Eftirlit með sjúkraskrá Landspítala
Allir starfsmenn Landspítala og nemar í heilbrigðisvísindum sem hafa aðgang að sjúkraskrá eru bundnir trúnaðar- og þagnarskyldu.
Heilbrigðisstarfsmaður sem veitir meðferð og færir upplýsingar í sjúkraskrá ber ábyrgð á sjúkraskrárfærslum sínum.
Framkvæmdastjóri lækninga á Landspítala skipar eftirlitsnefnd um rafræna sjúkraskrá. Hlutverk hennar er samkvæmt erindisbréfi að annast eftirlit með notkun rafrænna sjúkraskrárupplýsinga fyrir hönd framkvæmdastjóra lækninga og í samstarfi við upplýsingatæknideild spítalans. Markmið nefndarinnar er að starfsmenn spítalans fari að reglum spítalans um umgengni um persónuupplýsingar og geri sér grein fyrir að eftirlit sé haft með því.
Verkefni nefndarinnar eru að:
- Gera reglubundnar athuganir á því hvort starfsmenn sem opna rafræna sjúkraskrá eigi þangað eðlilegt erindi vegna meðferðar sjúklings.
- Gera úttektir á sjúkraskrám sem valdar eru af handahófi
- Gera úttektir á uppflettingum starfsmanna af handahófi
- Sinna upplýsingaöflun um aðgengi að einstökum sjúkraskrám samkvæmt ábendingum framkvæmdastjóra lækninga
- Hafa frumkvæði að því að skoða opnun sjúkraskráa valdra einstaklinga
Leiði starf nefndarinnar af sér rökstuddan grun um brot gegn reglum um aðgengi að sjúkraskrám er slíkum málum vísað til framkvæmdastjóra lækninga.