Fótameinateymi Landspítala var nýverið heiðrað á ársfundi spítalans fyrir fagmennsku.
Fótameinateymið er þverfaglegt og vinnur að forvörnum, snemmgreiningu og meðferð fyrir sjúklinga með sykursýki, en fótamein eru meðal alvarlegustu og flóknustu langvinnu fylgikvilla sjúkdómsins.
Úr tilnefningu: „Undanfarin fimm ár eða svo hefur teymið unnið markvisst að því að koma á fót fyrstu og enn sem komið er einu samþættu þjónustunni fyrir sykursýkissár á Íslandi. Þessi þjónusta hefur bætt snemmbæra greiningu, meðferð og forvarnir fyrir sjúklinga um allt land.“
Í myndbandinu er rætt við Elvu Rún Rúnarsdóttur og Scott Gribbon úr fótameinateyminu.
Heiðrað er í flokkum sem samsvara gildum spítalans: Umhyggja, fagmennska, öryggi og framþróun. Að auki er heiðrað í flokknum Vinnustaðurinn okkar þar sem heiðraðir eru traustir vinnufélagar sem gera vinnudaginn betri.
Fjölmargar tilnefningar bárust en það er ekki aðeins samstarfsfólk sem getur tilnefnt heldur einnig sjúklingar, aðstandendur og sjúklingasamtök.
Þeir einstaklingar sem voru heiðraðir í ár fengu verkið Á eftir listakonuna Ástu Fanneyju Sigurðardóttur.
Ásta Fanney er talin einn af fremstu gjörningalistamönnum landsins. Hún hefur sýnt og flutt verk sín á söfnum og hátíðum víða um heim og verður fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum í myndlist árið 2026 en tvíæringurinn er talinn einn mikilvægasti vettvangur samtímalistar á heimsvísu.
Verkið Á er prentverk í ótakmörkuðu upplagi en hvert verk er þó einstakt þar sem Ásta stimplar árfarveginn á hvert verk fyrir sig. Þar sem áin endar á hverju blaði tekur hún við á því næsta og þannig flæðir hún áfram í gegnum verkin. Verkið á rætur sínar í gjörningi sem Ásta sýndi á samtímalistasafninu í Tókýó árið 2023.