Leit
Loka
FRÉTT // Heilsugæslan annast íþróttameiðsli og önnur smærri slys
  • 19. desember 2018
  • Fréttir

FRÉTT // Heilsugæslan annast íþróttameiðsli og önnur smærri slys

Hreyfing er fólki lífsnauðsynleg, bæði líkamlega og andlega. Mannslíkaminn er ekki hannaður fyrir hreyfingarleysi. Hreyfingu fylgja hins vegar óhjákvæmilega ýmis minni meiðsli, tognanir, liðbandatjón og litlir skurðir. Heilsugæslan ætti alltaf að vera fyrsti viðkomustaður fólks með íþróttameiðsli af hvers konar tagi. Haukur Heiðar Hauksson heimilislæknir þekkir íþróttameiðsli af eigin raun, en hann hefur meðal annars sinnt meistaraflokki FH um nokkurra ára skeið. Haukur Heiðar hvetur almenning til að treysta heilsugæslunni í þessum efnum. FYRSTI VIÐKOMUSTAÐURINN Fólk með minni veikindi og líkamstjón ætti alltaf að leita fyrst til sinnar heilsugæslu eða Læknavaktarinnar í Austurveri, ef kostur er. Þeir aðilar sinna fólki og greina -- og vísa síðan til Landspítala, ef þörf krefur. GÓÐ ÞJÓNUSTA HJÁ HEILSUGÆSLU Heilsugæslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu eru nítján talsins. Þær eru flestar opnar kl. 8-16 og allar með síðdegisvakt að minnsta kosti frá kl. 16-17, mánudaga til fimmtudaga. Margar stöðvar eru jafnframt með vakt til kl. 18 á virkum dögum. Nánari upplýsingar um opnunartíma er að finna á vef hverrar heilsugæslustöðvar. LANGUR BIÐTÍMI Á BRÁÐAMÓTTÖKU Á bráðamóttöku Landspítala er sjúklingum reglulega forgangsraðað eftir bráðleika vegna álags og aðflæðis. Við slíkar aðstæður á Landspítala getur fólk sem er ekki í bráðri þörf þurft að bíða lengi eftir þjónustu eða verið vísað á heilsugæslustöðvar eða Læknavaktina í Austurveri. 19 HEILSUGÆSLUR Á HÖFUÐBORGARSVÆÐINU Hentugan lista yfir fimmtán heilsugæslustöðvar er að finna hérna: heilsugaeslan.is/heilsugaeslustodvar/ Einkareknar heilsugæslustöðvar eru síðan starfræktar í fjórum hverfum höfuðborgarsvæðisins og þær eru hérna: Heilsugæslan Höfða hgh.is/ Heilsugæslan Lágmúla hglagmuli.com/133/ Heilsugæslan Salahverfi salus.is/ Heilsugæslan Urðarhvarfi heilsugaesla.hv.is/ KVÖLD- OG HELGARVAKT LÆKNAVAKTAR Einnig er Læknavaktin í Austurveri við Háaleitisbraut með opna móttöku alla virka daga kl. 17-23:30 og um helgar frá kl. 9-23:30. laeknavaktin.is/ SÍMAVAKT ALLAN SÓLARHRINGINN Vert er að minna á að hjúkrunarfræðingar eru á vakt allan sólarhringinn í símum 1770 og 1700 og sinna þar faglegri símaráðgjöf og vegvísun í heilbrigðiskerfinu fyrir allt landið. Í vegvísun er lögð áhersla á að nýta þá þjónustu sem er í boði á hverjum stað fyrir sig, koma málum í réttan farveg og meta hvort þörf er á frekari þjónustu. ÞJÓNUSTUVEFSJÁ Á HEILSUVERU Á Heilsuveru er þjónustuvefsjá þar sem einfalt er að finna næstu heilsugæslustöð og þá þjónustu sem í boði er um land allt. Heilsuvera er vefur fyrir almenning um heilsu og áhrifaþætti hennar. Þar er einnig að finna öruggt vefsvæði þar sem hægt er að eiga í samskiptum við starfsfólk heilbrigðisþjónustunnar og nálgast gögn úr eigin sjúkraskrá. Heilsuvera er samstarfsverkefni Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og Embættis landlæknis. heilsuvera.is/ BRÁÐADEILD LANDSPÍTALA Vefsvæði bráðadeildar Landspítala er hérna: landspitali.is/sjuklingar-adstandendur/deildir-og-thjonusta/bradamottakan-i-fossvogi/
Mikill árangur bólusetninga gegn pneumókokkum
  • 14. desember 2018
  • Fréttir

Mikill árangur bólusetninga gegn pneumókokkum

Árið 2011 var hafin á Íslandi bólusetning gegn pneumókokkum og ný rannsókn Samúels Sigurðssonar sýnir mikinn árangur af því verkefni. Pneumókokkar eru baktería sem getur valdið alvarlegum sýkingum hjá börnum, til dæmis blóðsýkingum, heilahimnubólgu og alvarlegum lungnabólgum. Auk þess er bakerían ein algengasta orsök eyrnabólgu hjá ungum börnum. Í doktorsrannsókn Samúels var árangur bólusetningarinnar á ýmsa þætti metinn, en hann varði rannsóknina mánudaginn 10. desember við Háskóla Íslands. Af rannsókninni má draga þá ályktun að bólusetningarnar hafa styrkt heilbrigði og lífsgæði barna og foreldra þeirra, auk þess að minnka álag á heilbrigðiskerfið. Mikil fækkun hefur orðið á algengum sýkingum eins og eyrnabólgu. Jafnframt hefur dregið mikið úr alvarlegum og hættulegum sýkingum af völdum bakteríunnar. Í rannsókninni kom í ljós að komum barna á bráðamóttöku barna vegna lungnabólgu fækkaði um 23% og innlögnum á Barnaspítala Hringsins vegna lungnabólgu fækkaði um 20%. Þá fækkaði komum á heilsugæslur og á bráðamóttöku vegna eyrnabólgu barna um 24%. Alvarlegum sýkingum, það er blóðsýkingum og heilahimnubólgu vegna pneumókokka, fækkaði um 93%. Í rannsókninni var einnig metið hversu oft börn báru pneumókokka án einkenna í nefkoki. Í ljós kom að um 60% barna bera bakteríuna að jafnaði. Fjölmargar undirtegundir bakteríunnar eru til, svokallaðar hjúpgerðir, og eru þær misalvarlegar. Bóluett er á Íslandi gegn 10 hjúpgerðum sem eru alvarlegar, algengar eða ónæmar fyrir sýklalyfjum. Þessum hjúpgerðum sem eru í bóluefninu fækkaði um 94% í nefkoki barnanna og í staðinn komu minna alvarlegar hjúpgerðir. Rannsóknarhópurinn heldur áfram nánari rannsóknum á bakteríunni á Íslandi.
Styrkir til ungra vísindamanna
  • 09. desember 2018
  • Fréttir

Styrkir til ungra vísindamanna

Á dögunum fengu 8 ungir vísindamenn á Landspítala styrk úr vísindasjóði spítalans. Þetta var í áttunda skiptið sem þeir styrkir eru veittir. 76 styrkir hafa verið afhentir frá 2011 þegar styrkveitingar af þessu tagi hófust. Það er háskólasjúkrahúsi nauðsynlegt að efla unga vísindamenn til dáða og það skilar sér í öflugri vísindamenningu, framþróun og umbótum í starfsemi spítalans. Hérna er rætt við Rósu Björk Barkardóttur formann vísindaráðs Landspítala. Einnig er Arnar Jan Jónsson læknir tekinn tali, en hann var einn af átta styrkþegum. Arnar Jan Jónsson læknir: Langvinnur nýrnasjúkdómur á Íslandi Erna Hinriksdóttir læknir Nýgengi og algengi geðklofa og annarra geðrofssjúkdóma á Íslandi Guðrún Björg Steingrímsdóttir sérnámslæknir Sár vetrarins. Faraldsfræði alvarlegra áverka og áverkadauða á Íslandi Guðrún Lísbet Níelsdóttir hjúkrunarfræðingur Þolmörk Landspítala í hópslysum – bráðaviðbrögð og áhrif á flæði sjúklinga eftir tvö rútuslys Halla Ósk Ólafsdóttir sálfræðingur Sérhæfð meðferð og snemmtækt inngrip við geðhvörfum á Íslandi Helgi Kristinn Björnsson læknir Lifrarskaði af völdum krabbameinslyfja I. Margrét Baldursdóttir hjúkrunarfræðingur Sálfélagsleg stuðningsmeðferð fyrir fjölskyldur unglinga með ADHD: sjónarmið foreldra og unglinga Lára Ósk Eggertsdóttir Claessen læknir Afleiðing höfuðhöggs hjá íþróttakonum, möguleg vanstarfsemi á heiladingli,taugasálfræðileg skerðing og lífsgæði NÁNARI UPPLÝSINGAR Í FRÉTT Á VEF LANDSPÍTALA: landspitali.is/um-landspitala/fjolmidlatorg/frettir/stok-frett/2018/12/04/Atta-ungir-visindamenn-styrktir-ur-Visindasjodi-Landspitala-til-kliniskra-rannsokna/
Krefjandi vetur framundan við nýbyggingar í Landspítalaþorpinu við Hringbraut
  • 30. nóvember 2018
  • Fréttir

Krefjandi vetur framundan við nýbyggingar í Landspítalaþorpinu við Hringbraut

Framkvæmdir við nýbyggingar í Landspítalaþorpinu við Hringbraut ganga vel, en afar krefjandi vetur er framundan. Hafist var handa á jaðarsvæðum við gerð bílastæða fyrir starfsfólk. Síðan hefur þungi framkvæmdanna færst nær byggingum spítalans með tilheyrandi truflunum. Öryggi sjúklinga er þó alltaf í fyrirrúmi á Landspítala. Allt kapp er lagt á að lágmarka ónæði af framkvæmdunum. Næsta hálfa árið verður erfiðasti tími framkvæmdanna fyrir starfsemi spítalans, en umfangsmikið rask verður þá upp við barnaspítala, kvennadeild og gamla spítalann. Einnig styttist óðum í að gamla Hringbrautin verði rofin og viðamikil tilfærsla á samgöngum mun fylgja þeirri breytingu. Viðmælandi okkar er eins og oft áður, Ásbjörn Jónsson, verkefnastjóri hjá NLSH. Hann nefnir meðal annars tvo mikilvæga þætti: Annars vegar að aðalinngangur barnaspítala hafi tímabundið verið færður um 50 metra til austurs. Hins vegar að mikilvægt sé að auka nýtingu starfsfólks á nýjum bílastæðum við BSÍ til að fjölga bílastæðum sjúklinga næst byggingum spítalans. Nýbyggingar Landspítala við Hringbraut eru stærsti áfanginn í íslensku heilbrigðiskerfi í meira en hálfa öld. Nýju húsnæði er ætlað að uppfylla grunnkröfur samtímans til fyrsta flokks heilbrigðisþjónustu á öflugu háskólasjúkrahúsi. Smelltu hérna til að skoða frekari upplýsingar og fréttir um framkvæmdir í Landspítalaþorpinu við Hringbraut: landspitali.is/landspitalathorpid/
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir
Af hverju ekki?