Nefnd sem forstjóri LSH skipaði 24. febrúar 2003 vegna málefna barna- og unglingageðdeildar hefur skilað honum bráðatillögum. Þann 26. febrúar var nefndin beðin að skila bráðatillögum að lausn á vanda BUGL fyrir hádegi mánudaginn 3. mars og gerði hún það. Að öðru leyti mun nefndin starfa samkvæmt erindisbréfi og ljúka fyrra hluta verkefnis sem lýst er þar eigi síðar en í lok mars 2003.
Jón Kristjánsson heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra fékk tillögur nefndarinnar í dag en ráðherra fór þess á leit við forstjóra LSH fyrir helgina að hann setti fram slíkar tillögur.
- Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir að rúmum á unglingageðdeild verði þegar í stað fjölgað úr 9 í 12. Þetta þýddi að dagdeild á BUGL yrði fundinn staður annars staðar í húsnæði deildarinnar. Með þessu móti fjölgaði rúmum um 3 frá því sem nú er. Ekki yrði um umtalsverðan kostnað að ræða vegna þessa.
- Í öðru lagi er gerð tillaga um að göngudeildin sem nú er rekin á BUGL yrði flutt annað og unglingageðdeildin stækkuð. Með því er talið gerlegt að fjölga rúmum á unglingageðdeild í 17 til frambúðar og hefði rúmum þá verið fjölgað úr 9 í 17. Er lagt til að leitað yrði eftir leiguhúsnæði fyrir göngudeild BUGL.
- Í þriðja lagi er lagt til að þegar í stað yrði komið á fót sérstökum starfshópi sem einbeitti sér að bráðatilvikum. Í þessu felst nokkur fjölgun starfsfólks sem veitir geðheilbrigðisþjónustu. Auk þess að sinna bráðatilvikum yrði meginviðfangsefni hópsins að vinna á bráðabiðlistum unglingageðdeildar, heimsækja unglinga í vanda og veita sérhæfða geðheilbrigðisþjónustu utan spítalans. Þá myndi átakshópurinn greiða fyrir innlögn unglinga á unglingageðdeild í samráði við inntökustjóra og vakt barnageðlækna.