Leit
Loka

Vísindi á vordögum 2023

Vísindi á vordögum er uppskeruhátíð vísindastarfs á Landspítala sem hefur verið haldin árlega í 23 ár.

Banner mynd fyrir  Vísindi á vordögum 2023

Tilgangur Vísinda á vordögum hefur verið að auka sýnileika umfangsmikils vísindastarfs á Landspítala.

Á Vísindum á vordögum 2023 er að venju litið yfir nýliðið ár í vísindastarfi á Landspítala, borið saman við fyrri ár og spáð í spilin. Framúrskarandi vísindafólk er heiðrað, verðlaun veitt og styrkir formlega afhentir.

 

Fjöldi þeirra sem heimsóttu vefsíðu veggspjalda mældist mun meiri en á hefðbundinni veggspjaldasýningu. Þó má ekki draga úr mikilvægi þess að hitta og ræða við vísindamennina sjálfa og fræðast um verk þeirra. Enn verðum við að bíða aðeins með það því að veggspjaldakynningin verður nú aftur á rafrænu formi. Í ár verða hins vegar einnig hengd upp veggspjöld þeirra vísindamanna sem það kjósa fyrir framan Hringsalinn, gestum og gangandi til skemmtunar og fróðleiks, og til marks um grósku vísindanna á Landspítala.

Tími er afstæður og hvort hann er langur eða stuttur fer eftir því í hvaða samhengi hann er settur. Vísindi á vordögum hefur verið árlegur viðburður á Landspítala í meira en tvo áratugi og dagskráin með nokkuð hefðbundnu sniði öll árin. Í sögu Landspítala eru tveir áratugir langur tími, miklar breytingar hafa orðið á starfseminni á þessum tíma. Það á að einhverju leyti líka við um vísindastarfið á Landspítala, það hefur tekið breytingum og það hefur átt sínar hæðir og lægðir. Það er ýmislegt sem bendir til þess að vísindastarfið hafi verið og sé í einhvers konar lægð. Að minnsta kosti ef horft er til fjölda tilvitnana í þær vísindagreinar sem birtar eru í nafni spítalans.

Ef horft er til fjölda viðburða innan spítalans sem tengjast vísindum þá er sagan önnur. Undanfarinn áratug eða svo hefur það aukist að svið, deildir og fagstéttir halda sína eigin vísindaviðburði og flétta vísindin saman við klíníska starfsemi innan spítalans. Það er mikið fagnaðarefni og endurspeglar áhuga starfsmanna spítalans á að stunda vísindi og efla þannig klínískt starf innan spítalans. Þar má nefna Bráðadaginn, Sameiginlegt vísindaþing, Geðdaginn og vísindatengda viðburði haldna af Félagi íslenskra lyflækna og Félagi íslenskra geðlækna. Þá er samt ekki allt talið.

Þrátt fyrir þetta hafa Vísindi á vordögum haldið sérstöðu sinni og mikilvægi, einkum sem viðburður og sérstök uppskeruhátíð fyrir allt vísindafólk starfandi á spítalanum. Meginþema viðburðarins frá upphafi hefur verið úthlutun vísindastyrkja og kynning áhugaverðra vísindaverkefna. Í ár verður úthlutað 118 milljónum úr Vísindasjóði Landspítala og úr Minningargjafasjóði Landspítala Íslands (MLÍ) 7.5 milljónum.

Kynningar á vísindaverkefnum og niðurstöðum þeirra verða fjölmargar, bæði í formi fyrirlestra og veggspjalda: Heiðursvísindamaður Landspítala, Ungur vísindamaður á Landspítala, verðlaunahafi úr sjóði Árna Kristinssonar og Þórðar Harðarsonar, og tveir af styrkhöfum úr sjóði MLÍ. Öll fimm kynna vísindaverkefni með fyrirlestrum. Til viðbótar verða 29 önnur vísindaverkefni kynnt með veggspjöldum á hátíðinni, sem fá að hanga uppi að loknum viðburði fyrir framan hátíðarsal Landspítala, Hringsalinn. Þannig fær starfsfólk spítalans, skjólstæðingar hans og gestir tækifæri til að kynna sér efni þeirra.

Vísindi á vordögum snýst ekki síður um mikilvægi þess að gefa ungu og upprennandi vísindafólki tækifæri til að þreyta frumraun sína í kynningu á vísindaverkefnum sínum. Í þessu fylgiriti Læknablaðsins er að finna ágrip veggspjaldanna sem verða kynnt á Vísindum á vordögum í ár. Rannsóknaefnin eru fjölbreytt eins og áður og endurspegla vel vísindaflóruna á Landspítala. Öll ágrip sem bárust voru metin af nefnd sem skipuð var meðlimum Vísindaráðs Landspítala. Eins og áður voru valin verðlaunaágrip. Um er að ræða peningaverðlaun sem nýta á til kynningar á vísindaverkefnunum á erlendri vísindaráðstefnu. Í ár voru verðlaunuð tvö ágrip; „Árangur meðferðar og afdrif minnstu fyrirburanna á Íslandi 1990-2019“, þar sem fyrsti höfundur er Þórður Björgvin Þórðarson, og „Dietary fish oil enhances early hallmarks of inflammation resolution in antigen-induced peritonitis“, þar sem fyrsti höfundur er Kirstine Nolling Jensen.

Fyrir hönd Vísindaráðs Landspítala eru hér færðar þakkir til allra sem hafa lagt hönd á plóg við undirbúning dagskrár Vísinda á vordögum fyrir þeirra mikilsverða framlag. Sérstaklega viljum við þakka fyrirlesurum, höfundum ágripa og kynnum veggspjalda. Án þeirra væri enginn viðburður, engin uppskeruhátíð.

Rósa Björk Barkardóttir, formaður Vísindaráðs Landspítala


Mikilvægi rannsókna og nýsköpunar hefur aldrei verið augljósara

Þegar sagan er skoðuð sést að kreppur eru oft aflvaki breytinga. Í heimsfaraldri COVID-19 var gríðarlegum fjármunum varið til rannsókna og nýsköpunar til að koma heimsbyggðinni til bjargar. Ein áhrifamesta kraftbirting þessarar stefnubreytingar eru bóluefnin sem þróuð voru gegn sjúkdómnum, sem björguðu um 20 milljónum mannslífa á fyrstu 12 mánuðunum eftir að þau voru tekin í notkun. Ákvörðunin reyndist heilladrjúg því að þessi nýju bóluefni gerðu heilbrigðisyfirvöldum víða um heim kleift að taka skrefið fyrr til baka, til eðlilegra lífs, og standa þannig vörð um hagsmuni einstaklinga og samfélaga. 

Einnig voru þróuð öflug lyf með hraði til hagsbóta fyrir sjúklinga en veiran hefur reynst fljót að bregðast við með ónæmum afbrigðum og baráttan mun því halda áfram. Í þeirri baráttu munu vísindalegar rannsóknir og þekking skipta meginmáli. Nú þegar er orðið ljóst að þróun mRNA tækninnar sem var nýtt við gerð bóluefnanna muni auðvelda okkur að búa til öflug bóluefni gegn öðrum smitsjúkdómum í framtíðinni. Einnig bendir margt til að þessi tækni muni jafnframt hafa þann óvænta en ánægjulega ávinning í för með sér að bæta meðferð margra annarra kostnaðarsamra sjúkdóma s.s. hjarta- og æðasjúkdóma og illkynja sjúkdóma. Þessi reynsla okkar undanfarin þrjú ár minnir því enn á að rannsóknir og nýsköpun margborga sig en jafnframt þarf langtímasýn stjórnvalda, fjármagn og þolinmæði að koma til.

Á meðan starfsmenn heilbrigðiskerfisins fengust við COVID-19 sátu sum önnur verkefni á hakanum, ekki aðeins margar valkvæðar aðgerðir líkt og liðskiptaaðgerðir heldur virðist sem vísindaleg virkni hafi haldið áfram að gefa eftir, a.m.k. ef marka má tölur um fjölda birtinga starfsmanna spítalans í erlendum fræðitímaritum sjá mynd 1. Þetta er þó líklega ekki tengt COVID-19 heldur framhald á þróun sem því miður á sér lengri aðdraganda eins og sést á myndinni. Starfsmenn Landspítala halda þó áfram að laða að sér meistara- og doktorsnema en fjöldi þeirra helst í horfinu frá fyrra ári eða lækkar lítillega (mynd 2). Svipuð mynd sést þegar litið er til veittra leyfa af hálfu siðanefnda en fjöldi leyfa er vísbending um fjölda áformaðra vísindarannsókna (mynd 3).

Fjármagn innlendra styrkja er á uppleið í krónum talið en lækkun á erlendum vísindastyrkjum á sama tíma er sérstakt áhyggjuefni (mynd 4). Þegar nánar er rýnt í tölur um Vísindasjóð Landspítala sést að sókn eftir styrkjum virðist hafa dregist saman, þrátt fyrir aukið fjármagn sem e.t.v. ber vott um tíma- og aðstöðuleysi starfsfólks. Af þessum tölulegu gögnum má draga þá ályktun að kyrrstaða sé ríkjandi hvað varðar rannsóknarstarf innan háskólaspítalans, þrátt fyrir að flestum sé orðin ljós nauðsyn þess að bæta þar úr. Til að geta veitt heilbrigðisþjónustu í fremstu röð er lykilatriði að unnt sé að flétta saman klínískt starf og rannsóknir. Það skapar nýja þekkingu en er jafnframt mikilvæg hagnýt aðgerð til að auka gæði þjónustunnar, bæta öryggi sjúklinga og draga úr brottfalli starfsfólks. Rannsóknir eru spítalanum lífsnauðsynlegt vítamín! Þörfin fyrir vel menntað heilbrigðisstarfsfólk fer vaxandi um heim allan og ef við viljum ekki dragast aftur úr þarf að bregðast við með því að styrkja kennslu og rannsóknir á þeim stöðum þar sem heilbrigðisþjónusta er veitt, eins og á háskólasjúkrahúsi okkar Íslendinga.

Sú þróun sem sést í gröfunum sem hér eru sýnd speglast jafnframt í lækkandi gengi heilbrigðisvísinda við Háskóla Íslands á alþjóðlegum matslistum á árinu 2022 og tengist sílækkandi framlögum hér á landi til menntunar nema í sumum þessara greina. Sú þróun vekur óneitanlega furðu því á sama tíma er mikið innlent fjármagn flutt úr landi til að byggja upp deildir og ráða öfluga kennara til erlendra háskóla sem sinna kennslu í grunnnámi í læknisfræði! Er skynsamlegt flytja grunnmenntun í heilbrigðisvísindum úr landi? Að mínu mati er þessi stefna hvorki skynsamleg né sjálfbær nálgun á viðfangsefnið. Á síðasta ári hvöttu skýrsluhöfundar McKinsey til að sett yrði aukið fjármagn til vísindastarfs á spítalanum, eftir að sýnt var fram á að innan við 1% af rekstrarfé rennur til þessa mikilvæga hlutverks. Það hlutfall er aðeins brot af því sem sambærilegar stofnanir erlendis hafa úr að spila. Með nýlegum skipuritsbreytingum sem komu til framkvæmda á haustmánuðum 2022 var málaflokkurinn færður beint undir forstjóra og endurspeglar sú breyting aukna áherslu á rannsóknir og vísindi innan spítalans. Það mun vonandi leiða til bættrar fjármögnunar og að bjartari tímar fari senn í hönd.

Mynd1:

Ritrýndar greinar starfsmanna LaNDSPÍTALA 2017-2022

Mynd 2:

FJÖLDI NÝRRA LEYFA TIL RANNSÓKNA 2017-2022

Mynd 3:

VÍSINDASTYRKIR STARFSMANNA LANDSPÍTALA 2017-2022

Mynd 4:

Fjöldi doktors- og meistaranema árin 20117-2022

Hlutverk Landspítala er þríþætt; Að veita heilbrigðisþjónustu, skapa nýja þekkingu með rannsóknum og mennta heilbrigðisstarfsfólk. Nauðsynlegt er að haldið sé vel utan um þá grunnstoð sem vísindastarfið er enda er það deginum ljósara að vísindi auka fagmennsku, gæði og öryggi og eru forsenda framþróunar í heilbrigðisþjónustu og menntun starfstétta.

Starfsmenn vísindadeildar hafa til margra ára tekið saman árlegt yfirlit um vísindastarf á Landspítala og birtir hina árlegu samantekt á Vísindum á vordögum ár hvert. Gagna sem eru lýsandi fyrir virkni í vísindum s.s. birtingar vísindagreina, styrkfjárhæðir til vísindarannsókna, fjöldi nýrra vísindarannsókna, fjöldi meistara- og doktorsnema er víða aflað og er yfirlitið unnið í samstarfi við forstöðumenn og forsvarsmenn fræðisviða og fræðigreina auk tengiliða.  Regluleg úttekt á vísindastarfinu og niðurstöður hennar er mikilvægur þáttur í að meta árangur vísindastefnu Landspítala á hverjum tíma auk þess sem yfirgripsmikil þekking á áhrifum aðgerða í þágu vísindastarfs næst.

Yfirlit 2022:

 

Sjá einnig yfirlit síðustu ára: 

Safn yfirlita: Yfirlitsskýrslur

Tilgangur sjóðsins er að styðja við vísindastarf starfsfólks Landspítala með því að hvetja vísindafólk til að birta rannsóknir sínar í erlendum tímaritum með háan áhrifastuðul og verja tíma sínum í leiðandi hlutverki í metnaðarfullum rannsóknarverkefnum. Umsækjendur þurfa að vera fyrsti eða síðasti höfundur á vísindagrein sem lýsir rannsóknaniðurstöðum verkefna sem unnin eru á Landspítala og eru merktar honum eins og fram kemur í 2. grein í reglum sjóðsins. Starfsmenn í a.m.k. 50% starfi geta sótt í sjóðinn. Ef fyrsti og síðasti höfundur birtrar greinar eru báðir starfsmenn eiga þeir báðir kost á að sækja um í sjóðinn. Skilyrði fyrir styrkveitingu er að vísindagreinin hafi birst í viðurkenndu ritrýndu erlendu fagtímariti og fer upphæð styrks eftir flokki tímarita eftir áhrifastuðli tímarits. Styrkir sem veittir eru úr sjóðnum eru ekki bundnir við að greiða niður birtingarkostnað heldur ræður styrkhafinn hvernig hann nýtir styrkinn. Dagleg umsýsla sjóðsins er í höndum verkefnastjóra Vísindaráðs hjá Vísindadeild.

Árið 2022 bárust sjóðnum 40 umsóknir um styrk og voru 29 þeirra afgreiddar á árinu. Heildarupphæð veittra styrkja úr sjóðnum var 2.725.000 krónur og þar af meira en 90% vegna birtinga í tímaritum í flokki A; tímarit í yfir 75% flokk áhrifastuðuls (Q1). 8 umsóknum um styrk var hafnað af stjórn sjóðsins. Helstu ástæður höfnunar voru að um var að ræða yfirlitsgrein sem hljóta ekki styrk skv. reglum sjóðsins, ekki eru styrktar fleiri en 3 greinabirtingar á ári frá sama höfundi, aldur greinar samræmist ekki reglum sjóðsins eða höfundur greinar tengir sig ekki við Landspítala á greininni.

Birtingasjóður-yfirlit styrkúthlutunar 2022

 


Á vefsíðu Landspítala er að finna ýmsar hagnýtar og fræðandi upplýsingar um vísindastarfsemina á spítalanum.

 

Allar eldri fréttir
 
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir
Af hverju ekki?