Hjúkrunarfræðingur óskast á kvenlækningadeild 21A
Hjúkrunarfræðingur óskast til starfa á kvenlækningadeild 21A Landspítala. Í boði er spennandi, krefjandi og líflegt starfsumhverfi, góður starfsandi og fjölbreytt tækifæri til faglegrar þróunar. Vinnufyrirkomulag er vaktavinna og starfshlutfall 50-100%. Starfið er laust frá 1. nóvember 2024 eða eftir samkomulagi.
Á kvenlækningadeild starfar samhent teymi starfsfólks sem veitir fjölþætta heilbrigðisþjónustu allan sólarhringinn. Deildin, sem er í senn göngu-, dag- og legudeild, sinnir bráðatilfellum kvensjúkdóma sem og konum með góðkynja og illkynja sjúkdóma í grindarholi og brjóstum. Auk þess sinnir deildin bráðatilvikum kvensjúkdóma utan opnunartíma bráðaþjónustu kvennadeilda.
- Ákveða, skipuleggja og veita hjúkrunarmeðferð fyrir og eftir aðgerðir kvenna
- Skipuleggja og veita fræðslu til sjúklinga og aðstandenda
- Virk þátttaka í teymis- og umbótastarfi á deild
- Íslenskt hjúkrunarleyfi
- Faglegur metnaður, frumkvæði og ábyrgð í starfi
- Jákvætt viðmót og góðir samskiptahæfileikar
- Hæfni og geta til að starfa í teymi
- Hæfni til að takast á við fjölþætt, breytileg og bráð verkefni hjúkrunar kvenna og fjölskyldna þeirra
Frekari upplýsingar um starfið
Allar umsóknir þurfa að fara rafrænt í gegnum ráðningarkerfi ríkisins. Umsókn fylgi náms- og starfsferilskrá ásamt kynningarbréfi og afriti af prófskírteinum og starfsleyfi. Fylgiskjöl skulu vera á pdf formi.
Tekið er mið af jafnréttisstefnu Landspítala við ráðningar á spítalanum. Öllum umsóknum verður svarað.
Landspítali er lifandi og fjölbreyttur vinnustaður þar sem um 7000 manns starfa í þverfaglegum teymum og samstarfi ólíkra fagstétta. Framtíðarsýn Landspítala er að þar sé veitt framúrskarandi heilbrigðisþjónusta byggð á vísindum, fagmennsku og umhyggju, öflugu fagfólki og studd með umgjörð og aðbúnaði sem sómi er að.
Landspítali hefur hlotið jafnlaunavottun samkvæmt jafnlaunastaðlinum ÍST85:2012, úttekt framkvæmd af Versa vottun ehf.
Umsóknir geta gilt í 6 mánuði frá birtingu auglýsingar, sbr. 3. tl. 2. mgr. 2. gr. reglna nr. 1000/2019 um auglýsingar lausra starfa með síðari breytingum.
Starfsmerkingar: Heilbrigðisþjónusta, Hjúkrunarfræðingur, hjúkrun, teymisvinna, umbótastarf