Brunaáverkar
Brunaslys
Húðin er stærsta líffæri mannsins og hefur mikilvægu hlutverki að gegna m.a. með því að verja líkamann fyrir sýkingum, stjórna líkamshita, viðhalda eðlilegu vökva- og jónajafnvægi, framleiða D-vítamín og gera okkur mögulegt að skynja umhverfið á eðlilegan hátt. Húðin hefur einnig áhrif á sjálfsmynd okkar og sjálfstraust. Útbreidd brunasár valda alvarlegri röskun á þessum mikilvægu hlutverkum húðarinnar.
Heildar útbreiðsla brunaáverka er metin í prósentum, samkvæmt svokallaðri 9 reglu (e. rule of nine). Einnig er hægt að meta útbreiðslu sáranna með því að áætla að hendi sjúklingsins (lófi + fingur) nái yfir um 1% af yfirborði líkamans. Hendi sjúklings og 9 reglan gefa einungis gróft mat á útbreiðslu sáranna. Nákvæmt brunaútbreiðslukort sem tekur mið af aldri sjúklings er notað þegar innlögn á sjúkrahús er nauðsynleg.
Mat á dýpt brunasára byggir á því hversu djúpt niður í húðina sárið eða hitaskemmdirnar ná. Húðin skiptist í þrjú aðallög sem eru húðþekja (e. epidermis), leðurhúð (e. dermis) og húðbeður (e. hypodermis).
Húðþekjan, efsta lag húðarinnar, samanstendur m.a. af hornfrumum sem endurnýja sig á 2-3 vikna fresti. Húðþekjubruni, einnig kallaður 1. gráðu bruni, grær á 3-5 dögum. Dæmi um húðþekjubruna eða 1. gráðu bruna er sólbruni sem veldur roða og bjúg í húðinni, húðflögnun, sviða og verkjum.
Leðurhúðin er undir húðþekjunni. Hún er rík af taugum og æðum og þar er einnig að finna hársekki, fitu- og svitakirtla. Bruni sem nær niður í leðurhúð er kallaður hlutþykktar bruni eða 2. gráðu bruni og getur bæði verið grunnur eða djúpur eftir því hversu langt hann nær niður í leðurhúðina. Grunnur 2. gráðu bruni grær oftast á 2-3 vikum og þarf sjaldan húðflutning.
Bruni sem nær í gegnum öll lög húðarinnar er kallaður fullþykktarbruni eða 3. gráðu bruni. Í flestum tilvikum þarf að framkvæma húðágræðslu þegar um fullþykktarbruna er að ræða. Það sama getur átt við um djúpan hlutþykktarbruna.
Ef djúp sár ná yfir stóran hluta líkamans þá þarf yfirleitt að loka sárunum með húðágræðslu í áföngum, og er það framkvæmt með endurteknum skurðaðgerðum.
Þegar um er að ræða bruna af völdum vatns og vökva getur verið erfitt að fullyrða um dýpt brunasára fyrstu 3-4 dagana, jafnvel fyrir fagfólk með mikla reynslu. Því geta sár sem talin voru grunn í fyrstu, reynst vera dýpri þegar frá líður.
Brunasár, bæði stór og smá, geta dýpkað ef meðferð þeirra er ekki rétt. Sýking í sári getur valdið því að brunasárið dýpkar og því er mikilvægt að leita allra leiða til að fyrirbyggja sýkingu, fylgjast náið með merkjum um sýkingu í sár og grípa til viðeigandi ráðstafana sem fyrst.
Þegar talað er um minniháttar brunaáverka þá er átt við að bruninn sé einungis bundinn við húðþekju (1. gráðu bruni) eða að um grunnan hlutþykktarbruna (2. gráðu bruna) sé að ræða sem þekur innan við 10-15% af líkamsyfirborði. Almennt er talað um að brunasár séu alvarleg hjá barni ef þau ná yfir 15% af líkamsyfirborði barnsins, og hjá fullorðnum er bruninn talinn alvarlegur ef sárin þekja meira en 30% af líkamsyfirborði.
Brunaslys eru misalvarleg og fer það meðal annars eftir útbreiðslu, dýpt og staðsetningu sára, aldri sjúklings og fyrra heilsufari hvort veita þurfi sérhæfða meðferð á Landspítala eða meðferð á göngudeild eða heilsugæslustöð. Á Íslandi er sérhæfð brunameðferð einungis veitt á Landspítala (lýtalækningadeild, Barnaspítali Hringsins, gjörgæsludeild Fossvogi). Það er mjög mikilvægt að meta einstakling með brunasár án tafar með tilliti til þess hvort hann þurfi sjúkrahúsinnlögn, sem og að hefja rétta meðferð sem fyrst eftir slysið. Því er áríðandi að heilsugæslustöðvar og sjúkrahús utan Reykjavíkur hafi samband við Landspítala ef einhver af eftirfarandi þáttum á við:
- Brunasár sem ná yfir meira en 10% af líkamsyfirborði.
- Fullþykktarbruni þ.e. þriðju gráðu brunasár.
- Brunasár í andliti, utan á hálsi, höndum, fótum, yfir stærri liðamótum eða kynfærum.
- Mögulegur hitaskaði í munni, koki, barka eða lungum og/eða grunur um reykeitrun.
- Áverki á augu.
- Ungt barn eða mjög aldraður einstaklingur.
- Brunasár sem nær hringinn í kringum handlegg eða fótlegg.
- Brunaslys af völdum rafstraums eða eldingar.
- Bruni af völdum ætandi efna.
- Alvarlegur undirliggjandi sjúkdómur sem gæti haft áhrif á bata eftir brunaslys s.s. hjarta- eða lungnasjúkdómur, ónæmisbælandi meðferð eða sykursýki.
- Brunaslys á meðgöngu.
Andleg líðan eftir brunaáverka
Brunaslysið og líkamlegar afleiðingar þess geta haft djúpstæð áhrif á andlega líðan og hegðun bæði barna og fullorðinna, óháð stærð sáranna. Djúp brunasár geta valdið útlitsbreytingum svo sem á litahætti og áferð húðar, tapi á líkamshluta og hreyfifærni. Að glata fyrra útliti hefur áhrif á líkamsímynd og sjálfstraust og getur valdið djúpri sorg, því viðkomandi syrgir það sem áður var.
Líkamsímynd okkar og hugmyndir um æskilegt útlit mótast af því samfélagi sem við lifum í. Víða í Asíu eru einkenni öldrunar, grátt hár og hrukkur, tákn um visku og reynslu. Hjá sumum afrískum ættbálkum eru ör eftir skurði í andliti og á líkama eftirsóknarverð og vekja virðingu. Við eru öll alls konar. Fyrir marga er það oft skref í átt að betri andlegri líðan, að átta sig á því að útlitið ákveður ekki hvaða manneskju við höfum að geyma.
Auk líkamlegs- og andlegs skaða, valda brunaslys oft miklu fjárhagslegu tjóni þegar veraldlegar eigur og heimili skemmast eða tapast. Fjárhagsáhyggjur og áhyggjur af húsnæði eða húsnæðisleysi eru mikill streituvaldur.
Fyrstu mánuðina eftir slysið getur borið á ýmsum geðbrigðum svo sem reiði, sektarkennd, depurð, sorg, vonleysi og jafnvel tapi á lífsvilja. Einnig má búast við einkennum áfallastreitu og má þar nefna svefntruflanir og martraðir.
Það getur verið mikið áfall bæði fyrir sjúklinginn og aðstandendur að sjá brunasárin í fyrsta sinn, til dæmis að sjá andlit sitt í spegli. Til að milda þá reynslu þurfa fagaðilar að fræða og undirbúa viðkomandi vel, sýna nærgætni, velja orð sín af kostgæfni og vera til staðar.
Hér eru nokkur atriði sem gagnlegt er að velta fyrir sér:
- Góður undirbúningur fyrir að skoða sárin í fyrsta skipti er mikilvægur, svo sem að velja rétta tímasetningu og aðstæður. Til dæmis er ekki ráðlegt að horfa í spegil fyrr en bjúgmyndun í andliti er að mestu horfin og þú hefur einhvern hjá þér sem þú treystir og getur rætt við.
- Mundu að með tímanum eiga sárin eftir að taka miklum breytingum þó svo húðin verði ekki nákvæmlega eins og hún var áður. Það tekur örin tvö til þrjú ár að ná endanlegu útliti.
- Gefðu þér leyfi til að finna fyrir geðbreytingum svo sem reiði, sektarkennd, sorg, depurð, kvíða, vonleysi eða tilfinningunni um að vilja ekki lifa. Þetta eru eðlileg viðbrögð við ömurlegum aðstæðum.
- Það er mikilvægt að þiggja aðstoð og stuðningi frá fjölskyldu og vinum.
- Það er mikilvægt að tala um líðan og tilfinningar við fagaðila svo sem sálgæsluaðila eða sálfræðing sem fyrst.
- Svefn og hvíld eru forgangsmál, sem og að finna jafnvægið milli æfinga (sjúkraþjálfun) og hvíldar.
- Dagarnir eru misgóðir og verða misgóðir. En þeir eru það líka hjá þeim sem hafa ekki lent í áföllum.
- Gættu þess að hugsa og tala jákvætt við sjálfan þig, ekki tala þig niður, heldur hugsa "ég get þetta"
- Það reynist mörgum vel að leita að því jákvæða í aðstæðunum og minna sig á það aftur og aftur. Í slæmum aðstæðum má oftast finna eitthvað jákvætt. Það er gagnlegra að minna sig á það jákvæða á hverjum degi, heldur en að leggja á minnið og rifja upp allt það slæma sem þú getur hvort sem er ekki breytt.
- Settu þér raunhæf markmið fyrir hvern dag, viku eða mánuð, til dæmis með aðstoð sjúkraþjálfara og annarra fagaðila. Gagnlegt er að skrifa markmiðin niður eða biðja einhvern um það og rifja þau upp reglulega.
Frekari upplýsingar má finna hér:
- www.sjalfsmynd.wordpress.com
- www.changingfaces.org
- www.phoenix-society.org/resources/scars-in-the-summer
Áfall er atburður sem einstaklingur lendir í eða verður vitni að, þar sem lífi og limum er ógnað og viðkomandi upplifir mikinn ótta, hjálparleysi eða hrylling. Að lokast inni í brennandi húsi eða bíl, verða fyrir sprengingu, verða fyrir líkamsárás eða að það kviknar í fötum eru dæmi um aðstæður sem geta framkallað ýmis einkenni áfallastreituröskunar. Bæði sá sem verður beint fyrir slysinu, ástvinir, björgunaraðilar og áhorfendur geta fundið fyrir þessum einkennum.
Einkenni áfallastreituröskunar hjá fullorðnum geta verið:
- Svefntruflanir, slæmir draumar, martraðir.
- Endur upplifanir (e. flashbacks) á slysinu svo sem að finna lykt, heyra hljóð, eða sjá fyrir sér atriði tengd slysinu.
- Ágengar hugsanir um slysið (getur ekki hætt að hugsa um það sem gerðist).
- Kvíði og/eða depurð.
- Pirringur, geta ekki slakað á.
- Forðast að hugsa um slysið, forðast staðinn þar sem það gerðist eða forðast fólk sem tengdist slysinu.
- Einbeitingarskortur.
- Tilfinningadoði.
Meðan á sjúkrahúsdvöl stendur þarf að meta sjúkling og aðstandendur með tilliti til þessara einkenna og veita viðeigandi stuðning. Ef þessi einkenni áfallastreituröskunar standa lengur en 2-3 mánuði er ástæða til þess að leita meðferðar hjá sálfræðingi eða geðhjúkrunarfræðingi.
Líkamsímynd (líkamsmynd), er sú hugmynd sem við höfum í huga okkar um það hvernig líkami okkar lítur út og starfar. Líkamsímynd snýst einnig um hvernig við upplifum að aðrir sjái okkur. Líkamsímynd okkar þróast og breytist samfara þeim þroska sem við göngum í gegnum allt frá unga aldri og fram á fullorðinsár, en þá er hugmynd okkar um okkur sjálf orðin nokkuð fastmótuð. Það samfélag sem við lifum í hefur mótandi áhrif á hugmyndir okkar um það hvernig við viljum líta út og hvernig líkamsímynd okkar þróast. Sem dæmi má nefna að einkenni öldrunar svo sem grátt hár og hrukkur, eru víða í Asíu tákn um visku og reynslu. Hjá sumum afrískum ættbálkum eru ör í andliti og á líkama eftirsóknarverð og vekja virðingu.
Breytt líkamsímynd og sorg
Djúp brunasár og húðflutningur geta valdið útlitsbreytingum svo sem breytingum á lit og áferð húðar, örum, hármissi, tapi á líkamshluta og skertri hreyfifærni. Að glata fyrra útliti hefur áhrif á líkamsímynd og sjálfstraust og getur valdið djúpri sorg, því viðkomandi syrgir það sem áður var. Auk áhrifa á andlega líðan, geta útlitsbreytingar haft áhrif á hegðun, samskipti og tengsl hjá bæði börnum og fullorðnum, óháð stærð og staðsetningu sáranna.
Skref í átt að betri líðan
Vanlíðan og óöryggi vegna útlitsbreytinga eru eðlileg viðbrögð og það tekur tíma að aðlagast breyttu útliti og líkamsímynd. Fyrir marga er það oft skref í átt að betri andlegri líðan, að átta sig á því að útlitið ákveður ekki hvaða manneskju við höfum að geyma. Við erum öll alls konar.
Mikilvægt er að vera meðvituð/aður um það hvernig maður sér sjálfan sig, því vanlíðan og óöryggi hafa áhrif á samskipti við aðra og náin tengsl. Sumir fullorðnir einstaklingar sem eru í nánu sambandi geta kannski óttast að hinn missi áhugann á sambandinu. Þeir sem voru einhleypir þegar slysið varð, geta haft áhyggjur af því að finna ekki lífsförunaut eða að eignast aldrei barn. Ef maður forðast samneyti við aðra, kemur sér hjá því að hitta ókunnuga, eða óttast að maki sinn laðist ekki lengur að sér, þá er ástæða til að staldra við og leita eftir ráðgjöf og stuðningi frá sálfræðingi eða öðrum fagaðila.
Áhrifin á hormónastarfsemi
Eins og fram kemur hér á þessum síðum hafa alvarleg slys á borð við brunasár áhrif á andlega og líkamlega líðan og er hormónastarfsemi líkamans þar ekki undanskilin. Afleiðing þessa hjá konum getur verið tímabundið tíðastopp eða óreglulegar blæðingar og minnkuð kynlöngun. Þrátt fyrir óreglulegar tíðablæðingar eða tímabundið tíðastopp er mikilvægt fyrir konur á barneignaraldri að huga að getnaðarvörnum á sama hátt og fyrir slysið.
Nánari upplýsingar um líkamsímynd og náin tengsl, má finna á eftirfarandi síðum;
https://www.changingfaces.org.uk/advice-guidance/relationships-social-life/
https://www.changingfaces.org.uk/advice-guidance/relationships-social-life/overcoming-challenges-dating-relationships/
https://www.phoenix-society.org/journey-forward
Alvarleg slys af hvaða toga sem er, hafa áhrif á andlega líðan. Einstaklingurinn, ásamt þeim sem næst honum standa, er skyndilega minntur á dauðleika sinn og forgengileika lífsins. Alvarlegt slys og veikindi fjölskyldumeðlims hefur
áhrif á hlutverk, tengsl og getu annarra í fjölskyldunni til að sinna daglegum verkum og skuldbindingum og lífið getur skyndilega orðið yfirþyrmandi. Til þess að geta stutt sjúklinginn í því ferli sem fram undan er, þurfa nánustu aðstandendur að huga að eigin þörfum fyrir hvíld, svefn, næringu og hreyfingu.
Það er mikilvægt að þiggja aðstoð fagaðila sem fyrst eftir slysið, sem gefa leiðsögn og stuðning um það hvernig fjölskyldan getur tekist á við þessar erfiðu aðstæður, linað sína vanlíðan og haldið fjölskyldunni gangandi. Sálgæsla presta og djákna, og stuðningur sálfræðings og félagsráðgjafa er í boði fyrir alla sjúklinga á Landspítala og aðstandendur þeirra. Áframhaldandi sérhæfður stuðningur eftir útskrift, er veittur á göngudeild Landspítala ef þess er óskað.
Þættir sem aðstandendum hefur þótt hjálpa í erfiðum aðstæðum:
- Nýta sér sérhæfðan stuðning sjúkrahússins svo sem frá sálgæsluaðilum og félagsráðgjafa sem fyrst. Tala við aðra um líðan sína.
- Deila ábyrgð og verkefnum, þannig að allt lendi ekki á 1-2 aðilum í fjölskyldunni. Þiggja aðstoð og hjálp frá öðrum. Skipta viðveru á sjúkrahúsi milli þeirra sem næst standa sjúklingi.
- Nærast og hvílast (sofa). Forðast skyndibita og ruslfæði til lengri tíma.
- Gefa sér tíma fyrir gönguferð og útiveru daglega. Nokkrar mínútur eru betri en engar.
- Æskilegt er að halda daglegri rútínu fyrir börnin í fjölskyldunni svo sem í kringum leikskóla, skóla, háttatíma og matartíma.
- Fá leiðsögn um hvað og hvernig á að upplýsa börnin. Sálgæsluaðilar eru ávallt tilbúnir til að ræða sérstaklega við þau og fylgja þeim eftir.
- Finna farveg fyrir upplýsingagjöf til fjölskyldumeðlima og vina. Mörgum hefur reynst vel að stofna fésbókar hóp og fækka þannig áreitum vegna símtala og símaskilaboða.
- Halda dagbók. Skrifa niður spurningar og upplýsingar sem kom fram t.d. á fjölskyldufundum og í samskiptum við fagfólk á sjúkrahúsinu.
- Spyrja og fá útskýringar á öllu því sem fjölskyldan er að velta fyrir sér. Óvissa og getgátur eru oft erfiðari en að vita staðreyndir.
- Láta fagaðila vita sem fyrst um það sem betur má fara í meðferð, þjónustu og framkomu við sjúkling og fjölskyldu.
Brunasárin
Þegar brunaáverki er djúpur eða útbreiddur er sjúklingur lagður inn á lýtalækningadeild A4, gjörgæslu Fossvogi eða á Barnaspítala Hringsins. Meðferð brunasára er einstaklingsbundin og tekur mið af dýpt og útbreiðslu sáranna og aldri einstaklingsins. Markmið meðferðarinnar er ávallt að flýta gróanda með því m.a. að verja sár fyrir sýkingum, veita rétta sára meðferð sem fyrst og sjá til þess að sjúklingur nærist á fullnægjandi hátt.
Sárameðferðin felst í því að hreinsa sárin, stundum daglega eða 2-3 í viku. Hjá sjúklingum með stærri brunasár þá getur sára meðferð tekið eina til tvær klukkustundir í hvert sinn og fær sjúklingur verkjalyf og er jafnvel svæfður meðan á því stendur. Mismunandi umbúðir eru notaðar eftir eðli og staðsetningu sáranna, en sár í andliti eða á og umhverfis kynfæri eru oftast höfð án umbúða.
Dvalartími á sjúkrahúsi eftir brunaslys fer einkum eftir dýpt og útbreiðslu áverkans. Þegar meðferð er lokið á lýtalækningadeild eða Barnaspítala Hringsins, getur áframhaldandi meðferð á göngudeild eða endurhæfing á Grensásdeild (fullorðnir) verið nauðsynleg.
Þegar sár eru lítil að umfangi og ekki er þörf á innlögn á sjúkrahús, þá fer eftirlit og sára meðferð fram á göngudeild eða á heilsugæslustöð.
Brunasár af völdum vökva eða snertingar við heita hluti eru sérstaklega varasöm á stöðum þar sem húð er þunn svo sem á handarbaki, rist og sköflungi eða umhverfis augu. Slík sár geta litið meinleysislega út í fyrstu og eru oft talin grynnri en þau svo eru í reynd. Enn fremur þarf að viðhafa sérstaka aðgát hjá börnum og mjög öldruðum einstaklingum, þar sem húð þeirra er þynnri og viðkvæmari en hjá fullorðnum og viðnám gegn sýkingum minna.
Ef sárið er djúpt og líkur á að það grói ekki á þremur til fjórum vikum er húð flutt á sárið (e. skin transplantat). Húðágræðslan er gerð í svæfingu á skurðstofu. Heilbrigð húð af einstaklingnum sjálfum er tekin, húðbitinn gataður til að ná yfir stærra svæði og lagður yfir sárið eftir að það hefur verið hreinsað vandlega. Húðin er oftast fest með heftum sem eru fjarlægð á fimmta til sjötta degi. Það tekur ágrædda húð um fimm til sex daga að gróa fasta og fá bleikan húðlit. Meðan á þeim tíma stendur er mikilvægt að áflutta húðin hreyfist ekki og sé vel varin fyrir öllu hnjaski og utanaðkomandi þrýstingi. Svæðið þaðan sem húðin er tekin kallast húðtökusvæði (e. donor site) og grær á 12-14 dögum ef það sýkist ekki og ef næringarinntaka er fullnægjandi.
Sjúklingur með útbreidd brunasár þarf margar húðágræðslur þar til öll sár eru gróin, því það er ekki hægt að flytja húð á öll sár í einu ef umfang þeirra er mikið.
Meginmarkmið brunameðferðar er ávallt að græða sárin á sem stystum tíma og minnka þannig líkur á alvarlegum afleiðingum slyssins sem geta t.d. verið sýkingar í sárum og mikil öramyndun. Mikilvægt er að verja sárin fyrir bakteríum og óhreinindum. Góður handþvottur og handsprittun er því nauðsynlegt fyrir alla snertingu við umbúðir og sár hvort heldur sjúklingur er á sjúkrahúsi eða heima.
Ef sjúklingur er á sjúkrahúsi vegna brunasára þá er hann í einstaka tilvikum í svo kallaðri varnareinangrun til að verja hann fyrir utanaðkomandi sýklum og sýkingum. Sjúklingur er þá einn á stofu og allir sem fara inn á herbergið þurfa að þvo sér vel um hendur, nota handspritt, klæðast gulum hlífðarslopp og jafnvel vera með hanska og grímu. Ef heimsóknargestur er kvefaður er ekki ráðlegt að koma í heimsókn.
Mikilvægt er að sjúkrastofan sé snyrtileg, allt óþarfa dót og rusl sé fjarlægt og að aðstandendur gangi þrifalega og snyrtilega um. Þannig er auðveldara fyrir ræstitækna að þrífa stofuna en það er gert daglega. Enn fremur þarf að spritta daglega þá hluti í umhverfinu sem oft er verið að taka á, svo sem hurðarhúna, rúmgrindur, fjarstýringar og borðplötur. Einnig er skipt á fötum og rúmfötum daglega.
Brunasár auka þörf líkamans fyrir orku og mörg næringarefni, þar með talið prótein, vítamín og snefilefni. Ef þessari auknu þörf er ekki mætt þá tefur það sáragróanda og minnkar viðnám líkamans gegn sýkingum. Fullnægjandi inntaka orku (hitaeininga), próteina, vítamína og snefilefna er því forsenda þess að sár grói og unnt sé að byggja aftur upp þrek og þol. Þegar brunaáverki er útbreiddur getur verið nauðsynlegt að gefa næringu gegnum slöngu því sjúklingurinn getur ekki borðað allt það magn sem líkaminn þarfnast, bæði vegna lystarleysis og svo vegna áhrifa verkja og lyfja. Magaslangan er mjúk plastslanga sem þrædd er gegnum aðra nösina, gegnum vélinda og þannig niður í maga. Sérstök næring sem inniheldur öll nauðsynleg næringarefni er gefin í slönguna. Sjúklingurinn má þar að auki borða og drekka að vild.
Hafa þarf í huga að D - vítamín framleiðsla úr sólarljósi í húð, sem hefur brennst djúpum bruna er takmörkuð, jafnvel þó svo að sárin séu gróin. Ef djúpur bruni er umfangsmikill þá er mikil hætta á D - vítamín skorti, einkum hjá börnum, og því er mikilvægt að taka inn ráðlagða dagsskammta af D - vítamíni allt árið.
Þegar sár eru gróin minnkar orku og prótein þörf líkamans og færist nær því sem áður var. Því þarf oftast að endurskoða næringarþörf og næringarvenjur við útskrift af sjúkrahúsi. Næringarfræðingur endurmetur næringarþörf og gefur ráð um notkun bætiefna. Eftirlit næringarfræðings getur verið nauðsynlegt í nokkrar vikur eða mánuði eftir útskrift af sjúkrahúsi.
Við minni áverka sem ekki þarfnast innlagnar á sjúkrahús er líklegt að almenn holl fæða í samræmi við ráðleggingar um mataræði frá Embætti landlæknis fullnægi næringarþörf. Sé mataræði ekki í samræmi við ráðleggingar gæti verið ástæða til að meta þörf fyrir önnur bætiefni til viðbótar við D - vítamín, sem öllum Íslendingum er ráðlagt að taka, sér í lagi yfir veturinn. Einnig geta próteindrykkir verið góð viðbót á meðan sár eru að gróa.
Fyrsta sárahreinsun lítilla sára fer fram á bráðamóttöku eða heilsugæslu og þar eru gefin fyrirmæli um hvernig á að annast sárin heima og um endurkomu.
Við alla umönnun sára er áríðandi að viðhafa góðan handþvott og nota handspritt á hendur. Mikilvægt er að vera vakandi fyrir einkennum um sýkingu sem geta verið auknir verkir, hiti og tilfinning um æðaslátt í sárinu, roði umhverfis sár, aukinn vessi í umbúðir og hækkaður líkamshiti.
Brunasár á höndum eða fótum geta valdið bjúgmyndun og er því mikilvægt að hafa hækkað undir hendi eða fæti fyrstu dagana til að minnka bjúg.
Fólk starir yfirleitt af forvitni og vegna þess að því er ekki sama um annað fólk. Mjög fáir stara bara til þess að vera dónalegir eða andstyggilegir.
Stundum lætur fólk sér ekki nægja að stara, heldur spyr nærgöngulla spurninga, og eru lítil börn oft ákaflega áhugasöm og spurul um það sem þau hafa ekki séð áður.
Flestum finnst óþægilegt að fá óþarfa og óumbeðna athygli frá ókunnugum, svo sem að láta stara á sig eða að fá yfir sig spurningaflóð. Sumir finna fyrir kvíða og fá jafnvel líkamleg einkenni eins og hraðan hjartslátt, sting í magann, svitna eða fá herping í hálsinn þegar þeir hitta ókunnuga. Þú forðast jafnvel að fara í skólann, í sund eða líkamsrækt, í búðir, bíó, á veitingahús og á tónleika og sýningar eða í vinnu.
Ef þú ert stöðugt mjög meðvituð/aður um sjálfan þig, til dæmis hugsar í sífellu um að aðrir séu að gefa þér gætur og ert áhyggjufull/ur yfir því hvað öðrum kann að finnast um þig, þá getur það leitt til framkomu eða viðbragða hjá þér sem aðrir eiga erfitt með að bregðast við. Manneskjan sem þú hittir veit ekki hvernig hún á að vera, þegar þú forðast augnsamband og horfir niður, svarar með hikandi og titrandi röddu og sýnir með líkamlegu látbragði að þér líður illa og hræðist samskiptin.
Innra samtal okkar við okkur sjálf (e. self- talk) og hvernig við túlkum viðbrögð annarra gagnvart okkur, skiptir máli fyrir líðan okkar. Ef þú segir sífellt við sjálfan þig að þú sért ómöguleg/legur og álítur að sá sem starir á þig geri það í niðrandi eða illgjarnri merkingu, þá mun þér vafalítið líða mjög illa.
Til þess að líða betur innan um fólk sem þú þekkir ekki, þá getur verið gagnlegt að temja sér og æfa aðferð til að takast á við störur og ágengar spurningar annarra áður en maður lendir í slíkum aðstæðum.
Ein aðferð er svona:
a) Gættu þess að hugsa og tala jákvætt við sjálfan þig, ekki tala þig niður heldur hugsa "ég get þetta"
b) Talaðu í vingjarnlegum tón.
c) Horfðu í augu viðkomandi.
d) Réttu úr þér.
e) Brostu á þinn hátt.
f) Hafðu svar við ágengri spurningu á reiðum höndum svo sem "já ég brenndist á heitu vatni þegar ég var barn, en ég vil helst ekki tala um það "
eða "ég sé að þú ert að velta fyrir þér hvað hefur komið fyrir mig? ég lenti í gassprengingu fyrir mörgum árum, en hef náð mér þokkalega"
eða "ertu að spá í hverju ég lenti? ég vil ekki tala um það, því það kemur ókunnugum ekkert við"
eða „ég sé að þið horfið svo mikið á mig – það er allt í lagi – það kviknaði í húsinu sem ég bjó í – það var erfitt fyrst, en núna er allt farið að ganga betur“
Aðalmálið er að ákveða og búa sig undir hvað og hversu mikið þú vilt segja ókunnugum um þína hagi, og æfa hvernig þú segir það. Þá munu ágengar spurningar og störur ekki koma þér úr jafnvægi.
https://www.phoenix-society.org/what-we-do/saras-steps
https://www.phoenix-society.org/journey-forward
Aftur út í lífið
Endurhæfing eftir brunaslys hefst strax við innlögn á sjúkrahúsið og þegar sjúkrahúsmeðferð lýkur heldur flókið bataferli áfram þar sem sálfélagsleg (e. psychsocial) og líkamleg endurhæfing þurfa að haldast í hendur.
Með sálfélagslegri endurhæfingu er átt við fræðslu og stuðning sem miðar að því að auðvelda félagsleg samskipti og þátttöku í samfélaginu aftur, og auka þannig líkur á að komast aftur í skóla eða til vinnu.
Mörgum hefur reynst vel að vera búnir að æfa og fara í gegnum möguleg viðbrögð sín í nýjum aðstæðum t.d. við því að hitta ókunnuga, eða þegar ókunnugir stara á mann eða spyrja óþægilegra spurninga.
https://www.phoenix-society.org/journey-forward
Áður en til útskriftar kemur er mikilvægt að hjúkrunarfræðingar og sjúkraþjálfari meti og skipuleggi með þér þann stuðning sem þú kemur til með að þurfa. Þar má nefna aðstoð við sára meðferð, notkun hjálpartækja, þjálfun og æfingar, aðstoð við innkaup, þrif og matargerð og aðstoð við að komast á milli staða ef þú getur ekki keyrt. Einnig er mikilvægt að skipuleggja áframhaldandi eftirlit á göngudeild. Enn fremur átt þú að fá upplýsingar og fræðslu um hvers þú má vænta næstu mánuði í sambandi við líkamlegar og andlegar afleiðingar slyssins og hvaða stuðningur er í boði eftir útskrift s.s. sálfræðiráðgjöf, félagsráðgjöf, sjúkraþjálfun og meðferð við örum, kreppum, kláða og verkjum. Einnig þarft þú að kunna hvernig best er að hugsa um nýja húð, hvernig á að nota þrýstingsklæði og teygjubindi/hólka, hvernig á að meðhöndla blöðrur og lítil sár og hvert þú átt að hafa samband ef þú hefur áhyggjur eða spurningar.
Það eru mikil viðbrigði að koma úr vernduðu umhverfi sjúkrahússins og hefja aftur þátttöku í daglegu lífi, einkum þar sem aðrir hafa takmarkaðan skilning á því sem þú hefur gengið í gegnum og á þeim viðfangsefnum sem þú glímir við.
Góður undirbúningur fyrir endurkomu í skóla eða vinnu eftir alvarlegt brunaslys sem hefur áhrif á ásýnd og þrek, getur komið í veg fyrir óþarfa vanlíðan hjá báðum aðilum. Það á sérstaklega við um börn og unglinga. Þú þarft að ákveða hvaða upplýsingar þú vilt gefa skólanum eða vinnustaðnum um slysið, aðstæður þínar og líðan.
Það er gagnlegt að vera í sambandi við kennara eða vinnuveitanda sem getur verið tengill milli þín og skólans/vinnunnar og upplýst nemendur eða vinnufélaga um það sem þú gefur leyfi fyrir áður en þú mætir. Þannig má spara þér áreiti og endurteknar spurningar.
Ef barn eða unglingur hefur legið inni á Barnaspítala Hringsins vegna brunaáverka er hægt að óska eftir að hjúkrunarfræðingur hafi samband við kennara og skólahjúkrunarfræðinga barnsins til að undirbúa komu þess. Góður undirbúningur fyrir endurkomu barns í skóla getur komið í veg fyrir stríðni, einelti, störur og óþægilegar spurningar.
Það er manninum eðlislægt að vera forvitinn um annað fólk. Einkum og sér ílagi erum við forvitin ef sá sem við mætum er ólíkur okkur sjálfum á einhvern hátt t.d. af ólíkum kynþætti, framandlega klæddur, með óvanalegt göngulag og líkamsburði, gerviútlim eða gervi auga/eyra, óvanalegan hárvöxt, áberandi húðflúr, gataður eða með ör og svona mætti lengi telja.
Fólk starir yfirleitt af forvitni og vegna þess að því er ekki sama um annað fólk. Mjög fáir stara bara til þess að vera dónalegir eða andstyggilegir.
Stundum lætur fólk sér ekki nægja að stara, heldur spyr nærgöngulla spurninga, og eru lítil börn oft ákaflega áhugasöm og spurul um það sem þau hafa ekki séð áður.
Flestum finnst óþægilegt að fá óþarfa og óumbeðna athygli frá ókunnugum, svo sem að láta stara á sig eða að fá yfir sig spurningaflóð. Sumir finna fyrir kvíða og fá jafnvel líkamleg einkenni eins og hraðan hjartslátt, sting í magann, svitna eða fá herping í hálsinn þegar þeir hitta ókunnuga. Þú forðast jafnvel að fara í skólann, í sund eða líkamsrækt, í búðir, bíó, á veitingahús og á tónleika og sýningar eða í vinnu.
Ef þú ert stöðugt mjög meðvituð/aður um sjálfan þig, til dæmis hugsar í sífellu um að aðrir séu að gefa þér gætur og ert áhyggjufull/ur yfir því hvað öðrum kann að finnast um þig, þá getur það leitt til framkomu eða viðbragða hjá þér sem aðrir eiga erfitt með að bregðast við. Manneskjan sem þú hittir veit ekki hvernig hún á að vera, þegar þú forðast augnsamband og horfir niður, svarar með hikandi og titrandi röddu og sýnir með líkamlegu látbragði að þér líður illa og hræðist samskiptin.
Innra samtal okkar við okkur sjálf (e. self- talk) og hvernig við túlkum viðbrögð annarra gagnvart okkur, skiptir máli fyrir líðan okkar. Ef þú segir sífellt við sjálfan þig að þú sért ómöguleg/legur og álítur að sá sem starir á þig geri það í niðrandi eða illgjarnri merkingu, þá mun þér vafalítið líða mjög illa.
Til þess að líða betur innan um fólk sem þú þekkir ekki, þá getur verið gagnlegt að temja sér og æfa aðferð til að takast á við störur og ágengar spurningar annarra áður en maður lendir í slíkum aðstæðum.
Ein aðferð er svona:
- Gættu þess að hugsa og tala jákvætt við sjálfan þig, ekki tala þig niður heldur hugsa "ég get þetta"
- Talaðu í vingjarnlegum tón.
- Horfðu í augu viðkomandi.
- Réttu úr þér.
- Brostu á þinn hátt.
Hafðu svar við ágengri spurningu á reiðum höndum svo sem "já ég brenndist á heitu vatni þegar ég var barn, en ég vil helst ekki tala um það "
eða "ég sé að þú ert að velta fyrir þér hvað hefur komið fyrir mig? ég lenti í gassprengingu fyrir mörgum árum, en hef náð mér þokkalega"
eða "ertu að spá í hverju ég lenti? ég vil ekki tala um það, því það kemur ókunnugum ekkert við"
eða „ég sé að þið horfið svo mikið á mig – það er allt í lagi – það kviknaði í húsinu sem ég bjó í – það var erfitt fyrst, en núna er allt farið að ganga betur“
Aðalmálið er að ákveða og búa sig undir hvað og hversu mikið þú vilt segja ókunnugum um þína hagi, og æfa hvernig þú segir það. Þá munu ágengar spurningar og störur ekki koma þér úr jafnvægi.
https://www.phoenix-society.org/what-we-do/saras-steps
https://www.phoenix-society.org/journey-forward
Nýja húðin -fyrstu skref
Ný húð er viðkvæm og þarfnast góðrar umhirðu, hvort heldur sárin hafa gróið af sjálfu sér eða fengið húðágræðslu. Nýja húð þarf að vernda fyrir utanaðkomandi áreitum svo sem þrýstingi, höggum, hnjaski, hita, kulda, sól, þurrki og ertandi efnum. Skaði á taugum og taugaendum í húðinni leiðir til breytinga á húðskyni, svo sem á hita- og kuldaskyni, en getur einnig valdið doðatilfinningu, stingjum og verkjum. Einnig getur svitamyndun breyst eða horfið á þeim svæðum þar sem sárin voru dýpst. Einangrunarhæfni húðarinnar hefur einnig minnkað vegna þess að hún er þynnri en áður og það, ásamt miklum breytingum á efnaskiptum líkamans, getur valdið því að þú verðir viðkvæmari fyrir kulda og þurfir að klæða þig betur en áður.
Heilbrigð húð geymir fitu- og svitakirtla, taugar og taugaenda. Djúp brunasár valda skemmdum á þessum mikilvægu starfseiningum húðarinnar. Húðin verður því þurr og flagnar auðveldlega vegna þess að hana skortir eðlilegan raka og fitu. Ný húð þarf að fá utanaðkomandi raka þ.e. raka frá rakagefandi áburði. Það er einstaklingsbundið hvaða tegund af rakagefandi áburði hentar best. Rakagefandi áburð þarf að nota 3-4 sinnum á dag og oftar eftir ástandi húðarinnar. Ekki skal nota svo mikið af áburði í einu að húðin sé fitugljáandi lengi á eftir. Þegar þrýstiklæði (e. pressure garments) eru notuð þarf að gefa áburðinum tíma til að fara inn í húðina áður en farið er í klæðin. Áburðir sem innihalda vax, paraffin eða eru mjög olíuríkir geta farið illa með þrýstiklæði og ber að forðast notkun þeirra.
Auk þess að verja nýja húð fyrir hnjaski og þurrki þarf að viðhafa almennt hreinlæti. Að fara í sturtu er yfirleitt minna álag fyrir nýja húð heldur en bað í baðkari. Lítill kraftur á vatnsbununni er þægilegri fyrir nýja húð en fullur styrkur. Mikilvægt er að athuga alltaf hitastig vatnsins áður en farið er í baðið eða undir sturtuna. Hafa þarf hugfast að allar sápur og krem sem innihalda lanólín eða alkóhól þurrka húðina. Ekki er æskilegt að nota sápu, en ef þarf í einhverjum tilvikum að nota sápu þá á hún að vera mild og fljótandi. Yfirleitt er best að nota mjúkt handklæði og varast að nudda húðina þegar hún er þurrkuð. Enn fremur veldur klórbætt vatn í sundlaugum eða heitum pottum auknum þurrki og kláða ef þess er ekki gætt að verja húðina vel fyrir og eftir sundið.
Ný húð hefur aðra áferð og lit en óbrennd húð. Það tekur húðina og örin mánuði eða ár að fá eðlilegri lit og áferð, því enduruppbygging húðar og vefja heldur áfram fyrstu tvö til þrjú árin eftir brunaáverkann þó svo sárin séu búin að loka sér. Ef brunasárin voru djúp nær húðin aldrei upphaflegri áferð né lit.
Þegar brunasárin eru gróin er nýja húðin mun þynnri og viðkvæmari en óbrennda húðin. Þessi nýja húð er þunn og viðkvæm fyrstu árin, einkum á höndum og handarbaki, fótum og fótleggjum og þar geta því myndast afrifur og blöðrur við minnstu viðkomu. Því er mikilvægt að verja nýju húðina fyrir öllu hnjaski svo sem þrýstingi, höggum, klóri, núningi, þurrki, hita og kulda.
Þrýstiklæði geta valdið núningi og ert húðina og því þarf að gæta þess vel að þau séu í réttri stærð og að fylgjast með húðinni á útsettum stöðum. Ef þrýstiklæðin særa svo sem í handarkrika getur þurft að setja silicon púða undir þar sem álagið er mest.
Á Landspítala er hægt að fá þunna bómullarvettlinga sem hlífa viðkvæmri húð handanna. Enn fremur fer víður klæðnaður úr mjúku efni best með húðina á líkamanum á meðan hún er sem viðkvæmust. Ef fætur hafa brennst þarf stundum að nota sér pantaða skó á meðan nýja húðin er að styrkjast.
Litlar blöðrur, sem eru minni en krónupeningur, er best að láta í friði (ekki sprengja) og hlífa fyrir hnjaski. Ef þær springa þá má skola sárið með hreinu vatni og setja silicon grisju (grisjur sem ekki festast ofan i sárið) og þurrar umbúðir yfir og festa með léttu grisju- eða teygjubindi. Aldrei skal setja plástur á nýgróna húð. Plásturinn getur valdið blöðrum og einnig er hætta á afrifum þega hann er fjarlægður. Einnig má nota sérstakt sárasprey á minni afrifur. Ef stórar afrifur eða blöðrur myndast er mikilvægt að þú hafir samband sem fyrst við deildina þína, göngudeild eða heilsugæslu.
Á fyrsta árinu eftir brunaáverkann getur ný húð á útlimum, einkum fótleggjum, blánað og myndað dökka bletti og jafnvel blöðrur. Litabreytingin og blettirnir verða oft mest áberandi eftir langar stöður og göngur eða ef útlimur hangir niður.
Bláminn og blettirnir myndast vegna blóðrásartruflana og vegna þess hversu húðin er þunn. Því er mikilvægt að hafa fætur uppi á stól þegar setið er og hafa kodda undir höndum og handleggjum. Teygjubindi eða hólkar sem og þrýstiklæðin veita einnig æðunum stuðning og bæta blóðrásina í útlimum.
Þegar sár grær er eðlilegt að finna fyrir kláða og finna flestir fyrir talsverðum kláða í vikur og mánuði eftir brunaslysið. Börn eru oft verr haldin af kláða heldur en fullorðnir.
Ný húð er viðkvæm fyrir klóri, núningi og hvers kyns hnjaski og ef kláðinn er mikill getur verið nauðsynlegt að láta lítil börn sofa í vettlingum og gildir það einnig fyrir fullorðna.
Ef kláði er það mikill að hann truflar svefn og hvíld, einbeitingu eða veldur pirringi og ergelsi meira og minna allan sólarhringinn er mikilvægt að meta orsakir og veita meðferð.
Orsakir mikils kláða í kjölfar brunaáverka eru fjölmargar. Vitað er að andlegt álag, þreyta og svefnleysi eykur kláða og pirring í húðinni. Ein algengasta ástæðan fyrir kláða í nýgróinni húð er húðþurrkur vegna skorts á húðfitu. Við brunaáverka skemmast fitukirtlar húðarinnar og eyðast jafnvel alveg ef bruninn er djúpur. Húðin verður þurr og flagnar og kláði og stingir í húðinni magnast. Kláðinn er oft verstur á fótleggjum þar sem húðin er þunn. Til að minnka þurrk og kláða er því nauðsynlegt að nota rakagefandi áburð oft á dag.
Histamin losun í húðinni getur verið ein orsök langvinns kláða. Því getur notkun ofnæmislyfja gefið góða raun. Margir telja að þær taugar sem bera kláðaskilaboð séu þær sömu og miðla boðum um sársauka og langvinna verki og hafa lyf í flokki taugalyfja verið notuð við kláða sem ekki hefur látið undan annarri meðferð.
Einnig þarf að hafa í huga að í einstaka tilvikum getur mikill og vaxandi kláði ásamt roða og hita í húð bent til sýkingar sem krefst meðferðar með sýklalyfjum.
Brunasárum fylgja alltaf verkir sem eru verstir fyrstu dagana. Einnig geta verkir í nýjum húðtökusvæðum orðið verri en verkir í sjálfum brunasárunum. Í flestum tilvikum er fremur auðvelt að meðhöndla þessa skammtíma verki með verkjalyfjum. Hins vegar er þekkt að langvinnir verkir (krónískir verki) geta fylgt brunaáverka og er þá átt við verki sem standa lengur en fimm til sex mánuði. Þessir langvinnu verkir geta bæði verið stöðugir yfir sólarhringinn eða komið í kviðum. Langvinnir verkir geta raskað hvíld og svefni og getu fólks til náms og vinnu. Það er mjög einstaklingsbundið hvaða aðferðir og lyf henta best við meðferð langvinnra verkja eftir brunaáverka, og þarf oft tíma og þolinmæði til að finna það sem gagnast best.
Hafa þarf í huga að kvíði, þreyta og svefntruflanir geta aukið sársauka upplifun og getur myndast vítahringur kvíða, þreytu, svefnleysis og verkja sem mikilvægt er að rjúfa. Enn fremur getur mikill og viðvarandi kláði aukið verkjaupplifun og er því mikilvægt að meðhöndla kláða sé hann til staðar. Fyrsti viðkomustaður einstaklinga með langvinna verki eftir brunaáverka er oftast heilsugæslustöð. Heilsugæslan vísar síðan á verkjateymi Landspítala eða Reykjalundar ef þess gerist þörf.
Ný húð verður ávallt viðkvæm bæði fyrir hita og kulda sem og fyrir útfjólubláum geislum sólarinnar og brennur fljótt. Það er mikilvægt að nota góða sólarvörn með háum varnarstuðli (SPF 50 sun block) og verja húð fyrir sól með léttum klæðnaði. Til að verja andlit og háls er t.d. hægt að nota derhúfu eða skyggni.
Sólböð eru aldrei æskileg, hvorki fyrir nýja húð né húð sem ekki hefur orðið fyrir skaða. Ný húð er einnig viðkvæm fyrir kulda og er sérstaklega mikilvægt að hlífa húðinni í andlitinu t.d. með góðum trefli eða lambhúshettu og nota hlýja hanska eða vettlinga og sokka fyrir hendur og fætur.
Um leið og sárin eru vel gróin er í lagi að fara í sund en þá er mikilvægt að nota sterka sólarvörn (SPF 50 sun block) og nota rakagefandi áburð í meira mæli en venjulega fyrir og eftir sundið. Gæta þarf þess að skola allt klórvatn vandlega af líkamanum eftir sundið
Sjúkraþjálfun er mjög mikilvægur þáttur í meðferð eftir brunaáverka og hefst sem fyrst eftir að ástand sjúklings er orðið stöðugt. Þrek og þol tapast fljótt við veikindi og rúmlegu einkum hjá fullorðnum. Enn fremur rýrna vöðvar og liðir stirðna.
Markmið sjúkraþjálfunar og æfinga er að viðhalda hreyfingu í liðamótum og hindra kreppur (e. contractures) og efla úthald og þol.
Ef brunaáverki liggur yfir liðamót getur stíf og hörð húðin hindrað fulla hreyfingu liðamóta. Minnkuð hreyfing og hreyfingarleysi veldur því að vöðvar og sinar umhverfis liðamótin styttast og leiðir það til stirðleika og getur framkallað kreppur. Mikilvægt er að gera teygjuæfingar frá byrjun til að hindra slíka hreyfiskerðingu og í sumum tilfellum þarf að nota spelkur.
Þörf fyrir áframhaldandi endurhæfingu á Grensásdeild eða á göngudeild hjá sjúkraþjálfara er metin meðan á sjúkrahúsdvöl stendur.
Eftir útskrift af sjúkrahúsi er mikilvægt að koma sér upp fastri dagskrá þar sem hreyfing og æfingar eru í forgangi. Byggja þarf upp þrek t.d. með reglulegum gönguferðum og almennri líkamsþjálfun í samráði við sjúkraþjálfara. Það getur tekið eitt til tvö ár að ná upp fyrra þreki.
Börn eru yfirleitt fljótari en fullorðnir að ná upp fyrri hreyfigetu og þoli því þeim er tamara að hreyfa sig í leik.
Nýja húðin -eftirmeðferð
Húð sem hefur brennst og er lengur en 3-4 vikur að gróa verður sjaldnast eins teygjanleg og mjúk og óbrennd húð. Það er hins vegar mjög einstaklingsbundið hversu mikil örmyndunin verður.
Örmyndun og þróun öra tengist einkum aldri þegar einstaklingurinn brennist, kynþætti, dýpt sáranna, staðsetningu á líkamanum og hversu lengi sárin eru að gróa og hvort þarf að græða á þau húð. Sár sem hafa verið lengur en 3 vikur að gróa og áflutt húð skilja alltaf eftir ör sem geta verið mismunandi að lit og áferð. Nýja húðin og örin eru mismunandi viðkomu t.d. hörð, strekkt og stíf, og mismunandi mikið upphleypt. Litabreytingar eru einnig algengar í nýrri húð, oftast rauðar eða bláleitar.
Hitabreytingar hafa áhrif á blóðflæðið í húðinni og örunum og er ný húð viðkvæm bæði fyrir hita og kulda. Þannig getur húðin og örin blánað eða hvítnað í kulda en roðnað í hita og við líkamlega áreynslu.
Þó að sárin virðist gróin er enduruppbygging vefja og húðar sem orðið hafa fyrir djúpum bruna enn þá virk í 1-2 ár eftir brunaáverka. Þannig er sjaldnast hægt að segja til um endanlegt útlit húðarinnar og öra fyrr en eftir 2-3 ár.
Ef brunaáverki liggur yfir liðamót getur stíf og hörð húðin hindrað fulla hreyfingu liðamóta. Minnkuð hreyfing og hreyfingarleysi veldur því að vöðvar og sinar umhverfis liðamótin styttast og leiðir það til stirðleika sem getur framkallað kreppur (e. contractures). Mikilvægt er að fá ráðgjöf sjúkraþjálfara og gera teygjuæfingar til að hindra slíka hreyfiskerðingu og í sumum tilfellum þarf að nota spelkur. Þar sem nýja húðin er að þroskast í 2-3 ár er nauðsynlegt að gera æfingar daglega í allan þann tíma og jafnvel lengur til að minnka hreyfiskerðingu og stirðleika.
Þær aðferðir sem helst eru notaðar til að minnka ör eru þrýstiklæði (e. pressure garments), lasermeðferðir, silicon og nudd. Erlendar rannsóknir benda til að lasermeðferðir geti mýkt ör og gert þau minnna upphleypt, gert húðina teygjanlegri og geti einnig minnkað verki og kláða. Notkun þrýstiklæða hefur verið hefðbundin aðferð við meðhöndlun brunaöra í áratugi. Rannsóknir á gagnsemi þrýstiklæða hafa þó ekki sýnt fram á afdráttarlausa gagnsemi. Einnig benda rannsóknir til að silicon á ýmsu formi geti mýki ör og geti gert þau minna upphleypt. Enn fremur er nudd talið geta mýkt ör.
https://www.phoenix-society.org/resources/scars-in-the-summer
https://www.changingfaces.org.uk/services-support/skin-camouflage-service/
Mælt er með að bæði börn og fullorðnir sem hafa fengið húðágræðslu noti þrýstiklæði og er einnig mælt með þrýstiklæðum fyrir þá sem hafa brunasár er voru lengur en 3-4 vikur að gróa. Um leið og sárin eru gróin þá er notkun þrýstiklæða hafin vegna þess að á því stigi er örvefurinn mest móttækilegur fyrir þrýstingi. Eins og nafnið bendir til, þá gefa þrýstiklæði ákveðinn þrýsting á nýju húðina og örin. Þessi þrýstingur virðist hægja á vexti öranna og veldur því að þau verða minna upphleypt, mýkri, ljósari og teygjanlegri og þannig verður hreyfanleiki liðamóta betri. Þrýstiklæðin minnka kláða og geta einnig minnkað verki í þykkum örvef. Klæðin verja húðina enn fremur fyrir hnjaski og áverkum.
Þrýstiklæði eru gerð úr mjúku teygjuefni sem teygist í allar áttir. Efnið er alsett örsmáum götum sem gerir það að verkum að húðin nær að anda í gegnum það. Þau eru til í ýmsum litum. Þrýstiklæði eru sérsniðin á bæði hendur, handleggi, fætur, fótleggi, búk og andlit.
Þrýstiklæði þarf að panta fyrir hvern og einn og er mikilvægt að mæla stærðirnar nákvæmlega. Áður en sjúklingurinn útskrifast af sjúkrahúsi er metið hvort viðkomandi þurfi á þrýstiklæðum að halda. Klæðin eru frá fyrirtækinu Stoð og tekur stoðtækjafræðingur mál af þeim líkamshluta sem þau eru sérsniðin fyrir. Til þess að þrýstiklæðin gefi réttan þrýsting á örin er mikilvægt að þau passi vel. Þess vegna þarf að sníða ný klæði eftir því sem barn og unglingar stækka og þroskast. Hjá börnum undir 10 ára aldri getur þurft að skipta um þrýstiklæðin á 6 mánaða fresti. Huga þarf að nýjum klæðum hjá fullorðnum ef líkamsþyngd breytist um 4-5 kg upp eða niður.
Til að klæðin gagnist sem best er nauðsynlegt að nota þau 23 tíma á sólarhring í u.þ.b. 12 til 18 mánuði. Það er því nauðsynlegt að hafa tvenn klæði til skiptanna þannig að hægt sé að tryggja samfellda notkun og þrýsting á örin. Mælt er með að taka þau einungis af fyrir bað, sturtu eða sund og eða þegar verið er að matast (þrýstiklæði fyrir andlit/höfuð).
Hvernig eru þrýstiklæði þvegin?
Mælt er með að þvo þrýstiklæðin daglega. Oftast er nægilegt að skola úr þeim í höndunum og þvo af og til í þvottavél úr 40° heitu vatni á þvottakerfi fyrir viðkvæman þvott. Ekki má nota bleikiefni. Nota skal mild þvottaefni (sem innihalda lítið af fosfötum). Þrýstiklæði má hvorki strauja, setja í þurrkara né setja í þurrhreinsun. Klæðin þarf að þurrka vel og er best að leggja þau til þerris eða hengja þau upp.
Má nota áburð/krem undir þrýstiklæði?
Mjög olíuríkir áburðir og áburðir sem innihalda vax eða paraffin geta skemmt klæðin. Gott er að leyfa áburði að fara vel inn í húðina áður en farið er í þrýstiklæðin aftur. Þrýstiklæðin eru dýr og því skiptir miklu máli að fara vel með þau til þess að þau endist sem lengst. Sjúkratryggingar Íslands taka þátt í kostnaði við kaup á þrýstiklæðum og er hlutur sjúklings í kostnaði 10% af heildarverði.
https://www.stod.is/
https://www.phoenix-society.org/resources/pressure-garments
Lasermeðferð á brunaör barna og fullorðinna hefur verið talsvert rannsökuð erlendis og hefur komið í ljós að meðferðin getur sléttað upphleypt ör, aukið teygjanleika og mýkt húðarinnar, minnkað roða og litabreytingar í örunum og í sumum tilvikum minnkað kláða og verki. Lasermeðferð er hægt að beita bæði á nýleg ör og eldri, en til að ná sem bestum árangri er æskilegt að hefja meðferð sem fyrst eftir að húðin er vel gróin. Útlit og eðli öranna og aldur sjúklings ráða mestu um það hvaða lasermeðferð er notuð hverju sinni. Til að lasermeðferð beri árangur þarf oftast að beita meðferðinni í 3-10 skipti á 4-8 vikna fresti. Í sumum tilvikum þar sem mikil þykknun eða ofholdgun er til staðar, er notuð samsett meðferð þar sem lyfjum, eins og t.d. sterum, er sprautað í örin samfara lasermeðferðinni. Hafa þarf í huga að lasermeðferð getur aldrei látið örin hverfa en meðferðin getur gert örin minna áberandi og húðina mýkri.
Lasermeðferð er mjög sérhæfð og tækjabúnaður (tegundir lasertækja) í stöðugri þróun. Því er mikilvægt að velja meðferðaraðila sem hafa reynslu og þekkingu á meðferð brunaöra og hafa yfir að ráða nýjustu tegundum laser. Á Íslandi er þessi sérhæfða meðferð veitt af sérfræðilæknum í húðsjúkdómum hjá Húðlæknastöðinni og Útlitslækningu, sem veita einnig meðferð við valbrá. Bæði Húðlæknastöðin og Útlitlslækning eru með samning við Sjúkratryggingar Íslands.
Nánari upplýsingar um ör og laser og tímabókanir má finna á heimasíðu Húðlæknastöðvarinnar: https://hudlaeknastodin.is/oramedferdir/ og Útlitslækningar: https://utlitslaekning.is/or-og-hudslit/
https://www.phoenix-society.org/resources/laser-treatment-for-burn-scars-what-burn-survivors-want-to-know
Rannsóknir benda til að silicon geti mýkt ör og dregið úr því hversu upphleypt og stíf þau verða. Silicon má nota um leið og húðin er gróin. Ekki er vitað með vissu hvaða það er við silicon sem gefur því þann eiginleika að draga úr vexti öra. Silicon er framleitt í ýmsu formi svo sem úði, hlaup, áburður og plástur/gelplötur (e. silicone gel sheets). Algengast er að nota Silicon gelplötur/þynnur á brunaör, og þær má einnig nota undir þrýstiklæði á erfiða staði.
Nánari umfjöllun um silicon og ör má finna hér; https://www.ncbi.nlm.nih.gov/pmc/articles/PMC4486716/
Húð sem hefur brennst er viðkvæm. Því þarf að velja og nota snyrtivörur varlega og nota vörur sem eru ofnæmisprófaðar. Það er mjög einstaklingsbundið hvernig húðin bregst við fegrunarkremum og „make-up“ vörum. Öruggast er að prófa krem á litlum bletti fyrst og bíða í sólarhring þar til snyrtivaran er sett á stærra svæði. Ef litabreytingar í andliti eða hálsi angra þig, þá getur þú prófað að endurskoða litaval t.d. á peysum, hálsklútum og treflum. Því í sumum tilvikum geta t.d. kaldir litir gert bláma og roða í húð meira áberandi.
Sjá einnig: https://www.changingfaces.org.uk/services-support/skin-camouflage-service/
Börn og brunaáverkar
Staðsetning, útbreiðsla og dýpt brunasára og aldur barnsins segja til um það hvort hægt er að veita barninu meðferð á heilsugæslu eða göngudeild eða hvort innlögn á Barnaspítala Hringsins er nauðsynleg.
Til þess að brunasár grói sem fyrst þarf að halda sárunum hreinum og hlífa þeim fyrir óhreinindum og hnjaski. Það fer eftir staðsetningu og dýpt sáranna og aldri barnsins hversu oft þau eru hreinsuð og hvort og hvaða umbúðir eru notaðar.
Sár í andliti eru oftast höfð umbúðalaus og eru þá þvegin 1-2 á dag og borinn á þau áburður til þess að halda þeim rökum og minnka hættu á skorpumyndun. Umbúðir eru oftast settar á sár á útlimum og búk. Algengast er að sárahreinsun og umbúðaskipti fari fram 3-4 sinnum í viku í fyrstu. Eftir því sem sárin gróa getur liðið lengri tími á milli sáraskiptinga.
Barnið er svæft við allar stærri sáraskiptingar og fara þær fram á skurðstofu eða á gjörgæsludeild. Sárameðferð stærri sára getur tekið 1-3 klukkutíma.
Ef sárin eru lítil þá er oft nægilegt að gefa barninu mild verkja- og kvíðastillandi lyf og fer sáraskipting þá fram á baðherbergi á barnadeild.
Fljótlega eftir brunaslysið getur safnast bjúgur í kringum brunasárin og oft á allan líkamann. Þessi bjúgsöfnun getur staðið í nokkra daga. Ef brunaáverki er á útlim er því nauðsynlegt að hafa hátt undir fæti eða handlegg til þess að minnka bjúgsöfnun. Ef brunaáverki er í andliti eða á hálsi þá er mikilvægt að barnið hafi hátt undir höfði og efri hluta líkamans og liggi ekki í flatri stöðu.
Brennd húð og húð sem er að gróa er ekki eins teygjanleg og heil húð. Ef brunaáverki nær yfir liðamót getur stíf húðin hindrað fulla hreyfingu um liðamótin. Í sumum tilvikum getur verið þörf á því að nota spelkur til að halda fingrum, höndum eða útlimum í réttri stöðu á meðan sárin eru að gróa. Því er sjúkraþjálfun og æfingar mikilvæg til þess að halda eðlilegri hreyfigetu um liðamótin.
Brunaslys líkt og önnur áföll í bernsku geta haft áhrif á andlega líðan og þroska barna og unglinga. Þrátt fyrir öfluga verkjameðferð frá byrjun þá geta verkir og kláði verið fylgifiskur sárameðferðar og sjúkraþjálfunar. Sjúkrahúsvistin ein og sér getur valdið bæði streitu og aðskilnaðarkvíða. Álag við þær aðstæður geta haft mikil áhrif á hegðun barnsins og unglingsins.
Börn bregðast þó við á mismunandi hátt eftir því á hvaða aldri þau eru þegar brunaslysið verður. Reiði, pirringur, hræðsla og kvíði eru algeng einkenni. Barnið getur orðið mjög vart um sig og átt erfitt með að treysta starfsfólki og öðrum sem ekki eru í fjölskyldunni. Svefntruflanir og martraðir eru einnig algengar sem og breytingar á hegðun. Til dæmis getur barn sem áður pissaði í kopp, farið að nota bleyju aftur. Þessar breytingar á líðan og hegðun geta haldið áfram eftir að heim er komið eða jafnvel komið fyrst í ljós eftir útskrift af sjúkrahúsi. Í flestum tilvikum er um að ræða eðlileg viðbrögð sem geta staðið yfir fyrstu mánuðina eftir slíkt áfall.
Brunaör geta einnig haft áhrif á líkamsímynd barna og unglinga; þá hugmynd sem hver og einn hefur um útlit eigin líkama og starfsemi hans. Líkamsímyndin er í mótun allt frá fæðingu og er sú þróun hluti af heilbrigðum þroska barnsins sem kynveru. Rannsóknir benda til að þeir sem hafa fengið brunaör í barnæsku, virðast ná að aðlagast vel og þróa með sér sterka líkamsímynd. Að alast upp með ör á líkamanum sem barn og unglingur á mótunarárum kynferðisþroskans virðist þannig vera auðveldara, heldur en að verða fyrir miklum útlitsbreytingum á fullorðinsárum, þegar kynferðisþroskinn og sjálfsímyndin eru nokkurn veginn fullmótuð.
Slysið, vanlíðan barns og sjúkrahúsdvöl hefur áhrif á alla í fjölskyldunni. Foreldrar glíma ef til vill við sektarkennd vegna þess hvernig slysið bar að. Systkinum getur liðið illa vegna þess að þau gætu hafa átt hlut að máli eða verið áhorfendur að slysinu og líður illa með að horfa upp á systkini sitt veikt. Systkini geta einnig upplifað að þau séu afskipt vegna þeirrar athygli og viðveru sem barnið þarfnast. Enn fremur er hætt við að eðlileg rútína og skipulag í fjölskyldunni raskist svo sem matmálstímar og háttatímar.
Þegar áfall dynur yfir svo sem þegar barn verður fyrir brunaslysi, er mikilvægt að fjölskyldan fái sérhæfðan stuðning sem fyrst. Á Barnaspítala Hringsins eru starfandi bæði barnasálfræðingur og félagsráðgjafi auk presta og djákna sem veita barni, foreldrum og systkinum sálgæslu og ráðgjöf þegar þess er óskað.
https://www.changingfaces.org.uk/advice-guidance/relationships-social-life/
https://www.changingfaces.org.uk/advice-guidance/relationships-social-life/overcoming-challenges-dating-relationships/
https://www.phoenix-society.org/journey-forward
Sársauki er einstaklingsbundinn og þess vegna þarf að haga verkjalyfjagjöf samkvæmt því. Foreldrar þekkja barnið sitt best og geta aðstoðað starfsfólk við að meta líðan þess.
Til að draga úr sársauka fær barnið verkjalyf með reglulegu millibili yfir sólarhringinn og einnig sérstaklega fyrir sárameðferð og á meðan hún stendur yfir. Einnig getur verið nauðsynlegt að gefa róandi lyf. Athyglisdreifing svo sem með tónlist, leikjum, tölvuleikjum og sýndarveruleiki geta einnig verið gagnlegar aðferðir til þess að minnka verki og vanlíðan.
Mikilvægt er að barnið eða unglingurinn nái góðum nætursvefni því svefnleysi og kvíði skapa vítahring verkja og vanlíðunar. Umhverfisþættir eins og að halda háttatíma í föstum skorðum, njóta dagsbirtu á daginn (draga frá gluggum), hreyfa sig og takmarka skjátíma fyrir svefn, hafa mikil áhrif á gæði svefns og þar með verki og líðan.
Allir sem umgangast barn með brunasár þurfa að tileinka sér umgengis reglur sem minnka hættu á að bakteríur berist í sárin. Eftir því sem sárin eru útbreiddari þá er barnið viðkvæmara fyrir sýkingum.
Góður handþvottur og notkun á handspritti ásamt almennu hreinlæti eru lykilatriði til að draga úr sýkingarhættu. Þessi atriði eru mikilvæg hvort heldur barnið dvelur heima eða fær meðferð inni á sjúkrahúsi.
Ef barnið er lagt inn á sjúkrahús þarf það stundum að vera í svokallaðri varnareinangrun fyrstu dagana til að verjast sýkingum. Barnið er þá eitt á stofu og allir sem fara inn á herbergið þurfa að þvo sér vel um hendur og nota handsprtitt, klæðast gulum hlífðarslopp og jafnvel vera með hanska.
Heimsóknir þeirra sem eru með kvef eða aðra umgangskvilla eru ekki leyfðar.
Mikilvægt er að sjúkrastofan sé snyrtileg og allt óþarfa dót og rusl sé fjarlægt jafn óðum. Þannig er auðveldara fyrir ræstitækna að þrífa stofuna en það er gert daglega. Enn fremur þarf að spritta daglega þá hluti í umhverfinu sem oft er verið að taka á svo sem hurðarhúna, rúmgrindur, fjarstýringar og borðplötur.
Huga þarf að leikföngum, að þau séu hrein og að þau séu þrifin ef þau fara í gólfið. Skipta þarf daglega um rúmföt og föt ef barnið er klætt.
Brunasár í andliti eru oftast án umbúða og geta því óhreinkast ef barnið fer með hendur í andlitið, slefar yfir sár eða ef vessi rennur úr nefi yfir sár. Því þarf að gæta þess að barnið sé ávallt með hreinar hendur.
Einnig er áríðandi að hár barnsins fari ekki í sárin í andlitinu og getur þurft að klippa hárið.
Þegar barnið kemur heim og ef gæludýr eru á heimili þarf að ryksuga oftar en venjulega til þess að minnka líkur á því að hár frá gæludýrum berist í umbúðir og sár.
Í flestum tilfellum getur barnið sótt skóla eða leikskóla fljótlega eftir útskrift af sjúkrahúsi þegar sár eru gróin. Mikilvægt er að undirbúa skólafélaga og kennara áður en barnið eða unglingurinn mætir aftur í skólann.
Leikskólakennari/kennari og skólahjúkrunarfræðingur ásamt foreldrum og hjúkrunarfræðingum á Barnadeild þurfa að hafa samráð og skipuleggja hvers konar upplýsingar og fræðslu skólafélagar, vinir og aðrir kennarar þurfa á að halda.
Ef barnið er með ör, þarf að nota þrýstiklæði eða spelkur eða hefur aðrar sýnilegar útlitsbreytingar, þá getur góður undirbúningur fyrir endurkomu barnsins í skóla minnkað líkur á stríðni, einelti, störum og óþægilegum spurningum. Á þann hátt má einnig minnka líkur á því að barnið/unglingurinn neiti að fara í skólann eða að stunda íþróttir svo sem sund.
https://www.phoenix-society.org/what-we-do/saras-steps
https://www.changingfaces.org.uk/advice-guidance/children-parents-families/children-young-people/social-life-friends-school/
Barnið má fara í sund nokkrum vikum eftir að sárin eru vel gróin og er skynsamlegt að vera ekki of lengi í vatninu fyrstu skiptin meðal annars vegna áhrifa klórsins í vatninu á húðina. Áður en farið er í laugina er mikilvægt að bera rakagefandi áburð eða sólarvörn á gróna húð og brunaörin til að hlífa húðinni fyrir þurrki af völdum sundlaugarvatnsins.
Hafa þarf hugfast að þegar klór er notaður í sundlaugarvatn getur hann aukið á kláða og því þarf að skola klórvatnið vel af þegar sundferð lýkur og bera rakagefandi áburð aftur á húðina.
Hafðu samband
Það er von okkar að þessar upplýsingar verði stuðningur og leiðsögn í átt að bata fyrir þig sem þekkir brunaslys af eigin raun, fjölskyldu þína og vini.
Ef þú finnur ekki þær upplýsingar eða svör sem þú leitar eftir hér á síðunni, þá er hægt að senda fyrirspurn á fagaðilla Landspítala eða skoða vefsíður sem finna má hér neðan:
Tengiliður/Heiti vefsíðu | Netfang/vefsíða |
---|---|
Brunaslys/brunasár | brunasar@landspitali.is |
Bandarísk samtök einstaklinga sem hafa brennst | https://www.phoenix-society.org |
Bresk samtök einstaklinga með ör | https://www.changingfaces.org.uk |
Um útgáfuna
Útgefandi
Landspítali, skurðlækningasvið
Mars 2023
Ábyrgð: Yfirlæknir og deildarstjóri HNE-, lýta- og æðaskurðdeild.