Leit
Loka


Stafræn forvarnar- og heilbrigðisþjónusta fyrir einstaklinga með hjartasjúkdóma - fræðsluefni 

Rannsókn á vegum hjartadeildar Landspítala og Sidekick Health

Langvinnir lífsstílssjúkdómar valda um 86% af öllum dauðsföllum í Evrópu, þar vega hjarta- og æðasjúkdómar þungt. Lífsstílsbreytingar gegna mikilvægu hlutverki í að snúa þessari þróun við. Forvarnarþjónusta þarf að fylgja samfélagsþróuninni og við þurfum að gera betur í að nýta atferlisfræði, tækni og leikjafræði (gamification) sem verkfæri til að þróa aðhald og umbun. Á þessu byggir smáforrit Sidekick Health. Sjá meira í inngangi hér neðan...

Í sáttmála um ríkisstjórnarsamstarf 2021 er lögð áhersla á að unnið verði að innleiðingu stafrænna lausna í heilbrigðisþjónustu og að ný tækni verði nýtt til að auka gæði þjónustu og hagkvæmni. Þar stendur enn fremur að stuðla skuli að nýsköpun og ýta eigi undir samstarf opinberra aðila og einkaaðila á sviði tæknilausna, ásamt því að efla fjarheilbrigðisþjónustu. Þetta eru tímamótamarkmið sem spegla umfang og markmið rannsóknar hjartadeildar Landspítala og Sidekick Health. Saman hafa sérfræðingar á þeirra vegum þróað smáforrit (app) í snjallsíma sem er aðlagað að þörfum einstaklinga með hjartabilun, kransæðasjúkdóm og gáttatif.

Langvinnir lífsstílssjúkdómar valda um 86% af öllum dauðsföllum í Evrópu, þar vega hjarta- og æðasjúkdómar þungt. Lífsstílsbreytingar gegna mikilvægu hlutverki í að snúa þessari þróun við. Forvarnarþjónusta þarf að fylgja samfélagsþróuninni og við þurfum að gera betur í að nýta atferlisfræði, tækni og leikjafræði (gamification) sem verkfæri til að þróa aðhald og umbun. Á þessu byggir smáforrit Sidekick Health.

Í smáforritinu er hægt að sinna fjarvöktun einkenna og veita fjarstuðning. Þar eru verkefni aðlöguð að þörfum hvers sjúklingahóps, aðgengi er að fræðsluefni um sjúkdóminn og boðið upp á æfingar sem tengjast næringu, hreyfingu og hugarró auk annarra verkfæra sem gagnast þeim sem vilja bæta lífsgæði sín og meðferðarheldni.

Til að kanna gagnsemi og ávinning smáforrits Sidekick Health fyrir ofantalda þrjá sjúklingahópa var ráðist í rannsókn sem hófst formlega í nóvember 2021 og er áætlað að vari í tvö og hálft ár. Fyrsti sjúklingahópurinn sem prófar smáforritið eru einstaklingar sem hafa greinst með hjartabilun.

Rannsókninni er ætlað að kanna hvort smáforritið

  • Veiti notendum stuðning umfram hefðbundna heilbrigðisþjónustu, auki skilning þeirra á einkennum og styðji við breytingar á lífsháttum sem auka lífsgæði
  • Bæti mögulega ferli innkallana á göngudeild
  • Fækki heimsóknum á bráðamóttöku og/eða innlögnum á sjúkrahús

Fyrirtækið Sidekick Health

Sidekick Health er íslenskt frumkvöðlafyrirtæki sem sérhæfir sig í stafrænni heilbrigðisþjónustu og styðst eingöngu við vísindalegar rannsóknir. Markmið þess er að fræða, styðja og auðvelda einstaklingum með langvinna- og/eða lífsstílstengda sjúkdóma að takast á við breytingar á lífsháttum sem auka lífsgæði þeirra.

Það skemmtilega við appið er að það getur ekki aðeins hjálpað notenda að bæta eigin lífsgæði, heldur líka hjálpað börnum sem búa við vatnsskort. Því virkari sem notandinn er, því fleiri vatnsdropum er safnað. Því fleiri dropum sem er safnað, því meira af hreinu drykkjarvatni mun Sidekick ánafna börnum í neyð.

Um rannsóknina fyrir einstaklinga með hjartabilun

Hringt verður í skjólstæðinga göngudeildar hjartabilunar. Allir þátttakendur sem hafa áhuga á þátttöku fá kynningu á rannsókninni og skrifa að því loknu undir samþykki þess að taka þátt í 12 mánaða rannsókn. Þátttakendum verður raðað af handahófi í annað hvort rannsóknarhóp eða samanburðarhóp.

Þátttakendur í báðum hópum fá hefðbundna eftirfylgni á göngudeild hjartabilunar en því til viðbótar verða þeir boðaðir á Landspítalann við Hringbraut í heilsufarsmælingu, göngupróf, ómskoðun af hjarta og blóðprufur. Einnig verða þátttakendur beðnir um að svara spurningalistum sem þeir fá senda í tölvupóstinn sinn.

Tímalína rannsóknar - þátttakendur:

Um rannsóknina sidekick app

Ef þú lendir í rannsóknarhópi

Auk ofangreindrar þátttöku færðu smáforritið frá Sidekick til afnota. Hjúkrunarfræðingar rannsóknarinnar hjálpa þér að hlaða því niður í símann þinn og kenna á það. Þar ertu beðin/n að skrá einkenni, skoða fræðsluefni, taka þátt í stuttum verkefnum og setja þér heilsufarsleg markmið. Hjúkrunarfræðingar sem vinna við rannsóknina munu styðja við bakið á þér með hvetjandi skilaboðum og leiðbeiningum í gegnum smáforritið. Þau einkenni hjartabilunar sem þú skráir í smáforritið verða enn fremur vöktuð á dagvinnutíma og verða hjúkrunarfræðingar á göngudeild hjartabilunar látnir vita ef bregðast þarf við. Þetta er kjarninn í fjarvöktun einkenna.

Ef þú lendir í samanburðarhópi

Þú færð aðgang að Sidekick smáforritinu þér að kostnaðarlausu 12 mánuðum eftir að þú byrjaðir í rannsókninni.

Geta allir tekið þátt?

Nánast allir geta tekið þátt en það eru ákveðnir skilmálar sem farið verður yfir með þátttakendum. Allir verða hins vegar að eiga snjallsíma og hafa netfang.

Ef þú vilt hætta í rannsókninni

Það er öllum frjálst að hætta í rannsókninni á hvaða tímapunkti sem er án þess að geta til um ástæðu. Mikilvægt er að láta hjúkrunarfræðinga rannsóknarinnar vita svo hægt sé að skrá þig út úr henni t.d. með því að senda línu á hjartasidekick@landspitali.is

Nema annað sé tekið fram þá fer fyrsta heimsókn fram á Landspítala við Hringbraut, göngudeild 10-E. Fáðu þér sæti í biðsal K-byggingar (þar sem beðið er eftir blóðprufum). Þú mátt gjarnan skrá þig inn á móttökustandinum, en þú þarft ekki að gefa þig fram í afgreiðslunni.

  • Hafðu með þér lyfjakortið þitt
  • Taktu símann þinn með þér
  • Boðið er upp á fríar leigubílaferðir innan höfuðborgarsvæðisins tengt komum á spítalann vegna rannsóknarinnar. Ef þú vilt nýta þér slíkt þá pantar þú bíl hjá Hreyfli í síma 588 5522 og biður bílstjórann um að aka þér að inngangi við Eiríksgötu og fylgja þér inn að móttöku öryggisvarða í anddyri. Þar fær bílstjórinn leigubílakort sem jafngildir greiðslu fyrir bílnum. Ef þú býrð utan höfuðborgarsvæðisins sendu okkur línu á hjartasidekick@landspitali.is.
  • Gerðu ráð fyrir fastandi blóðprufu ef tímasetningin hentar þér. Þú átt þó að taka morgunlyfin þín með vatni, þrátt fyrir að vera fastandi.

Ef þú forfallast: Sendu okkur línu á hjartasidekick@landspitali.is eða hringdu á dagvinnutíma í ritara göngudeildar hjartabilunar í síma: 543 6109 eða 543 6456 sem koma skilaboðum áleiðis til okkar.


Ómskoðun af hjarta og gönguprófið hjá sjúkraþjálfara eru á 4. hæð á Landspítala við Hringbraut. Sömu hæð og göngudeild hjartabilunar. Mikilvægt er að taka lyftuna, ekki stigana, svo þú sért ekki þreytt/ur fyrir gönguprófið. Á stigapallinum er móttökustandur þar sem þú mátt gjarnan skrá þig inn. Fáðu þér síðan sæti á gangi 14E og kastaðu mæðinni. Þú byrjar ýmist í ómskoðun eða gönguprófi, en það skýrist allt þegar þú ert komin/n.

Göngupróf - Tekur um 6 mínútur.

  • Vertu í gönguskóm sem þú ert vön/vanur að nota.
  • Komdu með göngustafinn þinn eða göngugrindina.
  • Ekki mæta saddur/södd eða drekka mikið af kaffi eða orkudrykkjum.

Ómskoðun af hjarta - Tekur um 10 mínútur.

Ef þú byrjar á gönguprófinu þá er gott að kasta mæðinni í 5-10 mínútur áður en farið er í ómun. Þú munt þurfa að klæða þig úr að ofan fyrir ómskoðunina og því er gott að mæta í fatnaði sem auðvelt er að afklæðast.

Ef þú forfallast

Sendu okkur línu á hjartasidekick@landspitali.is Á dagvinnutíma má hringja í ritara göngudeildar hjartabilunar í síma: 543-6109 eða 543-6456 sem koma skilaboðum áleiðis til okkar.


Hafðu samband

Tengiliðir Símanúmer Netfang
Ef þú forfallast 543 6109 hjartasidekick@landspitali.is
Ef þú forfallast 543 6456 hjartasidekick@landspitali.is
Hætta rannsókninni hjartasidekick@landspitali.is