Meðgöngu- og sængurlegudeild
Á meðgöngu- og sængurlegudeild dvelja foreldrar með nýfædd börn eftir fæðingu og konur sem þurfa að leggjast inn vegna heilsufarsvandamála sem tengjast meðgöngu.
María G. Þórisdóttir yfirljósmóðir
mariath@landspitali.isHulda Hjartardóttir
huldahja@landspitali.is
Hafðu samband

Hér erum við
Meðgöngu- og sængurlegudeild 22A er staðsett á 2. hæð til vinstri. Aðalinngangur kvennadeildar er opinn frá kl. 07:00-21:00. Utan þess tíma þarf að hringja bjöllu við næturinngang sem er hægra megin við aðalinngang.
Hagnýtar upplýsingar
Á deildinni dvelja fjölskyldur eftir fæðingu og konur með heilsufarsvandamál á meðgöngunni. Starfsfólk deildarinnar veitir faglega þjónustu og stuðning með fjölskylduhjúkrun að leiðarljósi.
Á deildinni starfa m. a. ljósmæður, læknar, ritari, sjúkraliðar, aðstoðarfólk, félagsráðgjafar og sálfræðingur. Einnig er aðgangur að öðrum fagaðilum svo sem sjúkraþjálfara, næringarráðgjafa, presti, ásamt fleirum.
Hægt er að fá aðgang að „gestaneti“ spítalans sem er virkt á flestum starfsstöðvum hans.
Við biðjum ykkur um að hafa eftirfarandi atriði í huga við notkun á netinu:
Að virða friðhelgi einkalífsins.
Ekki tala um heilsufar eða aðstæður annarra skjólstæðinga deildarinnar, aðstandendur eða starfsfólk nema með leyfi viðkomandi.
Ekki setja inn myndir af öðrum, aðstandendum eða starfsfólki nema með leyfi viðkomandi.
Ekki setja upplýsingar úr sjúkraskrá á netið.
Eftir eðlilega fæðingu býðst foreldrum að dvelja á meðgöngu- og sængurlegudeild í allt að sólarhring og þiggja síðan heimaþjónustu frá ljósmóður fyrstu vikuna. Í sængurlegunni er lögð áhersla á hvíld, tengslamyndun og farsælt upphaf brjóstagjafar og næringu nýburans. Ef konur og börn þurfa sérhæfða þjónustu í sængurlegu getur sjúkrahúsdvölin verið lengri. Myndband um sængurlegu.
Mikilvægt er að hreinlegt sé í kringum sængurkonur og nýfædd börn. Til að minnka líkur á sýkingum hjá nýbura og móður er nauðsynlegt þvo eða spritta hendur. Sérstaklega ráðleggjum við móður að þvo sér bæði fyrir og eftir salernisferðir.
Konur sem fara í fyrirfram ákveðinn keisaraskurð mæta að morgni aðgerðadags á deildina. Ritari deildarinnar mun hringja í vikunni fyrir aðgerð og lætur vita klukkan hvað þú átt að mæta á deildina. Eftir fæðingu með keisaraskurði býðst foreldrum að dvelja í allt að 48 klukkustundir á deildinni og þiggja síðan heimaþjónustu frá ljósmóður. Nánari upplýsingar má finna í fræðslubæklingnum Undirbúningur fyrir fæðingu með valkeisaraskurði.
Konum, sem eiga að baki eðlilega meðgöngu og fæðingu og eignast heilbrigt barn, gefst kostur á að fara heim og njóta þar umönnunar ljósmóður. Miðað er við heimferð fjölbyrju innan 12 klukkustunda frá fæðingu og frumbyrju innan 24 klukkustunda frá fæðingu.
Gott er að láta ljósmóður á deild vita ef þið hafið ákveðnar óskir um hvaða ljósmóðir sinnir ykkur í heimaþjónustu.
Í ákveðnum tilvikum geta mæður og börn útskrifast 36-72 klukkutímum frá fæðingu og þegið heimaþjónustu ljósmóður. Ákvörðunin er ávallt tekin með hliðsjón af aðstæðum hverju sinni í samráði við móður/fjölskyldu og fagfólk.
Mælt er með að mæður og börn sem greind eru með alvarleg heilsufarsvandamál og þarfnast náins eftirlits liggi sængurlegu. Sængurlega er sjaldnast lengur en 3-5 dagar en fer þó eftir aðstæðum hverju sinni. Þegar kona liggur sængurlegu er henni boðið útskriftarviðtal við ljósmóður fyrir heimferð. Mælt er með að maki/stuðningsaðili sé viðstaddur viðtalið. Farið er í gegnum helstu þætti er lúta að líkamlegri og andlegri líðan eftir fæðingu, umönnun barnsins og brjóstagjöf.
Mikilvægt er að hafa samband við ung- og smábarnavernd heilsugæslu fljótlega eftir heimkomu til að láta vita af fæðingu barns.
Hættumerki eftir fæðingu
Mikilvægt er að hafa í huga að ef kona fær hita, kviðverki, aukna blæðingu eða illa lyktandi útferð eftir heimkomu (fyrstu tvær vikurnar) er ráðlagt að hafa samband við mæðravernd 22-B á dagvinnutíma í síma: 543-3253. Utan dagvinnutíma skal hafa samband við skiptiborð Landspítala í síma: 543-1000. Eftir fyrstu 2 vikurnar er konum ráðlagt að hafa samband við sína heilsugæslustöð eða Læknavaktina. Konur sem búa utan Höfuðborgarsvæðisins hafa samband við lækni á viðkomandi heilsugæslustöð eða sjúkrahúsi.
Vandamál í sambandi við brjóstagjöf
Ef vandamál koma upp í sambandi við brjóstagjöf er haft samband við sína heilsugæslu á dagvinnutíma. Utan dagvinnutíma er hægt að leita til ljósmæðra á Kvennadeild vegna alvarlegra brjóstagjafavandmála í síma : 543-1000.
Önnur þjónusta
Við deildina starfar fagfólk frá ýmsum sviðum Landspítala sem hægt er að kalla til eftir þörfum og má þar nefna: Félagsráðgjafa, prest, sálfræðing, geðlækni, sjúkraþjálfara og næringarráðgjafa.
Heyrnarmæling nýbura
Boðið er upp á heyrnarmælingu nýburans og fer hún fram hér á deildinni eða þegar komið er með barnið í 5 daga skoðun á Barnaspítala Hringsins. Ef ekki næst að gera heyrnarmælingu á deildinni eða í 5 daga skoðun er foreldrum ráðlagt að hafa samband við Heyrnar- og talmeinastöð Íslands í síma: 581-3855.
Barn veikist
Leitað er til bráðamóttöku barna á Barnaspítala Hringsins ef barnið:
- Fer að anda hratt (oftar en 60 sinnum á mínútu) eða kasta upp grænum magasafa.
- Fær hita yfir 38°C, er slappt og ólíkt sér eða nærist illa.
Ef barnið er eldra en 12 vikna er haft samaband við heilsugæslustöð eða Læknavaktina í síma 1770.
Ef um slys eða neyðartilfelli er að ræða á að hringja í Neyðarlínuna í síma 112.
Í neyðartilfellum skal hringja eftir sjúkrabíl í síma 112
Á deildinni dvelja jafnframt konur sem þurfa náið eftirlit á meðgöngu s.s. alvarlegan háþrýsting, meðgöngueitrun, hótandi fyrirburafæðingar og fleira.
Konur/fjölskyldur sem missa fóstur á 12.–22. viku meðgöngu dvelja á deildinni. Misjafnt er hve lengi dvölin er en oftast er um að ræða 1-2 sólarhringa. Að baki missinum geta verið ýmsar og ólíkar ástæður. Kannski varð hann fyrirvaralaust eða hugsanlega leiddi eftirlit á meðgöngu í ljós alvarlega fötlun eða sjúkdóm hjá barninu. Fagfólk deildarinnar veitir nánari upplýsingar, stuðning og ráðgjöf vegna missis.
Í undantekningartilvikum koma upp vandamál s.s. sýkingar eða blæðingar sem krefjast innlagnar á sjúkrahús.
Fæðingarlæknir kemur daglega á deildina, fær upplýsingar um líðan inniliggjandi kvenna og veitir læknisþjónustu eftir því sem við á.
Barnalæknir kemur daglega á deildina og skoðar nýfædd börn á fyrsta sólahring eftir fæðingu, þau börn sem eru að útskrifast eftir sængurlegu og börn sem þurfa sérstakt eftirlit.
Dvalargjald er samkvæmt gjaldskrá Landspítala.
Sængurföt og morgunverður eða létt máltíð er innifalið í gjaldinu.
Matur og kaffi
Borðstofan er við við hliðina á vaktherbergi deildarinnar deildarinnar og er matur sóttur þangað.
Morgunverðarhlaðborð kl. 08:00-09:00.
Hádegisverður kl. 12:00.
Kaffi kl. 14:00 (meðlæti á borði í borðstofu).
Kvöldverður kl. 17:30.
Kvöldkaffi kl. 20:45 (meðlæti á borði í borðstofu).
Þess á milli er hægt að ná sér í snarl í borðstofu. Ísskápur fyrir eigin drykkjarföng/matvæli er í borðstofu, munið að merkja ykkur allan mat.
Sjálfssalar eru staðsettir í kjallara kvennadeildar og Barnaspítala og í Kringlu Landspítala.
Kaffistofa Barnaspítala Hringsins er opin frá kl. 7-14 alla virka daga. Þar er boðið upp á súpu, samlokur og létta rétti.
Rauðakrossbúðin í Kringlu Landspítalans er opin virka daga frá kl. 10-16 og 17:00-18:30 en um helgar frá kl. 14-16.
Salerni maka eða aðstandendur er að finna til móts við inngang deildarinnar til vinstri.
Hraðbanki er staðsettur í Kringlu Landspítalans.
Verið er að breyta fyrirkomulagi Ljáðu mér eyra. Ef konur/foreldar hafa þörf fyrir að ræða um upplifun fæðingar eða kvíða fyrir fæðingu er þeim bent á að hafa samband við ljósmóður á heilsugæslustöð.
Fósturgreining
Vandamál á meðgöngu
Keisaraskurður
- - Preparing for elective Caesareean Birth (enska)
Vandamál eftir fæðingu
Fósturlát og barnsmissir
Félagsráðgjöf
Félagsráðgjafar á kvennadeildum styðja sjúklinga og fjölskyldur þeirra við að takast á við ýmsa erfiðleika í tengslum við veikindi, meðgöngu og aðstæðum tengdum heilsufari. Þeir eru sem brú á milli spítalans og heimaumhverfis; fjölskyldulífs, heimilis og samfélags.
Hægt er að óska eftir tilvísun til félagsráðgjafa hjá sínum lækni eða ljósmóður.