Þann 1. júlí 2021 var hætt að skima bólusetta einstaklinga sem framvísa fullnægjandi bólusetningavottorði á landamærum. Þar sem bólusetning veitir fyrst og fremst vörn gegn alvarlegum veikindum en er ekki smitvörn þá hefur farsóttanefnd Landspítala ákveðið að eftirfarandi reglur gildi um bólusetta starfsmenn sem snúa heim eftir ferð erlendis:
1. Yfirmaður sækir um heimild til farsóttanefndar fyrir sóttkví C fyrir starfsmanninn áður en hann mætir til starfa.
2. Starfsmaður getur strax mætt til starfa í sóttkví C (grímuskylda, ítrustu sóttvarnir, fjarlægðarmörk eins og kostur er).
3. Starfsmaður fer í sýnatöku samdægurs eða næsta dag á sinni starfsstöð eða bókar sýnatöku hjá starfsmannahjúkrunarfræðingum.
4. Neikvætt svar leysir starfsmanninn úr sóttkví C.
5. Um óbólusetta starfsmenn gilda sömu reglur og fyrir aðra óbólusetta einstaklinga sem koma yfir landamæri, þ.e. sýnataka á landamærum og eftir 5 daga með heimasóttkví á milli. Að öllu jöfnu er ekki veitt heimild til vinnusóttkvíar B2 fyrir óbólusetta nema það sé nauðsynlegt til að tryggja rekstraröryggi s.s. vegna afleysinga, sérhæfðra verkefna (viðhald, viðgerðir tækja) o.s.frv. Ávallt þarf að sækja um vinnusóttkví B2 til farsóttanefndar sem vinnur umsóknina í samvinnu við sóttvarnalækni.
Farsóttanefnd vill brýna starfsfólk Landspítala til að halda vöku sinni gagnvart COVID-19. Bólusettir einstaklingar geta smitast og smitað aðra. Óvænt smit inni í viðkvæmri sjúkrahússtarfsemi getur sett marga þætti hennar í uppnám á stuttum tíma. Mikilvægt er að vera áfram vakandi fyrir einkennum sem geta samrýmst COVID-19 bæði hjá bólusettum starfsmönnum og sjúklingum sem og óbólusettum.
Áfram gildir að allir sem fá einkenni eiga að fara í sýnatöku hvort sem þeir eru bólusettir eður ei.