Landspítali hefur undanfarin ár verið leiðandi hér á landi í umbótastarfi tengt þrýstingssáravörnum. Sérfræðingar í hjúkrun á spítalanum hafa mótað verklag í samræmi við alþjóðlegar klínískar leiðbeiningar, sem skráð hefur verið í gæðaskjöl í gæðahandbók Landspítala og eru nú öllum opin m.a. á hinum nýja fræðsluvef spítalans. Þar er einnig aðgengilegt alls kyns stoðefni fyrir heilbrigðisstarfsfólk og fræðsluefni fyrir sjúklinga og aðstandendur, tengt þrýstingssáravörnum.
Fjölmargir sjúklingar eru í áhættu á að fá þrýstingssár (stundum kölluð legusár). Þrýstingssár geta verið alvarleg, langvarandi og verulega íþyngjandi fyrir sjúklinga. Hægt er að fyrirbyggja langflest þrýstingssár og því er mikilvægt að veita sjúklingum þjónustu sem miðar að því að þeir fái ekki þrýstingssár.
„Þessi vefsíða er að draga saman á einn stað fræðsluefni sem var í upphafi útbúið fyrir starfsfólk spítalans. Þar er vísað í gæðaskjöl, ýmislegt stoð- og fræðsluefni sem hefur verið útgefið. Því má segja að hægt sé að nálgast verklag og verkfæri sem notuð eru á Landspítala í þrýstingssáravörnum á þessari vefsíðu,“ segir Hulda Margrét Valgarðsdóttir verkefnastjóri þrýstingssáravarna á Landspítala.
Vefsíðuna má finna hér.