Leit
Loka

Stafræn forvarnar- og heilbrigðisþjónusta fyrir einstaklinga með hjartasjúkdóma - fræðsluefni 

Rannsókn á vegum hjartadeildar Landspítala og Sidekick Health

Langvinnir lífsstílssjúkdómar valda um 86% af öllum dauðsföllum í Evrópu, þar vega hjarta- og æðasjúkdómar þungt. Lífsstílsbreytingar gegna mikilvægu hlutverki í að snúa þessari þróun við. Forvarnar- og heilbrigðisþjónusta þurfa að fylgja samfélags- og tækniþróun og nýta má betur atferlishagfræði, leikjavæðingu (gamification) og jákvæða sálfræði sem verkfæri til að þróa fræðslu, aðhald og stuðning innan heilbrigðisþjónustu. Á þessum þáttum byggir efni Sidekick-appsins sem er smáforrit í snjallsíma. Sjá meira í inngangi hér neðan...

Í sáttmála um ríkisstjórnarsamstarf 2021 er lögð áhersla á að unnið verði að innleiðingu stafrænna lausna í heilbrigðisþjónustu og að ný tækni verði nýtt til að auka gæði þjónustu og hagkvæmni. Þar stendur enn fremur að stuðla skuli að nýsköpun og ýta eigi undir samstarf opinberra aðila og einkaaðila á sviði tæknilausna, ásamt því að efla fjarheilbrigðisþjónustu. Þetta eru tímamótamarkmið sem spegla umfang og markmið rannsóknar hjartadeildar Landspítala og Sidekick Health. Saman hafa sérfræðingar á þeirra vegum þróað app í snjallsíma sem er aðlagað að þörfum einstaklinga með hjartabilun, kransæðasjúkdóm og gáttatif.

Í appinu er hægt að sinna fjarvöktun einkenna og veita fjarstuðning. Þar eru verkefni aðlöguð að þörfum hvers sjúklingahóps, aðgengi er að fræðsluefni um sjúkdóminn og boðið upp á æfingar sem tengjast næringu, hreyfingu og hugarró auk annars fræðsluefnis sem gagnast þeim sem vilja bæta lífsgæði sín og meðferðarheldni.

Til að kanna gagnsemi og ávinning af appi Sidekick fyrir ofantalda þrjá sjúklingahópa var ráðist í rannsókn sem hófst formlega í nóvember 2021 og er áætlað að vari í tvö og hálft ár. Davíð O. Arnar yfirlæknir hjartalækninga á Landspítala er ábyrgðarmaður rannsóknarinnar.

Rannsókninni er ætlað að kanna hvort appið:

 • Veiti notendum stuðning umfram hefðbundna heilbrigðisþjónustu, auki skilning þeirra á einkennum og styðji við breytingar á lífsháttum sem auka lífsgæði
 • Bæti mögulega ferli innkallana á göngudeild
 • Fækki heimsóknum á bráðamóttöku og/eða innlögnum á sjúkrahús

Sidekick Health var stofnað af tveimur íslenskum læknum og sérhæfir sig í stafrænni heilbrigðisþjónustu sem byggir alla sína nálgun á vísindalegri þekkingu. Markmið Sidekick er að fræða, styðja og auðvelda einstaklingum með langvinna og/eða lífsstílstengda sjúkdóma að takast á við breytingar á lífsháttum sem auka lífsgæði þeirra.

Sérstaða appsins byggir á tiltölulega nýrri nálgun hérlendis við fjarvöktun einkenna. Fræðslan byggir á vísindalegum gögnum en framsetningin nýtir sér hugmyndafræði leikjavæðingar (gamification), atferlishagfræði og jákvæðrar sálfræði.

Eftirfarandi eru örstuttar útskýringar á ofangreindum hugtökum.

Leikjavæðing (gamification) - Það er leikur að læra
Leikjavæðing miðar að því að skapa athöfnum virði með umbun. Við lærum best með því að fá einhverja skemmtun eða verðlaun samhliða. Með virkni sinni í appinu, vinna notendur sér inn verðlaun í formi vatnsdropa. Þessir vatnsdropar endurspegla svo raunverulega vatnsgjöf til barna í neyð, í samstarfi við góðgerðafélagið Charity: Water. Svo því fleiri vatnsdropa sem þú vinnur þér inn í appinu, því meira vatn ánafnar þú börnum í neyð.

Atferlishagfræði – skýrir ákvarðanatöku
Hegðun okkar og ákvarðanir stjórnast oft af tilfinningum frekar en rökhugsun. Í appinu er leitast við að nota réttar hnippingar (e. nudge) til að fá fólk til að breyta eigin hegðun í þágu bættrar heilsu á þann hátt sem hentar því best.

Jákvæð sálfræði – vísindaleg nálgun
Jákvæð inngrip geta dregið úr streitu, kvíða og þunglyndi. Jákvæð sálfræði kennir fólki að auka seiglu og bjartsýni, að finna sátt í erfiðleikum og læra ýmsar uppbyggilegar aðferðir. Hún leggur áherslu á að hver og einn rækti með sér jákvæðar tilfinningar, hugsanir og hegðun.

Um rannsóknina fyrir einstaklinga með kransæðasjúkdóm

Davíð er yfirlæknir hjartalækninga á Landspítalanum og ábyrgðarmaður rannsóknar hjartadeildar og Sidekick Health. Hann útskýrir rannsóknina í myndbandinu hér neðan. Til að skoða myndbandið í síma smellið á þennan hlekk: https://vimeo.com/776258157

 

Kynning Davíðs Arnars á rannsókn göngudeildar kransæða og Sidekick Health from Landspítali on Vimeo.

Meðferð kransæðasjúkdóms felst meðal annars í lyfjagjöf, kransæðavíkkun, kransæðahjáveituaðgerð en síðast en ekki síst lífsstílsbreytingum til að hafa áhrif á áhættuþætti. Framfarir í vöktun og meðferð kransæðasjúkdóma ásamt sjálfsvinnu sjúklinga leggja grunninn að bata. Góð stjórn á áhættuþáttum getur hægt á þróun hjarta- og æðasjúkdóma og jafnvel fækkað bráðum uppákomum. Þó að góð heilsa sé okkur flestum hugleikin þá nær vitneskjan um heilbrigðan lífsstíl ekki alltaf til athafna, þar sem hegðun okkar stjórnast stundum af tilfinningum frekar en rökhugsun, boðum eða bönnum.

Rannsóknir sýna að til þess að breyta um lífsstíl þarf oft meiri stuðning og eftirfylgni en hefðbundin heilbrigðisþjónusta er fær um að veita í dag, m.a. vegna manneklu. Breytingar á lífsstíl, hugsunarhætti og venjum krefjast oftast samfellds stuðnings, fræðslu og endurgjafar.Því hafa sérfræðingar hjá íslenska fyrirtækinu Sidekick Health og hjartadeild Landspítala þróað app (smáforrit) í síma sem er sniðið að einstaklingum með kransæðasjúkdóm. Með því að tengjast skjólstæðingum í gegnum gagnvirkt app í snjallsíma er hægt að gera ýmislegt eins og að fjarvakta einkenni, veita fjarstuðning og fræðslu ásamt því að styðja við lífsstílsbreytingar á sviðum hreyfingar, reykleysis, mataræðis, svefns, slökunar og streitustjórnunar.

Við höfum mismikla þörf fyrir aðhald og stuðning en ágætt er að hafa í huga að þótt lífsstíll fólks sé líkamlega heilbrigður gleymir það stundum að hlúa að andlegri líðan og uppbyggjandi samskiptum við sjálft sig, sem og aðra. Í appinu er einmitt tekið á þeim þáttum. Það er nefnilega eðlilegt að finna fyrir depurð eða kvíða eftir greiningu á hjartasjúkdómi og geta þessar tilfinningar jafnvel látið á sér kræla nokkrum mánuðum eftir útskrift.


Markmið rannsóknarinnar er að bæta stuðning og eftirfylgni við einstaklinga sem eru með kransæðasjúkdóm og um leið að skoða hvort svona framsett fjarheilbrigðisþjónusta geti dregið úr álagi á heilbrigðiskerfið.

Rannsóknin er samstarfsverkefni heilbrigðisstarfsfólks á hjartadeild Landspítala og sérfræðinga hjá Sidekick Health. Heilbrigðisstarfsfólk á hjartadeild Landspítala lagði auk þess hönd á plóginn við gerð fræðsluefnis og útfærslu fjarvöktunar.

Til að meta gagnsemi þessa sérþróaða Sidekick-apps bjóðum við þeim sem hafa farið í kransæðavíkkun að taka þátt í rannsókn sem stendur yfir í 12 mánuði. Við höfum samband símleiðis til að kanna áhuga á þátttöku og öllum sem hafa áhuga á að vera með, er skipt af handahófi í annað hvort Sidekick-hóp (sem fá appið) eða samanburðarhóp. Við þurfum alls um 200 þátttakendur í þessa rannsókn.

Allir þátttakendur, hvort sem þeir lenda í Sidekick hópi eða samanburðarhópi, fá hefðbundna eftirfylgni á göngudeild kransæða en því til viðbótar bætast við þrjár heimsóknir á Landspítala við Hringbraut yfir 12 mánaða tímabil. Enn fremur fá allir sendan spurningalista í tölvupósti, sem er svarað rafrænt.

Ef þú lendir í Sidekick-hópi færðu Sidekick-appið í snjallsímann þinn. Við hjálpum þér að ná í það og sýnum þér hvernig það virkar. Í appinu er óskað eftir því að þú skráir ákveðin einkenni, skoðir fræðsluefni, takir þátt í stuttum verkefnum og setjir þér heilsufarsleg markmið. Það er mögulegt að velja sér leið í gegnum efni appsins, út frá því hvaða lífsstílsbreytingar eru mikilvægastar notandanum hverju sinni, en gera má ráð fyrir að notandi eyði um 10 mínútum í appið á dag.

Við munum styðja við bakið á þér með hvetjandi skilaboðum og leiðbeiningum í gegnum appið. Þau einkenni kransæðasjúkdóms sem þú skráir í appið verða enn fremur vöktuð á dagvinnutíma og verða hjúkrunarfræðingar á göngudeild kransæða látnir vita ef bregðast þarf við. Þetta nefnist fjarvöktun einkenna. Fyrstu 6 mánuðina færðu virkan stuðning gegnum appið en seinni 6 mánuðina færðu viðhaldsstuðning.

Stuðningur nákominna skiptir oft sköpum og því geta aðstandendur, með þínu samþykki, einnig fengið aðgang að fræðsluefni appsins. Þeir munu ekki sjá þín persónulegu gögn eða hvað þú ert að gera innan appsins.

Ef þú lendir í samanburðarhópi færðu ekki Sidekick-appið í rannsókninni en getur fengið aðgang að því þér að kostnaðarlausu eftir að rannsókn lýkur, þ.e.a.s. ef þessi nálgun reynist árangursrík. Þátttaka þeirra sem lenda í samanburðarhópi er nákvæmlega jafn mikilvæg rannsókninni og þeirra sem lenda í Sidekick-hópi.

Um fyrirtækið Sidekick Health og hugmyndafræði þess má lesa í inngangi undir Rannsókn á vegum hjartadeildar Landspítala og Sidekick Health


Fáðu þér sæti á biðstofu fyrir blóðprufur hjá deild 10E á jarðhæð Landspítalans við Hringbraut og við sækjum þig þangað. Þú þarft ekki að gefa þig fram við afgreiðslu en mátt skrá þig inn í móttökustandinn.

 • Þú þarft að fara í fastandi blóðprufu en átt þó að taka morgunlyfin þín með vatni, þrátt fyrir að vera fastandi.
 • Hafðu með þér lyfjakortið þitt eða lista yfir lyfin þín.
 • Taktu símann þinn með þér.
 • Áður en þú mætir skaltu svara spurningalistanum sem Sidekick sendi þér.

Vinsamlegast láttu okkur vita ef þú forfallast: Senda má línu til: hjartasidekick@landspitali.is eða hringja á dagvinnutíma í ritara göngudeildar kransæða sími 543 2050


Um rannsóknina fyrir einstaklinga með hjartabilun

Hringt verður í skjólstæðinga göngudeildar hjartabilunar. Allir þátttakendur sem hafa áhuga á þátttöku fá kynningu á rannsókninni og skrifa að því loknu undir samþykki þess að taka þátt í 12 mánaða rannsókn. Þátttakendum verður raðað af handahófi í annað hvort rannsóknarhóp eða samanburðarhóp.

Þátttakendur í báðum hópum fá hefðbundna eftirfylgni á göngudeild hjartabilunar en því til viðbótar verða þeir boðaðir á Landspítalann við Hringbraut í heilsufarsmælingu, göngupróf, ómskoðun af hjarta og blóðprufur. Einnig verða þátttakendur beðnir um að svara spurningalistum sem þeir fá senda í tölvupóstinn sinn.

Tímalína rannsóknar - þátttakendur:

Um rannsóknina sidekick app

Ef þú lendir í rannsóknarhópi

Auk ofangreindrar þátttöku færðu smáforritið frá Sidekick til afnota. Hjúkrunarfræðingar rannsóknarinnar hjálpa þér að hlaða því niður í símann þinn og kenna á það. Þar ertu beðin/n að skrá einkenni, skoða fræðsluefni, taka þátt í stuttum verkefnum og setja þér heilsufarsleg markmið. Hjúkrunarfræðingar sem vinna við rannsóknina munu styðja við bakið á þér með hvetjandi skilaboðum og leiðbeiningum í gegnum smáforritið. Þau einkenni hjartabilunar sem þú skráir í smáforritið verða enn fremur vöktuð á dagvinnutíma og verða hjúkrunarfræðingar á göngudeild hjartabilunar látnir vita ef bregðast þarf við. Þetta er kjarninn í fjarvöktun einkenna.

Ef þú lendir í samanburðarhópi

Þú færð aðgang að Sidekick smáforritinu þér að kostnaðarlausu 12 mánuðum eftir að þú byrjaðir í rannsókninni.

Geta allir tekið þátt?

Nánast allir geta tekið þátt en það eru ákveðnir skilmálar sem farið verður yfir með þátttakendum. Allir verða hins vegar að eiga snjallsíma og hafa netfang.

Ef þú vilt hætta í rannsókninni

Það er öllum frjálst að hætta í rannsókninni á hvaða tímapunkti sem er án þess að geta til um ástæðu. Mikilvægt er að láta hjúkrunarfræðinga rannsóknarinnar vita svo hægt sé að skrá þig út úr henni t.d. með því að senda línu á hjartasidekick@landspitali.is

Nema annað sé tekið fram þá fer fyrsta heimsókn fram á Landspítala við Hringbraut, göngudeild 10-E. Fáðu þér sæti í biðsal K-byggingar (þar sem beðið er eftir blóðprufum). Þú mátt gjarnan skrá þig inn á móttökustandinum, en þú þarft ekki að gefa þig fram í afgreiðslunni.

 • Hafðu með þér lyfjakortið þitt
 • Taktu símann þinn með þér
 • Boðið er upp á fríar leigubílaferðir innan höfuðborgarsvæðisins tengt komum á spítalann vegna rannsóknarinnar. Ef þú vilt nýta þér slíkt þá pantar þú bíl hjá Hreyfli í síma 588 5522 og biður bílstjórann um að aka þér að inngangi við Eiríksgötu og fylgja þér inn að móttöku öryggisvarða í anddyri. Þar fær bílstjórinn leigubílakort sem jafngildir greiðslu fyrir bílnum. Ef þú býrð utan höfuðborgarsvæðisins sendu okkur línu á hjartasidekick@landspitali.is.
 • Gerðu ráð fyrir fastandi blóðprufu ef tímasetningin hentar þér. Þú átt þó að taka morgunlyfin þín með vatni, þrátt fyrir að vera fastandi.

Ef þú forfallast: Sendu okkur línu á hjartasidekick@landspitali.is eða hringdu á dagvinnutíma í ritara göngudeildar hjartabilunar í síma: 543 6109 eða 543 6456 sem koma skilaboðum áleiðis til okkar.


Ómskoðun af hjarta og gönguprófið hjá sjúkraþjálfara eru á 4. hæð á Landspítala við Hringbraut. Sömu hæð og göngudeild hjartabilunar. Mikilvægt er að taka lyftuna, ekki stigana, svo þú sért ekki þreytt/ur fyrir gönguprófið. Á stigapallinum er móttökustandur þar sem þú mátt gjarnan skrá þig inn. Fáðu þér síðan sæti á gangi 14E og kastaðu mæðinni. Þú byrjar ýmist í ómskoðun eða gönguprófi, en það skýrist allt þegar þú ert komin/n.

Göngupróf - Tekur um 6 mínútur.

 • Vertu í gönguskóm sem þú ert vön/vanur að nota.
 • Komdu með göngustafinn þinn eða göngugrindina.
 • Ekki mæta saddur/södd eða drekka mikið af kaffi eða orkudrykkjum.

Ómskoðun af hjarta - Tekur um 10 mínútur.

Ef þú byrjar á gönguprófinu þá er gott að kasta mæðinni í 5-10 mínútur áður en farið er í ómun. Þú munt þurfa að klæða þig úr að ofan fyrir ómskoðunina og því er gott að mæta í fatnaði sem auðvelt er að afklæðast.

Ef þú forfallast

Sendu okkur línu á hjartasidekick@landspitali.is Á dagvinnutíma má hringja í ritara göngudeildar hjartabilunar í síma: 543-6109 eða 543-6456 sem koma skilaboðum áleiðis til okkar.


Hafðu samband

Tengiliðir Símanúmer Netfang
Ef þú forfallast 543 6109 hjartasidekick@landspitali.is
Ef þú forfallast 543 6456 hjartasidekick@landspitali.is
Hætta rannsókninni hjartasidekick@landspitali.is