Leit
Loka

Hagnýtar upplýsingar

Orsök botnlangabólgu er ekki þekkt en algengasta kenningin er að sjálft opið inn í botnlangann stíflist, t.d. vegna hægða, sem veldur svo bólgu og sýkingu.

 

Einkenni botnlangabólgu geta verið misjöfn á milli einstaklinga en byrja yfirleitt með verk í eða ofan við nafla. Verkurinn færist svo gjarnan niður og til hægri í kviðarholinu.Verkurinn stigmagnast þegar á líður og er sérstaklega slæmur við hreyfingu og hósta.

Flestir hafa litla matarlyst og margir finna fyrir ógleði eða flökurleika og kasta jafnvel upp.

Sumir fá niðurgang og flestir fá hita. Þegar rof kemur á botnlangann, getur sýkingin borist í kviðarholið og valdið lífhimnubólgu og ígerð. Verða einkennin þá svæsnari með miklum kviðverkjum, háum hita og slappleika.

Erfiðara getur verið að greina botnlangabólgu hjá mjög ungum börnum því þau hafa óræðari einkenni og eiga erfiðara með að tjá einkennin.

Það er ekki til nein ein rannsókn til að greina botnlangabólgu með vissu og því er sjúkrasaga, líkamsskoðun og mat skurðlæknis mjög mikilvægt.

Teknar eru blóðprufur til að mæla hvort það séu sýkingarmerki í blóðinu en sú rannsókn er ekki sértæk til að greina botnlangabólgu.

Myndgreining eins og tölvusneiðmynd og ómskoðun af kviðnum getur oft hjálpað til við greiningu.

Barnaskurðlæknir tekur endanlega ákvörðun um þörf á aðgerð.

Meðferð við botnalangabólgu er bráð skurðaðgerð ýmist opin eða með kviðsjá. Báðar aðgerðirnar eru taldar mjög öruggar.

Hvor aðferðin er notuð fer eftir aldri barnsins, kyni og líkamsbyggingu, ásamt vali þess skurðlæknis sem framkvæmir aðgerðina í samráði við sjúklinginn og aðstandendur hans.

  • Í opinni aðgerð er botnlanginn fjarlægður í gegnum lítinn skurð neðarlega hægra megin á kvið
  • Í aðgerð með kviðsjá eru gerð þrjú lítil göt á kviðinn, lofti blásið inn í kviðarholið og botnlanginn fjarlægður með kviðsjánni

Botnlanga aðgerð er tiltölulega einföld aðgerð sem tekur innan við klukkustund, en er erfiðari og hættumeiri ef rof hefur orðið á botnlanganum.

Fylgikvillar eru fátíðir en geta verið:

  • Sýking í skurðsári
  • Blæðing
  • Igerð í kviðarholi eða garnastífla

Í sumum tilvikum þegar rof hefur komið á botnlangann og ígerð hefur myndast er botnlangabólgan meðhöndluð fyrst með sýklalyfjum og botnlanginn fjarlægður nokkrum mánuðum seinna með aðgerð.

Kviðerkir eru mjög algengir hjá börnum og erfitt getur verið að greina hvort um botnlangabólgu sé að ræða, sérstaklega því yngri sem börnin eru.

  • Ráðlegast er að láta lækni meta barnið ef það er með kviðverki.

Börnum sem grunur leikur á að séu með botnalangabólgu er vísað á Barnaspítala Hringsins til frekara mats.

  • Barnið er með kviðverki

Barnið er með:

  • Kviðverki
  • Hita og lystarleysi /ógleði /uppköst
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir
Af hverju ekki?