Leit
Loka

Ávarp Páls Matthíassonar forstjóra 

 

Árið 2019 var ekki tíðindalaust á Landspítala.

Snemma vors opnaði hið langþráða Sjúkrahótel Landspítala og sannaði strax á fyrstu dögum gildi sitt fyrir starfsemi spítalans og aðra heilbrigðisþjónustu á höfuðborgarsvæðinu. Það hefur verið ánægjulegt að heyra af ánægðum gestum hótelsins samhliða því að áhrifanna gæti með skýrum hætti í starfsemi spítalans.

Á árinu urðu síðan fjölmargir aðrir ánægjulegir áfangar í uppbyggingu Hringbrautarverkefnis. Miklar framkvæmdir hófust með jarðvegsvinnu sjálfs meðferðarkjarnans og fyrir réttu ári tilkynnti heilbrigðisráðherra að hafinn yrði undirbúningur að hönnun göngudeildarhúss. Það vorar því sannarlega í uppbyggingu Landspítala.

Þrátt fyrir afar ánægjulega uppbyggingu húsakosts okkar við Hringbraut þurfum við jafnframt að huga að stöðunni á allra næstu árum því starfsemin vex hratt samhliða kröfum samfélagsins um aukna þjónustu spítalans. Við höfum því einnig hliðrað til í húsnæði fyrir klíníska starfsemi og voru raðirnar þéttar þegar ríflega 200 starfsmenn fluttu starfsstöðvar sínar í verkefnamiðað vinnurými í Skaftahlíð 24. Þar hefur skapast afslappað umhverfi fyrir þjónustu sem flestir starfsmenn og nemendur sækja á einhverjum tímapunkti; starfsmannaheilsuvernd, hermisetur og mannauðsþjónusta.

Á árinu 2019 réðumst við í umfangsmiklar og tímabærar skipurits- og skipulagsbreytingar, fyrstu verulegu breytingarnar í rúmlega áratug. Meginmarkmið breytinganna var að sníða skipulag starfseminnar og stjórnunarfyrirkomulag að aðalverkefnum spítalans og síbreytilegum þörfum samfélagsins um leið og hagrætt var í stjórnunarþætti Landspítala. Það er mat mitt að nýtt skipurit styðji við undirbúning að starfsemi spítalans í nýju húsnæði við Hringbraut. Í október tók ný og fámennari framkvæmdastjórn til starfa og nýir lykilstjórnendur, forstöðumenn kjarna, stuttu síðar.

Fjölmargt ánægjulegt bar til tíðinda sem mætti nefna en að sama skapi voru áskoranirnar að vanda margar. Ein sú stærsta var sá flæðisvandi sem birtist okkur og alþjóð á bráðamóttöku spítalans í Fossvogi þar sem sjúklingar biðu of lengi eftir innlögn á deildir spítalans. Við unnum hörðum höndum að úrlausn þeirra mála og stendur sú vinna enn.

Fjármál spítalans voru sem fyrr í brennidepli og sitt sýndist hverjum um fjárþörf þjónustunnar.
Engu að síður nýtur Landspítali mikils velvilja í samfélaginu og við starfsfólkið finnum stöðugt fyrir því viðhorfi og þakklæti í samskiptum við sjúklinga, aðstandendur og almenning. Það er okkur hvatning til að gera enn betur í þjónustu við landsmenn enda viljum við standa undir nafni sem þjóðarsjúkrahús Íslendinga.

Páll Matthíasson

Forstjórapistlar 2019

Allar eldri fréttir
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir
Af hverju ekki?