Sigrún Sigurfljóð Snorradóttir, hjúkrunarfræðingur á gjörgæslu Hringbraut, var heiðruð í flokknum Umhyggja á ársfundi Landspítala sem fram fór í vor.
Sigrún útskrifaðist úr hjúkrunarfræði 1984 og starfaði á gjörgæsludeildinni á Landakoti í 8 ár áður en hún fór á gjörgæsludeild Landspítala þar sem hún hefur starfað í rúmlega 30 ár.
Hjúkrun sjúklinga á gjörgæslu er oft á tíðum flókin og erfið, en einnig gefandi. Að sögn Sigrúnar þarf góður gjörgæsluhjúkrunarfræðingur að hafa mikinn áhuga á starfinu og sýna sjúklingnum og aðstandendum samúð, tillitssemi og vilja til að hjálpa þeim í gegnum erfiða tíma. Þá skipta samstarfsfólk og stjórnendur lykilmáli við að skapa gott starfsumhverfi í þessu krefjandi starfi.
Úr tilnefningu: „Sigrún er yndisleg manneskja sem er alltaf með faðminn opinn. Hún er óhrædd við að sýna umhyggju í einstaklega erfiðum tilfellum og nálgast fólk á þeim stað sem það er hverju sinni, hvort sem það er með alúð, samhygð eða gamansemi.“
Heiðrað er í flokkum sem samsvara gildum spítalans: Umhyggja, fagmennska, öryggi og framþróun. Að auki er heiðrað í flokknum Vinnustaðurinn okkar þar sem heiðraðir eru traustir vinnufélagar sem gera vinnudaginn betri.
Fjölmargar tilnefningar bárust en það er ekki aðeins samstarfsfólk sem getur tilnefnt heldur einnig sjúklingar, aðstandendur og sjúklingasamtök.
Þeir einstaklingar sem voru heiðraðir í ár fengu verkið Á eftir listakonuna Ástu Fanneyju Sigurðardóttur.
Ásta Fanney er talin einn af fremstu gjörningalistamönnum landsins. Hún hefur sýnt og flutt verk sín á söfnum og hátíðum víða um heim og verður fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum í myndlist árið 2026 en tvíæringurinn er talinn einn mikilvægasti vettvangur samtímalistar á heimsvísu.
Verkið Á er prentverk í ótakmörkuðu upplagi en hvert verk er þó einstakt þar sem Ásta stimplar árfarveginn á hvert verk fyrir sig. Þar sem áin endar á hverju blaði tekur hún við á því næsta og þannig flæðir hún áfram í gegnum verkin. Verkið á rætur sínar í gjörningi sem Ásta sýndi á samtímalistasafninu í Tókýó árið 2023.