Leit
Loka

Kvenlækningadeild - bráðamóttaka og göngudeild

Bráðaþjónusta fyrir kvensjúkdóma, krabbameinslækningar kvenna og konur sem þurfa að leita til kvennadeildar innan 14 daga frá aðgerð. Einnig göngudeildarþjónusta, getnaðarvarnaráðgjöf og móttaka vegna þungunarrofs.

Kvenlækningadeild - bráðamóttaka og göngudeildRS veira - sýkingarhætta

Vegna sýkingarhættu af RS-veiru eru allar heimsóknir barna yngri en 12 ára bannaðar á vökudeild, fæðingarvakt, meðgöngu- og sængurlegudeild og göngudeild mæðraverndar. Aðrar heimsóknir er takmarkaðar

Banner mynd fyrir Kvenlækningadeild - bráðamóttaka og göngudeild

Hafðu samband

OPIÐ08:00-16:00

Kvenlækningadeild - bráðamóttaka og göngudeild - mynd

Hér erum við

Hringbraut - Kvennadeildir 1. hæð B álma

Hagnýtar upplýsingar

Mikilvægt er að hafa samband við heilsugæslustöð eða lækni áður en komið er á bráðamóttöku kvenna þar sem nauðsynlegt er að hafa tilvísun frá lækni.
Tilvísunar er ekki þörf ef um er að ræða blæðingu eða verki á fyrstu 3 mánuðum meðgöngu.

Á móttökudeild kvenna:

 • Bráðaþjónusta fyrir kvensjúkdóma
 • Krabbameinslækningar kvenna
 • Þjónusta við konur sem þurfa að leita til kvennadeilda innan 14 daga frá aðgerð
 • Bráðaþjónusta vegna vandamála á fyrsta þriðjungi (fyrstu 12 vikum) meðgöngu
 • Móttaka vegna fóstureyðinga (mikilvægt að hafa samband við deildina og fá tíma)
 • Getnaðarvarnaráðgjöf
 • Göngudeildarþjónusta kvensjúkdómalækna
 • Ýmsar smáaðgerðir kvennadeildar svo sem. keiluskurðir í deyfingu

Frjósemistímabil kvenna spannar yfir 30 ár og ekki er óalgengt að ótímabær þungun verði einhvern tíma á þessu tímabili.  Það getur gerst fyrir alla og stundum þurfa pör eða kona að taka ákvörðun um að enda þungunina.

Á Íslandi er löggjöf sem heimilar að enda þungun fram að lokum 22. viku. Í lögum um þungunarrof (nr.43) stendur:

Kona, sem óskar þess, á rétt á að fá þungun sína rofna fram að lokum 22. viku þungunar. Þungunarrof skal ætíð framkvæmt eins fljótt og auðið er og helst fyrir lok 12. viku þungunar.

Þungunarrof er gert á sjúkrastofnunum og flestar á kvennadeild Landspítala.
Ef þú ert að íhuga að enda þungun geturðu leitað þangað.

Skref 1: Staðfesta þungun með þungunarprófi.
Skref 2: Hringja í símsvara kvennadeildar 543 3600

 • Leggja inn skilaboð þar sem þarf að taka fram nafn, kennitölu og símanúmer
 • Hringt verður til baka innan 48 klukkustunda virka daga á milli kl.13:00 og 16:00. Vinsamlega hafið símann við hendina.
 • Æskilegt er að vita hvenær fyrsti dagur síðustu blæðinga var.

 

Tvenns konar meðferð í boði

Þungunarrof er hægt að framkvæma á tvenns konar hátt, með lyfjum eða aðgerð og það fer eftir meðgöngulengd hvor leiðin er valin.

A. Þungunarrof með lyfjum er valin þegar meðgöngulengd er innan við 9 vikur. Hægt er að byrja meðferðina við 6. viku þegar lifandi fóstur hefur verið staðfest með sónarskoðun. Meðferðin getur oftast hafist að læknisskoðun lokinni. Þungunarrof með lyfjum er 3ja daga meðferð.

Dagur 1: Gefið er lyf sem stöðvar þungunina.
Dagur 2: Þennan dag getur byrjað að blæða og konan fengið tíðarverki en það er eðlilegt.
Dagur 3: Fjórar töflur eru settar í leggöng snemma að morgni og þarf konan að liggja útaf í 2 klukkustundir meðan lyfið er að leysast upp. Þetta lyf veldur m.a. samdrætti í leginu, blæðingu og verkjum. Blæðingar ættu að hefjast 3-4 klst síðar. Það er einstaklingsbundið hvað blæðir mikið en oftast eru þetta ríflegar tíðarblæðingar. Áður en töflunum er komið fyrir er mikilvægt að taka verkjalyf.

Þennan dag er mikilvægt að hafa einhvern fullorðin heima við ef eitthvað kemur upp á eins og gerst getur við allar meðferðir.

Meðferðinni er fylgt eftir af hjúkrunarfræðingi á kvenlækningadeild 21A og fær konan símanúmer sem hún hringir í um 6 klukkustundum eftir að töflurnar hafa verið settar í leggöng og fyrr ef hún þarf á því að halda. Í þessu símtali verður líðan konunnar metin ásamt blæðingu og verkjum.

Að 5 vikum liðnum er mikilvægt að gera þungunarpróf heima og hringja á kvenlækningadeild 21A og tilkynna niðurstöðu.

B. Þungunarrof með aðgerð 

Frá 9. til 12. viku er mælt með aðgerð. Eftir læknisskoðun fær konan tíma í aðgerð sem getur orðið að nokkrum dögum eða viku liðinni.

Að morgni aðgerðardags þarf að taka inn töflur til að undirbúa leghálsinn fyrir aðgerð.

Kona kemur síðan snemma morguns fastandi á kvenlækningadeild 21A og er aðgerðin gerð samdægurs.

Aðgerðin er gerð í stuttri svæfingu og tekur 5-10 mínútur.

Ferlið frá því að konan fer á skurðstofuna og þar til hún kemur aftur á deild tekur um 1 klukkustund.

Þegar konan er búin að jafna sig fer hún heim en má ekki keyra sjálf vegna svæfingarlyfjanna.

Yfirleitt er ekki þörf á frekari eftirliti þegar um aðgerð er að ræða

 

Þjónusta félagsráðgjafa

Á öllum tímum og í öllum samfélögum hafa einstaklingar jafnt sem pör stundum ekki vilja, getu eða aðstæður til að ala barn.
Þungunarrof eru því nauðsynleg til að aðstoða fólk í þessum aðstæðum.
Félagsráðgjafar á kvennadeildinni hafa verið konum til aðstoðar varðandi Þungunarrof í rúm 40 ár, frá því að núverandi löggjöf tók gildi.  Eðli aðstoðarinnar hefur verið að styðja konuna eða parið í sínu ákvörðunarferli.

Félagsráðgjafar taka ekki ákvörðun fyrir konuna eða parið.

Af hverju að fara í ráðgjöf? 

Allir eru velkomnir til félagsráðgjafa á kvennadeildinni í samtal.  Nú starfa þrír félagsráðgjafar á kvennadeildinni.

Félagsráðgjafar vinna eftir heildarsýn og virðingu við einstaklinginn þar sem honum er veitt hlutlaus ráðgjöf og stuðningur í erfiðum aðstæðum.  Enginn getur tekið þessa ákvörðun fyrir aðra manneskju en oft er gott að tala við hlutlausan aðila sem getur hjálpað við að skilja kjarnann í aðstæðunum.

Stundum er parið ekki sammála hvaða ákvörðun á að taka og þá er nauðsynlegt að koma og ræða við félagsráðgjafa.

Ef um er að ræða andlega vanlíðan þá er gott að koma og ræða við félagsráðgjafa sem hefur sérþekkingu á hvernig best er að aðstoða þegar þung ákvörðun bætist við vanlíðan sem fyrir er.

Ekki þarf að greiða fyrir viðtalið hjá félagsráðgjafa.

Oftast kemur konan eða parið í viðtal við félagsráðgjafa þegar hún/þau eru í ákvörðunarferlinu, áður en þau fara í læknisskoðun á kvennadeildinni. Stundum nægir eitt viðtal en stundum eru þau fleiri, það er ákveðið í samráði við konuna/parið. Stundum óska konan/parið eftir viðtölum eftir þungunarrof og er það sjálfsagt. 

 

Andleg líðan eftir þungunarrrof

Það er ljóst að enginn vill þurfa að taka svona ákvörðun en stundum eru aðstæður þannig að þó að vilji sé fyrir hendi þá bjóða aðstæður ekki upp á barn.

Í viðamikilli yfirlitsgrein um rannsóknir á andlegri líðan kvenna sem þurfa að fara í þungunarrrof er sýnt fram á að 40-45% kvenna upplifa kvíða og vanlíðan á meðan þær eru að ákveða hvort þær ætla að enda meðgönguna eða halda henni áfram. En mánuði eftir þungunarrrof hefur bæði kvíði og vanlíðan marktækt minnkað, í 8-32% eftir rannsóknum (Bradshaw og Slade 2003).

Að taka þessa ákvörðun krefst þess að viðkomandi kona eða par þurfa að skoða vel og vandlega aðstæður sínar og byggja ákvörðun sína á eigin mati á aðstæðunum.

Langtímarannsóknir hafa sýnt fram á að hjá andlega heilsuhraustum konum fylgi andleg vanlíðan almennt ekki eftir þungunarrrof en ef konan hefur undirliggjandi kvíðaröskun eða þunglyndi er það áhættuþáttur fyrir langtíma vanlíðan (Bradshaw o.fl. 2003).

Einnig hefur komið fram að konur finna fyrir létti eftir þungunarrrofið (Bradshaw o.fl.2003) en þær geta átt erfitt með að leyfa sér það vegna fordóma í samfélaginu.

 

Skylt efni

Bradshaw, Z.og Slade,P. (2003). The effects of induced abortion on emotional experiences and relationship: A critical review of the literature. Clinical psychology review, 23, 929-958.
Lög um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir og um fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerð. nr. 25/1975

Panta tíma

Hægt að panta tíma í síma 543 3266 eða 543 3265 alla virka daga.

Staðsetning 

Ráðgjöf um getnaðarvarnir er staðstett á kvennadeild Landspítala á 1. hæð. Þar er biðstofa. 

Móttakan er opin miðvikudaga kl. 16:00-19:00.

Upplýsingar 

Þú getur hringt í síma 543 3266 eða 543 3265 með spurningar og það verður haft samband við þig næst þegar móttakan er opin.

Ráðgjöf um getnaðarvarnir er einkum ætluð:

 • konum á öllum aldri sem hafa farið eða eru að fara í þungunarrof (fóstureyðingu) á kvennadeild Landspítala 
 • stúlkum 20 ára og yngri 

Þeim sem mæta í ráðgjöfina er velkomið að koma með öðrum; móður, vinkonu, kærasta/maka...
Í ráðgjöfinni veitir sérfræðingur í kynheilbrigði fræðslu og ráðgjöf um getnaðarvarnir.

Tilgangur ráðgjafar að finna þá getnaðarvörn sem best hentar þér/ykkur 

 • Spurt er um þætti er varða heilbrigði sem skipta máli við val á getnaðarvörn 
 • Lögð er áhersla á upplýsta ákvörðun um þá getnaðarvörn sem best getur hentað og byggir á þeim upplýsingum sem eru veittar í ráðgjöfinni
 • Fjallað er um þær getnaðarvarnir sem helst koma til greina miðað við heilbrigðisupplýsingar 
 • Skoðaðar eru sérþarfir hvers og eins í sambandi við val á getnaðarvörn
 • Veittar eru upplýsingar um þá getvaðarvörn sem valin er
 • Ráðgjöfin er veitt í algjörum trúnaði
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir
Af hverju ekki?