakaupanna. Þann 1. nóvember 2022 voru um 1.400 manns á biðlista eftir svefnöndunartækjum. Til að stytta þennan biðlista veitti heilbrigðisráðherra Sjúkratryggingum Íslands fjármagn til kaupa á eitt þúsund svefnöndunartækjum til að hægt væri að ráðast í átak til að afhenda og innstilla tæki hjá þeim sem biðu meðferðar. Til að geta tekið við þessum fjölda fólks var átakinu fundinn staður í Kópavogsgerði 2 þar sem Miðstöð um sjúkraskrárritun Landspítala er til húsa. Með hverri innstillingu, þ.e. hverju tæki sem er úthlutað, þarf að boða fólk í tíma, máta, finna réttu grímuna og veita fræðslu. Flestir eru bókaðir í gegnum Heilsuveru. Hver og einn þarf að koma tvisvar til fjórum sinnum í eftirlit eftir því hvernig meðferð gengur og mikil vinna fer í að halda utan um tímabókanir og endurkomur skjólstæðinga. Frá 1. nóvember 2022 til 19. janúar 2023 voru afhentar 694 vélar í Kópavogi og um 750 endurkomur voru til eftirfylgdar og stuðnings. Ýmsir hafa lagt hönd á plóginn við þetta stóra verkefni. Jordan Cunningham lungnalæknir teiknaði upp ferli sjúklinga ásamt stjórnendum og teymisstjóra göngudeildar svefntengdra sjúkdóma. Tveir til þrír hjúkrunarfræðingar eru alla virka daga í Kópavogi auk ritara. Fyrir hádegi sjá hjúkrunarfræðingarnir um innstillingar og eftir hádegi sjá svefnmælifræðingar um aflestur af svefnöndunartækjum. Þar er metið hvernig meðferð gengur út frá ákveðnu skema og hjúkrunarfræðingar hitta í framhaldi þá sem þurfa frekari stuðning og fræðslu. Þá hefur Alda Gunnarsdóttir, hjúkrunarfræðingur og verkefnastjóri, aðstoðað við undirbúning á rafrænu fræðsluefni, sent út þjónustukannanir til skjólstæðinga og forstillt svefnöndunartækin ásamt Elínu Hrefnu Hannesdóttur viðskiptastjóra MEDOR. Þjónustuteymi Landspítala útvegaði starfsmann til að taka á móti skjólstæðingum, innrita og aðstoða með skráningu. Einnig hitta ákveðnir sérfræðilæknar þá sjúklinga þar sem meðferð hefur ekki gengið þrátt fyrir fjölmargar endurkomur og stuðning. Í meðfylgjandi myndskeiði er fjallað um dreifingu svefnöndunartækjanna. Viðmælendur: Geirný Ómarsdóttir, aðstoðardeildarstjóri á A3 Björg Eysteinsdóttir, hjúkrunarfræðingur og teymisstjóri á göngudeild svefntengdra sjúkdóma Alda Gunnarsdóttir, hjúkrunarfræðingur og verkefnastjóri
Vinnustofa um framtíðarsýn klínískra lyfjafræðinga
  • 05. janúar 2023
  • Fréttir

Vinnustofa um framtíðarsýn klínískra lyfjafræðinga

Vel heppnuð stefnumótunarvinna um mótun framtíðarsýnar klínískrar lyfjafræðiþjónustu á Íslandi Vinnustofur með yfirskriftinni „Mótun framtíðarsýnar klínískrar lyfjafræðiþjónustu á Íslandi” voru haldnar nýlega fyrir tilstuðlan Landspítala í samvinnu við Lyfjafræðingafélag Íslands, Háskóla Íslands, Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu og Lyf án skaða verkefnið. Stétt klínískra lyfjafræðinga á Íslandi hefur vaxið hratt undanfarin ár og því brýnt að stilla saman strengi til að klínísk lyfjaþjónusta mæti vaxandi þörfum íslenska heilbrigðiskerfisins. Niðurstaða vinnustofunnar var eftirfarandi stefnuyfirlýsing: „Fyrir 2030, munu störf klínískra lyfjafræðinga verða sýnileg í samfélaginu, jafnt innan heilbrigðiskerfisins meðal heilbrigðistarfsmanna sem og almennings. Þannig mun gæði og öryggi lyfjameðferða einstaklinga vera í forgangi í þjónustu sjúkrahúsa, heilsugæslustöðva, apóteka og hjúkrunarheimila, leitt og stutt af klínískum lyfjafræðingum í þverfaglegum teymum. Við munum með rannsóknum og aukinni þekkingu tileinka okkur skapandi nálgun í þjónustu við sjúklinga sem hámarkar árangur meðferðar og eykur lífsgæði. Með aukinni framþróun, menntun og hæfni í starfi munu klínískir lyfjafræðingar geta fylgt skjólstæðingum sínum eftir með ávísunarrétti í samvinnu við lækna.”
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir
Af hverju ekki?