Leit
Loka



VÍSINDASTEFNA  LANDSPÍTALA 2019 - 2024

Þjónusta, vísindi og menntun eru þrjú meginhlutverk Landspítala og markmið spítalans er að vera háskólasjúkrahús í fremstu röð. Öflug vísindastarfsemi er ein af mikilvægustu grunnstoðum hvers háskólasjúkrahúss. Vísindi auka fagmennsku, gæði og öryggi meðferðar og eru forsenda framþróunar í heilbrigðisþjónustu og menntun heilbrigðisstétta. Það er stefna Landspítala að:

  • fjárframlög til vísindarannsókna séu sambærileg við norræn háskólasjúkrahús
  • vísindastarf innan Landspítala sé eflt og ástundun vísindalegra rannsókna sé samofin daglegri starfsemi
  • unnið sé að bættri aðstöðu til vísindastarfa og uppbyggingu öflugra rannsóknarhópa
  • áhersla sé lögð á fjölbreytni í rannsóknum, þverfaglega nálgun og samstarf
  • leggja grunn að því að Landspítali geti orðið í fremstu röð á alþjóðlegum vettvangi vísinda

Framkvæmd

1. Ábyrgð

  • Framkvæmdastjórn Landspítala ber ábyrgð á framkvæmd vísindastefnu spítalans
  • Forsvarsmenn rannsóknarhópa og einstakir vísindamenn bera ábyrgð á sínum rannsóknum

2. Innri aðstaða

  • Unnið verði að því að háskólamenntað starfsfólk spítalans fái aukið svigrúm og tíma til að stunda vísindarannsóknir
  • Uppbygging nýrra rannsóknarhópa verði styrkt og þeir hópar efldir sem þegar hafa hlotið alþjóðlega viðurkenningu
  • Vísindamenn hafi greiðan aðgang að sjúklingagögnum og lífsýnum ásamt góðri rannsóknaraðstöðu
  • Innviðir og fagleg aðstoð við umsjón verkefna, öflun ytri styrkja og frágang einkaleyfa verði bætt
  • Frekari uppbygging verði á rafrænum gagnabönkum og lífsýnasöfnum

3. Fjáröflun

  • Stjórnvöld verði hvött til þess að auka fjárframlög til vísindarannsókna á Landspítala og a.m.k. 3% af veltu spítalans verði sérmerkt vísindastarfi, og því marki verði náð í áföngum næstu fimm árin
  • Vísindamenn Landspítala verði aðstoðaðir við að sækja aukið fjármagn til ytri samkeppnissjóða
  • Leitað verði eftir fjárframlögum frá fyrirtækjum og almenningi sem yrðu nýtt til að efla vísindarannsóknir á Landspítala

4. Skipting fjár til vísindastarfsemi

  • Fjármagn ætlað til vísinda á Landspítala skiptist jafnt milli reksturs vísindastarfs og Vísindasjóðs Landspítala. Fé í sjóðinn deilist í:
            - samkeppnissjóð sem í geti sótt háskólamenntað starfsfólk á Landspítala
            - samkeppnissjóð ungra, upprennandi vísindamanna sem starfa/nema við Landspítala
            - mótframlagssjóð vegna utanaðkomandi styrkja sem vísindamenn á Landspítala afla
            - birtingarsjóð vegna birtinga í opnum aðgangi

5. Sóknarmarkmið

  • Vísindagreinum í ritrýndum tímaritum með háan áhrifastuðul fjölgi og að innan næstu þriggja ára verði a.m.k. 9% aukning á birtingum þar sem fyrsti og/eða síðasti höfundur starfar á Landspítala
  • Sýnileiki Landspítala sem vísindastofnunar verði aukinn með markvissum aðgerðum
  • Samstarf verði aukið við háskóla og aðrar stofnanir og fyrirtæki á sviði heilbrigðisvísinda 

 


 

Staða vísindarannsókna á Landspítala og árangur fyrri stefnu

Undanfarinn áratug eða svo hafa verið ýmis teikn á lofti um hnignun vísindastarfs á spítalanum. Gögnin í nýjustu skýrslu Nordforsk frá haustinu 2017 sýna að tilvitnunum í vísindarannsóknir á Landspítala hefur fækkað jafnt og þétt á undanförnum árum og er fjöldi þeirra kominn undir heimsmeðaltal. Enn fremur sýndi nýleg úttekt vísindadeildar Landspítala að hlutfall birtra vísindagreina þar sem fyrsti og/eða síðasti höfundur starfa á Landspítala hefur lækkað undanfarin ár. Vísindastarf þar sem starfsfólk Landspítala er í forsvari hefur því látið undan síga og virðist sem hlutverk spítalans sé í vaxandi mæli að vera samstarfsaðili.

Þessi þróun er dapurleg ekki síst þegar metnaðarfull vísindastefna Landspítala frá árinu 2007 er skoðuð. Má segja að sú stefna hafi engan veginn gengið eftir, hvorki hvað varðar fjármagn né vísindaleg afköst. Ný vísindastefna miðar að því að spítalinn snúi vörn í sókn. Lögð verði sérstök áhersla á að skapa starfsfólki og þeim sem nema við Landspítala umgjörð og tíma til að stunda vísindarannsóknir og búa til hvata til að ná árangri í vísindum. Einnig er lögð áhersla á nauðsynlega nýliðun með því að styrkja uppbyggingu nýrra rannsóknarhópa og að búa til frjóan jarðveg fyrir nýdoktora og aðra þá sem hafa lokið löngu og krefjandi sérfræðinámi.

Með framkvæmd vísindastefnunnar telur vísindaráð Landspítala að auka megi gæði þjónustu við sjúklinga, að menntun fagstétta á spítalanum eflist og að Landspítali verði aftur meðal fremstu háskólasjúkrahúsa í vísindastarfi.
Eftirfarandi eru tillögur um hvernig megi fylgja eftir vísindastefnunni og meta árangur hennar.

Bæta innviði, faglega aðstoð og stuðning

  • Við þarfagreiningar, gerð rekstraráætlana og mönnun deilda sé gert ráð fyrir vísindastarfi, á sama hátt og gert er ráð fyrir skyldum tengdum þjónustu og kennslu. Í ráðningarsamningum og starfslýsingum sé gert ráð fyrir skilgreindum tíma til vísindastarfa starfsfólks spítalans sem hefur áhuga, getu og frumkvæði til að stunda rannsóknir.
  • Huga skal að markvissum stuðningi við ungt vísindafólk og við uppbyggingu öflugra vísindahópa sem byggist á víðtækri greiningu á þörfum þeirra á innviðum og faglegri aðstoð.
  • Auka verður sýnileika þess efniviðar, stuðnings og aðstoðar sem starfsfólki Landspítala býðst til vísindarannsókna.
  • Vísindadeild myndi stuðningsnet fyrir ungt vísindafólk og standi fyrir hugarflugsfundum hópstjóra vísindaverkefna á Landspítala með eflingu þverfaglegs stuðnings og samvinnu að markmiði.
  • Styðja þarf við Heilbrigðisvísindabókasafnið og sjá til þess að starfsfólk spítalans hafi aðgang að fagtímaritum með háum áhrifastuðli. 

Bæta aðstöðu fyrir vísindamenn á Landspítala og stuðla að nauðsynlegri nýliðun

  • Þær aðstæður verði skapaðar að vísindamenn sjái tækifæri og kosti þess að starfa á Landspítala.
  • Rannsakendur/hópstjórar sem afla stórra utanaðkomandi styrkja eigi þess kost að sækja um leyfi frá hefðbundnum störfum til rannsókna auk stuðnings og góðrar rannsóknaraðstöðu.
  • Landspítali stuðli að góðu aðgengi vísindafólks að mikilvægri og kostnaðarsamri rannsóknaraðstöðu.
  • Vísindasjóður Landspítala kosti og auglýsi nýdoktorastöður ásamt rannsóknarfé, a.m.k. 3-5 stöður á ári næstu 4 árin með það að markmiði að styðja við uppbyggingu fleiri sterkra rannsóknarhópa.
  • Þeir vísindamenn sem fá styrk úr stærri sjóðum (Rannsóknasjóði V&T, Evrópustyrki, o.fl.) þar sem farið hefur fram fagleg ritrýni, fái mótframlag frá Landspítala.

Efla fjárstreymi frá styrktaraðilum utan spítalans

  • Stofna hollvinasamtök vísindarannsókna Landspítala.
  • Ráða kynningar- og fjáröflunarstjóra vísinda á Landspítala sem tilraunaverkefni. Ef vel tekst til gæti slík staða eflt verulega styrki til vísinda á Landspítala frá einstaklingum, fyrirtækjum og stofnunum.

Kynna sérstöðu og styrkleika Landspítala á sviði vísinda og menntunar fyrir stjórnvöldum og almenningi

  • Landspítali, ein stærsta vísinda- og menntastofnun landsins, standi fyrir árlegum viðburði þar sem stjórnmálamönnum væri boðið á fund með vísindamönnum spítalans. Þetta yrði óformlegur fundur þar sem málefni heilbrigðisvísinda og mikilvægi þeirra fyrir íslenska heilbrigðisþjónustu og samfélagið í heild yrðu rædd.
  • Haldið verði áfram með öflugt kynningarátak á vísindastarfsemi Landspítala auk þess að gera rannsóknarhópa sýnilegri á vef spítalans.
  • Stefnt verði að útgáfu vísindatímarits Landspítala ætluðu almenningi.
  • Efla skyldi Vísindi á vordögum og gera þessa uppskeruhátíð vísindanna aðgengilegri fyrir almenning.

Kynna þarf niðurstöður og ávinning af vísindastarfsemi Landspítala á innlendum og erlendum vettvangi

  • Vísindamenn á Landspítala komi fram í nafni sjúkrahússins. Leggja skal áherslu á að nafn sjúkrahússins fylgi öllum vísindagreinum sem sendar eru til birtingar. Auk þess skal nafn og lógó spítalans vera á veggspjöldum og í erindum starfsmanna innan lands sem utan.

Fjölga þarf greinum í ritrýndum tímaritum

  • Birting á vísindaniðurstöðum í virtum ritrýndum tímaritum og fjöldi tilvitnana er besti mælikvarðinn á framleiðni og gæði vísinda. Auka þarf tíma starfsfólks til að stunda vísindarannsóknir og búa til hvata svo rannsóknarverkefni skili sér í birtingum. Á sama tíma þarf að huga að gæðum vísindastarfsins og stuðla að því að auka fjölda og hlutfall þeirra greina sem birtast í fagritum með háum áhrifastuðli.
  • Stoðþjónusta við rannsakendur verði efld til að auka gæði rannsókna og tímaritsgreina; bæta aðgengi að sérfræðingum í tölfræði og lífupplýsingafræði, gagnastjórnun, prófarkalestri og öðru tengdu birtingum rannsóknarniðurstaðna, einnig þjónustu Heilbrigðisvísindabókasafns og fleiri sem komið gætu að gagni. Auka þarf samstarf og samvinnu við Háskóla Íslands um frekari uppbyggingu slíkrar stoðþjónustu.

Efla samstarf við vísindastofnanir, háskóla og fyrirtæki á sviði heilbrigðisvísinda

  • Efla samstarf við Heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands og aðrar innlendar vísinda- og menntastofnanir og huga frekar að skilgreiningu Landspítala sem rannsóknarstofnunar.
  • Efla þarf stuðning og markvissa faglega aðstoð við gerð samstarfssamninga við innlendar og erlendar vísindastofnanir. Sérstaklega skyldi hvetja til og hlúa að samstarfi þar sem vísindamenn Landspítala verði leiðandi í vísindaverkefnum. 
  • Fjölga þarf tækifærum til samstarfs við fyrirtæki á sviði heilbrigðisvísinda. Fyrirtækjum sem starfa á því sviði verði boðið til samráðsfunda þar sem Landspítali kynni vísindastarfsemi sína og fyrirtækin sína starfsemi.

Úttekt á vísindastarfsemi

  • Auk hefðbundinnar samantektar og endurskoðunar yrði gagnlegt að fá reglulega erlenda og innlenda sérfræðinga með þekkingu á grunn- og klínískum vísindum til að leggja mat á vísindastefnu spítalans og árangur af henni. Fulltrúar frá Vísindaráð Landspítala og Vísinda- og tækniráði kæmu einnig að slíkum úttekum á vísindastarfseminni.

Mælingar

  • Árangur verði mældur með eins fjölbreyttum aðferðum og kostur er. Sérstaklega skuli líta til fjölda birtra greina þar sem fyrsti og/eða síðasti höfundur starfar á Landspítala og fjölda tilvitnanna í þær. Einnig til fjölda greina í tímaritum með háum áhrifastuðli. Mikilvægt er að taka tillit til mismunandi fagstétta og að ekki sé alltaf réttlætanlegt að einskorða mælingu við ISI greinar. Sérstaklega skal horft til þess fjölda sem útskrifast úr rannsóknartengdu námi á hverju ári og hversu lengi nemar eru að ljúka námi. Ytra mat skal vera leiðarljós til framtíðar. Á árinu 2021 liggi fyrir ítarleg skýrsla um vísindastarf Landspítala sem verði grunnur að stefnumótun og gerð nýrrar vísindastefnu sem taki gildi í framhaldinu.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir
Af hverju ekki?