Athugasemdir við sjúkraskrá og leiðréttingar
Teljir þú að upplýsingar í sjúkraskrá séu rangar eða villandi getur þú eða umboðsmaður þinn sent tölvupóst þess efnis á sjukraskra@landspitali.is ásamt rökstuðningi fyrir erindinu. Slík erindi eru að jafnaði tekin fyrir hjá nefnd um aðgang að sjúkraskrárupplýsingum. Vinsamlega athugið að slík erindi geta tekið einhverjar vikur í úrvinnslu.
Sé sjúklingur almennt ósáttur við þær upplýsingar sem skráðar eru í sjúkraskrána eða ósammála innihaldi þeirra þá er honum heimilt að senda inn skriflegar athugasemdir við textann og eru þær athugasemdir lagðar í sjúkraskrána.
Ef upplýsingar í sjúkraskrá eru bersýnilega rangar, þannig að ekki sé rétt farið með staðreyndir, svo sem að ofnæmi sé rangt skráð eða röng lyf tilgreind, er hægt að leiðrétta það.
Óheimilt er samkvæmt lögum að eyða upplýsingum úr sjúkraskrá sjúklings nema með samþykki landlæknis.
Að úrvinnslu lokinni kemur fram í svari Landspítala hvernig brugðist verður við erindi þínu. Hafni Landspítali beiðni þinni um leiðréttingu á sjúkraskrá er hægt að skjóta þeirri synjun til Embættis landlæknis.