Leit
Loka

Hagnýtar upplýsingar

Hugsanir, líðan og viðbrögð við aðstæðum í lífinu segja til um geðheilsu okkar.

Sjálfsmat, afstaða til lífsins og fólksins sem við þekkjum og þykir vænt um segir einnig til um hana og ennfremur viðbrögð okkar við álagi, tengsl við annað fólk og ákvarðanataka.

Dæmi um góða geðheilsu er að vera sáttur við sjálfan sig og umhverfi sitt, upplifa jafnvægi, öryggi, ánægju í lífi og starfi og hafa getu til að aðlagast breytilegum aðstæðum. 

Líkt og líkamleg heilsa skiptir geðheilsa alla miklu máli, sama á hvaða aldri þeir eru.

Auðvelt er fyrir foreldra að átta sig á því þegar barn er með háan hita. Erfiðara getur verið að koma auga á geðrænan vanda hjá barni því hann er ekki alltaf augljós. Þó má læra að þekkja einkennin.

Geðröskun er hægt að greina því sérfræðingar á sviði geðlækninga hafa rannsakað og skráð einkennin. 

Nokkur dæmi um þau eru þunglyndi, kvíði, athyglisbrestur með ofvirkni auk annarra truflana á hegðun og matarvenjum.

Eitt af hverjum fimm ungmennum glíma við röskun á geðheilsu. 

Því miður fá þau oft ekki þá hjálp sem þau þurfa. Mörg börn og unglingar glíma tímabundið við tilfinningalega streitu þar sem stuðningur fagfólks gæti komið að góðu gagni í stuttan tíma. 

Sem dæmi um slíkan geðheilsuvanda má nefna sorg vegna nýlegs missis ástvinar eða þegar fjölskyldutengsl raskast.

Engin bein tengsl eru á milli vitsmunaþroska barns og geðræns vanda, börn með slíkan vanda geta haft ýmist háa eða lága greindarvísitölu. 

Í skólum er sérkennsla meðal annars notuð til að mæta sérþörfum barna og unglinga með ýmsan heilsuvanda, jafnt
geðrænan sem líkamlegan. 

Ekki þurfa öll börn eða unglingar með geðrænan vanda sérkennslu.

Með alvarlegum tilfinningatruflunum hjá börnum og unglingum er átt við geðheilsuvanda sem veldur verulegri röskun á daglegu lífi, svo sem þátttöku í heimilislífi, skóla eða samfélaginu. Alvarlegar tilfinningatruflanir hrjá eitt af hverjum tuttugu ungmennum.

Án hjálpar getur geðheilsuvandi leitt til erfiðleika í skóla, misnotkunar á áfengi eða öðrum vímuefnum, árekstra við fjölskylduna, ofbeldis eða jafnvel sjálfsvígs.

Ekki eru allar orsakir fyrir röskun á geðheilsu hjá ungu fólki þekktar. Þó er vitað að bæði umhverfisþættir og líffræðilegir þættir geta átt hlut að máli. 

Margir umhverfisþættir geta verið áhættusamir fyrir börn.

Til dæmis er börnum, sem hafa mátt þola vanrækslu, kynferðislegt ofbeldi eða hafa orðið fyrir missi ástvinar vegna dauða, skilnaðar eða sambandsslita, hættara við geðrænum vanda en öðrum börnum. 

Aðrir áhættuþættir eru m.a. höfnun vegna fátæktar, kynþáttar, kynhneigðar, kynama eða trúarbragða. 

Dæmi um líffræðilega þætti eru erfðir, efnafræðilegt ójafnvægi og skaði í miðtaugakerfi. 

Í læknisfræðinni er þetta nefnt taugalíffræðileg röskun í heila.

Ástæða er til að vekja sérstaka athygli á einelti sem getur tekið á sig ýmsar myndir, verið bæði sýnilegt og falið. 

Einelti í hvaða mynd sem það birtist veldur miklum þjáningum sem geta fylgt þolandanum ævilangt. Í verstu tilfellum geta afleiðingarnar leitt til alvarlegs þunglyndis og jafnvel sjálfsvígs. 

Rafrænt einelti er eitt form eineltis sem erfitt er að verjast. Skilaboðin birtast milliliðalaust t.d. sem skilaboð í netpósti, á samfélagsmiðlum eða í farsíma. 

Einelti fylgir alltaf vansæld bæði fyrir þolendur og gerendur.

Þurfirðu hjálp er mikilvægt að þú haldir áfram að leita þar til þú færð þá þjónustu eða hjálp sem hentar barni þínu. 

Sum börn og fjölskyldur þarfnast ráðgjafar eða stuðnings. 

Önnur þarfnast sérstakrar aðstoðar í skólakerfinu, lögfræði- eða félagslegrar aðstoðar, læknishjálpar, dag eða göngudeildarmeðferðar eða vistunarúrræða. 

Þrátt fyrir að meðferð sé nauðsynleg leita sumar fjölskyldur sér ekki aðstoðar af ótta við það sem annað fólk gæti sagt eða hugsað. 

Kostnaður við þjónustuna getur einnig verið hindrun. Leit að hjálp fyrir barnið getur krafist mikillar þrautseigju og þolinmæði af þinni hálfu. 

Þú getur þó verið viss um að það eru aðilar í samfélaginu sem geta veitt viðeigandi aðstoð eða hjálpað þér að finna rétta þjónustu.

Sem foreldrar eruð þið ábyrg fyrir líkamlegu öryggi og tilfinningalegri vellíðan barnaykkar. 

Það er engin ein rétt leið í uppeldi barna. 

Á vefnum, bókum og ritum á bókasöfnum og í bókaverslunum er hægt að fá upplýsingar um þroskaferli barna og unglinga. Þar er tekið fyrir hvernig takast má á við vanda á uppbyggjandi hátt, s.s. aðferðir við aga og annað sem gerir foreldra hæfari en ella í uppeldishlutverki sínu.

 • Foreldrar beita mismunandi uppeldisaðferðum en allir sem standa að uppeldi barns verða að bera velferð þess fyrir brjósti

Hér eru nokkur atriði sem snerta uppeldi sem gott er að hafa í huga en atriðalistinn er alls ekki tæmandi:

 • Gerðu þitt besta til að stuðla að öruggu heimili og félagslegu umhverfi fyrir barnið þitt. Tryggðu að barnið fái næringarríkar máltíðir, reglulegt eftirlit sé með heilsufari þess, s.s. bólusetningar, og að það fái nægilega hreyfingu og hvíld. Gerðu þér grein fyrir þroskastigi barnsins þíns hverju sinni, svo kröfurnar sem þú gerir til þess séu í samræmi við þroskann.
 • Ertu góð fyrirmynd? Skoðaðu aðferðir þínar og hæfni til að leysa vandamál. Leitaðu hjálpar ef þér finnst þér um megn að takast á við tilfinningar eða hegðun barns þíns eða þú átt í erfiðleikum með eigin tilfinningastjórnun í streituvekjandi aðstæðum.
 • Hvettu barnið til að láta tilfinningar sínar í ljós og virtu tilfinningar þess. Útskýrðu fyrir barninu að alveg eins og allir finna fyrir gleði, von og bjartsýni þá geta allir fundið einhvern tíma fyrir sársauka, ótta, reiði og kvíða. Reyndu að komast að orsökum tilfinninga sem hrærast með barninu þínu og hjálpaðu því að láta reiði í ljós án þess að það grípi til ofbeldis. 
 • Efldu gagnkvæma virðingu og traust. Talaðu við barnið án þess að hækka róminn, jafnvel þótt þú sért ekki sammála barninu. Sýndu að þú sért fús til að ræða hvað sem er. 
 • Hlustaðu á barnið af athygli og þegar þú talar við það notaðu þá orð og dæmi sem barnið skilur. Hvettu barnið til að spyrja um það sem það vill fá svör við. Huggaðu barnið og sýndu því stuðning.Vertu heiðarleg(ur) í samskiptum þínum við barnið. Legðu áherslu á það jákvæða. 
 • Ýttu undir hæfileika barnsins og sættu þig við takmarkanir þess. Settu markmið sem byggjast á getu og áhuga þess, ekki á væntingum annarra til þess. Berðu
  hæfileika eða getu barnsins ekki saman við hæfileika eða getu annarra barna. Fagnaðu framförum. Lærðu að meta hversu einstakt barnið þitt er. Njóttu reglulegra samvista við barnið.
 • Reyndu þitt besta til að ala barnið þannig upp að það verði sjálfstætt og hafi trú á eigin verðleikum. Hjálpaðu því að takast á við skin og skúri í lífinu. Sýndu að þú treystir því til að ráða fram úr vanda sem á vegi þess verður og glíma við eitthvað nýtt.
 • Láttu barnið búa við uppbyggilegan og sanngjarnan aga og hafðu samræmi í orðum og gerðum. Athugaðu að agi er þáttur í námi og lifnaðarháttum en líkamleg refsing ekki. Börn og fjölskyldur eru mismunandi. Finndu hvað virkar fyrir barnið þitt. Sýndu ánægju þegar barnið hegðar sér vel og hjálpaðu barninu að læra af 

Sýni barn þitt einhver af eftirtöldum hættumerkjum og þau eru alvarleg leitaðu þá hjálpar strax.

Vertu á varðbergi ef barn sem þú þekkir:

 • Er mjög dapurt og vonlaust án sýnilegrar ástæðu og þessar tilfinningar líða ekki hjá
 • Er oft mjög reitt, grætur mikið og sýnir óeðlilega sterk viðbrögð við því sem kemur upp
 • Er með sektarkennd og finnst það vera einskis virði
 • Er kvíðnara eða áhyggjufyllra en jafnaldrar þess
 • Sýnir sorgarviðbrögð í óeðlilega langan tíma vegna missis eða dauðsfalls nákominnar manneskju eða gæludýrs
 • Er mjög hræðslugjarnt, óttast eitthvað sem það getur ekki skýrt eða verður oftar óttaslegið en jafnaldrar þess
 • Er með stöðugar áhyggjur af líkamlegum vandamálum eða útliti
 • Er hrætt um að huga þess sé stjórnað eða það hafi ekki stjórn á hugsunum sínum

 Vertu á varðbergi ef þú verður var við miklar breytingar hjá barni sem þú þekkir:

 • Ef því fer allt í einu að ganga illa í námi og skóla
 • Ef það missir áhuga á því sem það hafði áður gaman af
 • Ef svefn þess eða matarlyst raskast án sýnilegrar ástæðu
 • Ef það forðast vini eða fjölskyldu og vill helst alltaf vera í einrúmi
 • Ef það lifir óeðlilega mikið í dagdraumum og er framtakslaust
 • Ef því finnst lífið of erfitt og talar um að það vilji ekki lifa lengur
 • Ef það heyrir raddir sem ekki er hægt að skýra

Elskaðu barnið þitt skilyrðislaust.

Kenndu því:

 • Mikilvægi samvinnu
 • Að biðjast afsökunar
 • Gildi þess að sýna umburðarlyndi 
 • Tillitssemi við aðra

Vertu á varðbergi ef barn sem þú þekkir á í vanda vegna þess að:

 • Það á erfitt með að einbeita sér og getur ekki tekið ákvarðanir 
 • Það á erfitt með að sitja kyrrt og halda einbeitingu
 • Það hefur áhyggjur af því að einhver vinni því mein
 • Það meiði aðra eða geri eitthvað slæmt
 • Því finnst það sífellt þurfa að þvo sér, halda hlutum hreinum eða framkvæma sömu athafnir margoft á dag
 • Því finnist hugsanir þess þjóta áfram í huganum, næstum of hratt til að hægt sé að fylgja þeim eftir
 • Það fær martraðir hvað eftir annað

Vertu á varðbergi ef hegðun barns sem þú þekkir leiðir til ,,vandræða”:

 • Þegar það notar áfengi eða önnur vímuefni
 • Þegar það borðar yfir sig og þvingar sig síðan til að kasta upp eða notar hægðalyf til að komast hjá því að þyngjast
 • Ef það er í stöðugri megrun eða stundar óhóflega líkamsrækt þrátt fyrir að það sé mjög grannholda
 • Ef það skaðar sig viljandi, s.s. rispar sig eða meiðir á annan hátt
 • Þegar það meiðir aðra oft, skemmir hluti eða brýtur lög
 • Þegar það gerir eitthvað sem getur verið lífshættulegt

Það er í góðu lagi að biðja um hjálp.

Finndu einhvern sem þú getur talað við og treyst.
Það gæti t.d verið ættingi, vinur eða prestur. Hafi sá sem þú leitar til ekki svör fyrir þig finndu þá einhvern annan sem gæti haft þau. 

Þú gætir einnig ákveðið að leita strax hjálpar hjá einhverjum sem hefur þjálfun í að styðja börn eða unglinga sem stríða við
geðheilsuvanda.

Þeir sem hægt er að leita til eru til dæmis:

 • Barna- og unglingageðlæknar
 • Sálfræðingar
 • Heimilislæknar
 • Hjúkrunarfræðingar
 • Námsráðgjafar
 • Félagsráðgjafar
 • Iðjuþjálfar

Dæmi um hvar þetta fólk vinnur:

 • Skólar/ heilsugæslustöðvar
 • Bráða- og göngudeildir geðdeilda
 • Sjálfstætt starfandi sérfræðingar á stofum
 • Þjónustumiðstöðvar/félagsmálastofnanir
 • Félagsmiðstöðvar/félagasamtök og athvörf
 • Fjölskylduþjónusta kirkjunnar
 • Sjónarhóll


Talaðu við heimilislækni, skólasálfræðing, skólahjúkrunarfræðing eða annað fagfólk sem hefur sérþjálfun í að meta hvort barnið á við geðheilsuvanda að stríða.

Vinsamlegast athugið að ekki er opin bráðamóttaka á BUGL heldur þarf alltaf að hringja í afgreiðslu í síma 543-4300 milli kl. 08:00 til 16:00 virka daga. Utan dagvinnutíma er bent á bráðamóttöku barna á Barnaspítala Hringsins og bráðamóttökuna í Fossvogi.

Heimildir: 

SteinunnGunnlaugsdóttir og Unnur Heba Steingrímsdóttir (1997).

Þýðing á bæklingi fyrir börn:

Caring for every child´s mental health: Communities together campaign. Substance Abuse and Mental Health Services Administration. Center for Mental Health Services (1995). 

Samvinnuverkefni Geðhjálpar og Barna- og unglingageðdeildar Landspítala í tilefni alþjóðlegs geðheilbrigðisdags 10. okt. 1997. 

Bæklingurinn var yfirfarinn og endurgerður af Unni Hebu Steingrímsdóttur, BUGL, 2017

Útgefandi:

LANDSPÍTALI - BARNA- OG UNGLINGAGEÐDEILD - BUGL JÚNÍ 2017

Umsjón og uppsetning:

Hugrún Hrönn Kristjánsdóttir, verkefnastjóri

Ábyrgð:

Unnur Heba Steingrímsdóttir,þjónustustjóri

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir
Af hverju ekki?