Leit
Loka

Fíknimeðferð

Á fíknigeðdeild er lögð áhersla á þjónustu fyrir einstaklinga með alvarlegan fíkni- og geðvanda.

Banner mynd fyrir Fíknimeðferð

Hafðu samband

Fíknimeðferð - mynd

Hér erum við

Geðdeildarbyggingu Hringbraut 1. og 2. hæð

Hagnýtar upplýsingar

Á fíknigeðdeild er lögð áhersla á þjónustu fyrir einstaklinga með alvarlegan fíkni- og geðvanda (tvígreiningu).  Breiður hópur fagfólks vinnur saman að því að greina líffræðilega, sálræna og félagslega þætti sem stuðla að eða viðhalda báðum sjúkdómum. Meðferðarnálgun er fjölþætt og ræðst af þörfum og getu hvers einstaklings.

Senda skal beiðni um þjónustu fíknigeðdeildar annað hvort í gegnum Sögukerfið (fyrir þá sem hafa aðgang) eða með því að senda beiðni um meðferð / rannsókn í pósti.  Athugið að nauðsynlegt er að greinargóðar upplýsingar sé að finna í umsókninni.  Beiðnafundir eru haldnir tvisvar í viku og haft er samband við skjólstæðinga sem fyrst eftir fyrirtöku beiðnar.

Móttökugeðdeild fyrir einstaklinga með alvarlegan geð- og fíknivanda.  Flestar innlagnir á deild eru í gegnum biðlista í umsjón biðlistastjóra

Markmið meðferðar á deildinni er að einstaklingar nái lágmarksjafnvægi í innlögn.

Þverfagleg meðferðarteymi starfa á deildinni og sinna einstaklingsmiðaðri meðferð sem þýðir að einstaklingur innskrifast í ákveðið teymi og hefur sömu meðferðaraðila meðan á dvöl stendur.

Flestir útskrifast heim en eru í eftirfylgd um tíma á göngudeild, á stofu hjá sérfræðingi eða hjá heimilislækni.

Heimsóknartímar:

 • Heimsóknir eru ekki æskilegar fyrstu þrjá sólarhringana
 • Heimsóknir einskorðast við nánustu aðstandendur
 • Óska þarf eftir leyfi fyrir heimsóknum með sólarhringsfyrirvara
 • Leyfi eru veitt í samráði við meðferðarteymi
 • Heimsóknartími er virka daga kl. 15:00-17:30 og um helgar kl. 13:00-17:00

Símar

 • Vakt deild 32A 543 4080
 • Ritari 543 4042
 • Skiptiborð geðsviðs 543 4050

Ábendingum vegna þjónustu deildarinnar má koma til deildarstjóra eða yfirlæknis eftir því sem við á. 

Göngudeild fíknimeðferðar tekur við tilvísunum frá bráðamóttöku geðdeildar og öðrum heilbrigðisstofnunum.

Göngudeildin er annars vegar greiningarstöð og hins vegar meðferðardeild. Eftir greiningarferli er gerð meðferðaráætlun í samvinnu við sjúklinginn sem tekur mið af aðstæðum hvers og eins.

Sumir fá meðferð í göngudeildinni sjálfri, til dæmis fráhvarfsmeðferð, einstaklingsviðtöl eða hópmeðferð en öðrum er leiðbeint í önnur úrræði eins og innlögn á móttökugeðdeild fíknimeðferðar.

Áfengisráðgjafar sjá um daglegan stuðningshóp á göngudeildinni kl. 11:00 og er hann öllum opinn.

Notendum þjónustunnar er vinsamlegast bent á að erfitt er að meta einstakling í greiningarviðtali ef hann er undir áhrifum áfengis eða vímuefna.

Deildin er á 1. hæð í geðdeildarbyggingu við Hringbraut.

Símanúmer

 • Móttaka 543 4050

Teigur er eftirmeðferðardeild fíknigeðdeildar sem sinnir sérstaklega fólki með vímuefnavanda auk annars geðræns vanda.  Þar er gerð sú krafa að fólk hafi stöðvað neyslu og sé búið að ná lágmarksstöðugleika.

Hvernig meðferð á Teigi?

Á Teigi er boðið upp á 5 vikna dagdeildarmeðferð sem stendur frá klukkan 9:00 að morgni til 13:30 þrjá daga vikunnar og til hádegis tvo daga.

Sálfræðingar, áfengisráðgjafar og hjúkrunarfræðingar sjá um reglulega dagskrá deildarinnar. Auk þess koma læknar og félagsráðgjafar að málum þegar það á við.

Áhersla er á að þeir sem koma á Teig fái sem heildstæðasta úrlausn sinna vandamála með samvinnu allra fagaðila.

Á hverju byggir meðferðin?

Meðferðarprógrammið á Teigi byggir á hugmyndafræði hugrænnar atferlismeðferðar (HAM).

Grunnhugmynd HAM er að tilfinningar okkar og líðan ráðist af því hvernig við hugsum um og túlkum veruleikann og það sem gerist í lífi okkar. Með öðrum orðum er það skilningurinn sem við leggjum í atvik og aðstæður sem ræður því hvernig okkur líður yfir þeim.

Með því að vinna með hugsun okkar getum við haft áhrif á líðan og hegðun til hins betra. Meðferðin er hönnuð sérstaklega fyrir markhóp deildarinnar, það er fólk með vímuefnavanda auk geðræns vanda.

Hvað er gert í meðferðinni?

Í meðferðinni er lögð mikil áhersla á einstaklingsmiðaða nálgun að vanda hvers skjólstæðings þrátt fyrir að um hópmeðferð sé að ræða. Hver skjólstæðingur hefur sinn meðferðaraðila og fær við hann einstaklingsviðtöl.

Á fyrstu viku meðferðarinnar er unnið að því að kortleggja vanda hvers og eins til að auka skilning á hvar neyslan hefur haft áhrif, hvaða tilgangi hún þjónaði og í framhaldinu hverju þurfi að breyta til að geta verið án vímugjafa.

Á þeim þremur vikum sem svo taka við eru kenndar leiðir til að takast á við fíkn og aðrar erfiðar tilfinningar með aðferðum hugrænnar atferlismeðferðar. Einnig er kynnt fyrir skjólstæðingum aðferðir núvitundar eða árvekni (mindfulness).

Auk þessa er mikil fræðsla hluti af dagskránni.

Hvernig er sótt um meðferð á deildinni?

Sótt er um meðferð á deildinni með því að senda beiðni til teymis fíknigeðdeildar.  Beiðnirnar geta komið frá heilsugæslulæknum, félagsþjónustu, sjálfstætt starfandi sérfræðingum auk annarra fagaðila.  Einnig koma beiðnir frá bráðamóttöku geðsviðs auk annarra deilda spítalans.

 • Sími deildarinnar er 543 4710
 • Sími skiptiborðs geðsviðs er 543 4050

Slökun

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir
Af hverju ekki?