Leit
Loka

Hagnýtar upplýsingar

Sýna allt

Deildin er ætluð börnum að 18 ára aldri, sem þurfa á tímabundinni innlögn að halda vegna geðræns vanda þegar þjónusta í nærumhverfi fjölskyldu, á sérfræðistofum eða í göngudeild BUGL nægir ekki. 

Deildin er bráðadeild og er því opin allan sólarhringinn, alla daga ársins. 

Annars vegar geta innlagnir verið með aðkomu bráðaþjónustu BUGL og hins vegar komið til vegna skriflegrar beiðni um innlögn af hálfu málastjóra og sérfræðilæknis barnsins á göngudeild BUGL.

Við innlögn veita foreldrar skriflegt samþykki fyrir innlögninni og börn, sem hafa aldur og getu til, skrifa undir að þau séu reiðubúin að taka þátt í deildarstarfinu.

Á deildinni fer fram sérhæfð athugun á líðan, virkni, samskiptum og hegðun barns.

Byrjað er á að skilgreina markmið innlagnarinnar í samráði við barn og foreldra, jafnframt því að áætla hæfilegan innlagnartíma og væntanlegan útskriftardag þegar það á við. 

Við innlögn er gerð einstaklingsmiðuð meðferðaráætlun fyrir sérhvert barn sem endurskoðuð er reglulega. Lögð er áhersla á virka þátttöku foreldra.

Flest börn að 13 ára aldri dvelja eingöngu yfir daginn á deildinni og eru heima yfir helgar og hátíðar.

Ef metið er að barn þarfnist sólarhringsinnlagnar er í flestum tilvikum hægt að bjóða sérherbergi. 

Ef metið er að barn þurfi að gista á deildinni þá er nauðsynlegt að foreldri gisti með því.

 • Formlegur heimsóknartími er virka daga milli kl. 19 og 20
 • Heimsóknartímar um helgar eru eftir samkomulagi
 • Foreldrar geta alltaf komið í heimsókn – æskilegt er að hringja áður til að tryggja að barnið sé viðlátið
 • Foreldrar geta alltaf hringt á deildina og rætt við barnið sitt. Eins er þeim velkomið að hringja hvenær sem er og ræða við starfsfólkið í síma: 543-4320 eða 543- 4338
 • Hægt er að hafa samband við barnið í þráðlausan síma deildar: 543-4357
 • Hægt er að ná í lækni, sálfræðing, félagsráðgjafa, iðjuþjálfa og annað fagfólk meðþví að hringja í afgreiðslu BUGL í síma 543-4300 milli kl. 8 og 16 alla virka daga
 • Það er hagur allra að vandkvæði sem upp geta komið í samskiptum eða meðferðséu rædd eins fljótt og unnt er
 • Ef barn eða foreldrar eru á einhvern hátt ekki sáttirvið þjónustuna eða samskipti við starfsfólk vill starfsfólkið gjarnan ræða málin ogleita leiða til úrlausnar
 • Eins er börnum og foreldrum velkomið að ræða beint viðhjúkrunardeildarstjóra á dagvinnutíma í síma 543-4300 eða GSM 824-5695
 • Foreldrum er einnig bent á ýmis lög um réttindi sín og heilbrigðisþjónustu
 • Lögin má m.a. nálgast á vef LSH: www.landspitali.is

Deildin sér öllum börnum fyrir lyfseðilsskyldum lyfjum, mat á matmálstímum og rúmfatnaði.

Ef barnið gistir þarf að hafa meðferðis:

 • Almennan fatnað til skiptanna og útifatnað
 • Persónulegar hreinlætisvörur, svo sem tannbursta, tannkrem og sjampó
 • Allt sem tilheyrir skólastarfi, sé barnið á grunnskólaaldri

Starfsemin byggir á umhverfis-, atferlis-, hóp-, fjölskyldu- og einstaklingsmeðferð.

Deildarstarfið er fjölbreytt og í nokkuð föstum skorðum. Þar sem deildin er að hluta til bráðadeild getur það gerst að einstaka dagskrárliðir breytist með stuttum fyrirvara.

Þátttaka barna í daglegri starfsemi er mikilvægur hluti meðferðarinnar og því er lögð áhersla á að öll börn, sem það geta, séu virkir þátttakendur.

Þótt metið sé að barn þurfi að gista á deildinni er það hluti af meðferðinni að barnið dvelji heima um helgar með fjölskyldu sinni sé nokkur kostur á því. 

Stundum er gerður meðferðarsamningur milli foreldra, barns og deildar fyrir fjölskylduna til að styðjast við heima.

Meðan á innlögn stendur sækja börn á skólaskyldualdri annað hvort sinn heimaskóla eða stunda nám í Brúarskóla við Dalbraut, sem er á lóð BUGL. 

Náin samvinna er við kennara skólans m.a. með vikulegum samstarfsfundum þar sem farið er yfir líðan barnanna, hegðun og samskipti. 

Kennarar skólans eru síðan í sambandi við heimaskóla barnsins varðandi mat á náms- og skólastöðu. 

Reynt er að koma eins og hægt er til móts við námsþarfir barna sem eru í framhaldsskóla. Nánari upplýsingar um Brúarskóla er að finna á heimasíðu skólans.

Við innlögn er sérhvert barn með ákveðinn sérfræðilækni auk deildarteymis sem í eru hjúkrunarfræðingur og ráðgjafar á deildinni. 

Sálfræðingur, félagsráðgjafi, þroskaþjálfi, iðjuþjálfi og annað fagfólk kemur að meðferð barnsins eftir því sem þörf er á hverju sinni.

Þar sem deildin er að hluta til bráðadeild eru útidyr og sumar dyr innan deildar hafðar læstar af öryggisástæðum. 

Af sömu ástæðu er við innlögn leitað í farangri allra barna sem gista á deildinni, sem og eftir helgarleyfi þeirra og önnur leyfi frá deildinni. 

Barnið er alltaf viðstatt þegar leitað er í farangri þess. 

Oddhvassir og brothættir hlutir eru geymdir í vörslu starfsfólks.

Í samskiptum er lögð áhersla á kurteisi, tillitsemi, heiðarleika og sannsögli.

Börnin taka þátt í skipulagðri dagskrá deildarinnar, nema annað sé ákveðið í samráði við barnið og foreldra þess.

Þegar barn gistir

 • Börnin fara í sturtu daglega, nema annað sé ákveðið í samráði við barn, foreldra þess og starfsfólk.
 • Milli kl. 15 og 16 er hvíldarstund og þá eru börnin inni á herbergjum sínum
 • Hægt er að fá ýmislegt lánað á deildinni til að dunda sér við í hvíldarstund, t.d. bækur, blöð og liti
 • Eftir kl. 17 á daginn er hægt að horfa á sjónvarpið ef skipulögð dagskrá er ekki í gangi
 • Háttatími er kl. 21:00 fyrir börn yngri en 12 ára og kl. 22:30 fyrir eldri börn. Þá eiga börnin að vera komin inn á herbergin sín, búin að bursta tennur og tilbúin fyrir svefninn
 • Þegar barnið tekur á móti gestum inni á herberginu sínu þurfa herbergisdyrnar að vera opnar í hálfa gátt. Þetta á þó ekki við um heimsóknir foreldra

Á deildinni er óheimilt 

 • Að vera með farsíma eða peninga. Ekki er leyfilegt að taka myndir á deild
 • Reykja, hvort sem er innan dyra eða á lóð BUGL. Ef barn treystir sér ekki til að vera reyklaust á deild er gerður sérstakur samningur um reykingar með foreldrum og barni
 • Vera með eða neyta vímuefna. Ef grunur er um vímuefnaneyslu skilar barn þvagsýni sem prófað er fyrir vímuefnum. Ef vímuefni finnast í þvagsýni eru forsendur meðferðar breyttar og í samráði við foreldra og viðkomandi barnavernd eru teknar ákvarðanir um framhaldið

Á deildinni starfa hjúkrunarfræðingar, sjúkraliðar, kennarar, þroskaþjálfar og ráðgjafar með fjölþætta menntun og reynslu. 

Í teymi deildar starfa einnig læknar, sálfræðingar, félagsráðgjafar og iðjuþjálfi. 

Starfsfólk er ekki einkennisklætt heldur í eigin fötum og ber á sér auðkenniskort sem gefur upplýsingar um nafn og starfsheiti.

Starfsfólkið leggur sig fram við að veita góða þjónustu sem m.a. felur í sér að:

 • Virða það að foreldrar standa barni sínu næst, þekkja það best og bera ábyrgð á þroska þess og velferð
 • Nýta sameiginlega krafta og þekkingu fjölskyldu og starfsfólks og stuðla að því að góð samvinna og traust myndist á milli barns og starfsfólks og á milli foreldra og starfsfólks
 • Umgangast skjólstæðinga sína af hjálpsemi, kurteisi, háttvísi, vinsemd og virðingu
 • Vera meðvitað um að þegar barn leggst inn á deildina getur fylgt því töluvert álag fyrir þá sem standa því næst
 • Fjölskyldan fái þann stuðning sem hún telur gagnlegan
 • Gefa sér tíma til samræðna, leiðbeina, styðja og veita upplýsingar eftir því sem við á og foreldrar óska eftir
 • Vera opið fyrir ábendingum um það sem betur má fara og koma þeim í réttan farveg
 • Allt starfsfólk og nemar eru bundin þagnarskyldu samkvæmt lögum um þagnarskyldu opinberra starfsmanna. Þagnarskyldan fellur ekki úr gildi þótt starfsmaður eða nemi láti af störfum
 • Mikilvægt er að foreldrar barna sem leggjast inn á deildina gæti þagmælsku um það sem þeir kunna að verða vitni að eða heyra um á deildinni og tengist öðrum börnum og fjölskyldum þeirra
 • Talið ekki um aðra sjúklinga, aðstandendur eða starfsfólk nema með leyfi viðkomandi
 • Óheimilt er að taka myndir af öðrum börnum, aðstandendum eða starfsfólki
 • Setjið ekki upplýsingar úr sjúkraskrá á netið – setjið ekki upplýsingar eða myndir af ykkar eigin barni á netið eða í fjölmiðla án þess að íhuga vandlega hvort það þjóni hagsmunum barnsins
 • Starfsfólk deildarinnar sem notar samskiptasíðuna “fésbók” eða sambærilegar síður í frístundum ber að afþakka mögulega vinarbeiðni foreldra, barna og annarra aðstandenda – þetta er gert til að vernda friðhelgi einkalífsins
 • Starfsfólki er óheimilt að þiggja, í tengslum við starf sitt, persónulegar gjafir frá börnum, fjölskyldum þeirra eða öðrum aðstandendum

Á BUGL er lögð áhersla á þjónustu sem sniðin er að hverri einstakri fjölskyldu þannig að hún gagnist allri fjölskyldunni. 

Leitast er við að samræma væntingar fjölskyldunnar við þá þjónustu sem deildin hefur upp á að bjóða. 

Góð samvinna foreldra og starfsfólks er lykilatriði sem m.a. felur í sér að foreldrar þurfa að reikna með nokkrum tíma til þátttöku í meðferðinni bæði á deildinni og heima um helgar.

Samstarf starfsfólks og foreldra felst m.a. í eftirfarandi

 • Á meðan innlögn stendur eru haldnir vikulegir deildarfundir fagfólks með foreldrum og barni þar sem farið er yfir stöðuna, hvað hafi áunnist og hvert
  beri að stefna. Auk viðtala og funda með barni og/eða foreldrum hittist fagfólk reglulega til að fara yfir meðferðaráætlun hvers barns
 • Að vera í gagnkvæmu símasambandi.
 • Að skipuleggja í sameiningu viðveru foreldra á deild og dvöl barnsins heima meðan á innlögn stendur. Það er mikilvægt að foreldrar yngri barna komi með
  þeim á deildina á morgnana til að hægt sé að fara yfir hvernig gengur.
 • Á deildinni er meðferðaríbúð og er fjölskyldum í ákveðnum tilvikum boðið að dvelja í henni. Tilgangur dvalar í íbúðinni er að veita foreldrum stuðning í foreldrahlutverkinu þannig að þeir geti sem best stutt við börn sín.

Fjölskyldusamræður

Í upphafi innlagnar standa fjölskyldum til boða sérstakar stuðningssamræður. Auk fjölskyldu taka hjúkrunarfræðingur fjölskyldunnar og ráðgjafi þátt í samræðunum.

Megintilgangur samræðnanna er að:

 • Leggja drög að góðum samskiptum og trausti milli fjölskyldu og starfsfólks
 • Fjölskyldan finni að þeir séu velkomnir á deildina, að á þá sé hlustað og að þeir séu mikilvægir þátttakendur í meðferðinni
 • Fjölskyldan geti tjáð sig um helstu væntingar sínar til innlagnarinnar þannig að hægt sé að samræma þær eins og hægt er við þá möguleika sem deildin hefur yfir að ráða
 • Fjölskyldan og starfsfólk gangi í takt þannig að þátttaka foreldra í meðferðinni sé ætíð í samræmi við það sem þeir telja gagnlegt og viðráðanlegt hverju sinni
 • Ræða um helstu þætti í dagskrá og starfsemi deildarinnar og auðvelda þannig fjölskyldunni að samræma nauðsynlega þátttöku í meðferðinni við fjölskyldulíf og atvinnu

Ábyrgðarstigskerfi deildarinnar er byggt á þekkingu um þá þætti sem markvisst hvetja til jákvæðrar hegðunar og draga úr neikvæðri hegðun.

Það er notað sem nokkurs konar rammi deildarstarfsins. 

Umhverfismeðferð deildarinnar byggir á ábyrgðarstigskerfinu og taka öll börn þátt í kerfinu nema annað sé ákveðið.

Kerfið er aðlagað hverjum og einum og veitir vísbendingar um hvernig barninu gengur að axla ábyrgð á hegðun sinni og hvernig hæfni þess og geta til samskipta og samstarfs er háttað.

Kerfið á að vera hvetjandi fyrir börnin til að taka virkan þátt í deildarstarfi og meðferð og hafa á þann hátt jákvæð áhrif á hegðun og líðan.

Með því læra börnin hvaða hegðun er æskilegri en önnur og veitir þeim aukna ábyrgð og umbun fyrir að fylgja dagskrá deildar. 

Tilgangurinn er að beina athyglinni að styrkleikum og jákvæðum þáttum í fari barnanna. 

Barnið er á skilgreindum stað í kerfinu hverju sinni sem táknaður er með ákveðnum bókstaf.

Hver bókstafur segir til um hvar viðkomandi barn er statt þ.e. hve mikla ábyrgð það ræður við hverju sinni.

Þannig er lægri bókstarfur ekki jafngildi refsingar, frekar vísbending um hvernig barnið er í stakk búið hverju sinni til að axla ábyrgð á hegðun sinni og líðan.

Í upphafi innlagnar fá foreldrar og barn nánari upplýsingar og leiðbeiningar varðandi ábyrgðarstigskerfið.

Allur nauðsynlegur aðbúnaður, aðhlynning og þjónusta deildarinnar er óháð ábyrgðarstigum og miðast við þarfir barnsins hverju sinni.

 • Í aðdraganda útskriftar er þörf barns og fjölskyldu fyrir frekari þjónustu eftir útskrift áætluð, svo sem þörf fyrir áframhaldandi þjónustu á göngudeild BUGL og í nærumhverfi fjölskyldunnar
 • Við útskrift fá foreldrar afhent „útskriftarblað“ með upplýsingum m.a. um þá þjónustu sem fjölskyldan fær eftir útskrift af deildinni og einnig upplýsingar um hvert hægt er að leita ef upp koma erfiðleikar
 • Til að þjónusta og starfsemi deildarinnar geti sem best tekið mið af þörfum barna og fjölskyldna þeirra er mikilvægt að fá að vita hvað þeim finnst um þjónustuna. Við útskrift er foreldrum því boðið að taka þátt í nafnlausri þjónustukönnun. Starfsfólk veitir frekari upplýsingar um könnunina og framkvæmd hennar.

ÚTGEFANDI: 

LANDSPÍTALI, BARNA- OG UNGLINGAGEÐDEILD, JÚNÍ 2017

UMSJÓN: 

HALLA SKÚLADÓTTIR, AÐSTOÐARDEILDARSTJÓRI

ÁBYRGÐ: 

VILBORG G. GUÐNADÓTTIR, HJÚKRUNARDEILDARSTJÓRI

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir
Af hverju ekki?