Leit
Loka

Eitrunarmiðstöð

Eitt af helstu hlutverkum hennar er að veita upplýsingar um eiturefni og ráðgjöf um viðbrögð og meðferð þegar eitranir verða.

EitrunarmiðstöðEf mögulegt -hafðu þá þetta við hendina þegar hringt er!

Heiti efnis eða lyfs, best að hafa umbúðirnar. Hvenær eitrun átti sér stað. Aldur og þyngd sjúklings.

Banner mynd fyrir Eitrunarmiðstöð

Hafðu samband

OPIÐAllan sólarhringinn alla daga

Eitrunarmiðstöð - mynd

Hér erum við

Bráðamóttaka Fossvogi

Hagnýtar upplýsingar

Eitrunarmiðstöðin er opin allan sólarhringinn!
sími: 543 2222

Geymum lyf og skaðleg efni á ábyrgan hátt !

Eitrunarmiðstöð er starfrækt á Landspítala. Eitt af helstu hlutverkum hennar er að veita upplýsingar um eiturefni og ráðgjöf um viðbrögð og meðferð þegar eitranir verða. Símaþjónusta er opin öllum og veitt ráðgjöf af fagfólki allan sólarhringinn.
Síminn er 543 2222 eða 112 í gegnum neyðarlínuna.

Hvaða upplýsingar er gott að hafa þegar hringt er í eitrunarmiðstöðina?

 • Heiti efnis eða lyfs, best er að hafa umbúðirnar við höndina
 • Hvenær eitrunin átti sér stað
 • Aldur, þyngd sjúklings

 

Netfang: eitur@landspitali.is  Fyrirspurnir sem ekki varða bráð eitrunartilfelli

Eitrunarmiðstöðin rekur símaþjónustu allan sólarhringinn þar sem gefnar eru ráðleggingar um viðbrögð við eitrunum og upplýsingar um eiturefni.

Þessi þjónusta er starfrækt fyrir alla landsmenn.

Mikilvægt er að brugðist sé skjótt og rétt við eitrunum og í mörgum tilfellum má leysa málið með leiðbeiningum frá starfsfólki eitrunarmiðstöðva án þess að til frekari meðferðar þurfi að koma.

 • Símaráðgjöf - Á eitrunarmiðstöðinni er símaþjónusta allan sólarhringinn í síma 543 2222
 • Eitrunarmiðstöðin tekur þátt í forvarnarstarfi með þátttöku í ýmsum verkefnum sem miða að því að koma í veg fyrir eitranir.
 • Eitrunarmiðstöðin safnar upplýsingum um eitranir á Íslandi til að vera betur í stakk búin til að veita góða og markvissa þjónustu.
 • Eitrunarmiðstöðin stundar rannsóknir á eitrunum.
 • Eitrunarmiðstöðin heldur fræðslufyrirlestra um eitranir fyrir heilbrigðisstarfsmenn og aðra sem eftir því óska.
 • Sérfræðingar eitrunarmiðstöðvarinnar koma að kennslu heilbrigðisstétta við Háskóla Íslands í klínískri eiturefnafræði
 • Eitrunarmiðstöðin er í norrænum samtökum eitrunarmiðstöðva

Eitrunarmiðstöðin hefur verið starfrækt á Landspítala Fossvogi síðan 1. desember 1994.

Á umhverfisráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Ríó 1992 voru samþykkt tilmæli til ríkisstjórna allra landa um að starf eitrunarmiðstöðva yrði eflt og þær settar á stofn þar sem þær væru ekki fyrir.

Áhugi á að stofna slíka stöð hafði verið fyrir hendi hér á landi um nokkurt skeið og segja má að þessi tilmæli svo og gildistaka EES samningsins hér á landi hafi orðið til þess að eitrunarmiðstöð var stofnuð á Íslandi. 

Gera má því ráð fyrir að a.m.k. tvöþúsund og sexhundruð manns leiti til heilbrigðiskerfisins árlega vegna eitrana. 

Eitrunarmiðstöðinni berst yfir 2200 símtöl árlega vegna fyrirspurna vegna eitrana.

Börn

 
Mörg hundruð fyrirspurnir eru árlega til eitrunarmiðstöðvarinnar vegna barna 6 ára og yngri. 

Flestar eitranir sem lítil börn verða fyrir gerast á heimilum og eru vegna ýmis konar efna sem algeng eru á heimilum.

Má þar nefna hreinsiefni til dæmis:

 • Þvottaefni fyrir uppþvottavélar
 • Bleikiefni (klór)
 • Salmíakspíritus (ammóníak)
 • Ofnahreinsiefni
 • Grillkveikilög
 • Aseton
 • Ilmvötn
 • Ilmolíur
 • Rakspíra
 • Sótthreinsispritt
 • Áfengi
 • Nikótíns (púðar og rafrettur)
 • Terpentínu
 • Frostlög
 • Plöntur

Lyfjaeitranir eru ekki eins algengar í þessum aldurshópi en koma þó alltof oft fyrir.

Oftast er um að ræða verkjalyf (parasetamól), járn og vítamín sem fólk geymir á stöðum sem börn hafa greiðan aðgang að.

Flestar eitranir í börnum eru minni háttar en alvarleg tilfelli koma upp.

Fullorðnir

Um það bil tveir þriðju hlutar eitrana í fullorðnum gerast á heimilum og u.þ.b. 15% á vinnustað.

Öfugt við eitranir í börnum eru lyfjaeitranir í meirihluta og oftast er um sjálfseitranir að ræða þ.e. misnotkun lyfja eða sjálfsvígstilraunir.

Lyf, sem oftast koma við sögu eru verkjalyf eins og:

 • Parasetamól
 • Þunglyndislyf
 • Geðlyf, róandi lyf
 • Hjartalyf,
 • Ávana- og fíkniefni 
 • Áfengi

Aðrar eitranir eru meðal annars vegna eitraðra lofttegunda (t.d. kolmónoxíðs), líffrænna leysiefna, hreinsiefna, sýru, basa og meindýraeiturs.

Hvaða eitranir eru alvarlegastar?

Flestar banvænar eitranir hér á landi tengjast neyslu áfengis.  Sumar af völdum áfengis eingöngu en flestar þó vegna inntöku lyfja og áfengis samtímis.

Næst á eftir lyfjum og áfengi veldur kolmónoxíð (CO) oftast banvænum eitrunum.

Kolmónoxíðeitranir geta t.d. orðið þegar fólk andar að sér útblæstri frá ökutækjum eða hiturum í lokuðu rými og við húsbruna þegar fólk andar að sér reyk.

Af öðrum alvarlegum eitrunum má nefna eitranir af völdum lífrænna leysiefna, t.d. lampaolíu og grillvökva þegar þau hafa komist niður í lungu eftir inntöku.

 

Ástæða eitrana eftir aldri

Hringið í eitrunarmiðstöðina hvenær sem á þarf að halda. Sími 543 2222.

Inntaka

Þynning er ráðlögð ef um er að ræða ertandi efni fyrir slímhúð í munni og hálsi t.d. sápur, hreinsiefni og ýmis súr eða basísk efni.  Meta skal þó hvert tilfelli fyrir sig.
Ef alvarleg einkenni eins og slæmur verkur í vélinda eða maga, kyngingarörðugleikar eða öndunarerfiðleikar eru til staðar, á strax að leita læknishjálpar.
Í slíkum tilfellum er hætta á að efnið hafði brennt gat á vélinda eða maga og getur þá gert illt verra að drekka eða borða.  Ef þessi einkenni eru ekki til staðar, gefið 1-2 glös af vatni eða mjólk að drekka. Gæta skal þess að þröngva aldrei vökva ofan í fólk. 

Athuga: Ef um er að ræða inntöku á lyfjum getur þynning orðið til hins verra.  Rannsóknir hafa sýnt að þynning með vatni getur aukið styrk ýmissa lyfja í blóði eða blóðvökva  og þannig aukið eituráhrif þeirra.  Að drekka eða borða eftir lyfjainntöku getur flýtt ferð lyfsins gegnum meltingarveginn þannig að erfiðara verður að framkvæma magatæmingu

Uppköst

 • Uppköst eru aldrei ráðlögð í heimahúsi nema í sérstökum tilfellum (alltaf í samráði við eitrunarmiðstöð eða lækni)
 • Ef uppköst eiga sér stað þarf að gæta að líkamsstöðu sjúklings svo sem að hann liggi alls ekki á bakinu

Augu

Ef efni berst í augu er mikilvægt að skola það burt sem fyrst.

Dæmi um efni eru hreinsiefni, sýrur, basar og piparúði.

 • Augnskol
 • Notið þægilega volgt vatn, haldið auganu opnu og hallið höfðinu aftur og til hliðar, látið vatnið renna frá augnkrók þvert yfir augað
 • Haldið áfram í 15 mínútur
 • Stundum þarf að skola mun lengur svo sem ef um sterkar sýrur eða basa er að ræða

Innöndun

 • Komið sjúklingi í ferskt loft og losið um föt sem þrengja að 

Dæmi um efni sem valdið hafa eitrunum við innöndun eru ertandi lofttegundir eins og klórgas og ammoníak, eitraðar lofttegundir eins og kolmónoxíð og brennisteinsvetni og ýmis lífræn leysiefni.

Muna ávallt að fara ekki inn í lokuð rými þar sem hætta er á að mengast sjálfur nema í viðeigandi hlífðarútbúnaði.

Húð

 • Skola með miklu vatni og mildri sápu, fjarlægja föt og skartgripi.

Dæmi um efni sem valda eitrun eru sýrur, basar og ertandi hreinsiefni.

Það kemur kannski mörgum á óvart að á venjulegu heimili er að finna ótal mörg efni sem geta valdið eitrunum.  Ekki er alltaf augljóst hvar hættan leynist.

Yngstu fjölskyldumeðlimir eru í mestri hættu en um 60% fyrirspurna sem berast eitrunarmiðstöðinni eru vegna barna yngri en 6 ára og er mikill meirihluti þessara eitrana slys sem verða inni á heimilum.

Efnin sem oftast koma við sögu eru þvotta- og hreinsiefni, lyf, plöntur, ilmvötn, rakspírar og aðrar snyrtivörur. 

Það hefur sýnt sig að 70-80% allra eitrana má meðhöndla heima en erfitt og jafnvel ógerlegt getur verið fyrir leikmenn að ákveða hvenær svo er og hvenær ekki.

Þegar grunsemdir vakna eða ljóst er að eitrun hefur orðið er því öruggast að hringja í eitrunarmiðstöðina í síma 543 2222 og fá upplýsingar og ráðleggingar hjá fagfólki um hvað best sé að gera.

Hvernig hægt er að koma í veg fyrir margar eitranir

Hægt er að koma í veg fyrir margar eitranir, sérstaklega í börnum, með einföldum forvörnum.

Börn eru forvitin og oft snarari í snúningum en fullorðnir gera ráð fyrir.

Þau geta á augabragði verið búin að stinga einhverju upp í sig eða hella yfir sig.

Lítil börn vita ekki hvað þau mega borða og hvað ekki auk þess sem bragðskyn þeirra er óþroskað og þau geta átt það til að setja ýmislegt ofan í sig sem fullorðnir myndu strax spýta út úr sér vegna bragðsins.

Þess vegna verða fullorðnir að sjá til þess að fjarlægja öll efni og hluti úr umhverfi barnsins sem geta verið hættuleg lífi og heilsu þess.

Til að gera heimilið öruggara er einfalt og gott ráð að ganga um íbúðina sína, taka hvert herbergi fyrir sig og huga að því hvar hættuleg efni og lyf eru geymd.

Gott er að hafa til hliðsjónar varnaðarmerki á umbúðum (sjá hér neðar) þó ekki sé hægt að treysta því að öll hættuleg efni séu merkt með varnaðarmerkingum.

 • Eldhúsið
  Mjög algengt er að margs konar hreinsiefni séu geymd í eldhúsinu og gjarnan undir eldhúsvaskinum þar sem auðvelt er fyrir börn að ná í þau. Mörg þessara efna eru mjög ertandi og sum jafnvel ætandi og geta valdið alvarlegum eitrunum. Sem dæmi má nefna uppþvottaefni fyrir sjálfvirkar uppþvottavélar og ofnahreinsiefni. Geymið því ekki hreinsiefni undir eldhúsvaskinum eða annars staðar þar sem börn geta komist í þau. Vítamín og önnur lyf eiga að vera í læstum lyfjaskáp (sjá kaflann um lyf )
 • Þvottahúsið
  Þvottaefni fyrir þvottavélar, klór, blettahreinsiefni, gólfsápur, rúðuúði og ýmiskonar alhliða hreinsiefni eru oft geymd í þvottahúsinu. Flest þessi efni eru mjög ertandi fyrir slímhúðir og valda miklum sviða ef þau komast í augu og ógleði og uppköstum ef þau eru tekin inn. Þau valda þó yfirleitt ekki alvarlegri ætingu eða bruna ef það er í litlu magni.
 • Baðherbergið
  Salernishreinsiefni, baðhreinsiefni og stíflueyðir eru dæmi um hættuleg hreinsiefni sem oft er að finna inni á baðherbergjum. Sum þessara efna geta verið ætandi og valdið alvarlegum eitrunum. Af öðrum hættulegum efnum má nefna aseton, spritt, rakspíra og ilmötn.
 • Svefnherbergi
  Gætið þess að lyf eða sígarettur séu ekki geymd á náttborði.
 • Stofan
  Í stofunni gætu fundist sígarettur eða annað tóbak, áfengir drykkir, lampaolíur, rafhlöður t.d. úr fjarstýringum, tölvum eða tölvuleikjum. Gætið þess að þetta sé ekki aðgengilegt börnum.
 • Bílskúrinn
  Í bílskúrnum leynast oft mörg hættuleg efni eins og ýmiss konar lífræn leysiefni, t.d. terpentína, tjöruhreinsir, grillvökvar og bensín.  Oft eru þar einnig geymd skordýra- og illgresiseitur og sterk hreinsiefni. Þetta eru allt efni sem geta valdið alvarlegum eitrunum í litlu magni.
 • Lyf
  Öll lyf á að geyma í læstum lyfjaskáp þar með talin vítamín og flúortöflur sem algengt er að geymd séu annars staðar t.d. uppi á eldhúsborði. Sum lyf þarf þó að geyma í kæli eins og t.d. marga endaþarmsstíla og skal þá koma þeim þannig fyrir að börn geti ekki auðveldlega náð í þau. Gömul lyf sem hætt er að nota má fara með í næsta apótek sem sér um að láta farga þeim á öruggan hátt.
 • Pottablóm
  Skipta má plöntum gróflega í tvo flokka hvað varðar eituráhrif þeirra á menn. Annars vegar eru plöntur sem í eru eiturefni sem geta haft áhrif á miðtaugakerfið og/eða hjartað og hins vegar plöntur sem í er safi sem er sérstaklega ertandi fyrir slímhimnur, augu og húðina.
  Þegar nýjar pottaplöntur eru keyptar er rétt að athuga hvort þær geti verið eitraðar, flestar blómabúðir geta gefið upplýsingar um það. Einnig er hægt að fá upplýsingar hjá eitrunarmiðstöðinni.

  Dæmi um eitraðar pottaplöntur:


  Jólastjarna ( Euphorbia pulcherrima )
  Köllubróðir ( Dieffenbachia)
 • Garðurinn
  Í garðinum geta leynst eitraðar plöntur, mikilvægt er að brýna fyrir börnum að stinga ekki upp í sig blómum, laufblöðum, berjum eða sveppum í garðinum.

  Dæmi um eitraðar plöntur í görðum:

   
   
  Töfratré eða töfrarunni
  ( Daphne mezereum) – mikið eitruð
  Gullregn (Laburnum)

  Á vef eitrunarmiðstöðvarinnar í Noregi er að finna lista og myndir yfir eitraðar plöntur. Veffangið er: http://www.giftinfo.no

 • Eitur í lofti
  Eitranir vegna eitraðra lofttegunda eru talsvert algengar. Þær eru mjög lúmskar og stundum getur verið erfitt að átta sig á að um eitur í lofti er að ræða. Sterk vísbending um að svo sé er ef fleiri en einn eða margir á sama svæði eru með sömu einkenni.
 • Blöndun hreinsiefna
  Eitraðar lofttegundir geta myndast við blöndun ýmissa hreinsiefna sem til eru á heimilum, t.d. getur myndast eitrað klórgas þegar venjulegur klór til heimilisnota og salernishreinsiefni er blandað saman. Þetta er yfirleitt tekið fram utan á umbúðum efnanna, þess vegna er mikilvægt að lesa allar merkingar á umbúðum vel áður en efnin eru notuð.
 • Kolmónoxíð er eitruð lofttegund sem er lyktarlaus og myndast við ófullkominn bruna eldsneytis, t.d. frá bílum og öðrum ökutækjum, hitatækjum, grillum o.fl. Mjög mikilvægt er að nota ekki gaskyndingu innanhúss nema það sé tryggt að gott útblásturskerfi sé til staðar. Annars má alls ekki sofa með slík tæki eða nota þau lengi í lokuðu herbergi eða í tjaldi. Fyrstu einkenni eitrunar líkjast flensu og eru t.d. höfuðverkur, ógleði, uppköst, máttleysi, drungi, yfirlið og einbeitingarerfiðleikar. Ef ekkert er að gert leiðir eitrunin til dauða. Ef margir eru saman, t.d. heil fjölskylda í sumarbústað, tjaldi eða annars staðar þar sem notuð er gaskynding og allir hafa ofangreind einkenni er mjög líklegt að um kolmónoxíðeitrun sé að ræða.
 • Lífræn leysiefni
  Mikilvægt er að umgangast og nota lífræn leysiefni með varúð, nokkuð er um að fullorðnir og börn hafi fengið lungnabólgu vegna lífrænna leysiefna annað hvort eftir innöndun eða inntöku. Varast ber að anda að sér lífrænum leysiefnum í lokuðu rými og nauðsynlegt er að hafa alltaf góða loftræstingu þegar þessi efni eru notuð, t.d. þegar verið er að vatnsverja skó, leysa upp gamla málningu og þess háttar. Þessi efni eru líka mjög hættuleg ef þau eru tekin inn, algengustu dæmin um inntöku eru þegar börn komast í grilluppkveikilög og súpa á honum og þegar fullorðnir sjúga bensín upp í slöngu með munninum til að flytja á milli bíla og ekki tekst betur til en svo að bensín kemst upp í viðkomandi. Í báðum þessum tilvikum er mikil hætta á lífshættulegri lungnabólgu. Geymið því öll lífræn leysiefni þar sem börn ná ekki í þau, notið aldrei lífræn leysiefni í lokuðu rými og notið alls ekki munninn til að soga bensín eða önnur lífræn leysiefni.

ATHUGIÐ!
 • Setjið aldrei hættuleg efni í umbúðir utan af matvælum. Margar eitranir hafa orðið vegna þess.
 • Hættuleg efni á alltaf að geyma í upprunalegum umbúðum með varnaðarmerkingum og upplýsingum um innihald.
 • Athugið að eitrun verður ekki einungis eftir inntöku hættulegra efna heldur er líka hægt að verða fyrir eitrun með því að anda að sér hættulegum efnum, fá þau á húðina eða í augun.

 

Varnaðarmerki – hættumerki á umbúðum
Skylt er að merkja vörur sem seldar eru til heimilisnota og innihalda hættuleg efni með viðeigandi varnaðarmerkjum.Varnaðarmerki benda á hættuna sem af efninu stafar. Þau eru 10 talsins en eitt og sama efni getur fengið fleiri en eitt varnaðarmerki. Hér fyrir neðan má sjá myndir af þeim merkjum sem algengt er að séu á efnum sem geta valdið eitrun og hvað þau þýða.

  BRÁÐ EITURHRIF Efni sem eru svo eitruð að þau geta valdið skaða eða verið banvæn við inntöku, innöndun eða eftir snertingu við húð.» Klæðist hlífðarbúnaði. » Forðist inntöku, innöndun og snertingu við húð og augu. » Geymið á læstum stað. Varnarefni, metanól og níkótínáfylling fyrir rafrettur. 

   
  ALVARLEGUR HEILSUSKAÐI Efni sem geta valdið langvarandi áhrifum og heilsuskaða, skaðað frjósemi eða ófætt barn, verið krabbameinsvaldandi, valdið ofnæmi eða astmaeinkennum og skaðað líffæri.Meðhöndlið varlega. » Forðist inntöku og innöndun. » Forðist snertingu við húð og augu. » Geymið á læstum stað. Terpentína, bensín, málningarþynnir, epoxý og lampaolía.


  ÆTANDI Efni sem eru ætandi fyrir húð og valda alvarlegum augnskaða. Á einnig við um efni sem tæra málma. Haldið í upprunalegu íláti. » Forðist inntöku og innöndun. » Klæðist hlífðarbúnaði. Stíflueyðar, grillhreinsar salernishreinsir, sýrur, basar, ediksýra, saltsýra, og ammoníak.

     

  Fimm góð ráð

  • Geymdu hættuleg efni alltaf í upprunalegum umbúðum.
  • Fylgdu leiðbeiningum á merkimiðanum.
  • Varastu að hættuleg efni komist í snertingu við húð, augu eða lungu.
  • Geymdu hættumerktar vörur þar sem börn ná ekki til.
  • Hugsaðu um umhverfið áður en þú fargar hættumerktum vörum.

  Mælt er með því að fara kerfisbundið í gegnum öll herbergi á heimilinu og huga að því hvar hættuleg efni og lyf eru geymd. Hættumerkin eru 9 talsins og ekki er alltaf auðvelt að átta sig á því fyrir hvað þau standa. Kynntu þér málið, þá áttu auðveldara með að taka upplýsta ákvörðum um vöruval og meðhöndlun á vörum sem innihalda hættuleg efni.

  Veggspjald um hættumerkin
  Hönnuhús: Kennsluefni fyrir krakka

Hvað er hægt að gera á heimilum til að koma í veg fyrir eitranir?

 • Við kaup á hreinsiefnum og öðrum efnum sem geta verið hættuleg er mikilvægt að athuga merkingar á umbúðum og gera sér grein fyrir hvar og hvernig þau skulu geymd
 • Geymið hreinsiefni og önnur hættuleg efni þar sem börn ná ekki til - læstur skápur er eina örugga geymslan
 • Safnið aldrei miklu af efnum heldur reynið að nota sem fæst hættuleg efni, það auðveldar yfirsýn og gæslu
 • Lyf eiga ætið að vera í læstum skáp, geymið ekki verkjatöflur í heimilissjúkrakassanum sem börn hafa aðgang að
 • Í bílskúrum og kjöllurum eru hættuleg efni oft geymd. Útbúið læsanlegan skáp þar
 • Mikilvæg regla er að kanna birgðir, t.d. á vorin, og losa sig við efni sem orðin eru of gömul eða stendur ekki til að nota aftur
 • Grillvökvi er hættulegt efni, látið hann aldrei standa úti eða við hliðina á grillinu heldur takið hann inn og setjið í læstan skáp
 • Mörg börn verða fyrir eitrunum af völdum tóbaks. Til að koma í veg fyrir það er besta ráðið að skilja aldrei eftir tóbak á glámbekk né stubba í öskubökkum
 • Gæta skal sérstaklega að nikótínpúðar (snus) séu ekki þar sem börn ná til. Slíkir púðar innihalda mikið magn nikótíns og eru því mjög eitraðir. Þetta á einnig við um rafrettur (vape)
 • Mikilvægt er að eiturefnum sé ekki hellt yfir á gosdrykkjaflöskur eða brúsa undan safa

Sérfræðingar eitrunarmiðstöðvarinnar taka virkan þátt í fræðslu í eiturefnafræði og meðhöndlun eitrana meðal annars í Háskóla Íslands og á sjúkrahúsum um land allt.

Einnig er boðið upp á fyrirlestra fyrir skóla, félög, fyrirtæki o.s.frv.

Hægt er að hafa samband við starfsfólk eitrunarmiðstöðvarinnar og fá nánari upplýsingar um tilhögun slíkra fyrirlestra - senda tölvupóst.

Tengd starfsemi og þjónusta

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir
Af hverju ekki?