Leit
Loka

Erfðaráðgjöf

...er hluti af erfðaheilbrigðisþjónustu sem er ört vaxandi svið innan heilbrigðisþjónustunnar. Erfðaráðgjöf er ferli þar sem einstaklingar og fjölskyldur fá aðstoð við að skilja erfðir og afleiðingar erfðasjúkdóma.

Banner mynd fyrir  Erfðaráðgjöf

Staðsetning: Eiríksstaðir, Eiríksgötu 5. Sjá á korti
Opið: 8:00-16:00
Sími: 543 5070. Símatími er  frá kl. 10:00 til 16:00.
Tölvupóstur: esd@landspitali.is
Tímabókanir: Ekki þarf sérstaka tilvísun í erfðaráðgjöf en sé um nýtt erfðavandamál að ræða er tilvísun æskileg.

 

Allmargir erfðaþættir eru vel þekktir en gott er að hafa í huga að ekki er hægt að tengja alla sjúkdóma við erfðir. Erfðaráðgjöf felst fyrst og fremst í upplýsingagjöf til ráðþega varðandi erfðir viðkomandi sjúkdóms, áhættumat, mögulegar rannsóknir og útkomu úr þeim ásamt því hvaða eftirlit og meðferð eru í boði. Mikilvægi fjölskyldusögunnar er ótvírætt í greiningu og áhættumati. Ráðþegi veitir ýmsar upplýsingar um fjölskyldusöguna og heilsufar og eru þær upplýsingar notaðar til að gera ættartré sem notað er til að skilgreina og útskýra erfðir en jafnframt  til að meta áhættu annarra í fjölskyldu. 

Gott er að ráðfæra sig við lækni eða annan heilbrigðisstarfsmann um gildi erfðaráðgjafar fyrir viðkomandi sjúkdóm. 

 

Tímabókanir fara eingöngu fram á vefnum. Vinsamlega veljið það sem á við hér fyrir neðan og svarið viðeigandi spurningum í tímabókunarbeiðni. 

Þegar beiðni hefur verið móttekin, verður farið yfir hana með tilliti til þess hvort kalla beri í erfðaráðgjöf eða ekki. Haft verður samband við beiðanda í síma innan nokkurra vikna.

Hagnýtar upplýsingar 

Nokkrar ástæður geta verið fyrir því að einstaklingar vilja fara í eða er vísað í erfðaráðgjöf.

Hér að neðan eru nokkrar þeirra taldar:

  • Læknir telur að erfðasjúkdómur sé til staðar hjá fjölskyldumeðlim og vill staðfesta sjúkdómsgreiningu
  •  fjölskyldusaga um krabbamein
  •  þekktur erfðasjúkdómur í ætt
  •  skyndidauði í fjölskyldu
  •  endurtekin fósturlát (3 eða fleiri)
  •  fósturskimun gefur auknar líkur á litningagalla
  •  þroskavandamál
  •  námsörðugleikar
  •  einstaklingar með rof á æðum/líffærum
  •  hjartagallar, tauga- og vöðvasjúkdómar
  •  andvana fæðingar
  •  einhverfa
  •  sérstök útlitseinkenni
  •  vöðvaslaki hjá börnum



Krabbameinserfðaráðgjöf

Á hverju ári greinast um 1600 manns með krabbamein. Minni hluti krabbameina er af arfgengum ástæðum eða um 10%. Sjá nánar um erfðafræði hér undir Fræðsla.
Ástæður fyrir erfðaráðgjöf vegna krabbameina geta verið:

  • Það er þekkt meinvaldandi breyting hjá einhverjum í fjölskyldunni
  • Nokkrir náskyldir einstaklingar hafa fengið krabbamein, ýmist samskonar eða mismunandi
  • Greinst hafa krabbamein í pöruðum líffærum (t.d. báðum brjóstum) hjá einhverjum í fjölskyldu
  • Áhyggjur af því að krabbamein innan fjölskyldu sé arfgengt
  • Ráðþegi (sá sem kemur í viðtal) eða einhver annar einstaklingur í fjölskyldunni hefur fengið krabbamein óvanalega snemma á ævinni
  • Læknir telur fjölskyldusögu ráðþega þess eðlis að rétt sé að bjóða erfðaráðgjöf og hugsanlega erfðarannsókn

Viðtal

Erfðaráðgjöf byggir á samtölum milli erfðaráðgjafa og ráðþega - þess sem kemur í erfðaráðgjöf. Ráðþegi gefur upplýsingar um fjölskyldusöguna og eru þær upplýsingar m.a. notaðar til að meta líkur á því að um arfgengt krabbamein sé að ræða.
Spurt er um fjölda einstaklinga með krabbamein, kyn og aldur systkina, foreldra, afa og ömmu og niðja þeirra. Þessar spurningar eru í spurningalistanum fyrir beiðni um krabbameinserfðaráðgjöf en einnig biðjum við um skriflega heimild til að rekja ætt viðkomandi með hjálp Erfðafræðinefndar Háskóla Íslands og Landspítala og að fá upplýsingar um krabbamein í fjölskyldu frá Krabbameinsskrá. Krabbameinsskráin hefur ekki staðfestar upplýsingar um krabbamein sem greind voru fyrir árið 1955 fyrir utan brjóstakrabbamein og heldur ekki fyrir þá sem greindir hafa verið erlendis. Til þess að fá sem gleggsta mynd er því nauðsynlegt að byggja bæði á upplýsingum frá ráðþega sjálfum og frá krabbameinsskrá.
Annað sem rætt er um í erfðaráðgjöfinni er hvaða gen eru rannsökuð og hvernig erfðarannsókn fer fram, hverjum í fjölskyldunni ætti að bjóða erfðarannsókn, hvað þarf að bíða lengi eftir svari og hvernig niðurstaðan verður kynnt ráðþega. Einnig líkur á krabbameini ef meinvaldandi breyting finnst, hvað það þýðir að hafa meinvaldandi breytingu, bæði fyrir ráðþega og ættingja hans og hvernig hægt er að láta aðra í fjölskyldunni vita ef finnst meinvaldandi breyting. Stundum er talað um eftirlit, fyrirbyggjandi lyfjagjöf og aðgerðir.

Hafa verður i huga að erfðarannsókn er ekki alltaf boðin. Það getur verið vegna þess að:

  • Mat læknis og erfðaráðgjafa er að krabbamein í fjölskyldu sé ekki tilkomið vegna ákveðinna arfgengra erfðabreytinga. Það mat byggir á tegund krabbameina og fjölskyldusögu.
  • Erfðabreytingar sem tengjast myndun krabbameina sem finnast í fjölskyldunni eru lítt eða ekki enn þekktar.

Þegar gera á erfðarannsókn, er skrifuð beiðni sem ráðþegi fær með sér og framvísar á blóðtökustöð sem er í kjallara í álmu 10E Landspítala við Hringbraut. Opnunartími er frá kl. 8 til 15.30 virka daga og sjaldan löng bið. Ekki þarf að panta tíma og ekki þarf að vera fastandi.

Að hvaða erfðabreytingum (stökkbreytingum) er leitað í tengslum við mögulega arfgeng krabbamein?

Breytingar (stökkbreytingar) í ýmsum genum hafa áhrif á krabbameinsáhættu. Erfðarannsóknir eru boðnar þar sem það á við. Stundum er aðeins leitað að þekktum breytingum, t.d. breytingum í BRCA genum en stundum eru gerðar stærri rannsóknir og fjölmörg gen rannsökuð í einu. Slík rannsókn er í daglegu tali kölluð fjölgenarannsókn.
Enn er verulegur hluti arfgengrar áhættu óútskýrður en frekari þekking mun skila sér í markvissari og öflugri aðferðum í baráttunni við þá algengu og alvarlegu sjúkdóma sem krabbamein eru.

Niðurstaða
Þegar niðurstaða úr erfðarannsókn liggur fyrir, er viðkomandi boðið að fá niðurstöðuna í síma eða í viðtali. Vilji ráðþegi símtal, er í framhaldi af því boðið viðtal ef viðkomandi vill.
Hafi ekki fundist stökkbreyting er ráðþega vísað áfram í viðeigandi hefðbundið eftirlit.
Hafi stökkbreyting fundist, er sú niðurstaða rædd, farið yfir eftirlit og mögulegar fyrirbyggjandi aðgerðir.
Ráðþega er vísað áfram í viðeigandi eftirlit og fær send upplýsingabréf til að dreifa til ættingja. Á vef Landspítala er einnig að finna slóð í upplýsingabréf.

Almenn erfðaráðgjöf

Erfðaráðgjöf er mat og ráðgjöf á einstaklingi eða fjölskyldu vegna erfðavandamála. Erfðamáti viðkomandi sjúkdóms er útskýrður, gert er mat varðandi líkur á sjúkdómsvaldandi stökkbreytingu í geni eða genum ef það á við. Læknisfræðileg hugtök og vandamál eru útskýrð og áætlun gerð um eftirlit og meðferð ef þarf. Veittar eru upplýsingar um mögulegar rannsóknir og vísað á frekari upplýsingar og stuðningshópa. Rætt er um hugsanleg siðferðisleg málefni sem komið geta upp í sambandi við sjúkdóm, greiningu og meðferð.
Almenn erfðaráðgjöf er veitt fyrir alla erfðasjúkdóma, þó með þeirri undantekningu að erfðaráðgjöf vegna krabbameina og erfðaráðgjöf á meðgöngu flokkast sér. Fjallað er um þá tvo flokka annars staðar á þessari síðu.
Ekki þarf sérstaka tilvísun í erfðaráðgjöf og getur hver og einn pantað viðtal, en tímapöntun fer fram hér á vefnum. Greiða þarf komugjald á göngudeild og einnig þarf að greiða blóðtökugjald ef/þegar blóð er tekið vegna erfðarannsókna.
Nokkrar ástæður geta verið fyrir því að einstaklingar vilja fara í eða er vísað í almenna erfðaráðgjöf. Hér að neðan eru nokkrar þeirra taldar.

Fullorðnir einstaklingar:

  • Læknir telur að erfðasjúkdómur sé til staðar hjá fjölskyldumeðlim og vill staðfesta sjúkdómsgreiningu.
  • Ráðþegi vill vita hvort hann sé í aukinni áhættu á því að fá ákveðinn ættlægan erfðasjúkdóm einhvern tíma á lífsleiðinni.
  • Annað hjóna er með erfðasjúkdóm og barneignir eru fyrirhugaðar.
  • Annað hjóna er arfberi fyrir víkjandi erfðasjúkdóm og barneignir eru fyrirhugaðar.
  • Barn hefur fæðst andvana og möguleiki á erfðafræðilegri skýringu. Reynt að skera úr um hvort víkjandi erfðir hafi valdið eða hvort um nýja breytingu hjá barni hafi verið að ræða.
  • Fullorðinn einstaklingur er með þroskafrávik, en ekki hefur farið fram erfðauppvinnsla og/eða engin erfðafræðileg skýring fundist í fyrri rannsóknum.

Börn:

  • Læknir telur að erfðasjúkdómur sé til staðar hjá barni og vill staðfesta sjúkdómsgreiningu.
  • Barn er á einhverfurófi og/eða með þroskafrávik, en ekki hefur farið fram erfðauppvinnsla og/eða engin erfðafræðileg skýring fundist í fyrri rannsóknum.

ATH! Ef þekktur erfðasjúkdómur er í ætt sem ekki kemur fram á barnsaldri er ekki ástæða til að prófa barn. Þá er beðið þar til barnið nær 18 ára aldri og getur tekið sjálfstæða upplýsta ákvörðun um að láta prófa sig. Sama á við ef barn er einkennalaust, jafnvel þó sjúkdomur geti komið fram á barnsaldri. Ekki er ástæða til að framkvæma erfðarannsóknir á heilbrigðum börnum. Annað er uppi á teningnum ef barn er með einkenni (sjá fyrri punktinn hér fyrir ofan).

Erfðaráðgjafaviðtalið:

Í erfðaráðgjafaviðtali er farið yfir heilsufarsupplýsingar ráðþega. Einnig er farið yfir fjölskyldusögu hans og ættartré teiknað upp. Ættartré er mikilvægt til þess að meta hvernig sjúkdómur eða einkenni erfast innan fjölskyldu. Ættartré er einnig notað til að skoða og útskýra hverjir í fjölskyldunni eru líklegir til þess að vera arfberar eða hverjir eru hugsanlega með sjúkdóm eða í áhættu að fá einkenni.
Spurt er um fjölda systkina, aldur og þá sjúkdóma eða einkenni sem geta skipt máli varðandi sjúkdóminn. Einnig er spurt um foreldra og þeirra systkini, afa og ömmu og jafnvel þeirra systkini og afkomendur.
Spurt er um meðgöngu, fósturlát og fleira því tengt ef það skiptir máli varðandi erfðaráðgjöfina og þá er einnig spurt um fjölskyldusögu um ófrjósemi og fósturlát. Eins getur kynþáttur og skyldleiki hjóna skipt máli og því er spurt um það. Ef ástæða er til, er beðið um leyfi til að fá að skoða sjúkraskýrslur ákveðinna einstaklinga og þær sóttar ásamt rannsóknarniðurstöðum ef þær eru til.

Erfðarannsóknir

Í kjölfar viðtals er gjarnan sent sýni í erfðarannsókn. Erfðarannsókn getur leitt í ljós hvort sjúkdómur og/eða einkenni ráðþega séu til komin vegna meinvaldandi breytingar á litningi eða geni. Sú rannsókn er yfirleitt gerð með því að taka blóðsýni, munnstrokssýni og/eða (sjaldnar) úr vef.
Erfðarannsóknir eru flóknar og stundum þarf að bíða í nokkra mánuði eftir niðurstöðu. Þegar svör berast er ráðþegi boðaður í viðtal. Í sumum tilfellum er svar gefið í síma og er það þá gjarnan ákveðið í samráði við ráðþega áður.
Hafi niðurstöður verið að engin meinvaldandi breyting fannst í geni, er farið yfir niðurstöðuna og rætt um næstu skref, ef þörf er á frekari rannsóknum.
Hafi niðurstaða erfðarannsókna verið að meinvaldandi breyting fannst í geni sem útskýrir einkenni/sjúkdóm ráðþega er gert plan um viðeigandi eftirlit og eða meðferð. Vísað er til viðeigandi sérfræðinga á hverju sviði eftir því sem það á við. Einnig er ákveðið hverjum í fjölskyldunni ætti að bjóða erfðarannsókn í framhaldinu.

Ehlers-Danlos heilkenni

Ehlers-Danlos heilkenni er safnheiti yfir hóp arfgengra bandvefssjúkdóma. Einkennin eru margvísleg og mismunandi milli hópanna, en tengjast m.a. miklum liðleika, óstöðugum liðamótum og krónískum verkjum ásamt fleiri þáttum.
Algengasta gerðin er hypermobile EDS (hEDS). Það heilkenni hefur engan þekktan erfðaþátt. Greining er gerð með svörun spurningalista. Ef ákveðinn fjöldi einkenna er fyrir hendi, samræmist það greiningu.
Önnur form af EDS eru sjaldgæfari, svo sem klassískt EDS (classical EDS/cEDS) og æðaafbrigði (vascular EDS/vEDS). Þeim gerðum tengjast þekktar meinvaldandi breytingar í genum. Einkenni þeirra geta verið alvarleg, svo sem rof á æðum eða líffærum.

Ekki eru til erfðafræðileg próf fyrir hEDS og er einstaklingum með grun um hEDS bent á að leita til heimilis- eða gigtarlæknis til að fá sína greiningu. Að jafnaði er heilkennið greint út frá einkennum. Greining fer fram með svörun spurningalista sem einnig felur í sér stutta skoðun á einkennum. Við erum boðin og búin að aðstoða ef einhver vafamál eða spurningar koma upp, en biðjum þá um tilvísun frá lækni. Hægt er að nálgast spurningalistann hér: https://www.ehlers-danlos.com/heds-diagnostic-checklist/
Hægt er að framkvæma erfðarannsóknir ef grunur er um cEDS eða vEDS. Ef grunur er til staðar um alvarlegri gerðir Ehlers-Danlos heilkennis eða aðra bandvefssjúkdóma eftir skoðun, eða ef saga er um rof á líffærum eða skyndidauða í fjölskyldu, þá vinsamlegast fyllið út beiðni um viðtal hér á síðunni. Einnig getur sérfræðingur vísað beint í erfðaráðgjöf ef slíkur grunur er til staðar. Einnig ef einstaklingur hefur farið í hjartaómun sem sýndi óeðlilegar niðurstöður (grunur um Marfan eða tengda arfgenga bandvefssjúkdóma).

Mismunagreining

Við greiningu EDS, er ávalt skimað fyrir öðrum þekktum sjúkdómum og heilkennum með svipuð einkenni. Einn þeirra er Marfan-heilkenni sem er arfgengur bandvefssjúkdómur sem orsakast af meinvaldandi breytingum í FBN1 geni. Einkennin tengjast aðallega hjarta- og æðakefi, augum og stoðkerfi. Einstaklingar með Marfan-heilkenni eru hávaxnir, grannir, útlimalangir og með langa fingur. Annað dæmi er Loeys-Dietz heilkenni þar sem einnig sjást rof á æðum.

Erfðaráðgjöf á meðgöngu – almennar upplýsingar

Erfðaráðgjöf á meðgöngu eða vegna ófædds barns er boðin þegar það á við. Ástæður fyrir því að beðið er um erfðaráðgjöf á meðgöngu geta verið margvíslegar en hér að neðan eru nokkrar þeirra tilgreindar.

  • Arfgengur sjúkdómur hefur greinst hjá nánum ættingja
  • Þekktur erfðasjúkdómur er í ætt
  • Fósturskimun gefur vísbendingar um fósturgalla
  • Fósturgreining staðfestir litninga- eða genagalla
  • Saga um alvarlega fæðingargalla
  • Endurtekin fósturlát - þrjú eða fleiri
  • Saga um andvana fæðingu
  • Náinn skyldleiki er á milli foreldra

Verðandi foreldrar geta sjálfir óskað eftir erfðaráðgjöf eða fengið tilvísun frá lækni eða ljósmóður.

Samþætt líkindamat
Fósturskimun með samþættu líkindamat á fyrsta þriðjungi meðgöngu er boðin öllum barnshafandi konum á Íslandi í þeim tilgangi að meta líkur á fóstur- og litningagöllum. Gerð er ómskoðun, mæld hnakkaþykkt fósturs og fóstrið skoðað eins vel og hægt er á þessum tíma meðgöngunnar. Konur sem vilja fara í samþætt líkindamat, fara svo í blóðprufu þar sem tvö efni sem berast frá fylgjunni á meðgöngu, PAPP-A og beta HCG, eru mæld. Niðurstöður blóðrannsóknarinnar eru færðar inn í reiknilíkan ásamt niðurstöðum úr ómskoðuninni og ýmsum upplýsingum eins og meðgöngulengd, aldri móður og fleiru. Niðurstöður úr samþættu líkindamati liggja að jafnaði fyrir eftir 2-3 virka daga.
Viðmiðunarmörk eru 1 af 100 fyrir þrístæðu 21 sem leiðir til Down heilkennis og 1 af 50 fyrir þrístæður 13 (Patau heilkenni) og 18 (Edwards heilkenni).

Séu niðurstöður samþætts líkindamats eðlilegar eru þær sendar í heilsugæslustöð þar sem viðkomandi er í meðgöngueftirliti og ræddar í næstu heimsókn þangað. Séu líkur á litningagalla auknar er konunni/parinu boðið a) símtal við ljósmóður, lækni eða erfðaráðgjafa, b) viðtal við einhvern ofangreindan. Í því samtali/viðtali er rætt almennt um niðurstöður líkindamatsins, fósturgreining kynnt og mögulegar niðurstöður.
Ef gerð er fósturgreining er aftur boðið viðtal eftir að niðurstöður hafa verið kynntar konunni. Oftast í síma en þegar greining er jákvæð, þ.e. að litningagalli greinist, er boðið viðtal eftir atvikum, hjá lækni og/eða erfðaráðgjafa.
Ef ástæða er til er tekin fjölskyldusaga og helstu upplýsingar skráðar. Það er einkum gert ef vitað er um erfðasjúkdóma, meðfædd vandamál, mörg fósturlát eða litninga/genagalla í fjölskyldunni.

Erfðaráðgjöf á meðgöngu - Þekkt breyting í fjölskyldu

Ef þekkt erfðabreyting er í fjölskyldu, er ráðlagt að verðandi foreldrar fái erfðaráðgjöf áður en þungun á sér stað ef hægt er eða svo fljótt sem auðið er eftir að þungun á sér stað. Í erfðaráðgjöfinni eru líkur á að parið eignist barn með breytinguna metnar og ræddar við foreldra. Þær líkur eru misjafnar eftir erfðamáta viðkomandi sjúkdóms.
Þegar líkur á því að fóstur erfi breytingu frá öðru eða báðum foreldrum er hægt að bjóða fósturgreiningu eða fósturvísisgreiningu þar sem það á við. Fósturgreiningu er hægt að gera alla meðgönguna en almennt er hún gerð milli 11 - 22 vikna meðgöngu. Fósturgreining með fylgjusýnatöku er gerð við 11-15 vikur og fósturgreining á legvatnssýni er gerð eftir 15 vikna meðgöngu. Svartími á fylgjusýni eru 2 virkir dagar fyrir bráðabirgðasvar en 10-14 fyrir endanlegt svar.


Sími briseftirlits er opinn milli 10.00 - 15.00 alla virka daga í síma 620 2639.

Fræðsluefni

Í nær öllum frumum mannsins er erfðaefni (DNA) sem ræður gerð einstaklingsins.
Erfðaefnið geymir upplýsingar um eiginleika einstaklinga og erfðafræði fjallar um það hvernig eiginleikar færast á milli kynslóða. Það er oftast kallað DNA eða deoxyribonucleic acid (kjarnsýra á íslensku).
Erfðaefnið er geymt á 46 litningum sem eru í 23 pörum. Litningarnir 46 eru til staðar í nærri öllum frumum líkamans nema í kynfrumum (egg og sæðisfrumur) þar sem þeir eru aðeins 23 eða einn litningur af hverju pari.

Alger tilviljun ræður því hvorn af litningum hvers pars einstaklingur erfir og ræðst það af því hvaða litningar eru í kynfrumunum. Við frjóvgun verður samruni sæðis og eggs sem hvort fyrir sig eru með 23 litninga og úr verður nýr einstaklingur með 46 litninga í sínum frumum. Hann erfir sem sagt 23 litinga frá föður og 23 litninga frá móður sinni.
Litningarnir 23 skiptast í 22 pör A-litninga (sjálfslitninga) og kynlitninga. A-litningar eru eins hjá öllum, bæði körlum og konum. 23. parið eru kynlitningar sem heita X og Y. Konur hafa tvo X litninga en karlar hafa einn X litning og einn Y litning. Á myndinni sérðu 46 litninga – kynlitningarnir eru X og Y sem merkir að þetta er strákur.

Genin

Þó fólk hafi samskonar gen, eru þau samt breytileg frá einum einstaklingi til annars. Þessi breytileiki ræður meðal annars útlitseinkennum en einnig því hversu mikla áhættu við höfum á því að fá ýmsa sjúkdóma. Stundum getur eitt breytt gen ráðið því hvort einstaklingur fær sjúkdóm eða ekki en oftast skiptir þessi breytileiki engu máli.
Allir einstaklingar eru með gen sem starfa mismunandi rétt en áhrif þess geta verið mismikil.
Erfðasjúkdómar eru oft flokkaðir eftir því hvort genabreytingin sem veldur sjúkdómnum er á A-litningi eða kynlitningi. Þeir eru líka flokkaðir eftir því hvort breytta genið hefur víkjandi eða ríkjandi áhrif. Ef gen hefur ríkjandi áhrif kemur sjúkdómur fram ef einstaklingur hefur erft genið frá einu foreldri, jafnvel þótt genið frá hinu foreldrinu sé eðlilegt. Ef genið hefur víkjandi áhrif þarf einstaklingur að hafa erft breytt gen frá báðum foreldrum til þess að sjúkdómurinn komi fram. Í þeim tilvikum hefur einstaklingurinn ekkert óbreytt eintak af geninu. Þetta er mikilvægt að hafa í huga þegar verið er að meta hvaða einstaklingar í fjölskyldu geta hugsanlega fengið erfðasjúkóma ef þeir eru til staðar.
Stökkbreyting - breyting - meinvaldandi breyting
Það sem við köllum meinvaldandi breytingu í geni (eða stökkbreytingu í geni) er heiti á varanlegri breytingu á erfðaefni einstaklings. Stökkbreytingar í erfðaefni hafa nokkur heiti og það getur verið ruglandi. Stundum er talað um stökkbreytingar, stundum bara breytingar eðameinvaldandi breytingar til aðgreiningar. Svo er líka talað um erfðabreytileika og erfðabrigði.
Ensk heiti eru t.d.: "mutation" "genetic changes" eða "pathogenic changes" eða "pathogenic variants".
Erfðabreytileiki á við um breytileika í genum milli einstaklinga. Það þýðir í rauninni smábreytingar í genum, sem oftast hafa ekki hafa mikla þýðingu.
Stökkbreyting eða mutation er varanleg breyting í erfðaefni. Nú er frekar talað um meinvaldandi breytingu eða pathogenic variant. Í erfðaráðgjöfinni notum við gjarnan; breyting, meinvaldandi breyting, breyting með óþekkta klíníska þýðingu.
Þetta síðasta, breyting með óþekkta klíníska þýðingu (variant with unknown clinical significance) á við um breytingar sem finnast í genum en ekki er enn búið að staðfesta hvort þær skipta máli eða ekki varðandi erfðasjúkdóma eða áhættu á þeim. Þegar sent er í fjölgenarannsókn eða stærri erfðarannsóknir er algengt að finnist 1-10 breytingar með óþekkta klíníska þýðingu.
Breytingar í erfðaefni skiptast í sómatískar breytingar, þ.e. breytingar sem verða í erfðaefninu eftir að manneskjan verður til og þær sem erfast milli kynslóða eins og t.d. BRCA2 breytingin.
Krabbamein verða oft til við sómatískar breytingareða breytingar sem verða eftir að einstaklingur verður til. Slíkar breytingargeta orðið til sjálfkrafa við t.d. frumuskipti, við geislun eða við notkun ýmissa frumuskemmandi efna. Skýrt dæmi er til dæmis húðkrabbamein eftir sólbruna eða geislun eða lungnakrabbamein eftir reykingar.

Erfðasjúkdómar eru oft flokkaðir eftir því hvort meinvaldandi breytingar sem valda sjúkdómnum eru á A-litningi (litningi 1-22) eða kynlitningi (X- eða Y-litningi). Þeir eru líka flokkaðir eftir því hvort breytingarnar hafa víkjandi eða ríkjandi áhrif. Ef meinvaldandi breyting hefur víkjandi áhrif getur sjúkdómur komið fram ef: a) Einstaklingur hefur erft þá sömu breytingu frá báðum foreldrum og er þá arfhreinn fyrir breytingunni. b) Einstaklingur hefur erft tvær mismunandi meinvaldandi breytingar í sama geni frá sitthvoru foreldrinu og er þá tvíarfblendinn fyrir þeim. Í báðum tilfellum hefur einstaklingurinn ekkert óbreytt eintak af geninu.
Allir hafa tvö eintök af hverju geni og hafa erft annað eintakið frá mömmu og hitt frá pabba. Þegar báðir foreldrar bera meinvaldandi breytingu í öðru af tveimur eintökum gens eru þeir oftast einkennalausir arfberar. Það er tilviljun háð hvort börn þeirra erfi breytta eða óbreytta genið frá þeim.
Þegar tveir arfberar eignast saman barn geta samsetningarnar gena þeirra verið á þrjá vegu: Í helmingi tilfella (50%), fær barnið það eintak gens sem ber meinvaldandi breytingu frá öðru foreldrinu og óbreytt gen frá hinu. Í fjórðungi tilfella (25%) fær barnið tvö óbreytt gen, eitt frá hvoru foreldri og í fjórðungi tilfella (25%) fær barnið það eintak gens sem ber meinvaldandi breytingu frá báðum foreldrum sínum. Þegar það gerist, kemur sjúkdómurinn sem orsakast af breytta geninu fram hjá barninu þó foreldrarnir hafi engin einkenni sjálfir.
Mögulegar niðurstöður eru háðar tilviljun. Möguleikarnir eru hinir sömu í hvert sinn sem barn verður til og eru hinir sömu hvort sem um er að ræða stráka eða stelpur.


Erfðasjúkdómar eru oft flokkaðir eftir því hvort meinvaldandi breytingar sem valda sjúkdómnum eru á A-litningi (litningi 1-22) eða kynlitningi (X- eða Y-litningi). Þeir eru líka flokkaðir eftir því hvort breytingarnar hafa víkjandi eða ríkjandi áhrif. Ef meinvaldandi breyting hefur ríkjandi áhrif kemur sjúkdómur fram ef einstaklingur hefur erft gen sem ber þá breytingu frá öðru foreldri sínu, jafnvel þótt genið frá hinu foreldrinu beri engar meinvaldandi breytingar.
Allir hafa tvö eintök af hverju geni og kemur annað eintakið frá mömmu og hitt frá pabba. Þegar annað foreldra ber meinvaldandi breytingu í öðru af tveimur eintökum gens, fær barnið annað hvort breytt eða óbreytt eintak af geninu frá því. Í hvert sinn sem foreldrið eignast barn, eru 50% líkur til þess að barnið erfi það eintak gensins sem ber meinvaldandi breytinguna. Það fer eftir því hvaða gen er um að ræða og eins hver meinvaldandi breytingin er, hversu líklegt það er að einstaklingur sem hana ber fái sjúkdómseinkenni og hvenær þau koma fram á ævinni.

Litningarnir eru 46 í flestum frumum líkamans. Í kynfrumunum eru þó aðeins 23 litningar, annar litningurinn úr hverju pari A-litninganna (litningar 1-22) og svo einn kynlitningur. Í sæðisfrumum er kynlitningurinn annað hvort X- eða Y-litningur en í eggfrumum er alltaf X-litningur.
Móðir gefur alltaf X-litning til barna sinna en faðir gefur ýmist X- eða Y-litning. Þannig ræður kynlitningurinn í sæðisfrumunni kyni barnsins.
Á X-litningnum eru, eins og á A-litningum, gen sem eru í tveimur eintökum hjá konum en aðeins einu eintaki hjá körlum af því þeir hafa bara einn X-litning.
Meinvaldandi breytingar á X-litningi geta erfst víkjandi eða ríkjandi.
Þegar um er að ræða meinvaldandi breytingu sem erfist víkjandi er kona sem hana ber arfberi, en er oftast sjálf án einkenna, eða með lítil einkenni. Kona sem er arfberi og ber meinvaldandi breytingu í geni á öðrum af X-litningum sínum getur því gefið barni sínu annað hvort það eintak gensins sem ber breytinguna eða óbreytta eintakið. Sé barnið drengur sem erfir eintak sem ber meinvaldandi breytingu, hefur hann ekkert óbreytt eintak til að bæta upp fyrir breytta genið (er arfstakur fyrir umrædda meinvaldandi breytingu) og fær sjúkdóminn sem tengist geninu. Sé barnið stúlka sem erfir það eintak gens sem ber meinvaldandi breytingu, fær hún annan X-litning frá föður sínum. Sá X-litningur er með óbreytt gen og stúlkan verður arfberi, eins og móðir hennar, oft án einkenna eða með afar væg einkenni miðað við karlmann. Meinvaldandi breytingar gena á X-litningi sem erfast víkjandi valda alltaf sjúkdómi hjá karlmanni sem erfir breytinguna. Til að kona fái sjúkdóm þarf hún að hafa erft tvö breytt eintök gens, þ.e.a.s. frá báðum foreldrum sínum.
Karlmaður sem er með kynbundinn sjúkdóm (á X-litningi) á aðeins einn X-litning að gefa til dætra sinna og verða þær því alltaf arfberar, en synir fá frá honum Y-litning og fá ekki sjúkdóm.


Þegar um er að ræða meinvaldandi breytingar á X-litningi sem erfast ríkjandi fá jafnt konur sem karlar sjúkdóm. Þar sem karlmenn eru arfstakir fyrir meinvaldandi breytingunni (af því að þeir eru bara með einn X-litning) fá þeir illvígari sjúkdóm og eins eru X-tengdar ríkjandi breytingarnar oft ólífvænlegar fyrir karlkyns fóstur.


BRCA (BReast CAncer) genin eru tvö, BRCA1 og BRCA2. BRCA1 genið fannst á undan (1994) og BRCA2 skömmu seinna (1996). Í báðumgenunum, BRCA1 og BRCA2, eru þekktar fjölmargar breytingar sem eru misalvarlegar. Um 230 konur greinast með brjóstakrabbamein á Íslandi á hverju ári. Af þeim má búast við að 5-10% (12-34 konur) séu með einhverja meinvaldandi breytingu í erfðaefni - þar af um 4% BRCA2 breytingu.

Meinvaldandi breytingar í bæði BRCA1 og BRCA2 geni, auka áhættu á nokkrum krabbameinum. Sú sem er með meinvaldandi breytingu í BRCA1 geni er með auknar líkur á að fá eggjastokka- og brjóstakrabbameini. Ekki er talið að karlar sem hafa breytingu í BRCA1 geni, a.m.k. ekki þeim breytingum sem fundist hafa hér á landi, hafi auknar líkur á að fá blöðruhálskrabbamein. Þeim er eigi að síður boðið eftirlit sem byggir á alþjóðlegum ráðleggingum.

Krabbamein sem geta fylgt meinvaldandi breytingum í BRCA2 geni, þar með talið íslensku landnemabreytingunni (sjá skýringu í næsta kafla), eru fyrst og fremst brjóstakrabbamein og krabbamein í blöðruhálskirtli. Í sumum ættum eru líka eggjastokkakrabbamein, briskrabbamein, húðkrabbamein og mögulega skjaldkirtilkrabbamein. Krabbamein í brjóstum hjá körlum er þekkt í nokkrum ættum.
Það er hins vegar afar mismunandi eftir ættum þar sem meinvaldandi breytingar finnast, hvaða krabbamein sjást og hversu mörg. Til eru fjölskyldur með mjög litla sýnd á krabbameinum og eins fjölskyldur þar sem sýndin er mikil.
Með markvissu eftirliti og/eða fyrirbyggjandi aðgerðum er hægt að fækka alvarlegum tilfellum krabbameina hjá arfberum eða koma í veg fyrir þau með fyrirbyggjandi aðgerðum.

BRCA2, íslenska landnemabreytingin

Hér á landi er þekktust ein breyting í BRCA2 geni – sú er kölluð 999del5 en fræðilega heitið er annað: NM_000059.3(BRCA2):c.771_775delTCAAA(p.Asn257Lysfs). Nafnið vísar til þess að það falla út fimm stafir (del5 eða deletion 5).
Genin eru lesin í 3 stafa bútum og þegar 5 stafir detta út, riðlast textinn sem kemur á eftir.

Það má kannski skýra svona: "Lóa sem var lík mér var væn mús"
Svo falla 5 stafir út:
og útkoman verður: "Lóa rlí kmé rva rvæ nmú s"

Þessi setning er óskiljanleg og ef þetta væri texti í geni, myndi það ekki starfa rétt, búa til vitlaust prótein eða alls ekki geta búið til prótein.
Þessi úrfelling gerir að verkum að það sem eftir er af geninu er ekki lesið rétt eða alls ekki og þá starfar genið ekki rétt.
Breytingar í BRCA genum erfast óháð kyni. Sá eða sú sem ber meinvaldandi breytingu í BRCA geni gefur hana áfram í 50% tilfella til afkvæma sinna en það er í hvert sinn alger tilviljun.

Eitt heilt eintak af BRCA2 geninu dugar til að starfsemin er í lagi en ef það af einhverjum ástæðum breytist í einhverri frumunni, þá er ekkert starfhæft eintak í þeirri frumu. Oft eru frumur sem eru með skemmt erfðaefni reknar í stýrðan frumudauða en ekki alltaf og ef þessi fruma fær að skipta sér, þá verða til tvær og svo fjórar og svo framvegis. Allar eru þær með samskonar erfðaefni, þ.e. ekkert starfhæft eintak af BRCA2 geninu. Þar sem BRCA2 genið starfar meðal annars við að leiðrétta villur í erfðaefninu í ferlinu þegar frumur skipta sér, verða til margar frumur með óstarfhæfu erfðaefni, ef það starfar ekki rétt og villur safnast upp. Sumar þeirra eru þess eðlis að frumurnar fara að vaxa stjórnlaust og þá verður til æxli sem getur orðið að krabbameini.

Eftir því sem best er vitað (2019) eru engin krabbamein eða vandamál á barnsaldri tengd BRCA2 breytingunni og ekki er mælt með að gera erfðarannsókn hjá börnum vegna hennar.

Eftirlit

Konur sem bera meinvaldandi breytingu í BRCA geni, byrja í eftirliti með brjóstum um 25-29 ára aldur. Eftirlit með eggjastokkum hefst seinna eða um 30 ára aldur eða 10 árum áður en yngsta kona greindist í fjölskyldunni. Karlar byrja í eftirliti með blöðruhálskirtli 40 ára.
Það er mikilvægt fyrir karla með BRCA2 að vera í eftirliti því fái þeir krabbamein í blöðruhálskirtil, þarf að bregðast mun hraðar við en hjá þeim sem ekki hafa breytinguna. Einnig er aukin áhætta einstaka karla með BRCA2 breytinguna á því að fá brjóstakrabbamein. Kvensjúkdómalæknar fylgjast með eggjastokkum og þvagfæralæknar með blöðruhálskirtli karla. Í þeim ættum þar sem einstaklingar hafa greinst með briskrabbamein er nánum ættingjum sem bera BRCA2 breytinguna vísað í eftirlit með brisi til meltingasérfræðinga. Það eftirlit hefst við 45 ára aldur.

Félagasamtök

Barnaheill
Háaleitisbraut 13, 108 Reykjavík - www.barnaheill.is

ADHD samtökin
Háaleitisbraut 11-13, 108 Reykjavík www.adhd.is

Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins - https://www.greining.is/

Einhverfusamtökin
Háaleitisbraut 11-13, 108 Reykjavík - www.einhverfa.is

Landssamtökin Þroskahjálp
Háaleitisbraut 11-13, 108 Reykjavík, www.throskahjalp.is

Sjónarhóll ráðgjafarmiðstöð
Háaleitisbraut 11-13, 108 Reykjavík, www.serstokborn.is

Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra
Háaleitisbraut 11-13, 108 Reykjavík, www.slf.is

Umhyggja - félag til stuðnings langveikum börnum
Háaleitisbraut 11-13, 108 Reykjavík, www.umhyggja.is

Einstök börn 
Háaleitisbraut 11-13, 108 Reykjavík. https://www.einstokborn.is/

DM Félag Íslandshttps://www.myotoniciceland.is/

vEDSis Samtökin á Íslandi (vEDS er æðaafbrigði Ehlers-Danlos Syndrome) - https://www.veds.is/

 

Krabbamein

Krabbameinsfélagið www.krabb.is

 Brakka samtökin, www.brca.is

 Íslensk upplýsingasíða um brjóstakrabbamein www.brjostakrabbamein.is

 Áhættureiknivél, www.ask2me.org

 Upplýsingasíða um brjósta- og eggjastokkakrabbamein á ensku www.facingourrisk.org

 Upplýsingasíða um brjóstakrabbamein á ensku www.breastcancer.org

 Vandamál tengd innkirtlum (MEN1): https://www.niddk.nih.gov/health-information/endocrine-diseases/multiple-endocrine-neoplasia-type-1

 

Hjartavandamál

Áhættureiknir Hjartaverndar: http://risk.hjarta.is/risk_calculator/v2/

Ofþykktarsjúkdómur hjartavöðva: 

 https://ghr.nlm.nih.gov/condition/familial-hypertrophic-cardiomyopathy# 

 

Grein úr Læknablaðinu: Hjartabilun meðal eldri Íslendinga. https://www.landspitali.is/sjuklingar-adstandendur/deildir-og-thjonusta/erfda-og-sameindalaeknisfraedideild-/erfdaradgjof/

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir
Af hverju ekki?