(Hægt er að horfa á ávarpið hér.)
Heilbrigðisráðherra, kæra samstarfsfólk, ágætu gestir.
Það gleður mig að sjá þann fjölda sem hér er saman kominn til ársfundar Landspítala. Á sama degi fyrir 25 árum var stofnfundur nýs sameinaðs háskólasjúkrahúss haldinn í Borgarleikhúsinu. Þó svo að samruni Landspítala og Sjúkrahúss Reykjavíkur hafi mætt nokkurri andstöðu á sínum tíma þá leikur enginn vafi í mínum huga að með henni var stigið veigamikið skref í uppbyggingu heilbrigðisþjónustu þjóðarinnar. Sannarlega voru miklar væntingar til hins nýja háskólasjúkrahúss sem hafði í för með sér aukna burði og stór tækifæri til framþróunar en verkefnið við að sameina mannauð og menningu hefur staðið fyrir þrifum auk þess sem borið hefur á trega þeirra sem töldu sameininguna varhugaverða.
Í dag stöndum við að sumu leyti frammi fyrir hliðstæðum áskorunum í tengslum við flutning í meðferðarkjarnann og rannsóknarhúsið við Hringbraut, hvort tveggja glæsileg mannvirki. Ljóst er að langþráður flutningur í nýju húsakynnin verður einkar ánægjulegur og ef vel tekst til má segja að okkur hafi endanlega auðnast að ljúka þeirri sameiningu sem hófst um síðustu aldamót.
Það er því viðeigandi að yfirskrift fundarins sé „Sterkari saman – þjóðarsjúkrahús í 25 ár“ og er dagskráin tileinkuð þeim framförum sem orðið hafa fyrir tilstilli öflugs sameinaðs sjúkrahúss. Einnig verður horft fram á veginn og rætt um spítala framtíðarinnar, hvernig við viljum sjá Landspítala þróast sem burðarás íslenskrar heilbrigðisþjónustu og hvaða áherslur þarf að setja svo við getum stuðlað að framþróun á hinum ýmsu sviðum en jafnframt ráðið við vaxandi verkefni.
Um aldamótin átti sér stað ör þróun í þjónustu sjúkrahúsa um allan heim sem beindist einkum að aukinni áherslu á ferliþjónustu samhliða fækkun innlagna og þar af leiðandi legurýma. Ein af forsendum þessa voru miklar framfarir á sviði skurðaðgerða og annarra ífarandi inngripa. Samlegðaráhrifin sem fólust í stofnun hins nýja háskólasjúkrahúss sköpuðu mun betri aðstæður en áður þekktust til innleiðingar umfangsmikilla breytinga. Þjónustueiningar urðu mun stærri og því fylgdi að starfsmannahópar urðu fjölmennari og með fjölbreyttari styrkleika. Sérgreinar lækninga styrktust til muna og við það sköpuðust nýir möguleikar til framþróunar sérhæfðrar þjónustu á flestum sviðum. Þá er rétt að halda til haga að framgangur menntunar og vísinda var eitt af meginmarkmiðum sameiningar spítalanna í Reykjavík í eitt háskólasjúkrahús. Segja má að á margan hátt hafi þróunin verið góð því Landspítali er í dag ein helsta mennta- og vísindastofnun landsins á sviði heilbrigðisvísinda.
Skýr dæmi um uppbyggingu menntunarhlutverksins eru innleiðing og þróun sérnáms innan læknisfræði og aukin tækifæri til framhaldsnáms í öðrum faggreinum á spítalanum. Þrátt fyrir öfluga rannsóknarhópa tel ég ljóst að ekki hefur tekist að rækta vísindastarfið sem skyldi og er forgangsmál að bæta úr því. Í því skyni legg ég mikla áherslu á að efla samstarf Landspítala við Háskóla Íslands, ekki síst þar sem innviðir vísindastarfsemi eru mjög kostnaðarsamir.
Á ársfundinum verður fjallað um breytingar sem orðið hafa í mannauði og menningu spítalans sem nú er fjölþjóðlegur vinnustaður þar sem einstaklingar frá 70 þjóðernum starfa. Hlúa þarf vel að þessum hópi því erlent starfsfólk færir spítalanum bæði dýrmæta fagþekkingu og fjölbreytileika sem endurspeglar samfélagið okkar í dag. Enn fremur verður umfjöllun um þverfaglega teymisvinnu en í ljósi vaxandi verkefna er nauðsynlegt að nýta á markvissan hátt þekkingu og færni fjölbreytts hóps fagstétta. Auk þess verða tækninýjungum gerð skil, annars vegar í klínísku starfi og hins vegar í stafrænni vegferð spítalans. Horft verður til framtíðar í pallborðsumræðum og loks verða starfsmenn að venju heiðraðir í lok fundar fyrir dýrmætt framlag sitt til spítalans.
Á ársfundi er viðeigandi að líta yfir liðið ár en árið 2024 var viðburðaríkt í starfsemi Landspítala. Óhætt að segja að árangur spítalans hafi verið með miklum ágætum. Aukin þjónusta var veitt á flestum sviðum. Sem dæmi má nefna framúrskarandi árangur innan skurðþjónustunnar þar sem aukin afköst leiddu til umtalsverðrar styttingar biðlista. Einnig er eftirtektarvert hversu vel starfsfólk spítalans hefur ráðið við stóraukin verkefni á vettvangi bráðaþjónustunnar þrátt fyrir afar erfiðar aðstæður. Það er til marks um okkar öfluga mannauð. Þá náðist sá ánægjulegi áfangi að stigin voru fyrstu skrefin í sjúkrahúsþjónustu á heimilum fólks þegar krabbameinsþjónustan reið á vaðið. Þessi nálgun, sem hefur farið ört vaxandi í nágrannalöndunum, er ein áhrifaríkasta leiðin til að mæta aukinni eftirspurn eftir þjónustu sjúkrahúsa ásamt eflingu göngu- og dagdeilda.
Ferliþjónusta er langstærsti þáttur klínískrar starfsemi Landspítala og hana er brýnt að þróa enn frekar, meðal annars með áherslu á fjarþjónustu. Á árinu var áfram unnið að því að styrkja samskipti við notendur þjónustu spítalans sem og að auka samtal við sjúklingasamtök. Ráðning talskonu sjúklinga er mikilvægur hluti af þeirri vegferð en sérstök áhersla hefur verið lögð á að bæta þjónustu við jaðarsetta hópa sem standa höllum fæti í samfélaginu. Jaðarsettir hópar samfélagsins glíma margir hverjir við alvarlegar heilsufarslegar áskoranir og er brýnt að Landspítali sem kjölfesta heilbrigðisþjónustunnar gegni stóru hlutverki í heilbrigðisþjónustu við þessa viðkvæmu hópa með fagmennsku og umhyggju að leiðarljósi.
Sem fyrr voru ýmsar áskoranir áberandi á árinu og bar hæst vel þekktan flæðisvanda vegna skorts á legurýmum fyrir bráðveika einstaklinga. Af þeim sökum var rúmanýting langt umfram ásættanleg mörk ásamt því að mikill fjöldi sjúklinga beið langtímum saman á bráðamóttökunni í Fossvogi eftir að komast á legudeild. Þessi staða versnaði er leið á árið og fór svo að spítalinn starfaði nær stöðugt á hæsta viðbragðsstigi innlagna. Óhætt er að segja að þessi þróun sé áhyggjuefni með tilliti til öryggis sjúklinga. Á undanförnum árum hefur verið gripið til fjölda aðgerða innan spítalans til að bregðast við sívaxandi verkefnum innan bráðaþjónustunnar en þær hafa dugað skammt þar sem eftirspurn eftir þjónustu spítalans eykst stöðugt í takt við öra fólksfjölgun og breytta aldurssamsetningu þjóðarinnar. Svigrúm Landspítala til að bregðast við alvarlegum atburðum sem krefjast umfangsmikillar bráðaþjónustu er mjög takmarkað af þessum sökum.
Ekki verður horft framhjá því að þennan þráláta vanda má að verulegu leyti rekja til þess að á hverjum tíma dvelur á Landspítala fjöldi einstaklinga sem lokið hefur meðferð en bíða varanlegs dvalarrýmis vegna færniskerðingar. Auk þess að vera óboðleg staða fyrir þá sem í hlut eiga, reynir það ástand sem hér er lýst verulega á alla innviði spítalans, ekki síst starfsfólkið sem starfar undir miklu álagi við ófullnægjandi aðstæður. Þá er svo komið að húsnæði og tækjakostur Landspítala stenst ekki kröfur nútímans og hefur töf á byggingu nýju mannvirkjanna við Hringbraut að vissu leyti hamlað getu spítalans til að bregðast við auknum verkefnum. Flutningurinn í meðferðarkjarnann og rannsóknarhúsið er því tilhlökkunarefni og mun hafa í för með sér byltingu í þjónustu og starfsumhverfi spítalans.
Spennandi verkefni er fyrir höndum við að endurskipuleggja starfsemi Landspítala í nýju húsnæði og þá menningarbreytingu sem óhjákvæmilega fylgir. Uppbyggingu nýs Landspítala verður þó hvergi lokið með tilkomu meðferðarkjarnans og rannsóknarhússins. Tryggja þarf nægilegan fjölda legurýma við Hringbraut auk þess sem vonir standa til að ný geðþjónustubygging og húsnæði undir dag- og göngudeildarstarfsemi muni bætast við áður en langt um líður.
Þó svo að verkefni spítalans aukist jafnt og þétt og mönnun sé víða áskorun er ánægjulegt að stöðugildum hjúkrunarfræðinga fjölgaði umtalsvert á árinu. Hjúkrunarfræðingar eru kjölfesta í þjónustu Landspítala og góð mönnun innan hjúkrunar leiðir til aukins öryggis sjúklinga. Skortur á hjúkrunarfræðingum er þó enn tilfinnanlegur og enn verri staða er uppi meðal sjúkraliða. Jafnframt vantar lækna á ýmsum sérsviðum. Sú óumflýjanlega staðreynd að starfsfólki spítalans mun ekki fjölga nægjanlega á komandi árum kallar á breytta nálgun við útfærslu þjónustunnar, meðal annars markvissa forgangsröðun verkefna og innleiðingu stafrænna lausna sem auka skilvirkni og afköst. Einnig er öflug teymisvinna lykilatriði til að árangur náist.
Landspítali samanstendur af fjölda fagstétta með ólíka hæfni og færni og verður æ brýnna að nýta þennan dýrmæta mannauð á sem skilvirkastan hátt, til dæmis með tilfærslu verkefna frá einni stétt til annarrar. Með þessi sjónarmið að leiðarljósi var tekið mikilvægt skref á árinu 2024 þegar forstöðuhjúkrunarfræðingar og forstöðulæknar hófu störf en þeim er ætlað veigamikið hlutverk í þágu framlínustarfseminnar.
Rekstur Landspítala var í jafnvægi líkt og síðustu ár. Byggist sá árangur fyrst og fremst á þjónustutengdri fjármögnun því samkvæmt slíku fyrirkomulagi eiga aukin verkefni spítalans að leiða til aukinna fjárveitinga. Nauðsynlegt er að þessari aukningu verkefna verði mætt að fullu með endurgjaldi en sem stendur takmarka fjárlög að sú sé raunin. Enn fremur er ljóst að ákveðnir þættir í starfsemi spítalans þarfnast meiri fjárveitinga eigi fullnægjandi árangur að nást og nægir að nefna þróun og innleiðingu stafrænna lausna og vísindastarfsemi. Þá eru sívaxandi útgjöld vegna nýrra og kostnaðarsamra lyfja stór áskorun en það er afsprengi mikillar framþróunar í lyfjameðferð ýmissa langvinnra sjúkdóma á undanförnum árum.
Í ljósi þess að fjárveitingar til Landspítala eru í eðli sínu takmörkuð auðlind er brýnt að huga stöðugt að hagkvæmni og hagræðingu í rekstri svo unnt sé að skapa svigrúm fyrir þróunarverkefni. Þetta höfum við gert og munum halda þeirri vinnu áfram. Einnig þarf reglubundið að meta árangur af þjónustu spítalans. Ég hef lagt sérstaka áherslu á nýtingu gagna við stjórnun starfseminnar. Vel skilgreindir árangursvísar eru afar gagnleg tól þegar meta á framleiðni og gæði auk margvíslegra mælikvarða sem notaðir eru til að greina leiðir til að bæta þjónustu, stýringu mannauðs og til að tryggja skilvirkan rekstur.
Gæði og öryggi er forgangsmál í þjónustu Landspítala og hefur tekist að stíga markverð skref með innleiðingu nýs gæðastjórnunarkerfis. Samhliða því er brýnt að taka sambærileg skref varðandi skráningu og úrvinnslu atvika en fullnægjandi fyrirkomulag hefur skort á landsvísu í þeim efnum.
Við stöndum frammi fyrir stórum áskorunum í heilbrigðisþjónustunni líkt og flestar aðrar þjóðir. Fjölgun verkefna, auknu álagi á starfsfólk, manneklu og vaxandi útgjöldum. Á Landspítala sjáum við fram á að þurfa að veita meiri þjónustu þrátt fyrir hlutfallslega færra fagfólk. Óhjákvæmilegt er að leita nýrra lausna við útfærslu þjónustunnar. Nýsköpun er grundvallarþáttur þegar kemur að þróun úrræða við aðkallandi áskorunum á sviði heilbrigðisþjónustu. Mikil gróska er í þróun tæknilausna og þýðingarmikið fyrir spítalann að nýta þau tækifæri sem búa í stafvæðingu til stuðnings mannlegri færni. Óhætt er að segja að mestar vonir séu bundnar við lausnir sem byggja á gervigreind en vanda þarf til verka við innleiðingu þeirra.
Landspítali hefur sett sér nýsköpunarstefnu sem meðal annars leggur áherslu á samstarf við ytri aðila. Samstarfsverkefni verða þó fyrst og fremst að byggja á þörfum spítalans og notenda þjónustunnar. Við þurfum líka að þjálfa starfsfólkið okkar á sviði nýsköpunar og því er nýstofnuð námsbraut í nýsköpun mikilvægt skref.
Kæru gestir!
Sameining Landspítala og Sjúkrahúss Reykjavíkur var augljóslega gríðarlega stórt verkefni. Þrátt fyrir fögur fyrirheit um nýtt og öflugt háskólasjúkrahús mætti líklega færa rök fyrir því að allar götur síðan hafi verið unnið að því sameina spítalana tvo. Menningu sem skapast innan sjúkrahúsa verður ekki breytt í einu vetfangi. Þá hefur gert erfitt fyrir hversu langan tíma bygging nýrra mannvirkja hefur tekið en spítalinn er enn með meginaðstöðu bæði á Hringbraut og í Fossvogi og þjónustueiningar á ýmsum öðrum stöðum að auki. Af þeim sökum hefur rekstrarlegur ávinningur af sameiningunni verið takmarkaður. En nú þegar flutningur í nýjar og glæsilegar byggingar við Hringbraut er kominn í augsýn tel ég að ávinningurinn af sameiningunni verði meira áberandi.
Komandi ár í starfsemi Landspítala munu einkennast af breytingum, bæði vegna aukinnar eftirspurnar eftir þjónustu og vegna fyrirhugaðs flutnings í nýtt húsnæði. Ljóst er að næstu ár munu reyna á þrautseigju, frumkvæði og úthald en í þessum umbreytingartímum liggja gríðarleg tækifæri til vaxtar og árangurs. Ég lít björtum augum fram á veginn. Landspítali býr yfir gífurlegum krafti, hugviti og elju og er ég því sannfærður um að komandi ár verði spennandi tímar á Landspítala.
Ég vil að endingu þakka starfsfólki fyrir framlag þeirra hér í dag og hlakka til að hlýða á erindin.
Ég þakka áheyrnina.