Heimsóknin fól í sér fjögurra daga hermiþjálfun, þar sem þær Sólveig Gylfadóttir og Ingibjörg Linda Sveinbjörnsdóttir frá A7 smitsjúkdómadeild, ásamt Ingunni Steingrímsdóttur og Stefaníu Arnardóttur frá sýkingavarnadeild, fylgdust með skipulagi og framkvæmd viðbragðs við slíkum aðstæðum.
Tilgangur ferðarinnar var að afla þekkingar og reynslu sem nýtist við endurskoðun og þróun verklags á Landspítala. Núverandi verklag, sem m.a. byggir á viðbrögðum vegna ebólu árið 2014, kallar á uppfærslu í samræmi við breyttar aðstæður á Landspítala, nýjustu þekkingu, reynslu og alþjóðleg viðmið. Jafnframt er brýnt að þróa markvissa fræðslu og þjálfun fyrir starfsfólk, þannig að Landspítali geti með skjótum og öruggum hætti brugðist við ef upp kemur grunur eða staðfest greining hááhættusmitsjúkdóms (HCID).
Heimsóknin veitti mikilvæga innsýn í raunverulegar áskoranir sem starfsfólk mætir við umönnun sjúklings í svokallaðri HLIU-einingu (High-Level Isolation Unit). Slíkar einingar eru sérstaklega hannaðar til meðferðar sjúklinga með mjög smitandi og lífshættulega sjúkdóma, svo sem ebólu, Marburg-veiru og Lassa-hita. Þar eru strangar öryggiskröfur, sérhæfður búnaður og aðgengi takmarkað til að tryggja sýkingavarnir.
Samskipti í hlífðarfatnaði
Mikilvægur lærdómur úr heimsókninni sneri að samskiptum starfsmanna í hlífðarfatnaði. Starfsfólk notaði Powered Air purifying respirator hlífðargalla Hlífðarfatnaðurinn dregur verulega úr heyrn og sjónsviði, sem gerir tjáningu krefjandi. Til að eiga áhrifarík samskipti þarf að horfa beint á viðkomandi, ná augnsambandi og jafnvel snerta viðkomandi létt á öxl til að vekja athygli. Suð frá loftsíum á hlífðarfatnaði truflar enn frekar.
Starfsfólk notaði talstöðvar til samskipta, bæði þau sem voru inni á einangrun og þau sem stýrðu viðbragðinu utan einangrunar. Mikilvægt var að ávarpa viðkomandi með nafni og nota „over“ til að gefa til kynna að skilaboð væru komin til skila og engin hætta væri á sambandsrofi.
Við þekkjum þennan samskiptamáta síðan í COVID-19 faraldrinum á Landspítala. Á A7 smitsjúkdómadeild notuðum við talstöðvar í samskiptum. Reynslan var sú að talstöðvar geta aukið öryggi og upplýsingaflæði, en þær geta einnig valdið miklu áreiti og truflað við störf í aðstæðum sem krefjast einbeitingar. Í hermiþjálfuninni voru ekki allir starfsmenn með talstöðvar og því er mikilvægt að upplýsa þá sem ekki eru með talstöðvar um mikilvægar upplýsingar sem koma fram í talstöðvasamskiptum.
Samskipti við sjúkling
Áhersla verður að vera á að upplýsa sjúkling vel og eiga í góðum samskiptum við hann. Það er rétt hægt að ímynda sér hversu krefjandi og ógnvekjandi aðstæður geta verið fyrir einstakling sem er með grun eða staðfestingu um hááhættusmitsjúkdóm og er í einangrunarrými með starfsfólki í fullum hlífðarbúnaði. Á Ullevål voru að lágmarki tveir hjúkrunarfræðingar inni í einangrunarherbergi hverju sinni, annar sinnti sjúklingnum og var alfarið að fylgjast með honum og líðan hans og hinn hjúkrunarfræðingurinn var með talstöð og var með yfirsýn, sá um skráningu og samskipti við aðra starfsmenn utan einangrunar.
Öryggi sjúklings – ekki aðeins starfsfólks
Heilbrigðisstarfsfólk í svona viðbragði klæðist tvöföldum hönskum þegar það sinnir sjúklingi. Skipta þarf reglulega um ytri hanska, þá undir sömu kringumstæðum og þörf er á handhreinsun. Notkun á tvöföldum hönskum er einungis leyfð í svona viðbragði, en þegar kemur að hááhættusmitsjúkdómum er ekki talið öruggt fyrir starfsfólk að fara úr innri hönskunum á meðan að sjúkling er sinnt. Það er hætta á því að sýkingarnir séu ábótavant inni á einangrun þegar áhersla á eigin öryggi er haft í fyrirrúmi og vinnuaðstæður eru flóknar. Því að upplýsa starfsfólk um mikilvægi þess að huga að réttum sýkingavörnum inni á einangun þegar kemur að öryggi sjúklings.
Eftirlit með hlífðarfatnaði
Það kom einnig fram að mikilvægt er að starfsfólk fylgist með hlífðarfatnaði hjá hvoru öðru þegar unnið er í einangrun. Á einni æfingunni var starfsmaður í hlífðargalla sem virtist ekki blása nægilega vel upp. Starfsmaðurinn hafði verið í næstum tvær klukkustundir inni í herberginu þegar það uppgötvast og í ljós kom að lítið gat var á gallanum í kringum loftsíuna. Undir raunverulegum kringumstæðum hefði starfsmaðurinn þá verið útsettur fyrir hááhættusjúkdómi og þurft að fara í þriggja vikna sóttkví. Við svona aðstæður hefði viðkomandi þurft að fara út úr einangrunarherberginu, út á afmarkað svæði þar sem úðað er yfir hann með virkon (sótthreinsandi efni) áður en hlífðarfatnaður væri klipptur af honum. Aðrar kringumstæður þegar þetta ætti við væri t.d. ef það myndi líða yfir starfsmann inni á einangrun, þá þyrfti samstarfsfólk að koma honum út á afmarkað svæði þar sem hlífðarfatnaður yrði klipptur af viðkomandi. Mesta smithættan er þegar starfsmaður er að fara úr óhreinum hlífðarfatnaði. Reglurnar eru skýrar, starfsmaður fær alltaf aðstoð við að klæðast og afklæðast hlífðarfatnaði. Rétt framkvæmd þess að afklæðast hlífðarfatnaði er lykilatriði í því að koma í veg fyrir smit.
Sjónskerðing og takmörkuð hreyfigeta
Hlífðarfatnaður takmarkar jaðarsjón og hreyfigetu. Hlífðarfatnaðurinn blæs upp þegar kveikt er á loftsíu og því er umfang starfsmanns talsvert meira en venjulega. Það er erfitt að sjá niður fyrir sig og hætta á að rekast utan í ruslatunnur, snúrur o.fl. sem var í nærumhverfi sjúklings. Starfsfólk þurfti mjög oft að ýta á uppblásna höfuðið sitt svo það gæti gengið um, skrifað á tölvu, talað við samstarfsfólk og sinnt sjúklingi.
Tími og bið
Það getur tekið langan tíma að fá nauðsynlegan búnað eða aðstoð inn í einangrunarstofuna. Þegar kallað var í lækni í einni æfingunni tók það um 15 mínútur þar til hann kom inn þar sem undirbúningur tekur tíma. Stundum var eins og tíminn stæði kyrr, og þá sérstaklega þegar það tekur 14 mínútur að fara í virkon sturtu áður en farið er út af einangrunarstofunni og áður en hægt er að klæða sig úr hlífðarfatnaðinum.
Að lokum
Aðstæður í umhverfi og flókin samskipti í hlífðarbúnaði leggjast ofan á þá áskorun sem felst í því að hjúkra sjúklingi með hááhættusmitsjúkdóm. Þetta undirstrikar mikilvægi þess að starfsfólk fái reglulega og markvissa þjálfun, bæði í verklagi tengdu umhverfi, búnaði og aðstæðum, sem og í samskiptum við sjúkling og samstarfsfólk. Lærdómur sem fenginn var á Ullevål er gagnlegur við endurskoðun verklags og undirbúnings fyrir fræðslu á Landspítala.
Sólveig Gylfadóttir, hjúkrunarfræðingur á smitsjúkdómadeild