Á ársfundi Landspítala 5. maí 2011 voru 10 einstaklingar og 12 hópar heiðraðir fyrir vel unnin störf. Þetta var í fyrsta skipti sem hópar eru heiðraðir með þessum hætti á ársfundi. Þetta var einnig í fyrsta skipti sem starfsmenn gátu haft bein áhrif á heiðrun á ársfundi með því að senda tillögur um vefsíðu á heimavefnum.
Angela Anchara Chomchuen, starfsmaður á deild A7 á lyflækningasviði
Angela er klár og hefur gott innsæi. Hún er bóngóð, lipur, ljúf og hefur alla hluti á hreinu. Hún er alltaf í góðu skapi og kemur yndislega fram við starfsfólk og sjúklinga. Angela hefur mikið frumkvæði og öll hennar störf einkennast af fagmennsku. Angela er starfsmaður með meiru!
Björg Leifsdóttir, læknaritari á skurðlækningasviði
Björg hefur ætíð nálgast störf sín af fagmennsku og umhyggju fyrir skjólstæðingum og samstarfsfólki. Hún er frumkvöðull í þróun, notkun og umsjón biðlista í bæklunarsérgreininni. Hún er þolinmóð, kurteis og jákvæð og leysir úr öllum verkefnum langt umfram skyldu.
Erla Sigvaldadóttir, yfirlífeindafræðingur á rannsóknarsviði
Erla er yfirmaður eins og yfirmenn eiga að vera. Hún er eldklár, faglega sterk og ber mikla umhyggju fyrir undirmönnum og samstarfsmönnum sínum. Hún á stærstan þátt í því að gera sýklafræðideild að vinnustað þar sem vinnugleði ríkir og starfsmenn fá að blómstra. Hún hefur verið í fararbroddi í sparnaðaraðgerðum á deildinni en ávallt lagt áherslu á að þær komi sem minnst niður á þjónustunni.
Helga Björk Harðardóttir, sjúkraliði á deild 11G á lyflækningasviði
Helga Björk er framúrskarandi sjúkraliði og fagleg í öllum sínum störfum. Hún hefur sýnt þrautseigju, frumkvæði og áhuga í tengslum við flóknar sýkingar sem blóðlækningadeildin glímir við. Hún leggur metnað sinn í að kenna nemum og öðrum nýliðum rétt vinnubrögð í sýkingavörnum. Helga er frábær fyrirmynd.
Hrönn Harðardóttir, sérfræðilæknir á lyflækningasviði
Hrönn hefur haft forgöngu um að bæta skipulag og samstarf fagfólks í mörgum sérgreinum og á mörgum deildum sem annast sjúklinga með lungnakrabbamein. Hún átti hugmyndina að því að koma á greiningaferli fyrir þennan hóp, sem hefur stórbætt gæði þjónustunnar og öryggi sjúklinga.
Ingveldur Ólafsdóttir, hjúkrunarfræðingur á bráðasviði
Ingveldur er frábær hjúkrunarfræðingur sem hefur sjúklinginn ávallt í fyrsta sæti. Hún sýnir bæði sjúklingum sínum og samstarfsfólki mikla umhyggju. Störf hennar endurspegla gildi Landspítalans. Ingveldur er gull af manni.
Oddfríður Ragnheiður Jónsdóttir, stómahjúkrunarfræðingur á skurðlækningasviði
Oddfríður hefur verið stómahjúkrunarfræðingur við Landspítala í mörg ár og lengst af eini sérfræðingur spítalans á þessu sviði. Hún er mjög fær í sínu starfi og veitir stómaþegum ómetanlegan stuðning og umhyggju. Hún er alltaf tilbúin til að leiðbeina og hjálpa sjúklingum og samstarfsfólki og finnur lausnir á öllum vandamálum. Oddfríður er ómetanleg.
Sigríður Gunnarsdóttir, forstöðumaður fræðasviðs krabbameinshjúkrunar
Sigríður er framúrskarandi fagmaður og vísindamaður. Hún stýrir fagráði krabbameinshjúkrunar. Nýverið hlaut hún þriggja ára rannsóknastyrk frá Rannís til að rannsaka þekkingu og viðhorf hjúkrunarfræðinga til verkjameðferðar. Sigríður hefur einnig leitt fagráð hjúkrunarfræðinga á lyflækningasviði af miklum metnaði, en fagráðið hefur unnið að fjölmörgum verkefnum sem stuðla að bættri þjónustu við sjúklinga.
Sigrún Björg Einarsdóttir, rekstrarstjóri á eignasviði
Sigrún Björg er frábær starfsmaður og fagmaður. Hún á, með umhyggjusemi sinni og leiðtogahæfileikum, hvað mestan þátt í því að saumastofa Landspítala fékk viðurkenninguna Múrbrjótinn í mars 2010. Viðurkenninguna veitti Félag heyrnarlausra fyrir framúrskarandi viðhorf til og gott viðmót við heyrnarlausa. Múrbrjóturinn er farandgripur sem var síðast afhentur árið 2001 þar sem ekki fannst verðugur arftaki fyrr en fyrir ári síðan.
Tómas Guðbjartsson, prófessor og yfirlæknir á skurðlækningasviði
Tómas er frábær kennari og félagi sem hefur lagt alúð við að sinna nemendum og ungum læknum. Meðal annars er hann þeim fyrirmynd í að samtvinna kennslu, rannsóknir og þjónustu við sjúklinga sem er er eitt af aðalsmerkjum góðs háskólaspítala. Tómas er óþreytandi við að hvetja læknanema og almenna lækna til að stunda rannsóknir og skapar þannig frjóan jarðveg fyrir framþróun til bættrar þjónustu við sjúklinga.
HÓPAR
Afsláttarnefnd starfsmannafélags Landspítala
Ellen Þórarinsdóttir hjúkrunarfræðingur, Friðþjófur Bergmann rekstrarstjóri og Lilja Arnardóttir hjúkrunarfræðingur sitja í stjórn starfsmannafélags Landspítala og saman mynda þau afsláttarnefnd starfsmannafélagsins. Þau hafa frá upphafi unnið af eldmóði fyrir starfsmenn með því að semja við fjölda fyrirtækja um afslætti af vörum og þjónustu. Skýr sýn á verkefnið, umhyggja fyrir hag starfsmanna og þrautseigja þeirra hefur skilað félagsmönnum í starfsmannafélaginu umtalsverðum kjarabótum og starfsmannafélaginu sístækkandi hópi borgandi félagsmanna.
Vinnuhópur um flýtibatameðferð á kvenna- og barnasviði
Kristín Jónsdóttir sérfræðilæknir er einn af brautryðjendum svonefndrar flýtibatameðferðar eftir kvenlækningaaðgerðir. Meginmarkmið þessarar meðferðar er að bæta líðan kvenna eftir skurðaðgerðir, stytta legutíma á sjúkrahúsi og auka öryggi þjónustunnar. Innleiðing flýtibata var unnin af samstilltum hópi fagmanna sem eru heiðraðir saman hér í dag fyrir vel heppnað umbótastarf. Með Kristínu unnu að þessu verkefni hjúkrunarfræðingarnir Jóhanna Elísdóttir og Danfríður Kristjónsdóttir og Aðalbjörn Þorsteinsson yfirlæknir.