Leit
Loka

Ársskýrsla - Vísindi á vordögum 2021

Árleg uppskeruhátíð vísinda á Landspítala. - „Vísindi á vordögum er yfirskrift sýningar á veggspjöldum og kynningum á rannsóknarverkefnum starfsfólks Landspítala“ segir í auglýsingu á fyrstu Vordögunum árið 2001.

Banner mynd fyrir  Ársskýrsla - Vísindi á vordögum 2021

Tilgangur hátíðar var að auka sýnileika þess umfangsmikla vísindastarfs sem þá var unnið á Landspítala samhliða ársfundi stofnunarinnar. Nú eru því liðin 20 ár af árlegri uppskeruhátíð vísinda, 20 ár af vinnu við kynningu og framgang á vísindastarfi við Landspítala, 20 ár af úthlutun styrkja úr Vísindasjóði og 20 ár af samantektum og stefnumótun í vísindastarfi.

Á Vísindum á vordögum 2021 er að venju staldrað við og litið yfir nýliðið ár vísinda á Landspítala. Vísindauppskera liðins ársins er borin saman við fyrri ár og spáð í spilin. Famúrskarandi vísindafólk er heiðrað, verðlaun veitt og styrkir formlega afhentir.

Vísindaráð Landspítala vonar að sem flestir fái notið beinnar útsendingar af hátíðinni.

 

Þrjú veggspjöld verðlaunuð á Vísindum á vordögum 2021

Þrjú bestu ágrip veggspjalda á uppskeruhátíð vísindastarfs á Landspítala, Vísindi á vordögum, í Hringsal 28. apríl 2021, voru verðlaunuð sérstaklega.

Verðlaunahafarnir voru Auður Anna Aradóttir Pind, Arsalan Amirfallah og Telma Huld Ragnarsdóttir.

Verðlaunin eru 100 þúsund krónur í formi kynningar/ferðastyrks á verkefnum sínum. Verðlaunahafar héldu örfyrirlestur um verkefnin sín.
Verðlaunaágrip voru valin úr 28 innsendum ágripum vísindarannsókna árið 2021. Vísindaráð hafði veg og vanda við mat ágripa sem bárust og velja verðlaunahafana.

Auður Anna Aradóttir Pind: Tjáning á APRIL, lifunarboði plasmafrumna, er takmörkuð í beinmerg nýburamúsa

Auður Anna Aradóttir Pind er doktorsnemi í ónæmisfræði við læknadeild Háskóla Íslands. Auður er hluti af rannsóknarhópi prófessors Ingileifar Jónsdóttur og Stefaníu P. Bjarnarson, dósents. Auk Auðar eru doktorsnemarnir Jenny Molina og Poorya Foroutan Pajoohian í rannsóknarhópnum. Rannsóknir hópsins beinast einna helst að ónæmiskerfi nýbura og þróun á leiðum til að efla ónæmissvör þessa viðkvæma hóps við bólusetningum, meðal annars með notkun ónæmisglæða. Ónæmisglæðar eru efni sem geta aukið ónæmissvar við bólusetningu og breytt eðli þess. Í rannsóknum sínum notar hópurinn nýburamýs sem bólusetningarmódel en 7 daga gamlar mýs samsvara vel nýburum manna hvað varðar þroskun ónæmiskerfisins. Mótefnasvörun ungviðis við bólusetningum er bæði lág og skammlíf, meðal annars vegna takmarkaðrar lifunar mótefnaseytandi plasmafrumna í beinmerg. Eftir sérhæfingu B frumna yfir í plasmafrumur í annars stigs eitilvefjum ferðast þær yfir í beinmerg þar sem þær viðhaldast í langan tíma ef þær fá næg lifunarboð frá umhverfi sínu. Sýnt hefur verið að sameindin APRIL og mögulega einnig boðefnið IL-6 geti stuðlað að langlífi plasmafrumna. Í rannsókn sinni skoðaði Auður aldursháða þroskun á frumuhópum í beinmerg og tjáningu þeirra á lifunarboðum fyrir plasmafrumur, APRIL og IL-6. Rannsóknin er sú fyrsta sinnar tegundar þar sem kannað er hvaða frumuhópar eru mikilvægastir í seytun lifunarboða og áhrif aldurs á tjáningu boðanna. Í ljós komu ýmsar takmarkanir í beinmerg ungra músa í samanburði við þær fullorðnu. Þar bar helst að APRIL tjáning meðal beinmergsfrumna var verulega takmörkuð hjá yngri músum en tíðni og fjöldi APRIL+ frumna; eósínófíla, makrófaga, megakarýócýta, mónócyta og eitilfrumna var marktækt lægri í einnar, tveggja og þriggja vikna gömlum músum en fullorðnum músum. Aftur á móti virtist tíðni IL-6+ frumna hærri í einnar og tveggja vikna gömlum músum en í fullorðnum músum. Rannsóknin varpar ljósi á takmarkanir í líffræðilegum ferlum ónæmiskerfis ungviðis, sérstaklega tjáningu APRIL í beinmerg, sem er eitt aðal lifunarboð plasmafrumna og mikilvægt er að ræsa við bólusetningu til að framkalla öflugt, viðvarandi og vernandi ónæmissvar í nýburum.

Arsalan Amirfallah: Hsa-miR-21-3p er áhrifagen í brjóstakrabbameini

Verðlaunaverkefni Arsalans Amirfallah lýsir niðurstöðum hluta af doktorsverkefni hans við Háskóla Íslands, sem hann hefur unnið að á meinafræðideild Landspítala. Doktorsverkefnið hófst í byrjun árs 2016 og snýr að skilgreiningu nýrra áhrifagena brjóstakrabbameins. Árið 2019 birti hann grein úr rannsóknarverkefni sínu sem heitir High expression of the vacuole membrane protein (VMP1) is a potential marker of poor prognosis in HER2 positive breast cancer. Vinnur hann að annarri grein ásamt leiðbeinanda sínum Ingu Reynisdóttur, meinafræðideild Landspítala, sem verður send til vísindatímarits í lok þessa mánaðar. Er það uppistaða verðlaunaverkefnisins. Hún lýsir microRNA, sem kallast miR-21-3p, og tengingu þess við batahorfur brjóstakrabbameinssjúklinga og áhrifum á boðleiðir sem stjórna framvindu krabbameins. Arsalan hefur kynnt niðurstöður doktorsverkefni síns á sex innlendum og fimm erlendum ráðstefnum. Hann ver doktorsverkefnið sitt í júní næstkomandi. Arsalan lauk námi í dýralækningum (Doctorate of Veterinary Medicine) 2005 frá Urmia Islamic Azad háskólanum, sem er í heimabæ hans Urmia í Íran. Meistaragráðu í Basic Oncology lauk hann 2013 frá Dokuz Eylül háskólanum í Izmir í Tyrklandi þar sem hann skoðaði eiginleika ensíma sem hvata niðurbroti krabbameinslyfja. Hann vann að tengdum verkefnum á Ítalíu og í Þýskalandi áður en hann kom til Íslands í lok árs 2015 til að hefja doktorsverkefni sitt. Eins og áður sagði þá vinnur hann rannsóknarverkefni sitt á Landspítala, við frumulíffræðieiningu meinafræðideildar undir leiðsögn Ingu Reynisdóttur. Samstarfsfólk þeirra í þessu vísindaverkefni eru Aðalgeir Arason, Bylgja Hilmarsdóttir, Bjarni A. Agnarsson, Óskar Þ. Jóhannsson og Rósa Björk Barkardóttir, öll starfsmenn Landspítala. Aðrir núverandi starfsmenn á meinafræðideild Landspítala sem koma að verkefnunum eru Edda S. Freysteinsdóttir, Guðrún Jóhannesdóttir og Sigrún Kristjánsdóttir. Einnig hefur Hildur Knútsdóttir, lífupplýsingafræðingur hjá Johns Hopkins háskóla í Bandaríkjunum, verið í samstarfi við rannsóknahópinn um microRNA verkefnið og hefur hennar þáttur í þessu verkefni verið mikill. Arsalan þakkar kærlega fyrir að verkefninu sé sýndur sá heiður að vera valið til verðlauna.

Telma Huld Ragnarsdóttir: Bráður nýrnaskaði á bráðamóttöku: framsýn, tilfellamiðuð rannsókn

Markmið rannsóknarinnar er að varpa ljósi á helstu orsakir og áhættuþætti fyrir bráðum nýrnaskaða á bráðamóttöku (BMT). Við bráðan nýrnaskaða (BNS) verður hröð versnun á nýrnastarfsemi, oftast á klukkustundum eða dögum. BNS tengist verri horfum og hefur verið rannsakaður ítarlega hjá inniliggjandi sjúklingum en mun minna er vitað um BNS utan spítala. Þetta er framsýn, tilfellamiðuð rannsókn þar sem kreatíníngildi allra sjúklinga er leituðu á BMT Landspítala á ákveðnu tímabili voru metin með tilliti til BNS. Öllum sjúklingum sem uppfylltu skilmerki fyrir BNS var boðin þátttaka í rannsókninni ásamt pöruðum viðmiðum og voru þátttakendur spurðir um heilsufarssögu og lyfjanotkun, þ.m.t. notkun lausasölulyfja. Rannsókninni er ekki lokið en frumniðurstöður hennar sýndu að einstaklingar með BNS voru marktækt líklegri en viðmið til að hafa notað bólgueyðandi lyf án barkstera í vikunni fyrir komu á BMT, einkum slík lyf keypt án lyfseðils. Tengslin voru marktæk þó leiðrétt væri fyrir aðra þætti. Þessar niðurstöður benda til þess að slík lyf eigi mikilvægan þátt í myndun BNS meðal sjúklinga sem leita á BMT. Ítarlegar upplýsingar um mögulega fylgikvilla meðferðar ættu að vera kynntar við kaup slíkra lyfja án lyfseðils.
Telma Huld Ragnarsdóttir er sérnámslæknir í almennum lyflækningum á LSH og doktorsnemi við Háskóla Íslands. Leiðbeinendur verkefnisins er Ólafur Skúli Indriðason sérfræðilæknir í nýrnalækningum, Runólfur Pálsson sérfræðilæknir í nýrnalækningum, forstöðumaður Lyflækninga- og bráðaþjónustu og prófessor við Læknadeild Háskóla Íslands og Vicente Sanchez-Brunete Ingelmo sérfræðilæknir í bráðalækningum. Í rannsóknarhópnum eru einnig Margrét Kristjánsdóttir sérnámslæknir í lyflækningum, Gísli Gíslason læknanemi við Læknadeild Háskóla Íslands, Margrét Ólafía Tómasdóttir sérfræðingur í heimilislækningum og lektor við Háskóla Íslands og Ólafur Samúelsson sérfræðilæknir í öldrunarlækningum.




Árið 2020 er minnst um heim allan sem ár rafrænna funda, eitt af mörgum afsprengjum kórónuveirufaraldursins. Engin breyting hefur orðið í þeim efnum það sem af er árinu 2021 og virðist jafnvel sem rafrænt viðmót vísinda sé komið til að vera. Margt jákvætt er hægt að segja um það. Hæfni rafrænna samskipta vísindafólks og annarra fleygir fram og hraði upplýsingaflæðis og aðgengi eykst að sama skapi. Í fyrra var í fyrsta skipti brugðið á það ráð að vera með rafræna veggspjaldasýningu á uppskeruhátíð vísinda á Landspítala.

Fjöldi þeirra sem heimsóttu vefsíðu veggspjalda mældist mun meiri en á hefðbundinni veggspjaldasýningu. Þó má ekki draga úr mikilvægi þess að hitta og ræða við vísindamennina sjálfa og fræðast um verk þeirra. Enn verðum við að bíða aðeins með það því að veggspjaldakynningin verður nú aftur á rafrænu formi. Í ár verða hins vegar einnig hengd upp veggspjöld þeirra vísindamanna sem það kjósa fyrir framan Hringsalinn, gestum og gangandi til skemmtunar og fróðleiks, og til marks um grósku vísindanna á Landspítala.

Njótið vel.

Veggspjaldakynning fyrir árið 2021

Vísindi og heimsfaraldur nýrrar kórnónuveiru
Magnús Gottfreðsson, yfirlæknir, vísindadeild Landspítala og prófessor við læknadeild Háskóla Íslands

Magnús Gottfreðsson, yfirlæknir, vísindadeild Landspítala og prófessor við læknadeild Háskóla ÍslandsÁrsins 2020 verður vafalítið minnst í sögunni sem ársins sem heimsfaraldur nýrrar kórónuveiru herjaði grimmilega á alla heimsbyggðina. Jafnvel þótt núverandi faraldur COVID-19 sé langt frá því að vera yfirstaðinn nú í apríl 2021, hefur hann þegar kennt okkur margt. Í baráttu íslensks samfélags við faraldurinn hefur traust almennings gagnvart upplýsingum og ráðleggingum sérfræðinga, ásamt vísindalegri nálgun á viðfangsefnið skipt höfuðmáli. Án áreiðanlegra upplýsinga sem almenningur treystir verður ákvarðanataka ómarkviss og dýr. Faraldurinn afhjúpaði takmarkanir og veikleika Landspítala þegar fyrsta bylgja skall á hvað varðar mannskap, gjörgæslurými, fullnægjandi einangrunaraðstöðu og tækjabúnað til greiningar. Einnig skorti hér fullnægjandi búnað og þekkingu til raðgreiningar sýkla, sem er eitt mikilvægasta vopnið í baráttu við farsóttir, þar á meðal til smitrakningar. Sérstaka athygli vekur að slík aðstaða skuli enn ekki hafa verið byggð upp, þrátt fyrir að nauðsyn slíkrar uppbyggingar hafi orðið öllum ljós fyrir meira en ári síðan. Í reynd má segja að íslenskt heilbrigðiskerfi og samfélag hafi staðist prófraun heimsfaraldursins með miklum ágætum, en lengri tíma þarf til að sjá víðtækari heilsufars- og samfélagslegar afleiðingar, líkt og gildir um önnur áföll og kreppur. Yfirveguð vísindaleg vinnubrögð eru alger nauðsyn við aðstæður eins og þær sem skapast hafa um heim allan vegna COVID-19 og höfuðmáli skiptir að fullnægjandi mannskapur, þekking og tími sé til staðar til að sinna slíkum verkefnum.

Landspítali er einn stærsti vinnuveitandi fólks með doktorspróf á landinu. Þetta er starfsfólk sem hefur varið mörgum árum af ævi sinni í þjálfun til vísindarannsókna og margir brenna fyrir nýsköpun og rannsóknum. Mikilvægt er að því sé skapaður vettvangur til að halda áfram að vinna að rannsóknum meðfram klínískum störfum eftir að doktorsnámi lýkur. Það er sjúklingum og heilbrigðiskerfinu öllu til hagsbóta auk þess sem það viðheldur rannsóknarmenningu og elur upp framtíðarvísindamenn. Það vekur því áhyggjur að nokkur fækkun varð á birtingum vísindagreina í hópi starfsmanna spítalans á árinu 2020, einkum í erlendum vísindatímaritum og nam fækkunin tæpum 6% samanborið við árin á undan, mynd 1. Þessi niðurstaða er vonbrigði því hún gengur þvert á þau markmið sem spítalinn hefur sett sér, t.d. með starfsáætlun og vísindastefnu spítalans 2019-2024. Vert er að árétta að sú stefna gengur m.a. út á að auka fjárframlög til rannsókna og nýsköpunar. Fjölda leyfa sem siðanefndir veittu starfsmönnum spítalans fyrir nýjum vísindarannsóknum má sjá á mynd 2. Eins og sjá má á myndinni var fjöldi þeirra leyfa sem vísindasiðanefnd gaf út óbreyttur samanborið við fyrri ár en fækkun varð um nærri fjórðung í fjölda veittra leyfa frá siðanefnd heilbrigðisrannsókna á spítalanum. Líta má að fjölda umsókna og veittra leyfa sem sterka vísbendingu um rannsóknaráform til framtíðar og því er þessi fækkun áhyggjuefni og kallar á nánari skoðun. Er ástæðan of mikið álag á þá starfsmenn sem hefðu áhuga á að stunda rannsóknir eða fer virkum vísindamönnum á spítalanum fækkandi? Sams konar viðvörunarmerki má sjá þegar fjöldi umsókna um styrki úr vísindasjóði spítalans er skoðaður. Ef möguleikar starfsmanna til að sinna þessu mikilvæga hlutverki fer dvínandi boðar það ekki gott fyrir framtíð íslenskrar heilbrigðisþjónustu, enda fara rannsóknir, menntun og gæði klínískrar þjónustu saman. Jafnvel þótt öflugt og metnaðarfullt fagfólk sé til staðar þarf fullnægjandi fjármögnun og tími til rannsóknastarfsins að koma til. Á mynd 3 má sjá samantekt á upphæðum þeirra vísindastyrkja sem starfsmenn Landspítala hafa aflað undanfarin sex ár. Á árinu 2020 var heildarupphæðin óbreytt frá árinu áður, - vel á fimmta hundrað milljóna króna var aflað alls. Styrkir erlendis frá drógust hins vegar saman en innlendir styrkir jukust að sama skapi. Ráðstöfunarupphæð vísindasjóðs Landspítala var óbreytt. Á árinu 2019 var samþykkt vísindastefna fyrir Landspítala þar sem fram kom að stefnt skuli að því að því að 3% af veltu renni til vísindastarfs árið 2024. Þetta hóflega markmið er hið sama og samþykkt var árið 2007 en efndir urðu engar í það skiptið. Nú er gerð önnur tilraun. Forsenda þess að við náum settu marki er að vísindahlutvert spítalans sé fjármagnað sérstaklega. Tíminn leiðir í ljós hvort efndir verða betri nú. Mikilvægi Landspítala sem kennslustofnunar má glögglega sjá á mynd 4, en hún sýnir fjölda meistara- og doktorsnema sem stunda nám sitt að hluta eða heild á spítalanum. Allar þessar tölur minna á mikilvægi spítalans fyrir vísindarannsóknir, mönnun og nýliðun heilbrigðiskerfisins til framtíðar. Sagnfræðingar þreytast ekki á að benda á að framfarir eigi sér oft stað í kreppum og að þær séu ekki línulegar heldur komi þær í stökkum. Það sama gildir hins vegar um afturför, hún er sjaldnast línuleg eða algerlega fyrirsjáanleg. Vonandi endurspegla þessar tölur fyrir árið 2020 tímabundið álag fremur en afturför. Mikilvægi rannsókna og gagnreyndar þekkingar hefur líklega aldrei verið almenningi og ráðamönnum ljósara en nú.

      
Rósa Björk Barkardóttir

Enn er komið að Vísindi á vordögum, okkar árlegu uppskeruhátíð vísindastarfs á Landspítala. Þetta er í 21. skipti sem þessi viðburður er haldinn á Landspítala og í annað sinn sem hann er haldinn á rafrænu formi í skugga kórónuveirufaraldurs. Reynslan af rafræna forminu frá í fyrra er góð. Allt efni hátíðarinnar var sýnt í beinu streymi og einnig tekið upp og allt efnið sett á sérstaka vefsíðu, ásamt veggspjöldunum sem einnig voru send inn á rafrænu formi. Þannig gafst mörgum tækifæri til að taka þátt með því að fylgjast með útsendingunni og einnig hafa margir nýtt sér vefsíðu hátíðarinnar til að hlusta á fyrirlestra og skoða veggspjöldin sem kynnt voru. Veggspjöldin hafa fengið mun meiri skoðun en ef þau hefðu einungis verið kynnt á pappírsformi í tengslum við viðburðinn sjálfan. Rafræna fyrirkomulagið er góð viðbót við hefðbundna formið og það er komið til að vera.

Vegna faraldursins hefur klínískt álag sjaldan verið meira á spítalanum. Ekki bara á það við um starfsfólk spítalans sem kemur beint að því að sinna smituðum einstaklingum. Líka hinna sem þurftu að skiptast á að koma til vinnu til að minnka hættu á að starfsemin á vinnustaðnum þeirra legðist alveg niður ef upp kæmi smit. Eðlilega leiddi þetta ástand til þess að minni tími gafst til að sinna vísindum en ella. Það endurspeglaðist í töluvert færri umsóknum í Vísindasjóð spítalans en í venjulegu árferði. Fjöldi umsókna í ár var 85 sem er 20% færri umsóknir en í fyrra og 33% færri en þær sem komu inn árið 2019. Sama á við um fjölda á innsendum ágripum í tengslum við veggspjaldakynningu hátíðarinnar. Í ár bárust 28 ágrip sem eru óvenju fá og hafa þau líklegast aldrei verið færri þessi 21 ár sem hátíðin hefur verið haldin. Í fyrra var fjöldi innsendra veggspjalda 49 og 50 árið á undan. Kórónuveiran er líklegasta skýringin á þessari rýru uppskeru vísindastarfsemi Landspítala á liðnu ári.

Jákvæðu fréttirnar eru þær að styrkirnir sem sjóðurinn getur veitt hverju vísindaverkefni fyrir sig hafa aldrei verið hærri og er meðalupphæð styrkumsókna í ár rúmlega 1,1 milljón. Eins og sjá má á meðfylgjandi stöplariti hefur meðalupphæð styrkja sem úthlutaðir eru á Vísindi á vordögum hækkað um tæp 60% á síðustu fimm árum.

Jafnframt hefur hlutfall þess fjármagns sem úthlutað er til verkefna miðað við þá upphæð sem sótt var um hækkað nokkuð. Það er mikilvægur þáttur í því að áætlanir verkefna standist og þannig auka líkurnar á því að niðurstöður birtist tímanlega í góðu vísindariti.

Mikilvægi vísindastarfsemi á Landspítala er óumdeild, með henni verður til þekking sem kemur skjólstæðingum spítalans og vísindasamfélaginu til góða. Vísindarannsóknir eru mikilvægur þáttur þess að þjónustan við sjúklinga byggi alltaf á því besta sem býðst hverju sinni. Vísindi á vordögum er tilvalin vettvangur til að kynna niðurstöður rannsókna fyrir samstarfsfólki og öðrum áhugasömum og fylgjast með hvað er efst á baugi í vísindum á Landspítala. Þá er alltaf jafn spennandi að fylgjast með hver hlýtur titilinn „heiðursvísindamaður Landspítala“ og hvaða starfsmaður verður krýndur „ungur vísindamaður á Landspítala“ ásamt að kynna sér verkefnin á verðlaunaveggspjöldunum.

Megi allir njóta vel!

Rósa Björk Barkardóttir, formaður vísindaráðs Landspítala


Hlutverk Landspítala er þríþætt; Að veita heilbrigðisþjónustu, skapa nýja þekkingu með rannsóknum og mennta heilbrigðisstarfsfólk. Nauðsynlegt er að haldið sé vel utan um þá grunnstoð sem vísindastarfið er enda er það deginum ljósara að vísindi auka fagmennsku, gæði og öryggi og eru forsenda framþróunar í heilbrigðisþjónustu og menntun starfstétta.
 
Starfsmenn vísindadeildar hafa til margra ára tekið saman árlegt yfirlit um vísindastarf á Landspítala og birtir hina árlegu samantekt á Vísindum á vordögum ár hvert. Gagna sem eru lýsandi fyrir virkni í vísindum s.s. birtingar vísindagreina, styrkfjárhæðir til vísindarannsókna, fjöldi nýrra vísindarannsókna, fjöldi meistara- og doktorsnema er víða aflað og er yfirlitið unnið í samstarfi við forstöðumenn og forsvarsmenn fræðisviða og fræðigreina auk tengiliða.  Regluleg úttekt á vísindastarfinu og niðurstöður hennar er mikilvægur þáttur í að meta árangur vísindastefnu Landspítala á hverjum tíma auk þess sem yfirgripsmikil þekking á áhrifum aðgerða í þágu vísindastarfs næst.

Yfirlit 2020:

Sjá einnig yfirlit síðustu ára: 

Safn yfirlita: Yfirlitsskýrslur

Á vefsíðu Landspítala er að finna ýmsar hagnýtar og fræðandi upplýsingar um vísindastarfsemina á spítalanum.

 

Allar eldri fréttir
 
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir
Af hverju ekki?