Leit
Loka

Hagnýtar upplýsingar

Sýna allt

Góð samvinna foreldra og meðferðaraðila barns skiptir miklu máli. Foreldrar eru þeir aðilar sem þekkja barnið sitt best og þeirra sýn er mikilvæg í vinnu með barninu þar sem þeir þekkja bæði styrkleika og veikleika þess. 

Foreldrar ásamt barninu veita upplýsingar og hjálpa meðferðaraðilum að kortleggja vandann. 

Í framhaldi af greiningarvinnu setja meðferðaraðilar upp greiningaráætlun, í samvinnu við foreldra, út frá því hverjar þarfir barns eru og hvaða meðferð og stuðningur getur nýst barninu og fjölskyldunni. Mikilvægt hlutverk foreldra er að vera talsmenn barnsins. 

Eftir fyrstu greiningarvinnuna eru næstu skref ákveðin. 

Foreldrar þurfa að vera í virkri samvinnu við málastjóra og aðra meðferðaraðila barnsins. Einnig er mikilvægt að koma á framfæri upplýsingum eða spurningum um framgang í þeirra máli svo meðferðin sé í góðum farvegi.

Ef foreldrar/forráðamenn eru með ábendingar og/eða kvartanir í tengslum við meðferð/ þjónustu barns er hægt að hafa samband við þjónustustjóra, deildarstjóra og yfirlækni í síma 543 4300 á göngudeild BUGL.

Yfirleitt tekur viðtalið 1-1 ½ klukkustund. Barnið þarf alltaf að koma og alla jafna báðir foreldrar. 

Allar sálfræðiathuganir eða rannsóknir sem gerðar hafa verið á barninu eiga að hafa fylgt tilvísun og einnig eiga fylgigögn, eins og spurningalistar til foreldra ogkennara, að hafa skilað sér til BUGL. Ef þið vitið af einhverjum gögnum að auki, er gott að taka þau með í fyrstu komu. 

Þar sem margar spurningar geta brunnið á ykkur er ágætt að skrifa þær niður fyrirfram, og jafnvel punkta hjá ykkur í viðtalinu ef það er eitthvað rætt þar sem þið viljið íhuga betur.

Í fyrsta viðtali tekur málastjóri barns á móti ykkur. Foreldrar geta verið boðaðir án barns í fyrsta viðtal, ef svo er fær barnið annan tíma. 

Í viðtalinu er farið yfir lífshlaup barns, einkenni, fjölskyldusögu, skólasögu og fleira. Viðtalinu lýkur með því að farið er yfir næstu skref. 

Læknir barnsins kemur alla jafna ekki með í fyrsta viðtal en fær kynningu á máli ykkar á næsta teymisfundi.

Eftir viðtal við barn og foreldra, þegar búið er að fara yfir öll gögn og kynna málið á teymisfundi, er haft samband við foreldra og þeim afhent áætlun um greiningarferlið innan fjögurra vikna. 

Að lokinni greiningu er útbúin meðferðaráætlun í samvinnu við foreldra. Greiningarferlið getur tekið fjórar til tólf vikur.

Oftast er haldinn upplýsingafundur með skóla og þeim sem sinna barni í heimabyggð. 

Á BUGL er unnið eftir meðalhófsreglu stjórnsýslulaga sem þýðir að meðferð á göngudeild er alla jafna reynd til hins ítrasta áður en úrræði eins og innlögn á legudeild eru reynd.

Reglan er að afhenda foreldrum skriflega meðferðaráætlun sem þarf síðan að endurskoða reglulega.

Þegar niðurstöður úr greiningum liggja fyrir er gerð skýrsla sem yfirleitt er afhent foreldrum á skilafundi.

Skriflegar niðurstöður ættu að hafa borist foreldrum innan 12 vikna frá fyrstu komu.

Þegar mál er komið í þann farveg að barn og fjölskylda þess þarf ekki lengur þá sérhæfðu þjónustu sem BUGL veitir og þjónusta í heimabyggð er tekin við er barnið útskrifað af BUGL.

Er það gert í samráði við foreldra/forráðamenn barns og útskriftarbréf sent tilvísanda með afriti til foreldra og á heilsugæslustöð barnsins.

Ef þú telur að það sé ekki lengur þörf fyrir aðkomu BUGL að máli barnsins þíns biðjum við þig um að láta teymisstjóra vita sem fyrst, símleiðis eða í tölvupósti.

Þá verður tilvísunin endursend og barnið tekið af biðlista. 

Alltaf er hægt að senda nýja tilvísun með nýjum gögnum ef vandi barnsins versnar.

Ef einhverjar spurningar vakna við lestur þessa bæklings, eða eitthvað er óljóst, spurðu þann sem er að styðja ykkur í heimabyggð eða hafðu samband við BUGL.

Einnig er gott að punkta spurningar hjá sér og ræða í fyrsta viðtali.

Síminn á göngudeild BUGL: 543 4300.
Afgreiðslan er opin virka daga frá kl. 8.00-16.00.
Bráðaþjónusta BUGL er opin virka daga frá kl. 8.00-16.00 í síma 543 4300.
Utan dagvinnutíma er bráðasímtölum beint til legudeildar BUGL í síma: 
543 4320 / 543 4338.

Á göngudeild vinnur þverfaglegur hópur sem samanstendur af barnageðlæknum, sálfræðingum, félagsráðgjöfum, hjúkrunarfræðingum, iðjuþjálfum og listmeðferðarfræðingum. 

Teymisfundir eru einu sinni í viku. Á teymisfundum eru ný mál kynnt, eldri mál rædd og ákvarðanir teknar um næstu skref í vinnslu mála. 

Einn málastjóri er í hverju máli ásamt lækni. Fleiri fagaðilar koma að málum barna eftir þörfum. 

Þegar boðað er í fyrsta viðtal er tekið fram hver málastjórinn ykkar er.

Hlutverk málastjóra er að halda utan um meðferð barnsins á göngudeild. Hann sér um að vísa barninu í þau meðferðarúrræði sem talið hefur verið að gagnist barninu og situr fundi með foreldrum og þjónustuaðilum utan BUGL.

Hann er sá sem foreldrar/ forráðamenn ræða við þegar þá vantar upplýsingar um stöðu málsins, vilja gefa upplýsingar um breytta stöðu eða þurfa almennan stuðning. 

Læknirinn í máli barnsins hittir barnið og foreldra eftir þörfum, sérstaklega þegar þarf að meta barnið með tilliti til lyfjameðferðar eða þegar flókin einkennamynd er til staðar. 

Þegar lyfjameðferð er ekki talin nauðsynleg er ekki víst að læknir hitti barnið en hann situr alltaf teymisfundi og fylgist með í gegnum málastjóra. 

Teymið ásamt sérfræðilækni er ábyrgt fyrir þeim greiningum og meðferð sem barnið fær á BUGL.

 Athugið að ef málastjóri er ekki við þegar hringt er eftir upplýsingum er best að skilja eftir skilaboð sem verður svarað eins fljótt og auðið er.

Gott er að geyma þennan bækling til að geta flett upp í honum þegar spurningar vakna.

Bestu kveðjur,
starfsfólk göngudeildar BUGL

ÚTGEFANDI: LANDSPÍTALI, BARNA- OG UNGLINGAGEÐDEILD - BUGL, MAÍ 2017

 UMSJÓN: HUGRÚN HRÖNN KRISTJÁNSDÓTTIR, VERKEFNASTJÓRI

ÁBYRGÐ: UNNUR HEBA STEINGRÍMSDÓTTIR, ÞJÓNUSTUSTJÓRI

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir
Af hverju ekki?