Leit
Loka

Hagnýtar upplýsingar

Ef til vill er besta stoðmeðferðin við sársauka sú að hafa foreldri eða annan ástvin við hlið sér. Börn eru öruggari þegar foreldrarnir eru nálægir. Foreldrar ættu ávallt að vera viðstaddir þegar barn þeirra gengst undir læknismeðferð. Þeir geta huggað barnið stitt eða notað aðrar aðferðir til að lina sársauka þeirra.

Börn þurfa að fá einfaldar og nákvæmar upplýsingar um það sem þau þurfa að ganga í gegnum. Ekki skrökva að barni um sársaukafulla meðferð eða nota nálar eða eitthvað slíkt til að hafa í hótunum við það. Ósannindi og hótanir verða oft til þess að börn vantreysta þeim sem bera þær á borð og vekja upp óþarfa kvíða. Segið barninu hvað í vændum er og hvernig því muni líða þegar að því kemur. Útskýrið hlutina hægt og rólega, fá atriði í einu og endurtakið þetta eins oft og þarf. Látið barnið vita að þið skiljið hvernig því líður.

Hjálpið barninu að spyrja spurninga og tjá tilfinningar sínar. Ekkert er athugavert við að barnið sýni merki um að það séu hrætt. Nota má dúkkur, bangsa eða teikningar til að útskýra það sem er í vændum. Barnið getur líka notað sömu aðferð til að tjá líðan sína. Hrósið því þegar það gerir sitt besta. Það er af hinu góða að umbuna barni þegar það hefur verið samvinnuþýtt við erfiðar aðstæður.

Gefið barninu eitthvert val þegar það þarf að gangast undir meðferð, það getur dregið úr sársauka. Barn sem fær til dæmis að velja hvort það situr í stól eða í kjöltu þinni þegar það fær sprautu finnur líklega til minni sársauka en þegar það hefur ekkert val. Jafnvel mjög ung börn gera ákveðið sjálf í hvaða fingur er stungið.

Djúp og jöfn öndun getur linað verki og auðveldað börnum að ná sjálfstjórn. Kennið þetta með því að biðja barnið að anda frá sér og losa um spennuna og láta óttann minnka með hverjum andardrætti. Því næst er barnið beðið um að anda djúpt og rólega að sér. Þegar börn hafa náð vissum aldri geta þau andað að sér og frá sér og losa um spennuna eða láta óttann minnka með hverjum andardrætti. Því næst er barnið beðið um að anda djúpt og rólega að sér. Þegar börn hafa náð vissum aldri geta þau andað að sér og frá sér meðan talið er upp að þremur.

Hægt er að láta mjög ung börn anda djúpt og biðja þau að ímynda sér að þau blási verkjunum burt með því að blása sápukúlur. Foreldrar geta lagt börnunum lið og tekið þátt í leiknum. Vel reynist að dreifa huga barna frá verkjum með því að hafa ofan af fyrir þeim. Talið við barnið, látið það fara í töluleik eða gera öndunaræfingar. Leyfið því að horfa á sjónvarp, hlusta á tónlist eða skoða myndabækur. Hvetjið það til að lesa eða lesið sjálf fyrir það. Slík afþreying dreifir huga barnsins og því líður betur fyrir vikið. Börn geta náð ró og yfirvegun með því að beita ímyndunarafli sínu til þess að gleyma hræðslu og kvíða.

Það getur hjálpað að beina athygli barnsins að einhverju eftirminnilegu sem fjölskyldan hefur gert saman, svo og að lesa sögu sem er í uppáhaldi eða segja skemmtilega sögu. Börn verða gjarnan mjög upptekin að sögum sem þeim eru sagðar. Það má líka beita sefjun til þess að lina verki og sársauka. Segið eitthvað á þessa leið: ,,Látum verkinn fara burt, látum hann síga niður og út úr líkamanum, niður í rúmið og í burtu…gott…svona já, látum hann fara". Notið hugtök sem barnið skilur og talið um athafnir eða reynslu sem vekja ánægju hjá því.

Slökun hefur reynst vel fyrir unglinga. Sálfræðingar, hjúkrunarfræðingar eða aðrir sérmenntaðir heilbrigðisstarfsmenn geta kennt slökun. Hún getur dregið úr kvíða, verkjum, ógleði og uppköstum. Öll börn þarfnast þess að leika sér og jafnvel alvarlega sjúk börn geta tekið þátt í leikjum.

Leikur gerir börnum kleift að skilja tilveru sína og umhverfi og gerir okkur auðveldara um vik að skilja þau. Börn slaka á og gleyma um stund áhyggjum sínum þegar þau leika sér. Munið þó að barn getur verið með verki þótt það sé að leika sér.

Snerting er mikilvæg fyrir öll börn, einkum ung börn sem skynja veröldina kringum sig með snertingu og fyrir tilstilli sjónar. Barnið skynjar snertingu þegar því er strokið, þegar skipt er á því og þegar haldið er á því. Einnig þegar því er vaggað, þegar gælt er við það, þegar einhver hjúfrar það upp að sér, faðmar það eða nuddar. Faðmlög eru hin náttúrulegu verkjalyf. Það tíðkast hvarvetna í heiminum að hugga börn með því að vagga þeim og syngja eða tala blíðlega.

Hiti, kuldi og titringur getur linað verki. Ís sem vafinn er inn í klút og lagður við viðkomandi líkamshluta getur linað verki. Hiti hefur góð áhrif á vöðvaverki. Gætið þess að skaða ekki viðkvæma húð. Titringur getur dregið úr verkjum, hvort sem hann stafar af mjúku banki eða titrara. Við getum kennt börnum að beita margs konar aðferðum sem slegið geta á verki. Þegar þau hafa lært að notfæra sér þessar aðferðir þurfa börn sem eru yngri en átta ára stuðning foreldris eða fagfólks við að nota þær þegar þau gangast undir erfiðar aðgerðir. Eldri börn geta nýtt sér þessar aðferðir upp á eigin spýtur. Stoðmeðferð við verkjum nægir að jafnaði ekki ein og sér þegar um mikinn sársauka er að ræða.

 

Stuðst er við bæklinginn: VERKUR, VERKUR, FARÐU BURT - Ráð gegn verkjum hjá börnum eftir Patrick J. McGrath, Ph.D; G. Allen Finley, M.D., FRCPC og Judith Ritchie, R.N., Ph.D. 
Unnið af Önnu Ólafíu Sigurðardóttur, hjúkrunarfræðingi, Helgu Láru Helgadóttur, hjúkrunarfræðingi og Þórði Þórkelssyni, sérfræðingi á Barnaspítala Hringsins árið 1998. 
Yfirfarið 2013 af Önnu Ólafíu Sigurðardóttur hjúkrunarfræðingi á Barnaspítala Hringsins 


Slökunaræfingar geta dregið úr margs konar vanlíðan. Þegar barnið hefur náð nokkrum tökum á slökunaræfingum getur það nýtt sér þær t.d. til að draga úr verkjum, ógleði, þreytu og kvíða. Þeim er ekki ætlað að koma í stað læknismeðferðar eða lyfja. Mörgum reynist vel að nota slökun samhliða annarri meðferð. Til eru mörg form slökunaræfinga. Ein aðferð getur hentað barninu þínu betur en önnur. Hér á eftir eru leiðbeiningar um eina aðferð til slökunar. Ef til vill getur verið betra að lesa slökunartextann inn á segulbandsspólu svo barnið geti hlustað á hann til að geta einbeitt sér betur. Þessi tækni þarfnast æfinga. Barnið nær betra árangri þegar það hefur endurtekið æfinguna nokkrum sinnum.

Undirbúningur
Veldu rólegan stað þar sem barnið verður ekki fyrir truflun. Það þarf að koma sér fyrir í þægilegri stöðu, sitjandi eða liggjandi, og ekki hafa fætur eða hendur krosslagðar.
Það þarf að beina athyglinni að önduninni í nokkrar mínútur, anda inn um nefið ofan í maga, og anda síðan frá sér út um munninn. Ekki breyta hraðanum viljandi, heldur halda athyglinni á önduninni, innöndun og útöndun, slakað á um leið. Líklegt er að hugurinn reiki. Ef þú finnur að barnið er að hugsa um eitthvað annað, skaltu reyna að beina athygli þess aftur að önduninni.

Vöðvaslökun
Draga djúpt að sér andann og halda honum inni á meðan barnið telur upp að fjórum; anda svo frá sér og slaka á, endurtaka 4-5 sinnum. Við innöndun þyrfti barnið að hugsa sér loftið sem streymir inn til lungnanna sem jákvæða, kyrrláta orku sem streymir inn í það. Við útöndun þyrfti það að ímynda sér að út streymi spenna og neikvæðar hugsanir.
Beina skal athyglinni að einum líkamshluta í senn og slaka á vöðvunum. Í huganum talar barnið til sjálfs sín og segir sér að slaka á líkamshlutanum og endurtekur það 2-3 sinnum. Það getur byrjað á hársverðinum, í huga sínum endurtekur það fyrirmæli um að slaka á höfuðleðrinu. Síðan þarf að færa athyglina að hverjum líkamshluta á eftir öðrum: slaka á enninu, augunum, nefinu, kinnunum, efri kjálka, neðri kjálka, tungunni, hnakkanum og hálsinum. Finni það mikla spennu í ákveðnum líkamshluta þarf að gefa honum meiri athygli. Á þennan hátt fer barnið yfir allan líkamann og slakar á einum vöðvanum eftir annan alveg niður að iljum.

Tilbreyting
Til að finna muninn á spennu og slökun reynist mörgum gott að yfirspenna nokkra líkamshluta og sleppa síðan spennunni og slaka á. Hægt er að kreista aftur augun og beina athyglinni að því að spenna alla litlu vöðvana umhverfis augun í nokkrar sekúndur. Best er að spenna þar til barnið finnur fyrir óþægindum og sleppa þá takinu, slaka síðan vel á og finna þægindatilfinninguna sem fylgir slökuninni. Svo má gera það sama við munninn, axlirnar, hendurnar og tærnar.
Mörgum þykir notalegt að finna fyrir hitatilfinningu. Barnið getur ímyndað sér að sólin skíni á sig, og fundið fyrir hitanum í huganum. Svo beinir það allri athygli sinni að svæðinu sem hinn ímyndaði sólargeisli skín á, slakar á og nýtur hitans. Ef barnið finnur til getur verið gott að nota þessa aðferð og ímynda sér sólina skína á svæðið þar sem verkurinn er. Ef barnið finnur fyrir vöðvaspennu á afmörkuðu svæði getur hjálpað að ímynda sér að það svæði sé stór hnútur sem þarf að leysa. Mikil spenna í öxlum getur verið stór kaðalflækja eða rembihnútur. Barnið beinir huga sínum að því að leysa hnútinn rólega en ákveðið. Eftir því sem hnúturinn losnar verður spennan sífellt minni í öxlunum. Þegar hnúturinn er leystur finnur barnið að slaknað hefur á líkamanum.

Stýrð sjónsköpun
Eftirfarandi æfingu getur barnið notað ef það vill hvíla hugann eða auka orku sína. Best er að gera vöðvaslökunaræfinguna áður, svo það sé í hvíld og jafnvægi, og leiði svo hugann að stað sem er því kær. Þetta getur verið staður sem barnið hefur oft verið á eða staður sem það langar til að koma á. Staðurinn getur jafnvel verið ímyndaður og einungis til í hugarheimi barnsins. Velja þarf stað sem virkar róandi á barnið. Á þessum stað eru engar áhyggjur og engin spenna. Segðu við barnið að það skuli sjá staðinn skýrt fyrir sér í huganum, sjá hann fyrir sér í smáatriðum. Hvernig er birtan? Heyrir þú einhver hljóð? Finnur þú einhverja lykt? Segðu því að vera á staðnum í huganum og drekka í sig róandi umhverfið, njóta hughrifanna sem því fylgja að vera á þessum stað þar sem því finnst gott að vera.



Unnið af Lilju Jónasdóttur hjúkrunarfræðingi, 1999. Breytt og staðfært árið 2002 af Sigrúnu Þóroddsdóttur og Önnu Ólafíu Sigurðardóttur hjúkrunarfræðingum á Barnaspítala Hringsins. Yfirfarið 2013
Að lifa með krabbamein
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir
Af hverju ekki?