Björn útskrifaðist frá læknadeild HÍ 1981 og hélt síðan til framhaldsnáms í lyf- og gigtlækningum til Stokkhólms og síðan Uppsala á árunum 1985-1995 en hann varði doktorsritgerð sína um heilkenni Sjögren´s við Uppsalaháskóla vorið 1994.
Björn var um tíma forstöðulæknir lyflækningadeilda Sjúkrahúss Akureyrar en hóf síðan störf við Rannsóknarstofuna í gigtarsjúkdómum hér á LSH, jafnframt því sem hann sinnti klínískum störfum við gigtlækningadeild spítalans. Hann er núverandi prófessor í gigtarrannsóknum við Læknadeild HÍ.
Rannsóknir Björns hafa fyrst og fremst einbeinst að bólguferlinum og að nokkru leyti líkamsklukkunni m.t.t. lyfjagjafar en á síðari árum hefur hann stundað umfangsmiklar klínískar faraldsfræðilegar rannsóknir á gigtarsjúkdómum hér á landi. Hann hlaut m.a. viðurkenningu evrópsku gigtarsamtakanna (EULAR) 2008 fyrir „The best clinical study of the year“ fyrir rannsókn sína um ættartengsl sjúklinga með sóragigt.
Hann hefur birt um tvö hundruð ritrýndar fræðigreinar með yfir fjögur þúsund tilvitnana en í um þriðjungi af greinum er hann fyrsti eða síðasti höfundur. Hann hefur einnig verið með yfir þrjú hundruð ágripa í sambandi við rannsóknarkynningar á vísindaþingum bæði hérlendis og erlendis. Samkvæmt síðunni Scopus eru um 640 tilvitnanir þar sem Björn er fyrsti höfundur og um 370 tilvitnanir þar sem hann er síðasti höfundur. Skv. Google scholar er Björn með h-index 37.
Björn hefur leiðbeint fjölda BS nema sem og MSc nema í læknisfræði, hjúkrunarfræði, sjúkraþjálfun og lyfjafræði auk þess að hafa verið aðalleiðbeinandi margra doktorsnema sem og setið í fjölda doktorsnefnda. Þá andmælir hann reglulega við doktorsvarnir erlendis.
Björn veitti forstöðu Vísindasiðanefnd á árunum 2000 – 2006 og var síðar formaður kennslumálanefndar heilbrigðisvísindasviðs við læknadeild um árabil en hann sat einnig í kennslumálanefnd HÍ. Þá hefur hann verið formaður Félags íslenskra gigtlækna 2003-2009 og forseti Norrænu gigtlæknasamtakanna 2004-2006. Hann hefur einnig verið formaður Beinverndar 2001-2016.
Hann á heiðurinn af því að Icebio kerfið var sett á laggirnar en það aðstoðar gigtlækna við kerfisbundið eftirlit og reiknar út staðlaða sjúkdómsvirkni sem gerir gigtlæknum kleift að meðhöndla sjúklinga á markvissan hátt. ICEBIO er einnig mikilvægt tæki til öryggis- og gæðaeftirlits á notkun líftæknilyfja hér á landi. Þá hefur gagnasafnið nýst til viðamikilla rannsókna á síðustu árum og hefur ICEBIO opnað fjölmörg tækifæri á alþjóðlegu samstarfi íslenskra gigtarlækna. NordData verkefnið er dæmi um slíkt samstarf en verkefnið var styrkt af NordForsk. Í NordData unnu öll fimm Norðurlöndin að því að tengja saman sambærileg gagnasöfn við aðrar heilsufarsskrá, s.s. krabbameinsskrár, lyfjagagnagrunn og fæðingaskrá, til 13.02.2025
Björn hefur einnig leitt samstarf Norðurlandanna í rannsóknum á afmyndandi sóragigt þ.e.. “The Nordic PAM Study” en þar var einnig samstarf milli tveggja ólíkra sérgreina þ.e. húðlækna og gigtarlækna.
Björn er núverandi fulltrúi ICEBIO í Euro-SpA verkefninu, sem er stórt evrópskt rannsóknarverkefni, þar sem 17 skrár sambærilegar við ICEBIO eru notaðar til þess að kanna meðferðarárangur og fylgikvilla við líftæknilyfjameðferð hjá sjúklingum með hryggikt og sóragigt í Evrópu. Enn fremur hefur ICEBIO gert mögulegt að Ísland tekur þátt í NordStar meðferðarrannsókninni sem er stærsta meðferðarrannsókn á iktsýki sem framkvæmd hefur verið en yfir 800 sjúklingar tóku þátt í rannsókninni og er hún svokölluð „investigator initiative“ og er því óháð lyfjaiðnaðinum. Fyrsta greinin úr þessari umfangsmiklu rannsókn birtist í BMJ 2020, en fjölda fræðigreina eru þegar birtar eða eru í undirbúningi. Björn situr í Scientific Committee NordStar ransóknarinnar.