Leit
Loka

Hagnýtar upplýsingar

Átraskanir einkennast af alvarlegum truflunum á matarvenjum.

Þær þróast oftast í kjölfar megrunarkúra þar sem fólk ætlar í fyrstu að losa sig við nokkur kíló eða fer hreinlega í öfgakennda megrun með því að svelta sig eða losa sig við mat á annan hátt.

Slíkir kúrar geta endað í vítahring þar sem einstaklingnum finnst hann aldrei nógu léttur og missir sjónar á hvað er eðlileg líkamsþyngd og eðlileg máltíð.

Mataræðið einkennist oft af litlu, einhæfu og fitusnauðu fæði. Einnig getur verið um að ræða alvarlegt ofát, jafnvel í köstum þar sem einstaklingurinn missir stjórn á því magni sem hann borðar en losar sig síðan við fæðuna á eftir, t.d. með því að framkalla uppköst.

Ofhreyfing eða óhófleg líkamsrækt er algeng átröskunarhegðun.

Átröskunum fylgir andleg vanlíðan, kvíði og þunglyndi og mikil óánægja með líkamlegt útlit. Manneskjan verður heltekin af hugsunum um mat og þyngd og hræðslu við að borða.

Átraskanir eru sjúkdómur en ekki hegðunarvandamál og sá sem veikist þarf að fá meðferð.

Orsakir eru margvíslegar, bæði líffræðilegar og sálfélagslegar og meðferð getur verið margþætt. Ef gripið er nógu snemma inn í sjúkdómsganginn með ráðgjöf og stuðningi má oft hindra að sjúkdómurinn þróist á alvarlegt stig.

Þekktustu átraskanirnar eru:

 • Lystarstol (anorexia nervosa)
 • Lotugræðgi (bulimia nervosa)
 • Lotuofát (binge eating disorder) hefur nýlega verið skilgreint sem sjúkdómur og veldur oft offitu
 • Sumar átraskanir eru “blandaðar” með einkennum bæði frá lystarstoli og lotugræðgi og eru kallaðar óskilgreindar átraskanir

Meðferð hjá átröskunarteymi LSH skiptist í dag- og göngudeild

 • Göngudeildarmeðferð felst í reglulegum viðtölum við meðferðaraðila (oftast 1-2x í viku til að byrja með). Einnig býðst viðkomandi viðtöl hjá öðrum sérfræðingum í teyminu eftir þörfum s.s. næringarfræðingi, geðlækni og félagsráðgjafa/fjölskylduþerapista.
 • Dagdeildarmeðferð er að jafnaði 8 vikur í senn, alla virka daga frá kl. 8.30-15.30, nema miðvikudaga, þá hefst dagdeild kl. 11 og er til kl. 15.30.

Máltíðarstuðningur

Í dagdeildarmeðferð felst m.a. að þiggja máltíðarstuðning í morgunmat, hádegismat og síðdegisbita. Lögð er áhersla á að borða reglulega yfir daginn og fjölbreytta fæðu. Viðkomandi fær stuðning við að klára ráðlagðan matarskammt hverju sinni, þiggja aðstoð við að skipuleggja máltíðir utan deildar og skrá í þar til gerða matardagbók. Stuðningurinn er veittur fyrir máltíð, meðan á henni stendur og á eftir. Eftir því sem frelsi gagnvart mat verður meira eykst frelsi frá átröskun.

Dagdeildarstarfsemi

Meðferðin er þverfagleg og að henni koma sálfræðingar, læknir, næringarfræðingur, hjúkrunarfræðingur, fjölskylduþerapisti og ráðgjafar.
Ásamt því að bjóða upp á máltíðarstuðning eru ýmsar hópfræðslur og námskeið, til dæmis hugræn atferlismeðferð við átröskunum, samskiptafærni o.fl., líkt og sjá má í stundaskrá dagdeildar (dæmi)

Fyrir utan það sem fram kemur á stundatöflu eru veitt einstaklings- og fjölskylduviðtöl.

Markmið meðferðar

 • Auka innsæi/vilja sjúklings til að ná bata og öðlast heilbrigði
 • Meðhöndla líkamlega og sálræna fylgikvilla
 • Aðstoða sjúkling við að komast í, viðhalda og sætta sig við kjörþyngd
 • Bæta næringarástand og koma á reglubundnu mataræði
 • Takast á við hugsanaskekkjur og röng viðhorf sem tengjast mataræði og hugmyndum um líkama
 • Bæta sjálfstraust
 • Bæta samskiptamynstur

Ef grunur er um átröskun getur verið gagnlegt að byrja á að leita á heilsugæsluna. Þar getur heimilislæknir metið vandann og sent tilvísun í átröskunarteymið með samþykki sjúklings.

Einnig er tekið við tilvísunum frá fagfólki innan og utan LSH, skólum og öðrum fagaðilum.

Göngudeild geðsviðs sjá hér >> Gjaldskrá geðsviðs

Dagdeildarþjónustan er ókeypis

Einstaklingar með átraskanir hafa oft ýmis líkamleg og geðræn vandamál.

Það þarf því oft að fylgjast náið með ástandi þeirra.

Hjá öllum sem hefja meðferð í teyminu eru teknar blóðprufur, þar sem mældur er blóðhagur, sölt í blóði, starfsemi nýrna og lifrar, skjaldkirtils og fleira. Þessar blóðprufur eru síðan endurteknar eftir þörfum í meðferðinni.

Þunglyndi og kvíði eru einnig algengir fylgifiskar átraskana og oft geta þunglyndislyf komið að gagni.

Bætt andleg líðan getur hjálpað einstaklingum að takast á við átröskunina og aukið árangur í meðferð.

Allir fá tækifæri til að ráðfæra sig við lækni um möguleika á lyfjameðferð, kosti þeirra og galla.

Stöku sinnum kemur fyrir að einstaklingar eru of veikir af átröskun til að geta nýtt sér meðferð hjá teyminu, í göngudeild eða dagdeild.

Ef ástand þeirra er mjög slæmt eða lífshættulegt er boðið upp á innlögn.

Innlagnir eru gerðar á almennar móttökudeildir geðdeilda LSH við Hringbraut og sjá deildirnar um meðferðina á meðan á innlögn stendur.

Mikilvægi matar og hreyfingar til að viðhalda heilbrigði verða seint ofmetin.

Matur er ekki aðeins lífsnauðsynlegur sem orkugjafi og byggingarefni líkamans heldur er hann einnig stór hluti af lífsgæðum okkar.

Matur hefur mikið félagslegt gildi því félagslegum samskiptum fylgir oft eitthvað matarkyns.

Því veldur átröskun ekki aðeins líkamlegum skaða heldur rýrir sjúkdómurinn lífsgæði einstaklingsins.

Næringarfræðingur átröskunarteymisins vinnur að næringarmeðferð á göngudeild í samstarfi við aðalmeðferðaraðila og lækni teymisins. Einnig veitir hann fræðslu og ráðgjöf á dagdeild.

Markmið næringarmeðferðar eru einstaklingsbundin og unnin í samvinnu við sjúkling en miða fyrst og fremst að því að stöðva átröskunarhegðun (s.s. svelti, átköst og/eða uppköst eða önnur losunarhegðun) og koma á reglulegum og heilbrigðum fæðuvenjum.

Að auki stuðlar meðferðin að fjölbreyttara fæðuvali, betra næringarástandi og bættri líkamlegri heilsu.

Næringarmeðferðin miðar einnig að því að einstaklingurinn tileinki sér eðlileg viðhorf til matar og öðlist heilbrigt samband við mat.

Sé einstaklingur í undirþyngd er þyngdaraukning að kjörþyngd einnig æskilegt markmið.

Hugræn atferlismeðferð (HAM) er algeng sálfræðimeðferð sem notuð er við átröskunum. Rannsóknir hafa sýnt fram á góðan árangur hennar. Meðferðin byggir á hugrænni nálgun um þá þætti sem viðhalda átröskunum. Megin einkenni átröskunar eru ofuráhyggjur af líkamsþyngd og lögun og ofmat á eigin getu til að stjórna þyngd og lögun. Einkennin leiða til óæskilegs hegðunarmynsturs sem viðheldur átröskuninni. Í meðferðinni er lögð áhersla á að skoða og breyta hegðun, hugsun og viðhorfum skjólstæðings til þessara þátta.

Í meðferð á dagdeild átröskunar eru regluleg fjölskylduviðtöl. Í fjölskylduviðtöl mæta sjúklingurinn og hans nánasti eða nánustu aðstandendur.

Í þessum viðtölum fá aðstandendur tækifæri til að spyrjast fyrir um einkenni og áhrif sjúkdómsins en einnig um líðan og bataferli sjúklingsins.

Það er undir sjúklingnum komið hversu miklar upplýsingar hann vill gefa nema að samið hafi verið um annað.

Fjölskyldan fær í þessum viðtölum einnig hjálp til að vinna úr erfiðum samskiptum og finna nýjar og árangursríkari leiðir sem geta nýttst í bataferlinu.

Á göngudeild átröskunar er einnig boðið upp á fjölskylduviðtöl ef sjúklingur óskar eftir því. Rannsóknir sýna að stuðningur frá fjölskyldu er mjög mikilvægur í bataferli sjúklingsins.

Tenglar

http://www.eatingdisorders.com/

http://pslandsforening.dk/

http://psychcentral.com/disorders/eating_disorders/

http://www.cci.health.wa.gov.au/

 http://www.nice.org.uk/Guidance/CG9

 

Fyrir aðstandendur

http://tandf.msgfocus.com/files/tfinf_tandf/project_662/Eating_Disorders_WP_final-mres.pdf

 

Bækur

Overcoming Binge Eating. Höf: Christopher G Fairburn (1995)

Skills-based Learning for Caring for a Loved One with an Eating Disorder: The New Maudsley Method. Höf: Janet Treasure, Gráinne Smith og Anna Crane (2007)

The parent´s guide to eating disorders. Höf: Marcia Herrin og Nancy Matsumoto (2007)

Demystifying anorexia nervosa. Höf: Alexander R Lucas (2004)

Getting better bit(e) by bit(e): A survival kit for sufferers of bulimia nervosa and binge eating disorders. Höf: Ulrike Schmidt og Janet Treasure (1993)

Anorexia nervosa: A survival guide for families, friends and sufferers. Höf: Janet Treasure (1997)

Lystarstol og lotugræðgi. Höf: Julia Buckroyd, ísl. þýð: Eva Ólafsdóttir (Vasaútgáfan 1997)

 

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir
Af hverju ekki?