Tveimur doktorsnemum, Bergþóru Baldursdóttur og Þórarni Árna Bjarnasyni, voru á Vísindum á vordögum á Landspítala 4. maí 2017 veittir 200 þúsund króna styrkir velferðarráðuneytisins til að sækja ráðstefnu erlendis og kynna áhugaverðar niðurstöður vísindarannsóknar viðkomandi.
Þetta er í fyrsta skipti sem slíkir styrkir eru veittir á þessari uppskeruhátíð vísindastarfs á Landspítala og koma til fyrir hvatningu vísindaráðs og vísindadeildar spítalans. Mikilvæg hvatning felist, að mati vísindaráðs, í því fyrir unga vísindamenn að sækja erlendar ráðstefnur og kynna niðurstöður vísindaverkefna sinna. Valið muni byggja á vísindalegu gildi og nýnæmi vísindaverkefnis og þátttöku og fyrri frammistöðu viðkomandi í vísindarannsóknum.
Bergþóra Baldursdóttir er sérfræðingur í öldrunarsjúkraþjálfun við byltu- og beinverndarmóttöku og göngudeild sjúkraþjálfunar á Landakoti. Bergþóra hefur helgað öldruðum starfsferil sinn, nám og rannsóknir með megináherslu á mat, meðferð og ráðgjöf vegna óstöðugleika og byltna. Hún hefur þróað, ásamt dr. Ellu Kolbrúnu Kristinsdóttur, sértæka skynþjálfun frá grunni og forprófað á öldrunarlækningadeild Landspítala Landakoti.
Frekari rannsóknir á þjálfunaraðferðinni hjá einstaklingum sem hafa dottið og úlnliðsbrotnað er viðfangsefni doktorsnáms Bergþóru við Háskóla Íslands sem hún sinnir samhliða starfi sínu á Landspítala. Heiti doktorsverkefnis hennar er „Jafnvægisstjórnun hjá einstaklingum sem hlotið hafa úlnliðsbrot við byltu og áhrif skynþjálfunar“. Leiðbeinandi Bergþóru í doktorsnáminu er dr. Ella Kolbrún Kristinsdóttir og ábyrgðarmaður rannsóknarinnar er Pálmi V. Jónsson.
Bergþóra hefur komið að gerð kennslu- og fræðsluefnis á sínu sérsviði og haldi fjölmörg námskeið og flutt erindi um rannsóknarefni sín á ráðstefnum hér á landi og erlendis. Hún lauk námi í sjúkraþjálfun við Háskóla Íslands 1984, námi í stjórnun og rekstri í heilbrigðisþjónustu 2003 og meistaranámi í líf- og læknavísindum við HÍ árið 2006.
Í upphafi starfsferils síns starfaði Bergþóra á Reykjalundi við endurhæfingu hjartaskurðsjúklinga og almenna endurhæfingu og hún hóf störf á Landspítala á sama sviði árið 1987. Bergþóra var yfirsjúkraþjálfari á öldrunarlækningadeild Landspítala í Hátúni 1991 og síðar öldrunarmatsdeild við Hringbraut. Bergþóra var yfirsjúkraþálfari á Landspítala Landakoti á árunum 1999 til 2007 þegar henni var veitt sérfræðileyfi í öldrunarsjúkraþjálfun.
Bergþóra hefur verið virk í félagsmálum samhliða störfum sínum á Landspítala, m.a. í Félagi sjúkraþjálfara, á vettvangi Kristilegs félags heilbrigðisstétta og hún er ritari Skálholtsfélagsins.
Þórarinn Árni Bjarnason útskrifaðist úr MR 2008 síðan úr læknadeild HÍ 2014. Kandídatsárið tók hann síðan á Landspítala. Þórarinn byrjaði 1. september 2015 á lyflæknasviði Landspítala og vann þar til loka febrúar 2017.
Þórarinn er að fara til Bandaríkjanna í sérnám í University of Iowa (internal medicine residency). Samfara læknanámi og vinnu stundar hann PhD nám þar sem aðalleiðbeinandi er Karl Andersen, prófessor og hjartalæknir. Doktorsverkefnið ber heitið " Greining truflunar á sykurefnaskiptum hjá sjúklingum með brátt kransæðaheilkenni og áhrif þess á alvarleika og þróun æðakölkunarsjúkdóms."