Blái naglinn veitti á dögunum styrk að upphæð fimm milljónir til erfða- og sameindalæknisfræðideildar Landspítala til grunnrannsókna á brjósta- og blöðruhálskirtilskrabbameini og BRCA 1 og BRCA 2.
Það var Jóhannes V. Reynisson, forsvarsmaður Bláa naglans, sem afhenti styrkinn, en honum veittu viðtöku deildarstjórinn Eiríkur Briem og yfirlæknarnir Jón Jóhannes Jónsson og Hans Tómas Björnsson.
Styrkurinn er afrakstur landssöfnunar félagsins í tengslum við árlegt átak þess, en þá voru meðal annars seldir pennar. Blái naglinn hafði skömmu áður styrkt Háskóla Íslands um 2,3 milljónir króna til krabbameinsrannsókna.
Blái naglinn vinnur nú að stofnun samfélagssjóðs til þess að efla enn frekar grunnrannsóknir á krabbameini hér á landi í samstarfi við lækna, vísindasamfélagið og aðstandendafélög líknarfélaga.
Jóhannes hefur ásamt samstarfsfólki unnið ötullega að því undanfarin ár, að vekja athygli á þörfinni á skimun og auknum rannsóknum vegna ristilkrabbameina og blöðruhálskrabbameina. Jóhannes stofnaði Bláa naglann árið 2012 eftir að hafa greinst sjálfur með blöðruhálskrabbamein.
Á meðfylgjandi mynd eru frá vinstri til hægri þeir Eiríkur Briem deildarstjóri erfða- og sameindalæknisfræðideildar og Jóhannes V. Reynisson Bláa naglanum, ásamt yfirlæknunum Jóni Jóhannesi Jónssyni og Hans Tómasi Björnssyni.