Leit
Loka

Þunglyndis- og kvíðateymi

Þunglyndis- og kvíðateymið er þverfaglegt göngudeildarteymi sem sinnir einstaklingum með þunglyndi og kvíðaraskanir. Teymisstjóri: Fjóla Katrín Steinsdóttir, sálfræðingur

Banner mynd fyrir  Þunglyndis- og kvíðateymi

Staðsetning: Geðdeildarbygging við Hringbraut. Móttakan er í anddyri byggingar.

Sími: 543 4050

Þeir sem eru á biðlista eða eru komnir í meðferð geta haft samband með því að senda fyrirspurn í gegnum Heilsuveru.  

Hagnýtar upplýsingar

Teymið sinnir greiningu og meðferð fólks með alvarlegar kvíðaraskanir og alvarlegt þunglyndi þegar þjónusta á vægari þjónustustigum hefur ekki skilað tilætluðum árangri

Í teyminu eru þrjár þjónustulínur:

1. Meðferð og greining kvíðaraskana og þunglyndis

  • a) Kvíðaraskanir:
    Alvarleg áráttu- og þráhyggjuröskun, almenn kvíðaröskun, félagsfælni, heilsukvíði, ofsakvíði með eða án víðáttufælni, líkamsskynjunarröskun, ælufælni og hárplokkunar- og húðkroppunarárátta.
  • b) Þunglyndi:
    Alvarlegt og endurtekið þunglyndi sem veldur verulegri hömlun í lífi og starfi.

2. Greining á samsettum geðvanda

Teymisstjóri: Solveig Erna Jónsdóttir, sálfræðingur
Í greiningarlínu þunglyndis- og kvíðateymis fer fram greiningarvinna þar sem þörf er á mismunagreiningu til að ákvarða viðeigandi meðferð og næstu skref. Í greiningarlínu er hægt að vísa fólki sem er að glíma við langvinnar geðraskanir en fyrsta eða önnur línu þjónusta hefur ekki skilað árangri og óljóst hver meginvandi er.

3. Meðferð fyrir skjólstæðinga sem eru nýútskrifaðir af móttökugeðdeild – Byggjum brú

Meðferð fyrir skjólstæðinga sem nýverið hafa útskrifast af móttökugeðdeild og þurfa áframhaldandi stuðning. Markhópurinn eru einstaklingar sem hafa verið lagðir inn vegna sjálfsvígshættu, þunglyndis, kvíðaraskana eða lífskrísu. Skjólstæðingar eru í brúnni að jafnaði í þrjár vikur og fá á þeim tíma boð um að taka þátt í grunnhóp sem er tvisvar í viku og einstaklingsviðtöl hjá sálfræðingi. Einnig er í boði fyrir skjólstæðinga sem eiga börn undir 18 ára aldri fjölskyldustuðningur. Sumir útskrifast úr geðþjónustunni eftir Byggjum brú en aðrir fara í áframhaldandi þjónustu innan meðferðareiningu lyndisraskana.

Tekið er við tilvísunum frá fagfólki innan og utan spítalans. Beiðnir berist til inntökuteymis ferliþjónustu.

Hugræn atferlismeðferð (HAM) hefur verið í örum vexti síðustu áratugi og er meðferðin í dag gjarnan notuð sem fyrsta íhlutun við ýmsum sálrænum vanda (Tolin, 2010).

Meðferðin byggir á traustum fræði- og vísindagrunni.

Fjöldi rannsókna hafa verið framkvæmdar til þess að meta árangur meðferðarinnar.

Meirihluti þeirra hefur leitt í ljós að meðferðin ber sambærilegan og stundum betri árangur en lyfjameðferð við kvíða og þunglyndi en auk þess virðist árangurinn haldast til lengri tíma (Butler, Chapman, Forman og Beck, 2006; Morrison, 2001; Tolin, 2010).

Upphaf HAM má rekja til kenninga Aaron T. Beck en hann þróaði árangursríka meðferð við þunglyndi upp úr 1970 og var þar lögð megináhersla á það að breyta hugsunarhætti og hegðun einstaklinga (Beck, 1970).

Meðferðin hefur síðan þá tekið breytingum og verið þróuð til þess að takast á við aðra geðræna kvilla líkt og kvíðaraskanir (Norton og Price, 2007), átraskanir (Fairburn, Cooper og Shafran, 2003) og fíknivanda (McHugh, Hearon og Otto, 2010) svo eitthvað sé nefnt.

Grunnhugmyndin á bak við HAM er sú að líðan okkar og hegðun ræðst af því hvernig við hugsum um og túlkum veruleika okkar (Pétur Tyrfingsson og Agnes Agnarsdóttir, 2011).

Tilfinningar okkar eru þannig órjúfanlega tengdar hugsun okkar. Markmið meðferðarinnar er því að breyta hugsun og hafa þannig áhrif á líðan og hegðun til hins betra.

Atferlistengdir þættir í meðferðinni fela í sér verkefni sem skjólstæðingar halda áfram að vinna með heima, svo sem hugsanaskrár þar sem viðkomandi lærir að endurmeta hugsanir og líðan.

Mikil áhersla er lögð á það að vinna þessi heimaverkefni en rannsóknir hafa leitt í ljós að þeir sem vinna heimavinnu í meðferðinni ná betri árangri en hinir sem gera það ekki.

Áhersla er á birtingarmynd vandans í nútíðinni og er frekar litið á þann vítahring sem viðheldur vandanum fremur en það sem upprunalega olli honum.

Meðferðaraðilar og skjólstæðingar vinna saman að því að skilja vandann og leysa hann á áhrifaríkan hátt.Heimildir

Butler, A. C., Chapman, J. E., Forman, E. M. og Beck, A. T. (2006). The empirical status of cognitive-behavioral therapy: A review of meta-analyses. Clinical Psychology Review, 26(1), 17–31. doi:10.1016/j.cpr.2005.07.003

Fairburn, C. G., Cooper, Z. og Shafran, R. (2003). Cognitive behaviour therapy for eating disorders: a “transdiagnostic” theory and treatment. Behaviour Research and Therapy, 41(5), 509–528. doi:10.1016/S0005-7967(02)00088-8

McHugh, R. K., Hearon, B. A. og Otto, M. W. (2010). Cognitive-Behavioral Therapy for Substance Use Disorders. The Psychiatric clinics of North America, 33(3), 511–525. doi:10.1016/j.psc.2010.04.012

Morrison, N. (2001). Group cognitive therapy: Treatment of choice or sub-optimal option? Behavioural and Cognitive Psychotherapy, 29(3), 311–332. doi:10.1017/S1352465801003058

Norton, P. J. og Price, E. C. (2007). A meta-analytic review of adult cognitive-behavioral treatment outcome across the anxiety disorders. The Journal of Nervous and Mental Disease, 195(6), 521–531. doi:10.1097/01.nmd.0000253843.70149.9a

Tolin, D. F. (2010). Is cognitive-behavioral therapy more effective than other therapies? A meta-analytic review. Clinical Psychology Review, 30(6), 710–720. doi:10.1016/j.cpr.2010.05.003

Pétur Tyrfingsson og Agnes Agnarsdóttir. (2011). Mér líður eins og ég hugsa! Hugræn atferlismeðferð við kvíða og þunglyndi. Reykjavík: Landspítalinn Háskólasjúkrahús.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir
Af hverju ekki?