Leit
Loka

Hagnýtar upplýsingar

  • Gefstu ekki upp, velgengni í lífinu er langhlaup
  • Finndu og ræktaðu hæfileika þína
  • Settu þér markmið og láttu drauma þína rætast
  • Borða reglulega og velja hollan mat
  • Fá nægan svefn og hvíld
  • Slaka á, t.d. með tónlist, hugleiðslu, lestri
  • Hreyfa sig reglulega, t.d. líkamsrækt, sund, dans
  • Vera í félagsskap vina og fjölskyldu
  • Taka þátt í félagslífi og sinna áhugamálum
  • Hrósa og gefa af sér til annarra
  • Standa með sjálfum sér
  • Vera hófsamur
  • Tala um líðan sína
  • Vera heiðarlegur við sig og aðra
  • Íhuga hvað eykur orku og vellíðan
  • Hugsa jákvætt
  • Skrifa niður það sem skiptir þig máli
  • Leita eftir upplýsingum og aðstoð

Upplýsingar um ýmislegt sem tengist geðheilsu barna og unglinga er að finna í bæklingum sem BUGL gaf út í samvinnu við embætti Landlæknis í janúar 2010.

Bæklingarnir voru uppfærðir í júní 2017.

  • „Geðheilsan þín skiptir máli” – Bæklingur fyrir unglinga
  • „Geðheilsa barnsins þíns” – Bæklingur fyrir foreldra

Barna- og unglingageðdeild Landspítala er deild innan Kvenna- og barnasviðs.

Þarvinnur breiður hópur fagaðila sem sérhæfa sig í greiningu og meðferð á geðröskunum barna og unglinga með það að leiðarljósi að stuðla að auknum lífsgæðum þeirra og fjölskyldna þeirra.

Á BUGL er tekið á móti börnum að 18 ára aldri, alls staðar að af landinu. Starfsmenn BUGL veita sérfræðiþjónustu og sinna börnum og unglingum með flókinn og samsettan geðrænan vanda og/eða alvarleg geðræn einkenni.

Veitt er sérhæfð þverfagleg þjónusta sem tekur mið af þörfum barna og fjölskyldna þeirra.

Mikil samvinna er við þá aðila sem sinna frumgreiningu svo sem heilsugæslu og félagsþjónustu auk annarra fagaðila sem sinna barni og fjölskyldu í nærumhverfi. Áhersla er lögð á alúð í samskiptum og gott samstarf við foreldra/forráðamenn.

BUGL er hluti af háskólasjúkrahúsi og tekur þátt í grunn- og framhaldsmenntun heilbrigðisstétta hvað varðar geðheilbrigðisþjónustu fyrir börn og unglinga.

Deildin er jafnframt samstarfsaðili annarra deilda og stofnana sem veita börnum, unglingum og fjölskyldum þeirra þjónustu. Ásamt því veitir BUGL fræðslu og ráðgjöf til foreldra og fagaðila.

Á BUGL starfar fólk úr mörgum fagstéttum; læknar, sálfræðingar, hjúkrunarfræðingar, félagsráðgjafar, iðjuþjálfar, listmeðferðarfræðingar, sjúkraliðar og heilbrigðis- og læknaritarar.

Á legudeild starfa að auki ráðgjafar með fjölbreytta menntun og reynslu.

Þjónustu samfélagsins við börn með geð- og hegðunarraskanir er skipt upp í þrjú stig;

  • Grunnþjónustu
  • Ítarþjónustu 
  • Sérþjónustu.

Starfsemi BUGL flokkast undir sérþjónustu sem einungis er ætlað að sinna flóknustu tilfellunum 

1. Þjónustustig

  • Fyrsta stig  
    • Heilsugæsla
    • Skólar
    • Félagsþjónusta
    • Barnavernd
  • Annað stig 
    • Sérfræðingar á stofu
    • Sérhæfð meðferðarteymi
    • Þroska- og hegðunarstöð
    • Sérfræðiþjónusta skóla
  • Þriðjastig 
    • BUGL

Á vegum BUGL er börnum og unglingum veitt fjölbreytileg og sérhæfð geðheilbrigðisþjónusta sem fer fram á göngudeild og á legudeild fyrir börn og unglinga.

Langflestir fá þjónustu á göngudeild eingöngu. Innlagnir á legudeild barna og unglinga eru nýttar þegar þörf er fyrir sérhæfða athugun og/eða meðferð umfram það sem hægt er að veita í göngudeild.

Á BUGL er unnið í nánu samstarfi við fjölmargar stofnanir sem falla undir grunn-, ítar og sérþjónustuna og halda utan um mál barna og unglinga.

Að lokinni meðferð á BUGL tekur grunn- og ítarþjónustan við umönnun og eftirfylgni barns eða unglings.

2. Helstu samstarfsaðilar BUGL

  • Fjölskyldan
  • Barnaspítalinn
  • Barnavernd, Félagsþjónusta, Sveitarfélagaskrifstofur
  • Skólar og skólatengd þjónusta
  • Þroska og hegðunarstöð
  • Sjálfstætt starfandi sérfræðingar
  • Greiningar- og ráðgjafastöð ríkisins
  • Æfingarstöðin, Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra
  • Barnaverndarstofa og meðferðarstofnanir
  • Heilsugæslustöðvar

Unnið er að því að efla markvissa samvinnu við þjónustuaðila sem koma að geðheilbrigðisþjónustu barna og unglinga svo sem heilsugæslu, félagsþjónustu, barnavernd og sérfræðiþjónustu skóla.

Tilgangurinn er að tryggja samfellu í þjónustu og færa sérþekkingu frá BUGL til þeirra aðila sem veita þjónustu í nánasta umhverfi barna og fjölskyldna þeirra.

Auk þess hefur BUGL það hlutverk með höndum að þróa og stunda rannsóknir á greiningar- og meðferðarúrræðum. Unnið er markvisst í samstarfi við stofnanir og vísindasamfélagið með það að markmiði að geta á hverjum tíma boðið upp á bestu þjónustu sem völ er á.

Markviss fræðsla og ráðgjöf til stofnana og hagsmunahópa er afar mikilvægur þáttur í starfsemi BUGL og eru bundnar vonir við að unnt verði að sinna honum í auknum
mæli á næstu árum.

Ráðstefnur BUGL og Kvenna- og barnasviðs eru haldnar árlega og eru mikilvægur þáttur í eflingu þessarar þjónustu.

Þegar grunur vaknar um geðrænan vanda hjá barni eða unglingi getur farið af stað ferli sem leiðir til tilvísunar á BUGL.

Forráðamenn leita fyrst eftir þjónustu innan síns sveitarfélags, s.s. hjá heilsugæslu, félagsþjónustu/þjónustumiðstöðvum eða sálfræðiþjónustu skóla.

Frumgreiningu þarf að gera áður en vísað er á BUGL. Í tilvísun þurfa að liggja fyrir og koma fram upplýsingar um vanda barnsins og niðurstöður athugana á þroskastöðu barns/unglings.

Helstu tilvísendur á BUGL eru greiningar-/meðferðarteymi heilsugæslu, sérfræðilæknar, heilsugæslulæknar, sálfræðingar, sérfræðiþjónusta leik- og grunnskóla, félagsþjónusta og barnaverndarnefndir.

Þessir aðilar meta vandann í tengslum við fjölskyldu barns, umhverfi og skóla og veita viðeigandi stuðning og meðferðarúrræði. Sé það sameiginlegt mat ofangreindra að viðkomandi þurfi sérhæfðari þjónustu er það á ábyrgð þess fagaðila sem framkvæmt hefur athuganir að vísa á BUGL.

Það er jafnframt á ábyrgð frumgreiningaraðila að stuðla að því að viðeigandi þjónusta sé veitt sem fyrst.

Málum er vísað með skriflegri tilvísun sem aðgengileg er á vefsíðu BUGL. Nauðsynlegt er að þar komi fram hvaða læknir fylgir málinu eftir þegar íhlutun BUGL er lokið.

Helstu ástæður tilvísana á BUGL eru geð-, hegðunar- og þroskaraskanir.

Nánari upplýsingar um tilvísanir má finna á vef Landspítala. 

Bráðaþjónusta er veitt á göngudeild BUGL.

Þar starfar bráðateymi sem tekur á móti símtölum og metur hvort mál krefjist tafarlausrar íhlutunar.

Sé svo fer fram bráðaviðtal þar sem metið er hvort þörf sé á frekari þjónustu á BUGL eða málinu vísað til viðeigandi meðferðaraðila utan BUGL.

Bráðateymi sendir skriflegar upplýsingar um niðurstöðu bráðamats til heilsugæslulæknis og annarra meðferðaraðila að loknum afskiptum BUGL. Bráðaþjónustan á Dalbraut er opin á dagvinnutíma (s. 543 4300) en á öðrum tímum er símtölum beint til legudeildar BUGL (s. 543 4320 eða 543 4338).

Ef talin er þörf á tafarlausri þjónustu er haft samráð við vakthafandi barna- og unglingageðlækni.

Allar tilvísanir á BUGL berast til inntökuteymis.

Teymið metur stöðu mála og kannar hvort nægilegar upplýsingar liggi fyrir eða hvort kalla þurfi eftir frekari gögnum.

Ef þörf er á þjónustu göngudeildar fer barnið á biðlista, að öðrum kosti er málinu vísað aftur til tilvísanda.

Inntökuteymi fundar vikulega með bráðateymi. Metin er staða hvers máls, þörf á inngripum og hvernig eftirfylgd verður háttað.

Þegar barn/unglingur kemur til meðferðar á göngudeild er byrjað á að skilgreina vandann. Unnin er ítarleg greiningarvinna og að henni lokinni er boðið upp á meðferðarúrræði við hæfi.

Ennfremur er höfð samvinna við fjölskyldu, tilvísanda og þá aðila sem tengjast barni í nærumhverfi (s.s. félagsþjónustu, sérfræðiþjónustu skóla eða barnavernd) um viðeigandi stuðning.

Meðferð á göngudeild er margs konar. Má þar nefna stuðnings- og meðferðarviðtöl við barnið/unglinginn, foreldra og fjölskyldu. Að auki eru í boði námskeið, hópmeðferð, listmeðferð, iðjuþálfun, lyfjameðferð, vettvangsþjónusta og fleira.

Fjölskylduvinna er samofin allri meðferð á BUGL en hægt er að vísa í sérhæfðari fjölskyldumeðferð ef þess er talin þörf.

Meðferðin byggist á að kortleggja og greina sálfélagslegan samskiptavanda sem oft er tengdur geð- og hegðunarröskunum og styðja fjölskylduna í að þekkja og nýta þá styrkleika sem hún býr yfir.

Eftirfarandi greiningar- og meðferðarteymi tilheyra göngudeild BUGL.

Starfandi eru tvö þverfagleg teymi sem hafa að jafnaði fyrstu aðkomu að málum sem berast til BUGL.

Teymin sinna ákveðnum svæðum (póstnúmerum) á landsvísu. Í teymin er vísað skjólstæðingum sem hafa fjölþættan og flókinn vanda sem þarfnast þverfaglegrar nálgunar og aðkomu margra fagaðila.

Teymin funda vikulega um þau mál sem þangað hefur verið vísað. Þar getur verið um að ræða almenn geðræn vandamál, ýmiss konar frávik í þroska, auk vandamála á sviði hegðunar og tilfinninga.

Teymin vinna bæði að greiningu og meðferð ásamt því að stuðla að öðrum leiðum til úrlausna. Náin samvinna er við önnur teymi innan BUGL og meðferðaraðila/ samráðsteymi í heimabyggð.

Teymin sinna einnig þjónustu í nærumhverfi ef talin er þörf á því. Unnið er í samvinnu við barnið og fjölskylduna með það að markmiði að yfirfæra og aðlaga færni sem áunnist hefur í meðferð á legudeild eða göngudeild. Einnig er fjölskyldunni veitt ráðgjöf við að auka þátttöku og virkni barnanna í heimilislífi, skóla, tómstundastarfi og efla
félagsleg tengsl.

Með markvissri eftirfylgni tekst því oft að viðhalda virkni, koma í veg fyrir versnun og stytta innlagnartíma ef til endurinnlagnar kemur.

Átröskunarteymi BUGL er sérhæft teymi sem sinnir börnum og unglingum með alvarlegan átröskunarvanda. Átröskunarteymið veitir bæði greiningu og meðferð.

Ef um alvarleg tilfelli er að ræða getur komið til innlagnar á legudeild barna og unglinga, en áfram er unnið í náinni samvinnu við fagfólk í átröskunarteymi.

Meðferðin miðar að því að hjálpa barni/unglingi að takast á við veikindin með stuðningi foreldra og fagfólks. Lögð er áhersla á að barnið og foreldrarnir læri nýjar og betri leiðir til að takast á við átröskunina og fái betri innsýn í hvaða þættir hindra bata.

Boðið er upp á þverfaglega meðferð til að vinna með fjölþætt einkenni átröskunar.

Meira um átröskunarteymi

Transteymið vinnur með börnum og unglingum sem eru ekki sátt við það kyn sem þau fengu úthlutað við fæðingu.

Teymið vinnur samkvæmt föstu verkferli og í náinni samvinnu við bæði barn/ungling og foreldra til að fá besta mögulega mynd af barninu og greina erfiðleika þess.

Mikilvægasta verkefnið er að varpa ljósi á erfiðleika barnsins í kringum kynvitund þess (hver upplifun á eigin kyni er).

Þegar greiningartímabilinu lýkur kemur í ljós hvort barnið uppfyllir greiningarskilmerki um kynama og/eða hvort um annan vanda sé að ræða.

Eftirlitsteymið sinnir áframhaldandi eftirliti með lyfjagjöf hjá þeim börnum sem þurfa sérhæfða lyfjameðferð eftir útskrift úr göngudeild.

 

Allri annarri meðferðarvinnu er lokið.

 

Eftirlitsteymið er í samvinnu við heilsugæslu, sérfræðinga á stofu og aðra þjónustuaðila í heimabyggð barnsins.

Legudeildin er ætluð börnum að 18 ára aldri. Þar geta að hámarki dvalið 17 börn, daglangt eða allan sólarhringinn. 

 

Meirihluti innlagðra barna dvelur á deildinni frá klukkan 8 til 15 á virkum dögum en er heima um helgar.

 

Deildin er skilgreind sem bráðadeild og er opin allan sólarhringinn, allt árið um kring.

 

Á legudeild barna og unglinga er áherslan lögð á sérhæfða athugun á líðan og hegðun barns og þá umhverfismeðferð sem aðeins er hægt að veita á lokaðri deild.

 

Við innlögn er gerð einstaklingsmiðuð meðferðaráætlun fyrir sérhvert barn sem endurskoðuð er reglulega.

 

Meðan barnið dvelur á deildinni er lögð áhersla á virka þátttöku foreldra.

 

Meðan á innlögn stendur sækja börn á skólaskyldualdri annað hvort sinn heimaskóla eða stunda nám í Brúarskóla sem staðsettur er á lóð BUGL.

 

Mikil og góð samvinna er höfð við skólann um kennslu og mat á náms- og skólastöðu viðkomandi barns.

 

Greinargóðar upplýsingar um legudeild barna og unglinga er að finna á vefsíðu Landspítalans.

Á lóð BUGL stendur Brúarskóli við Dalbraut sem heyrir undir Fræðslumiðstöð Reykjavíkur og er sérskóli fyrir nemendur sem eiga við geðræna erfiðleika að etja og eru
innlagðir á BUGL.

 

Meginmarkmið kennslunnar er að styðja nemendur í námi, hún er einstaklingsmiðuð og sérhæfð fyrir hvern nemanda í samræmi við námslega stöðu hans, áhuga og getu.
Í flestum tilfellum er um samkennslu að ræða í fámennum hópum.

 

Við útskrift fylgir ráðgjafasvið Brúarskóla nemendum eftir og veitir starfsfólki í heimaskóla aðstoð og fræðslu eftir þörfum.

 

Skólinn starfar á þeim tíma árs sem kennsla fer fram í almennum skólum.

 

Nánari upplýsingar um Brúarskóla er að finna á vefsíðu skólans www.bruarskoli.is.

Athygli er vakin á því að starfsfólk og nemendur sjúkrahússins eru bundnir þagnarskyldu og farið er með málefni sjúklinga af fyllsta trúnaði.

 

Landspítali er kennsluspítali og nemendur í heilbrigðisfræðum og tengdum greinum stunda hluta af námi sínu á spítalanum.

 

Nemendur fylgjast með og taka þátt í daglegri meðferð sjúklinga en eru alltaf á ábyrgð og undir handleiðslu leiðbeinenda sinna.

BUGL sendir út rafræna þjónustukönnun til aðstandenda eftir fyrstu komu barns á göngudeild.

 

Í könnuninni er spurt almennt um þjónustuna sem BUGL veitir og er markmiðið að nýta niðurstöður hennar til að meta og bæta þjónustuna við börn, unglinga og aðstandendur þeirra.

Ef foreldrar/forráðamenn eru með ábendingar og/eða kvartanir í tengslum við meðferð/ þjónustu barns er hægt að hafa samband við þjónustustjóra, deildarstjóra og yfirlækni í síma 543 4300 á göngudeild BUGL.

Útgefandi: 

Landspítali, Barna- og unglingageðdeild  - BUGL 

Maí 2017

Umsjón: 

Hugrún Hrönn Kristjánsdóttir, Verkefnastjóri

Ábyrgð: 

Unnur Heba Steingrímsdóttir, Þjónustustjóri


Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir
Af hverju ekki?