Fagmennska á sér langa sögu meðal heilbrigðisstétta, einkum innan samfélags lækna sem settu sér siðareglur er byggja á eiði gríska læknisins og heimspekingsins Hippókratesar (460-377 fyrir Krist). Samkvæmt þeim er frumskylda læknisins við hinn sjúka og hefur það myndað grundvöll sambands læknis og sjúklings. Löngum hefur verið litið á læknisstarfið sem meira en venjulegt starf, það er köllun sem miðar umfram allt að því að tryggja heilsu sjúklinga.
Aðrar heilbrigðisstéttir, meðal annars hjúkrunarfræðingar og lyfjafræðingar, hafa tileinkað sér siðareglur sem eru hliðstæðar þeim sem finnast í Hippókratesareiðnum. Þar á meðal eru þættir eins og velgjörð í þágu sjúklings, sjálfsforræði sjúklings, trúnaður og réttlæti. Auk skuldbindingar til að veita sjúkum og slösuðum fórnfúsa þjónustu og að viðhalda þekkingu sinni og færni er ætlast til af heilbrigðisstarfsfólki að það beiti sér fyrir réttlátri dreifingu úrræða og vinni gegn mismunun vegna kynþáttar, kyns og félagslegrar stöðu. Í staðinn færir samfélagið heilbrigðisstarfsfólki ákveðin réttindi svo sem heimild til að setja eigin staðla varðandi menntun og færniviðmið. Hefur verið litið á þetta fyrirkomulag sem „samkomulag“ milli heilbrigðisstétta og samfélags.
Fagmennska heilbrigðisstétta hefur átt undir högg að sækja síðastliðin ár. Að verulegu leyti má rekja þá þróun til gríðarlegra samfélagsbreytinga á undanförnum áratugum sem leitt hafa til æ flóknara starfsumhverfis heilbrigðisstarfsfólks þar sem stofnanavæðing og áhersla á rekstur og takmörkun útgjalda hafa verið í fyrirrúmi. Samtímis hafa viðskiptaleg gildi og neytendadrifnar aðferðir orðið áberandi við veitingu heilbrigðisþjónustu sem geta falið í sér hættu á hagsmunaárekstrum. Þá hefur flækt samskipti við sjúklinga að útfærsla klínískrar þjónustu byggir í vaxandi mæli á teymisstarfi með þátttöku fjölda sérhæfðra heilbrigðisstétta. Samhliða þessari þróun hafa kröfur almennings um hágæðaþjónustu aukist. Stjórnendur og starfsfólk eru þó ekki alltaf í aðstöðu til að útfæra þjónustuna á þann hátt sem notendur kjósa því hendur þeirra eru oft og tíðum bundnar vegna ákvarðana á efri stigum í stjórnkerfi stofnana. Enn fremur hefur vafalítið haft áhrif að starfsfólk vinnur víða undir gríðarlegu álagi vegna sívaxandi verkefna og manneklu og er hætt við að það leiði til hnignandi starfsanda sem síðan getur haft neikvæð áhrif á fagmennsku. Loks hafa raddir heilbrigðisstarfsfólks um betra jafnvægi milli starfs og einkalífs orðið háværari á síðustu árum.
Tilkoma samfélagsmiðla hefur gefið röddum úr grasrót heilbrigðisstarfsfólks stóraukin tækifæri til að tjá skoðanir sínar og hefur það á vissan hátt stuðlað að ágreiningi um ýmsa þætti fagmennsku. Kallað hefur verið eftir endurskoðun á gildum sem að mati sumra eiga ekki við í dag. Meðal annars hefur verið tekist á um hvort störf heilbrigðisstétta feli í sér köllun eða séu ósköp venjuleg störf. Einnig hefur örlað á ágreiningi um hve langt frumskyldan gagnvart þjónustu við þá sjúku eigi að ganga. Þá sé hætt við kynjamisrétti þegar notast er við hinar rótgrónu skilgreiningar fagmennsku þar sem þær hafi verið settar fram af körlum í áhrifastöðum innan læknasamtaka og háskóla. Aðrir halda því fram að hin hefðbundnu gildi fagmennsku séu ekki síður mikilvæg í dag en áður fyrr vegna þess flókna starfsumhverfis sem ríkir.
Samfélagsmiðlar hafa líka haft í för með sér áskorun fyrir fagmennsku heilbrigðisstarfsfólks því við notkun þeirra er hætt við að skil milli persónulegs lífs og starfs verði óskörp og getur það leitt til þess að háttsemi sem telst óviðeigandi birtist almenningi. Fagmennska er því heilbrigðisstarfsfólki leiðarvísir þegar það tjáir sig á netinu.
Segja má að fagmennska sé hugtak í stöðugri þróun sem tekur mið af stöðu samfélagsins á hverjum tíma. Þótt ágreiningur ríki um ákveðna þætti fagmennsku er ljóst að hún er nauðsynleg fyrir gæði þjónustu og traust til heilbrigðisstofnana. Rannsóknir hafa sýnt að með fagmennsku að leiðarljósi eykst starfsánægja og framleiðni innan heilbrigðisþjónustunnar. Þá getur rík áhersla á fagmennsku stuðlað að fækkun mistaka og aukið ánægju sjúklinga. Á hinn bóginn er líklegt að ófagleg háttsemi og sjálfmiðuð hegðun meðal heilbrigðisstarfsfólks dragi úr ánægju með þjónustu og leiði til verri starfsanda. Því er óhætt að segja að fagmennska sé kjölfesta öruggrar og skilvirkrar heilbrigðisþjónustu.
Þarfir sjúkra og slasaðra verða ætíð að vera í öndvegi. Þrátt fyrir manneklu verður að vera unnt að tryggja fullnægjandi þjónustu og kallar það á sveigjanleika í skipulagi starfa ásamt skynsamlegri nýtingu tæknilausna. Þegar úrræði innan heilbrigðisþjónustunnar eru takmörkuð er mikilvægt að nýting þeirra sé markviss og því er stýring og forgangsröðun verkefna nauðsynleg. Tryggja þarf greitt aðgengi að þjónustu með sérstaka áherslu á fyrstu samskipti til að koma í veg fyrir töf á meðferð þegar brýn þörf er fyrir hendi. Huga þarf sérstaklega að jaðarsettu fólki sem oft býr við aukna hættu á heilsubresti. Það er mikilvægt að muna að félagslegir áhrifaþættir heilsu eru helstu drifkraftar sjúkdóma. Heilbrigðisstarfsfólk verður að vera málsvari fyrir velferð sjúklinga og leitast við að draga úr misrétti í dreifingu úrræða í heilbrigðisþjónustu og félagslegra þátta.
Að mínu mati hefur fagmennska meiri þýðingu fyrir heilbrigðisstarfsfólk nú en nokkru sinni vegna þeirra miklu samfélagsbreytinga sem átt hafa sér stað á síðustu árum er leitt hafa til nýrra áskorana í samskiptum við notendur heilbrigðisþjónustunnar. Fagmennska skapar siðferðilega umgjörð sem styður heilbrigðisstarfsfólk í flóknu og streituvaldandi starfsumhverfi og tryggir þannig að velgjörð í garð sjúklinga sé í fyrirrúmi. Það kom glögglega í ljós í baráttunni við heimsfaraldur COVID-19. Þá er fagmennska mikilvæg til að tryggja skilvirkt teymisstarf sem byggir á markvissum samskiptum og vel skilgreindum ábyrgðarhlutverkum þvert á heilbrigðisstéttir og hefur bein áhrif á öryggi sjúklinga og árangur meðferðar. Loks styður fagmennska við viðhald trúverðugleika og trausts almennings til heilbrigðisþjónustunnar. Fagmennska starfsfólks er einn helsti styrkleiki Landspítala og hana munum við ætíð hafa í heiðri.
Runólfur Pálsson, forstjóri Landspítala.