Leit
Loka
FRÉTT // Röð umbótaverkefna til að bæta þjónustu við aldraða
  • 08. febrúar 2018
  • Fréttir

FRÉTT // Röð umbótaverkefna til að bæta þjónustu við aldraða

Þverfaglegur hópur hjúkrunarfræðinga og lækna á vegum öldrunarþjónustu og bráðaþjónustu Landspítala hefur undanfarin tvö ár unnið að röð umbótaverkefna fyrir aldraða sem leita á bráðamóttöku í samstarfi við CFHI í Kanada. Verkefnin hafa leitt í ljós, að með þverfaglegri nálgun og samvinnu mismunandi þjónustuaðila í heilbrigðiskerfinu má bæta líðan aldraðra og meðferðarárangur með öðrum úrræðum en innlögnum á sjúkrahús. Viðmælendur hérna eru þær Anna Björg Jónsdóttir öldrunarlæknir og Ingibjörg Sigurþórsdóttir bráðahjúkrunarfræðingur. Eitt verkefnanna var að þjálfa og innleiða hlutverk bráðahjúkrunafræðings aldraða á bráðamóttöku í Fossvogi. Þá var innleidd komuskimun 75 ára og eldri sem leita á bráðamóttöku, en hún varpar ljósi á mögulega áhættuþætti í tíðum endurkomum aldraðra á bráðamóttöku. Þeir sem reynast í áhættu fá ítarlegra mat bráðahjúkrunarfræðings aldraðra sem leiðbeinir þeim við að finna viðeigandi úrræði að lokinni útskrift sem miða að því að fyrirbyggja ótímabærar sjúkrahúsinnlagnir. Til að bæta þjónustu við hruma aldraða hefur einnig verið opnuð greiningarmóttaka aldraðra á LDK sem einnig byggir á þverfaglegri nálgun hjúkrunar, lækninga og sjúkraþjálfunar við mat og ástandi hans. Þá var unnið að tilraunaverkefni í samvinnu aðila Landspítala við heimahjúkrun innan höfuðborgarsvæðisins og heilsugæslulækna til að efla sérhæfða heimaþjónustu við hruma aldraða með tíðar sjúkrahúsinnlagnir. Verkefnið gaf góðan árangur.
FRÉTT // Yfir 5.000 starfsmenn móta samskiptasáttmála á 50 fundum (#samskipti)
  • 07. febrúar 2018
  • Fréttir

FRÉTT // Yfir 5.000 starfsmenn móta samskiptasáttmála á 50 fundum (#samskipti)

Starfsfólk Landspítala mun þróa samskiptasáttmála á næstu mánuðum í þeim tilgangi að efla samvinnu og styrkja virðingu í samskiptum innan spítalans. Markmiðið er að verða enn betri vinnustaður og bregðast með markvissum hætti við vísbendingum um óæskilega hegðun og áreitni. Það er Ásta Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri mannauðssviðs, sem leiðir þetta verkefni og hér segir hún stuttlega frá því. Inntak samskiptasáttmála Landspítala verður afrakstur þriggja mánaða fundasyrpu í febrúar, mars og apríl þar sem öllu starfsfólki verður gert kleift að koma sínum sjónarmiðum á framfæri og hafa bein áhrif á starfsumhverfið. Þróunarfundirnir verða um 50 talsins og haldnir í öllum stærri byggingum spítalans, enda liðlega 5.000 manns sem starfa á spítalanum. Fyrstu fundirnir hafa þegar verið haldnir. Stefnt er að kynningu sáttmálans á ársfundi Landspítala 16. maí. Um 1.500 starfsmenn úr tilviljanaúrtaki hafa þegar fengið fundarboð í tölvupósti. Öðru áhugasömu starfsfólki er bent á skrá sig á innri vef Landspítala gegnum Námsskrá. Einnig er möguleiki að skrá sig á þessari vefsíðu, ef aðgangur að neti Landspítala er ekki fyrir hendi: http://www.landspitali.is/samskiptasattmali Þess má geta að hashtag eða myllumörkun þessa verkefnis er #samskipti og er starfsfólk eindregið hvatt til þess að nota það það á samfélagsmiðlum við myndbirtingar, umræður og vangaveltur! Þar með verður þægilegt og taka þátt í spjalli um verkefnið. #samskipti
STARFAMÍNÚTAN (13) // Viktoría Hróbjartsdóttir, læknakandídat
  • 06. febrúar 2018
  • Starfsemin

STARFAMÍNÚTAN (13) // Viktoría Hróbjartsdóttir, læknakandídat

Viktoría Hróbjartsdóttir er læknakandídat á Landspítala. Í þessari Starfamínútu er Viktoría í starfsþjálfun á Barnaspítala Hringsins. Meiðsli og veikindi vöktu athygli og forvitni hjá Viktoríu þegar í æsku og hún stefndi því strax í grunnskóla á læknisfræðina. Námið var krefjandi og spennandi, en hún lærði í Debrecen í Ungverjalandi, sem er önnur stærsta borg Ungverjalands og fjölsóttur áfangastaður fyrir Íslendinga í námi af þessu tagi. Að fara út í nám, upplifa þar nýja hluti og koma síðan heim með þekkingu er frábær högun. Viktoríu þykir starfsandinn á Landspítala einstaklega góður. Íslenskir læknar eru að jafnaði með 12-14 ára tímabil af menntun og þjálfun að baki, en jafnvel meira hafi þeir lokið doktorsnámi. Fyrst er sex ára grunnám við læknadeild Háskóla Íslands eða sambærilegt nám við háskóla erlendis -- til dæmis í Debrecen. Fyrri þrjú árin eru nánast eingöngu bókleg kennsla, en seinni þrjú eru verknám á spítala samfara bóklegu námi. Að sex ára grunnámi loknu tekur við kandídatsár, en það felst í verknámi á Landspítala og víðar. Að því loknu fæst starfsleyfi. Langflestir læknar afla sér síðan sérfræðimenntunar sem er að lágmarki fimm ár. Kandídatsnemar öðlast mikla reynslu með því að kynnast starfinu á helstu deildum Landspítala. Nemar eru fjóra mánuði í lyflækningum, fjóra mánuði í heimilislækningum, tvo mánuði í skurðlækningum eða á slysa- og bráðamóttökunni og hafa svo tvo mánuði í val.
FRÉTT // Sýklalyfjagjafir í heimahúsi stytta sjúkrahúsdvöl og flýta fyrir endurhæfingu
  • 31. janúar 2018
  • Fréttir

FRÉTT // Sýklalyfjagjafir í heimahúsi stytta sjúkrahúsdvöl og flýta fyrir endurhæfingu

Sjúklingum sem þurfa sýklalyfjainngjöf vegna alvarlegra og langvarandi sýkinga gefst nú kostur á að fá lyfjadælu heim, sem getur sparað þeim sjúkrahúsdvöl í 4-6 vikur. Sýklalyfjablandan rennur inn í sjúklinginn í sírennsli og hann sér sjálfur um að skipta um í nokkurs konar sjálfsafgreiðslu. Áður lágu þessir einstaklingar á legudeild í um 4-6 vikur, en geta nú verið heima með sína meðferð og komið á göngudeild í eftirlit. Þessi högun flýtir mjög fyrir allri endurhæfingu auk þess sem sýkingarhætta og fleira sem fylgir sjúkrahúsdvöl minnkar til muna. Sýklalyfin eru blönduð í nýrri blöndunareiningu hjá apóteki Landspítala, en einingin er forsenda þess að hægt var að fara af stað með verkefnið. Um er að ræða samstarfsverkefni apóteks, smitsjúkdómalækna og göngudeildar smitsjúkdóma. Auk þess komu að því nauðsynleg stoðsvið, til dæmis innkaupadeild og heilbrigðis- upplýsingatæknideild. Á reynslutíma verkefnisins, frá miðjum desember á síðasta ári, hafa sparast vegna þessarar meðferðar um 80 legudagar þrátt fyrir að blöndunin hafi ekki verið rekin á fullum afköstum. Hérna er rætt við Má Kristjánsson yfirlækni á smitsjúkdómadeild, Önnu Tómasdóttur hjúkrunarfræðing á göngudeild smitsjúkdóma A3 og Guðrúnu Indriðadóttur lyfjafræðing hjá apóteki Landspítala.
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir
Af hverju ekki?