Dagurinn markar einingu og samstöðu í samfélagi sjúkraþjálfara sem á þessum degi vilja vekja sérstaka athygli á störfum sínum.
Í ár er þema dagsins heilbrigð öldrun en það felur í sér að vera virkur, viðhalda fjölskyldu- og vinasamböndum og halda áfram að sinna því sem skiptir viðkomandi mestu máli.
- Fjölgun aldraðra er mun hraðari nú en nokkru sinni áður. Áætlað er að fjöldi einstaklinga 80 ára og eldri muni þrefaldast á milli áranna 2020 og 2050 og ná 426 milljónum. Lykilatriði fyrir heilbrigða öldrun er stuðningsríkt umhverfi sem stuðlar að líkamlegri og andlegri vellíðan.
- Að lifa heilsusamlegum lífsstíl alla ævi á stóran þátt í að stuðla að heilbrigðri öldrun og draga úr líkum á mörgum langvinnum sjúkdómum. Á meðal þess sem bætir bæði líkamlega og andlega heilsu er að vera eins virkur og aðstæður leyfa, æfa jafnvægið reglulega, viðhalda félagslegum tengslum, hreyfa liði og vöðva og borða eins hollt og mögulegt er.
- Sjúkraþjálfarar geta ráðlagt um hvernig best sé að tileinka sér heilbrigðan lífsstíl alla ævi og bjóða upp á meðferðir og æfingaáætlanir sem mæta breyttum þörfum. T.a.m. aðstoðað við að draga úr andþyngslum, hvernig eigi að hafa stjórn á langvinnum sjúkdómum og gefið sérsniðnar æfingar auk þess að styðja við endurhæfingu.
- Hreyfing skiptir miklu máli fyrir heilbrigða öldrun. Gott er að hafa í huga að öll hreyfing er betri en engin hreyfing. Hægt er að byrja á lítilli hreyfingu og auka álagið smám saman með tímanum.
- Fullorðnir eldri en 60 ára eru í mestri áhættu á að lenda í byltum sem geta leitt til dauða. Sjúkraþjálfarar geta aðstoðað við að fyrirbyggja byltur, t.d. með því að útbúa einstaklingsmiðaðar æfingaáætlanir sem hjálpa til við að bæta styrk, jafnvægi, samhæfingu og liðleika.
- Hreyfing dregur úr hættu á hjarta- og æðasjúkdómum, háum blóðþrýstingi, byltum, sykursýki týpu 2, beinþynningu og hnignun vitrænnar getu. Hreyfing bætir einnig almenna heilsu, þar á meðal andlega heilsu, og hjálpar til við að ná betri svefni.
- Það er algeng mýta að eftir ákveðinn aldur sé viðkomandi of gamall til að byrja að lyfta lóðum og slíkt myndi líka eingöngu skemma liðina. Staðreyndin er sú að eldra fólk bregst á svipaðan hátt við þjálfun og styrktaræfingum eins og yngri einstaklingar. Að auki getur það að lyfta lóðum styrkt vöðva umhverfis liði sem getur hjálpað til við að vernda og koma í veg fyrir einkenni frá liðum og bætt ástand liðanna.
- Það er slæmt fyrir heilsuna að sitja lengi í einu. Til að takmarka kyrrsetu er gott að skipta henni út fyrir einhvers konar líkamlega hreyfingu, líkt og að standa upp og hreyfa sig í auglýsingahléum í sjónvarpi, standa eða ganga um á meðan talað er í símann, nota stiga frekar en lyftu ef mögulegt og stunda virkar tómstundir á borð við garðvinnu.
- Sjúkraþjálfun getur hjálpað fólki að vera eins virkt og mögulegt er. Þeir sem eru virkir eru allt að 41% líklegri til að forðast það að verða hrumir.
Þorkell Þorkelsson, ljósmyndari Landspítala, heimsótti Landakot og myndaði sjúkraþjálfara að störfum.