Leit
Loka

Félagsráðgjöf

Á Landspítala starfa um 50 félagsráðgjafar og veita þeir þjónustu á öllum klínískum sviðum. Félagsráðgjafar starfa til verndar andlegu, líkamlegu og félagslegu heilbrigði og veita stuðning og ráðgjöf til aðstandenda. Grundvöllur félagsráðgjafar eru mannréttindi og félagslegt réttlæti með áherslu á sérstöðu hvers einstaklings og trú á getu hans til að nýta hæfileika sína til fullnustu.

Banner mynd fyrir  Félagsráðgjöf

Hagnýtar upplýsingar

Klínísk vinna félagsráðgjafa á sjúkrahúsi felst fyrst og fremst í því að:

  • Efla persónulega styrkleika einstaklings með sérhæfðri meðferðarvinnu í einstaklings- fjölskyldu- eða hópmeðferð
  • Efla sjálfsstyrk og tilfinningatengsl

Aðstæður eru kannaðar eftir þörfum, samfélagslegra úrlausna leitað.

Aðstoð er veitt við umsóknir um félagsleg réttindi og er það liður í að framfylgja endurhæfingaráætlun og bæta meðferðarheldni.

Undirbúningur útskriftar er veigamikill þáttur í þjónustu félagsráðgjafa.

Leitað er að þjónustuúrræðum sem eru í boði fyrir sjúkling hvort sem hann er að útskrifast heim til sín eða á stofnun. Samstarf við aðrar stofnanir er veita slíka þjónustu er mikið.

Handleiðsla, kennsla og rannsóknir er einnig hlutverk félagsráðgjafa á Landspítala.

Félagsráðgjafar á Landspítala starfa út frá sálfélagslegri nálgun í greiningu, meðferð og endurhæfingu.

Starfað í teymum með öðrum heilbrigðisstéttum. Þannig fæst víðtækari sýn á aðstæður einstaklingsins og möguleika hans.

Skoðaðar eru fjölskylduaðstæður og hlutverk.

Með því er hægt að kortleggja stuðningsnet sjúklings og hvernig tengslum við nánustu ættingja og vini er háttað. Kannað er hvernig einstaklingarnir eru í stakk búnir til að taka við nýjum hlutverkum.

 

Einstaklingum og aðstandendum býðst ráðgjöf og aðstoð við umsóknir um félagsleg réttindi.

Þá er leitast við að finna úrræði í stuðningsneti fólks og tengja það við þá aðila eða stofnanir sem veita viðeigandi þjónustu hverju sinni.

Erindi geta verið vegna fjárhags, atvinnu, endurhæfingar eða annarra breytinga á félagslegri stöðu.


Til þess að fá starfsréttindi í félagsráðgjöf frá Landlæknisembættinu þarf viðkomandi að hafa lokið 300 ECTS sem skiptist í þriggja ára BA nám í félagsráðgjöf (180 ECTS) og tveggja ára MA-námi til starfsréttinda í félagsráðgjöf (120 ECTS) frá Háskóla Íslands eða frá háskólum erlendis.

Að námi loknu geta félagsráðgjafar aflað sér ýmiss konar sérþekkingar með styttra eða lengra námi við Háskóla Íslands, Endurmenntunarstofnun HÍ eða við erlenda háskóla.

Sem dæmi má nefna nám í:

  • Fjölskyldumeðferð
  • Handleiðslu
  • Hópmeðferð

auk tækifæra til að sækja doktorsnám.

Félagsráðgjafar Landspítala sinna kennslu í HÍ og á sjúkrahúsinu fyrir félagsráðgjafa og aðrar heilbrigðisstéttir. Einnig er veitt fræðsla til annarra stofnana og félagasamtaka.

Félagsráðgjafar hafa í gegnum árin unnið að rannsóknum samhliða klínískum störfum og þannig lagt sitt af mörkum til þess að koma til móts við hið þríþætta meginhlutverk LSH, sem er:

  • Þjónusta
  • Kennsla
  • Rannsóknir

 

Upplýsingar um sálfélagslegameðferð

Markmið meðferðar

  • Markmiðið er að efla félagslega og persónulega styrkleika einstaklinga

Fyrir hverja er meðferðin?

Fyrir þá sem vilja ná betri tökum á líðan eða aðstæðum við breytt heilsufar eða aðrar aðstæður.

Lýsing á meðferð

Meðferðarvinna byggir á þekkingargrunni um mannlegt sálarlíf, hegðun og tengslamyndun m.a tenglsakenningu John Bowlby (1907 – 1990).

Meðferð krefst næmni, nákvæmni og virðingar gagnvart einstaklingnum.

Meðferðarform hafa síðan mismunandi áherslur, nálganir og aðferðir sem rekja má til kerfiskenningar (Ludwig von Bertalanffy 1901 - 1972).

Kerfiskenningin færir sjónarhornið frá einstaklingnum yfir á tengsl og samspil eins og t.d. samskipta- og samtalskenning, vitsmunakenning (cognitiv theraphy), lausnamiðuð meðferð (Solution Focused Brief Therapy), frásagnarkenning (narrativism) og fleiri.

Fjöldi rannsókna staðfestir gagnsemi viðtalsmeðferðar vegna heilsutengdra, geðrænna- og félagslegra vandamála. Til að sinna þeirri meðferðarvinnu þarf fagfólk að hafa góðan þekkingarfræðilegan grunn og hafa fengið þjálfun og handleiðslu.

Byggt er á því að ný tilfinningaleg upplifun/reynsla og ný viðhorf/hugsun skapi grunn að breytingum, bæði í afstöðu fólks gagnvart sjálfu sér og eins í samskiptum við aðra.

Hverjir veita meðferðina?

Félagsráðgjafar veita meðferðina.

Að vísa í meðferðina

Heilsugæslan, geðlæknar á stofum og fagfólk innan sjúkrahússins getur vísað í einstaklingsmeðferð með því að fylla út „Beiðni um rannsókn/meðferð“ í Sögu eða fylla út tilvísun og senda til Móttökuteymis á göngudeild 31E.

Beiðnir eru teknar fyrir á fundum Móttökuökuteymis og svar um úrlausn send til tilvísanda og umsækjanda.

Einnig má senda beiðni til félagsráðgjafa viðkomandi deildar á vefrænum deildum sjúkrahússins.

Markmið meðferðar


Markmiðið er að efla félagslega og persónulega styrkleika einstaklinga og fjölskyldna.

Fyrir hverja er meðferðin


Meðferðin er fyrir þær fjölskyldur sem vilja ná betri tökum á líðan eða aðstæðum við breytt heilsufar eða aðrar breytingar.

Skilgreining á fjölskyldu

Þeir sem búa undir sama þaki, makar, sambúðaraðilar, foreldrar, afar og ömmur, hálf-, stjúp- eða uppeldissystkini, börn, frænka/frændi, tengdaforeldrar, vinur/vinkona eða hver sá sem viðkomandi sjúklingur skilgreinir sem mikilvægastan sér til stuðnings.

Lýsing á fjölskylduvinnu

Litið er á fjölskylduvinnu í 6 þrepum eftir markmiðum og áherslum.

  1. Samband. Skapa traust sem er grunnur fyrir alla áframhaldandi samvinnu.
  2. Upplýsingar. Veita fjölskyldum upplýsingar og ráðgjöf sem stofnunin hefur upp á bjóða og geta skipt máli í bataferli sjúklings.
  3. Greinandi samtal. Fjölskyldan býr yfir mikilli þekkingu á aðstæðum sjúklings og því nauðsynlegt að vera í samvinnu við hana.
  4. Fjölskyldusamráð. Í samráði er lögð áhersla á stuðning við einstakling sem er veikur eða er ekki að ráða við aðstæður. Ekki er farið inn í hugsanlega erfiðleika fjölskyldunnar eins og gert er í meðferðarvinnu.
  5. Fjölskylduviðtal. Stuðningur við fjölskylduna. Ákvarðanir teknar um framhaldið, sem getur verið stuðningur í styttri tíma eða fjölskyldumeðferð.
  6. Fjölskyldumeðferð. Sérhæft meðferðarúrræði þar sem unnið er á dýptina með fjölskyldum sem eru tilbúnar að vinna úr eigin erfiðleikum. Meðferðin er veitt af fagfólki með sérmenntun í para- og fjölskyldumeðferð.

Samtalsvinna með einstaklingum, hjónum og fjölskyldum.

Þessi þjónusta er í boði bæði fyrir einstakling og/eða aðstandendur hans hvort sem er í byrjunarfasa áfalls eða síðar í tengslum við langvarandi erfiðleika.

 

Á göngudeild 31E starfar fagfólk sem veitir dáleiðslumeðferð.

Dáleiðsla er nálgun til að efla meðferð, auka bjargráð gegn hamlandi þáttum í lífi einstaklings og byggja í staðinn upp aðlögunarhæfni og skapandi ferli sem auka lífsgæði.

Dáleiðsla

Dáleiðsla er nálgun í geðrænni meðferð sem hefur verið nýtt um árabil á göngudeild geðsviðs við Hringbraut.

Þar er slökunmeðal annars notuð til að innleiða dáleiðslu hefur hún oft verið kölluð slökunarmeðferð.

Dáleiðsla er ákveðið stig innri einbeitingar (vitundar) sem einstaklingurinn fær þjálfun í að ná og framkalla fyrir eigin tilstuðlan. Í dáleiðslu er athygli beint frá reglubundnu athyglismynstri og ytri áreitum, sem auðveldar tengsl við tilfinningar og dýpri svið hugans. Þannig má opna aðgengi að styrkleikum og styrkjandi þáttum auk þess að breyta venjubundnum hugsunum sem viðhalda ákveðinni afstöðu til veruleikans (vandamála).

Áhersla er á aukið innra öryggi og sjálfstyrkingu um leið og unnið er að lausn vanda og með markmið sem viðkomandi vill ná.

Mismunandi meðferðarform, s.s. hugræn atferlismeðferð, innsæismeðferð og stuðningsviðtöl samrýmast notkun dáleiðslu.

Dáleiðsla er þá nálgun til að efla meðferðarvinnuna, auka bjargráð gegn hamlandi mynstrum í lífi einstaklings og byggja í staðinn upp aðlögunarhæfni og skapandi ferli sem auka lífsgæði.

Sótt um dáleiðslu

Heilsugæslan, geðlæknar á stofum g fagfólk innan sjúkrahússins getur vísað í dáleiðslumefðferð á ferli- og bráðaþjónustu með því að fylla út „Beiðni um rannsókn/meðferð“ í Sögu eða fylla út tilvísun (þeir sem eru utan Landspítala) og senda til Móttökuteymis á göngudeild 31E sem kemur beiðni í réttan farveg.

Svar um úrlausn er sent til tilvísanda og umsækjanda.

Fyrir hverja er meðferðin?

Meðferðin er fyrir pör og fjölskyldur þar sem samskipti og geðræn líðan ógna velferð fjölskyldunnar og vilji er til að bæta samskipti og tengsl. Sjá einnig „Fjölskylduvinna“ hér að ofan.

Markmið

Markmið með para- og fjölskyldumeðferð er að fást við samskipti, tilfinningar og hegðun sem valda erfiðleikum og sársauka.

Lýsing á meðferð

Þekkingargrunnur og fræðileg sýn sem liggur para- og fjölskylduvinnu til grundvallar er rakin til brautryðjandans Ludwig von Bertalanffy (1901 - 1972) og kerfiskenningar hans (General System Theory 1968).

Kerfiskenningin færir sjónarhornið frá einstaklingnum yfir á tengsl og samspil í fjölskyldukerfinu.

Ennfremur er byggt á tengslakenningu John Bowlbys (1907-1990) um mannlegt sálarlíf, hegðun og tengslamyndun.

Fjölskyldumeðferð er unnin út frá mismunandi áherslum, nálgunum og aðferðum eins og:

  • Vitsmunakenningu (Cognitive therapy, Aaron Beck 1960). Frásagnarkenningu (Narrative therapy, Michael White 1948 - 2008).
  • Lausnamiðaðri meðferð (Solution Focused Brief Therapy, Steve de Shazer and Insoo Kim Berg 1934 - 2007).
  • „Opnu samtali“ (Open Dialogue Jaakko Seikkula, Ph.D).
  • Emionally Focused Couple Therapy (EFT - Susan Johnson og Leslie Greenberg).
  • Bowen, Family Systems Therapy (Murray Bowen, MD 1913 - 1990).
  • Gottman Method Couple Therapy (John M. Gottman og Julie S. Gottman) og fleiri.

Fjöldi rannsókna staðfestir gagnsemi kerfismiðaðrar meðferðarvinnu vegna heilsutengdra, geðrænna- og félagslegra vandamála.

Byggt er á því að ný tilfinningaleg upplifun/reynsla og ný viðhorf/hugsun skapi grunn að breytingum, bæði í afstöðu fólks gagnvart sjálfu sér og eins í samskiptum við aðra.

Rannsóknir hafa sýnt fram á að vinna með fjölskyldum gegnir miklu hlutverki við að bæta líðan.

Þá er vitað að samspil geðsjúkdóma og samskipta innan fjölskyldna getur haft mikil áhrif á framvindu sjúkdóms. Með því að vinna með fjölskyldunni er hægt að efla áhrif annarrar meðferðar.

Hlutverk meðferðaraðila

Hlutverk meðferðaraðila er að draga fram styrkleika og möguleika sem finnast í fjölskyldukerfinu til að hafa áhrif á andlega- og líkamlega heilsu. Vinna með fjölskyldunni að því að finna nýjar og árangursríkari leiðir.

Hverjir veita meðferðina?

Félagsráðgjafar og aðrir fagaðilar með sérfræðimenntun í fjölskyldumeðferð.

Að vísa í para- og fjölskyldumeðferð

Heilsugæslan, geðlæknar á stofum og fagafólk innan sjúkrahússins getur vísað í para- og fjölskyldumeðferð á ferli- og bráðaþjónustu með því að fylla út „Beiðni um rannsókn/meðferð“ í Sögu eða fylla út tilvísun og senda til Móttökuteymis á göngudeild 31E sem kemur beiðni í réttan farveg og svar um úrlausn er send til tilvísanda og umsækjanda.

Á öðrum deildum er beiðni send til viðeigandi félagsráðgjafa á einingu.

Hópmeðferð bæði langtíma og skammtíma, hefur verið starfrækt að frumkvæði félagsráðgjafa um árabil.

Hugmyndafræði hópmeðferðar er byggð á meðferðarkenningum um mannlega hegðun og því sem á sér stað í samskiptum fólks.

Hópar geta annað hvort verið meðferðarmiðaðir (dýnamískir) eða fræðslumiðaðir eða hvoru tveggja.

Upplýsingar um samfélagsleg réttindi

Tilkynningarskylda samkvæmt 17. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.

Tilkynning er skrifuð í Bréf og greinargerðir í Sögu sjá flýtitexta til Barnaverndar.

Flýtitexti til Barnaverndar

Afritið flýtitextann og flytjið yfir í Bréf og greinargerðir í Sögu (copy - paste) þar verður hægt að fylla nánar út í flýtitextann, prenta og senda í ábyrgðarpósti til barnaverndar í viðkomandi sveitarfélagi.
Tilkynningarskylda samkvæmt 17. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002

  • Vinnustaður/nafn deildar: Sími:
  • Dagsetning tilkynningar: Símleiðis: Skriflega:
  • Rætt við barnaverndarfulltrúa á vakt: Já Nei
  • Tilkynnt hverjum (nafn/stöðuheiti):
  • Nafn barns/barna:
  • Kennitala:
  • Heimilisfang barns/barna:
  • Nafn móður/forsjáraðili:
  • Kennitala:
  • Heimilisfang: Sími:
  • Nafn föður/forsjáraðili:
  • Kennitala:
  • Heimilisfang: Sími:
  • Ástæða tilkynningar:
  • Vanræksla:
  • Ofbeldi:
  • Áhættuhegðun barns:
  • Heilsa eða líf ófædds barns í hættu
  • Hefur tilkynnandi rætt ástæðu tilkynningar við foreldra/forsjáraðila? Já Nei
  • Telur tilkynnandi að aðstæður krefjist heimsóknar/aðgerðar strax? Já Nei
  • Aðrar upplýsingar:
  • Tilkynning send til:
  • Annað:

 

Gagnlegir tenglar

Þjónusta fatlaðs fólks, sem hefur verið veitt af Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra er veitt af þjónustumiðstöðvum viðkomandi sveitarfélaga. skv. breytingu á lögum um málefni fatlaðs fólks sem samþykkt voru á Alþingi þann 17. desember 2010.

Málefni fatlaðs fólks í Reykjavík
Öryrkjabandalag Íslands
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir
Af hverju ekki?