Leit
Loka
FRÉTT // Mikilvægt að starfsfólk taki þátt í starfsumhverfiskönnuninni “Stofnun ársins”
  • 21. mars 2018
  • Fréttir

FRÉTT // Mikilvægt að starfsfólk taki þátt í starfsumhverfiskönnuninni “Stofnun ársins”

Landspítali tekur nú í annað skipti þátt í "Stofnun ársins", sem er sameiginleg starfsumhverfiskönnun allra ríkisstofnana. Tilgangur könnunarinnar er að veita starfsfólki tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri hvað varðar starfsumhverfið og hafa þannig áhrif á þá þætti sem stýra til dæmis líðan fólks, árangri og samskiptum. Allt starfsfólk Landspítala er hvatt til að skoða tölvupóstinn og finna þar sendingu frá Gallup með tengli á könnunina, en það fyrirtæki sér um útsendingu og úrvinnslu. Úrtakið byggir á starfsmannaskrá Landspítala við árslok 2017. Bakhjarl verkefnisins er fjármála- og efnahagsráðuneytið. Könnunin nær til 53 þúsund einstaklinga í ár. Landspítali fær eins og á síðasta ári greiningu á niðurstöðum niður á starfseiningar, að því gefnu að þær telji fleiri en fimm svör. Trúnaðar gagnvart svarendum er alltaf gætt í hvívetna. Spurningarnar eru fjölbreyttar og lúta sem fyrr að starfsánægju, stjórnun, starfsanda, jafnrétti, launakjörum, vinnuskilyrðum, sveigjanleika og sjálfstæði í starfi. Þetta árið verður einnig spurt um ýmis konar neikvæð samskipti, einelti og kynferðislega áreitni. Viðmælandi okkar að þessu sinni er Bára Hildur Jóhannsdóttir, deildarstjóri mönnunar og starfsumhverfis hjá mannauðssviði Landspítala. Nánar um þessa könnun á vef Gallup: www.gallup.is/fyrirtaeki-og-stofnun-arsins
FRÉTT // FC Sækó - Geðveikur fótbolti… allra meina bót
  • 19. mars 2018
  • Fréttir

FRÉTT // FC Sækó - Geðveikur fótbolti… allra meina bót

Verkefnið FC Sækó eða "geðveikur fótbolti" hófst árið 2011 sem samstarfsverkefni geðsviðs Landspítalans, Hlutverkaseturs og Velferðarsviðs Reykjavíkur, en FC Sækó er sjálfstætt íþróttafélag. Þessi "batabolti" snýst ekki bara um fótbolta, heldur er það heildarumgjörðin sem stuðlar að bata, þar sem fólk stígur út fyrir rammann, er hluti af liðsheild, leggur stund á mikil mannleg samskipti og margt fleira. Hér er rætt við Bergþór Grétar Böðvarsson fulltrúa notenda á geðsviði Landspítala, kantmanninn Töru Sverrisdóttur, varnarjaxlinn Björn Breka Magnússon, Andra Vilbergsson iðjuþjálfa hjá Hlutverkasetri og knattspyrnuþjálfara hjá Breiðablik og Rakel Rut Björnsdóttur ráðgjafa og stuðningsfulltrúa á Laugarási, geðsviði Landspítala. Tilgangur FC Sækó er að efla og auka virkni fólks með geðraskanir og gefa þeim tækifæri til að iðka knattspyrnu sem og að draga úr fordómum. Markmið FC Sækó er fyrst og fremst til efla andlega og líkamlega heilsu fólks, vera sýnileg og hafa gaman. Á æfingum eða í leikjum eru allir jafnir og þannig styður fólk við hvort annað og dregið er úr fordómum. FC Sækó er skipað notendum geð- og velferðarkerfisins af öllum kynjum, ásamt starfsfólki þess og öðrum sem hafa áhuga á að styðja við verkefnið. Það eru allir velkomnir að æfa og/eða spila með FC Sækó. Nánari upplýsingar á vef félagsins og Facebook-síðu. http://fcsaeko.is www.facebook.com/Fcsaeko/
Hjartadeild Landspítala í hnotskurn
  • 08. mars 2018
  • Starfsemin

Hjartadeild Landspítala í hnotskurn

Hjartadeild 14EG er eina deild landsins sem sérhæfir sig í þjónustu við sjúklinga með einkenni frá hjarta. Deildin sinnir fyrst og fremst sjúklingum frá Hjartagátt og bráðadeild í Fossvogi. Sjúklingar eru einnig kallaðir inn af biðlista eða koma frá öðrum sjúkrahúsum landsins til sérhæfðrar meðferðar á deildinni. Hjartadeildin er legudeild með 32 rúmum og starfsmenn eru um 100. Meðallegutími sjúklinga er 6 dagar og getur verið allt frá einum sólarhring upp í nokkrar vikur. Deildin er opin allan sólarhringinn allan ársins hring. Starfsfólk deildarinnar leggur áherslu á góð samskipti við sjúklinga og fjölskyldur þeirra og að veita greinargóðar upplýsingar um sjúkdómsástand, rannsóknir, meðferð, hjúkrun og batahorfur. Ásamt læknum, hjúkrunarfræðingum og sjúkraliðum er unnið náið með fjölmörgum öðrum sérfræðingum á Landspítala. Þar á meðal eru sjúkraþjálfarar, iðjuþjálfar, lífeindafræðingar, félagsráðgjafar, sálfræðingar, næringarráðgjafar og prestar. Hjartadeildin starfar náið með Hjartagátt, hjarta- og æðaþræðingastofu og hjartarannsókn við greiningu, meðferð og eftirfylgni einstaklinga með hjartasjúkdóma. Stór hluti sjúklinga fær eftirlit og meðferð á göngudeildum eftir útskrift af hjartadeild en það er liður í því að tryggja sjúklingum bestu mögulegu þjónustu. Heimahjúkrun og heimaþjónusta sinna fjölmörgum sjúklingum eftir útskrift, einkum þeim sem hafa langvinna hjartabilun.
FRÉTT // Ný herferð á Landspítala: “Brjótum hefðir - Bætum þjónustu”
  • 23. febrúar 2018
  • Fréttir

FRÉTT // Ný herferð á Landspítala: “Brjótum hefðir - Bætum þjónustu”

Vikuna 26. febrúar til 4. mars stendur yfir vitundarvakningin "Brjótum hefðir - Bætum þjónustu" á Landspítala í því skyni að safna tillögum til að bæta upplifun af þjónustu spítalans og vinna síðan markvisst úr þeim. Í kjölfarið verður sett upp aðgerðaáætlun með bestu uppástungum herferðarinnar og hún birt opinberlega. Leitað er til starfsfólks, sjúklinga, gesta og almennings. Allir geta tekið þátt! ÚT FYRIR BOXIÐ Vakin er athygli á verkefninu með ýmsum hætti og kynt undir spenningi núna í aðdragandanum, meðal annars með gulum umhugsunarborðum víða á spítalanum þar sem fólk er hvatt til að hrista af sér kassalagaða klafa og hugsa út fyrir boxið. EF ÞÚ GÆTIR BROTIÐ EINA HEFÐ... Nokkrar lykilspurningar eru í þessum vangaveltum. Hvernig getur starfsfólk Landspítala bætt, breytt eða brotið hefðir, reglur eða vana á spítalanum til að efla þjónustu og upplifun sjúklinga og starfsfólks? Hvers vegna gerir starfsfólk Landspítala hlutina eins og það gerir þá... jafnvel síendurtekið? Er fólk örugglega að gera réttu hlutina á réttan hátt á réttum tíma? Er Landspítali nógu duglegur að rýna eigið vinnulag og spyrja #afhverju ? ERLEND FYRIRMYND Vitundarvakningin er hluti af umbótastarfi Landspítala undir merkjum straumlínustjórnunar (Lean). Vakningin er sumpartinn að erlendri fyrirmynd, en herferðir af þessu tagi hafa verið með yfirskriftina "Breaking the Rules for Better Care". Markmiðið er að auka hraða á umbótum og virkja allt starfsfólk til þátttöku. Liðlega 300 spítalar hafa til þessa tekið þátt, en átakið er á heimsvísu og knúið áfram af alþjóðlegu stofnuninni Institute for Healthcare Improvement (http://www.ihi.org). ALLIR GETA TEKIÐ ÞÁTT Starfsfólki og sjúklingum jafnt sem almenningi er boðið að koma sínum uppástungum á framfæri gegnum vefformið hérna fyrir neðan, en einnig er velkomið að birta pælingarnar á samfélagsmiðlum að eigin vali Facebook, Instagram eða Twitter) og merkja með myllumerkinu (hashtag) #afhverju . Landspítali mun leita slíkar vangaveltur upp í lok vikunnar og skrá hjá sér. Smelltu hérna til að senda inn þína hugmynd með formlegum hætti: http://bit.ly/afhverju
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir
Af hverju ekki?