Nokkur umræða hefur skapast á Íslandi um hvenær, hvort og hvernig eigi að láta þátttakendur í vísindarannsóknum vita af niðurstöðum sem varða heilsu þeirra og hafa fengist úr sýnum frá þeim sem eru rannsökuð í vísindaskyni. Þar getur t.d. verið um að ræða niðurstöður sem liggja utan eðlilegra marka í mælingum eða niðurstöður erfðarannsókna. Ýmsar áleitnar spurningar hafa vaknað um það hvort og þá hvernig eigi að upplýsa um slíkt.
Vísindasiðanefnd boðar til málþingsins til þess að gefa tækifæri til umræðu sem leitt gæti til mótunar almennrar stefnu Vísindasiðanefndar í slíkum tilfellum.
Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra opnar málþingið með ávarpi. Þá flytja erindi á fundinum Eyja Margrét Jóhönnu Brynjarsdóttir siðfræðingur, Hrefna Dögg Gunnarsdóttir lögfræðingur, Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, og Sigurdís Haraldsdóttir sérfræðilæknir. Að loknum erindum verða pallborðsumræður. Fundarstjóri verður Þorvarður Jón Löve formaður Vísindasiðanefndar.
Sjá nánari upplýsingar um málþingið og dagskrá á vef vísindasiðanefndar.