Leit
Loka

Ávarp Runólfs Pálssonar forstjóra á ársfundi Landspítala 2022

 

Heilbrigðisráðherra, kæra samstarfsfólk og gestir!

Ég býð ykkur velkomin á ársfund Landspítala. Það er auðvitað sérstaklega ánægjulegt að við getum loks komið saman og horft yfir farinn veg og áfram til framtíðar eins og yfirskrift fundarins ber með sér.

Undirritaður tók við starfi forstjóra Landspítala 1. mars síðastliðinn og hafa fyrstu mánuðirnir verið viðburðaríkir eins og við mátti búast á þessari stærstu stofnun landsins.

Starfsárið 2021 var mjög annasamt á Landspítala þar sem viðureignin við faraldur COVID-19 reis hæst. Stór bylgja reið yfir samfélagið í fyrrasumar og þurfti að leita eftir að starfsfólk í orlofi kæmi til starfa. Álag á starfsfólk sem staðið hefur í eldlínunni nánast linnulaust í tvö ár hefur verið gríðarlegt. Það hefur stundum verið haft á orði að faraldurinn hafi afhjúpað veikleika Landspítala. En á vissan hátt má segja að hann hafi frekar dregið fram okkar helstu styrkleika; samheldni, úrræðasemi og fagmennska starfsfólks Landspítala er mikil og þessir styrkleikar komu bersýnilega í ljós í faraldrinum sem nú er vonandi að mestu yfirstaðinn. Það er ánægjuefni að árangur viðbragða við COVID-19 hér á landi er með því besta sem þekkist á heimsvísu þegar horft er til sjúkrahúsinnlagna og andláta. Þetta er engin tilviljun og á Landspítali á þar stóran hlut að máli. Sem dæmi má nefna COVID-göngudeildina þar sem snemmkomin meðferðarinngrip komu í veg fyrir innlagnir og mögulega dauðsföll. Þennan góða árangur spítalans ber að þakka okkar frábæra starfsfólki sem auk framúrskarandi færni í þjónustu við sjúklinga lagði mikið af mörkum við skipulagningu og þróun þjónustunnar.

Vegna faraldursins reyndist óhjákvæmilegt að draga úr hefðbundinni starfsemi spítalans og fyrir vikið hafa biðlistar eftir skurðaðgerðum lengst. En þó að samdráttur hafi verið í skipulagðri starfsemi reyndist flæðisvandi íþyngjandi eins og undanfarin ár. Skortur á legurýmum leiddi til þess að fjöldi innlagðra sjúklinga þurfti að vistast í rúmum á göngum bráðamóttökunnar í Fossvogi, jafnvel dögum saman. Ekki þarf að fjölyrða um að slíkt ófremdarástand skapar ógn við öryggi sjúklinga. Þrátt fyrir góðan vilja stjórnenda spítalans hefur ekki tekist að vinna bug á þessum flæðisvanda sem varað hefur um árabil og hefur nú leitt til brotthvarfs starfsfólks. Það er sárt að þurfa sjá á bak okkar öfluga starfsfólki sem treystir sér ekki lengur til að starfa við þær krefjandi aðstæður sem ríkja á spítalanum í dag. Leggja verður allt kapp á að koma flæði bráðveikra sjúklinga í viðunandi horf og krefst það aðgerða innan og utan Landspítala. Brýnast er að skapa úrræði á viðeigandi þjónustustigi fyrir þann mikla fjölda aldraðra einstaklinga sem lokið hafa meðferð á Landspítala en geta ekki útskrifast til síns heima, ýmist þar sem þeir þarfnast endurhæfingar eða vistunar til langframa. Heilbrigðisráðherra hefur sýnt vanda spítalans mikinn skilning og vinnur ráðuneytið nú að endurskoðun skipulags öldrunarþjónustu auk annarra verkefna og ríkir ágætt samráð við stjórnendur Landspítala þar að lútandi.

Þótt staðan á Landspítala hafi verið þung voru stigin ýmis áhugaverð framþróunarskref á liðnu ári. Bráðadagdeild lyflækninga var sett á laggirnar í Fossvogi að breskri fyrirmynd, reyndar þeirri sömu og lá til grundvallar COVID-göngudeildinni. Á bráðadagdeildinni er veitt þjónusta vegna aðkallandi vandamála sem þarfnast tafarlausrar þjónustu en þó ekki meðferðar á bráðamóttöku. Deildin hefur nú þrjú móttökurými en stefnt er að því fjölga þeim eins fljótt og auðið er. Væntingar eru til þess að fækka megi heimsóknum á bráðamóttöku um allt að 30%.

Frekari uppbygging og framþróun göngu- og dagdeildarstarfsemi er eitt af helstu stefnumálum Landspítala. Með samhæfingu slíkrar starfsemi, einkum sameiginlegri staðsetningu, aukinni stafvæðingu og áherslu á fjarþjónustu verður hægt að stórefla gæði, skilvirkni og hagkvæmni þjónustunnar. Fyrsti vísirinn í þessa átt leit dagsins ljós við opnun göngudeildarhússins að Eiríksgötu 5 á liðnu ári. Þar eru staðsettar göngudeildir gigtar og sjálfsofnæmis, innkirtla- og efnaskiptasjúkdóma, klínískrar erfðafræði og augnsjúkdóma ásamt brjóstamiðstöð. Í brjóstamiðstöðinni sameinast á einum stað þjónusta Landspítala veitt af skurðlæknum, krabbameinslæknum, röntgenlæknum og hjúkrunarfræðingum.

Áfram var unnið markvisst að eflingu framhaldsmenntunar heilbrigðisstétta sem er mikilvægur hluti af starfsemi Landspítala. Auk vinnuframlags þeirra sem námið stunda styður framhaldsnám við nýliðun. Þess má geta að á árinu 2021 fékk Landspítali heimild til að veita fullt fimm ára sérnám í lyflækningum. Þetta er stórt framfaraskref og viðurkenning fyrir Landspítala sem kennslustofnun. Skortur er á almennum lyflæknum á Landspítala en sú staða ætti að batna verulega með tilkomu lækna sem ljúka þessu sérnámi á næstu árum.

Vísindi og nýsköpun eru meðal kjarnahlutverka Landspítala sem háskólasjúkrahúss þjóðarinnar. Sívaxandi þungi í klínískri þjónustu á undanförnum árum hefur þrengt verulega að vísindastarfseminni. Greining á framleiðni og gæðum rannsókna hefur gefið til kynna að vísindastarfsemi Landspítala hafi dregist mjög aftur úr öðrum norrænum háskólasjúkrahúsum. Ítrekað hefur verið bent á of lágar fjárveitingar til vísindastarfsemi spítalans og var það staðfest í skýrslu alþjóðlega ráðgjafarfyrirtækisins McKinsey um framtíðarþróun þjónustu Landspítala þar sem fram kom að mun lægra hlutfall af rekstrarútgjöldum spítalans rennur til vísindastarfs en í löndum sem við viljum bera okkur saman við. Ljóst er að auka þarf fjárveitingar til vísindastarfsemi spítalans en jafnframt er mikilvægt er að hyggja að innviðum og skipulagi þessarar starfsemi ásamt því að leita leiða til að tryggja vísindafólki spítalans viðunandi tækifæri til að sinna sínum verkefnum. Sökum smæðar samfélagsins tel ég æskilegt að innviðauppbygging vegna vísindastarfsemi eigi sér stað í náinni samvinnu við Heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands.

Rekstur Landspítala hefur verið erfiður mörg undanfarin ár eins og öllum er kunnugt. Áhrif faraldursins á fjárhag og afkomu spítalans á árinu 2021 voru umtalsverð og fékk hann sérstaka fjárveitingu vegna útgjalda í tengslum við COVID-19. Það er ánægjulegt að 751,2 m.kr. afgangur var af rekstri spítalans á árinu. Innleiðing þjónustutengdrar fjármögnunar í stað fastra fjárveitinga stendur nú yfir. Skuggakeyrsla fer fram í ár en frá og með næsta ári munu fjárveitingar til spítalans byggja á þessari aðferð að stórum hluta. Standa væntingar til þess að fjármögnun spítalans verði markvissari og að framleiðni aukist.

Margar áskoranir blasa við á Landspítala um þessar mundir en óhætt er að segja að hæst beri manneklu í röðum starfsfólks, einkum meðal hjúkrunarfræðinga. Ýmsar ástæður liggja að baki en ekki verður hjá því komist að nefna óánægju í starfi á Landspítala vegna krefjandi umhverfis og mikils álags. Þá hefur verkefnið Betri vinnutími í vaktavinnu ekki tekist sem skyldi og hefur leitt til enn frekari manneklu andstætt því sem ráð var fyrir gert. Loks hefur framboð á störfum utan spítalans fyrir okkar eftirsótta starfsfólk aukist. Mannauðurinn er dýrmætasti hluti Landspítala. Við erum svo lánsöm að búa yfir sérlega vel menntuðu og hæfu starfsfólki en því miður er það takmörkuð auðlind. Vegna smæðar samfélagsins er mönnun íslenska heilbrigðiskerfisins á margan hátt stærri áskorun en aðrar þjóðir standa frammi fyrir. Sérhæfð starfsemi Landspítala er mannaflafrek á sama tíma og aukin þjónustuþörf vegna almennra viðfangsefna kallar á æ fleira starfsfólk, bæði á sviði bráðaþjónustu og öldrunarþjónustu. Þótt nemendum í hjúkrunarfræði og læknisfræði hafi fjölgað síðustu ár er óvíst að við getum haldið í við þörf fyrir nýliðun því margir úr röðum þessara starfsmanna fara á eftirlaun á næstu árum. Mikil samkeppni er um heilbrigðisstarfsfólk á alþjóðlegum vettvangi og því getum við ekki treyst á erlent vinnuafl. Við verðum að leita allra mögulegra leiða til að mæta skorti á heilbrigðisstarfsfólki, meðal annars með því að bæta kjör og skapa betra starfsumhverfi. Enn fremur er mikilvægt að horfa til annarra úrræða eins og aukinnar stoðþjónustu og betri nýtingar upplýsingatækni. Ákaft hefur verið kallað eftir skýrari mönnunarviðmiðum úr röðum starfsfólks spítalans. Sem stendur er unnið er að því að skilgreina mönnunarviðmið í hjúkrun og lækningum.

Á þessum ársfundi veltum við upp framþróunarverkefnum í kjölfar faraldurs COVID-19. En við þurfum líka að takast á við eftirköst faraldursins sem snúa að starfsfólkinu okkar. Margir eru úrvinda eftir tveggja ára þrotlausa baráttu og þarfnast sárlega hvíldar. Við erum ekki ein á báti hvað þetta varðar því að í öðrum löndum hefur orðið mikið brottfall úr röðum starfsmanna vegna streitu og kulnunar. Óhætt er að segja að staðan á Landspítala sé sérlega viðkvæm vegna manneklu og verkefna úr hófi. Við þessu verðum við að bregðast. Hlúa þarf vel að starfsfólkinu og auka velsæld með því að hyggja að bæði líkamlegum og andlegum þáttum.

Að mínu mati er tímabært að endurskoða skilgreiningu á hlutverki Landspítala. Þar sem kröfur til heilbrigðiskerfisins fara vaxandi þarf að skýra hlutverk Landspítala betur til að gera spítalanum kleift að leysa verkefni sín og mæta aukinni eftirspurn eftir þjónustu. Auk þess að vera háskólasjúkrahús þjóðarinnar hefur Landspítali það veigamikla hlutverk að veita íbúum höfuðborgarsvæðisins almenna þjónustu og öllum landsmönnum sérhæfða þjónustu. Eins og kemur glögglega fram í skýrslu McKinsey sinnir spítalinn fjölmörgum verkefnum sem eiga fremur heima á öðrum þjónustustigum. Það er því er mikilvægt að horfa til heilbrigðisþjónustunnar í heild með hliðsjón af heilbrigðisstefnu til ársins 2030 og er þörf á víðtæku samráði allra heilbrigðisstofnana, félagsþjónustu sveitarfélaga og fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu. Færa þarf verkefni frá Landspítala en jafnframt er mikilvægt að skilgreina betur þjónustulínur innan spítalans svo sem að afmarka bráðaþjónustu frá skipulagðri þjónustu.

Meðal þess sem hvað mest hefur hamlað þróun á starfsemi Landspítala mörg undanfarin ár er úreltur húsakostur. Það hillir loks í að langþráðar spítalabyggingar rísi. Framkvæmdir við nýja meðferðarkjarnann við Hringbraut eru í fullum gangi og hefur verið gert ráð fyrir að þeim muni ljúka árið 2026. Ljóst er að nýi meðferðarkjarninn mun valda straumhvörfum í þjónustu spítalans. En markviss nýting eldri bygginga er einnig mjög þýðingarmikil því auk þeirra 209 legurýma sem munu verða í meðferðarkjarnanum þarf um 600 til viðbótar hið minnsta. Könnun á ástandi bygginga spítalans hefur staðið yfir að undanförnu. Auk legurýmis er mikilvægt að hyggja að fullnægjandi aðstöðu fyrir göngu- og dagdeildarstarfsemi sem æskilegt er að komið verði fyrir að mestu á einum stað. Að mínu mati ætti að skoða gaumgæfilega að flýta byggingu húss fyrir göngu- og dagdeildarstarfsemi. Það er auðvitað afar brýnt að vel takist til svo að nýr Landspítali verði vel heppnaður. Til að svo megi verða þarf starfsfólk spítalans að taka virkan þátt í því undirbúnings- og framkvæmdaferli sem framundan er.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er kveðið á um að staða og hlutverk Landspítala sem mikilvægustu heilbrigðisstofnunar landsins verði styrkt. Enn fremur að skipuð verði fagleg stjórn yfir spítalann að norrænni fyrirmynd og er frumvarp til laga þar að lútandi nú í meðförum Alþingis. Ég hygg að slík stjórn muni styrkja starfsemi og stjórnun spítalans. Í kjölfar faraldursins er mikilvægt að líta yfir farinn veg og leitast við að draga lærdóm af reynslunni með áherslu á að meta styrkleika og veikleika í starfsemi spítalans. Að mínu mati þurfum við að skilgreina betur meginþjónustulínur spítalans með hliðsjón af þörfum samfélagsins. Samtímis er sérlega mikilvægt að styrkja framlínustjórnun á spítalanum og þá öflugu stjórnendur sem þar starfa. Markmiðið er öflugur háskólaspítali sem veitir framúrskarandi þjónustu og byggir á sterkri liðsheild starfsfólks. Á næstunni mun ég endurskoða skipurit og skipulag spítalans í samráði við starfsfólk og væntanlega stjórn. Ljóst er að breytingar munu eiga sér stað. Þær munu miða að því að laga stjórnskipulag spítalans að víðtæku hlutverki og ört vaxandi verkefnum hans auk þess sem leitað verður leiða til meiri skilvirkni.

Að lokum, kæra samstarfsfólk! Það sem heimsfaraldur COVID-19 hefur kennt okkur öðru fremur er mikilvægi samstöðu og samvinnu. Það þurfum við að hafa sem leiðarljós inn í framtíðina. Við verðum að efla spítalann þannig að unnt sé að tryggja sjúklingum aukið öryggi og betri þjónustu og skapa aðlaðandi umhverfi fyrir starfsfólk. Það er okkar brýnasta verkefni.

Saman munum við snúa vörn í sókn.

Takk fyrir!

Glærur í ávarpi forstjóra Landspítala


Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir
Af hverju ekki?