Hún lauk lyfjafræðinámi við Háskóla Íslands árið 2006 og framhaldsnámi í klínískri lyfjafræði við University College London árið 2012. Síðastliðið haust lauk Freyja doktorsnámi undir handleiðslu Martins Inga Sigurðssonar, prófessors við Læknadeild Háskóla Íslands og yfirlæknis í svæfinga-og gjörgæslulækninum, og Önnu Bryndísar Blöndal, lyfjafræðings og dósents við Lyfjafræðideild.
Á undanförnum áratug hefur Freyja leitt uppbyggingu sérnáms í klínískri lyfjafræði, samstarfsverkefni Landspítala og Háskóla Íslands, sem einnig nýtur samstarfs við University College London og Royal Pharmaceutical Society. Uppbygging sérnámsins hefur gjörbreytt þjónustu klínískra lyfjafræðinga á Íslandi.
Freyja hefur auk kennslu stundað rannsóknir á sviði sem tengir lyfjafræði og læknisfræði. Hún hefur leitt fjölmargar þverfaglegar rannsóknir í samstarfi við stóran hóp lyfjafræðinga og lækna úr ólíkum sérgreinum, bæði innanlands og erlendis.
Sérstaklega hefur Freyja átt farsælt samstarf við Martin Inga Sigurðsson. Saman hafa þau leiðbeint fjölda meistaranema í lyfjafræði og BS nema í læknisfræði. Þau hafa jafnframt byggt upp umfangsmikinn rannsóknargagnagrunn um lyflæknissjúklinga sem lögðust inn á Landspítala á árunum 2010–2020. Þessi gagnagrunnur er mikilvægur rannsóknarvettvangur til framtíðar og hefur þegar nýst í MSc- og BSc-verkefnum, þremur doktorsverkefnum og nýsköpunarverkefni.
Freyja lauk doktorsnámi í nóvember síðastliðnum undir handleiðslu Martins Inga. Doktorsverkefnið byggði á þremur birtum greinum og einu handriti, og fjallaði um fjöllyfjameðferð, lyfjatengdan skaða og viðeigandi lyfjameðferð hjá öldruðum sjúklingum.
Rannsóknirnar rímuðu við gæðaátak Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar „Medication Without Harm“. Meðal annars var skoðað algengi og nýgengi fjöllyfjameðferðar og óviðeigandi lyfjameðferðar hjá öldruðum sjúklingum, auk þess sem beitt var spálíkan til að meta líkur á lyfjatengdum skaða eftir innlögn á sjúkrahús. Niðurstöðurnar varpa ljósi á áhættuhópa sem þarfnast sérstakrar athygli í meðferð og styðja við þjónustuþróun og forgangsröðun í heilbrigðiskerfinu. Rannsóknin styður við aðgerðir til að stuðla að öruggari, árangursríkari og hagkvæmari lyfjanotkun á Íslandi.
Að auki hefur Freyja unnið að rannsóknum á áhrifum lyfja á þróun óráðs í samstarfi við Háskólann í Innsbruck. Samstarfið hefur skilað sér í öflugum rannsóknarhópi, og fjöldi íslenskra lyfjafræðinemar hafa fengið tækifæri til að vinna að meistaraverkefnum sem hluti af rannsóknarhópnum. Langtímamarkmið rannsóknarhópsins er að þróa alþjóðlegar klínískar leiðbeiningar um áhrif lyfja á þróun óráðs.
Sem klínískur lyfjafræðingur, rannsakandi og kennari leggur Freyja sérstaka áherslu á þverfaglegt samstarf þar sem mismunandi fagstéttir leiða saman krafta sína og nýta styrkleika hvers annars í rannsóknum, klínískri þjónustu og kennslu.