Leit
Loka

Forstjóri og framkvæmdastjórn

Meginhlutverk forstjóra er að tryggja að á Landspítala sé veitt fullkomnasta heilbrigðisþjónusta sem á hverjum tíma eru tök á að veita í samræmi við hlutverk stofnunarinnar innan heilbrigðisþjónustunnar.  Forstjóri skal vinna að því að spítalinn ræki hlutverk sitt hvað snertir þjónustu, kennslu og rannsóknir og skal m.a. eiga ríkt samstarf við háskólasamfélagið.

Áður en forstjóri tekur mikilvægar ákvarðanir er varða þjónustu og rekstur Landspítala skal hann taka mál upp á vettvangi framkvæmdastjórnar og leita ráðgjafar og álits hennar. Þá ber forstjóra að leita álits fagráðs um mikilvægar ákvarðanir sem varða heilbrigðisþjónustu og skipulag spítalans.

Í samráði við forstjóra markar stjórn Landspítala spítalanum langtímastefnu í samráði við forstjóra í samræmi við stefnumörkum ráðherra og hlutverk stofnunarinnar samkvæmt lögum. Forstjóri skal einnig bera ráðstafanir sem miðað við daglegan rekstur eru mikils háttar eða óvenjulegar í starfsemi stofnunarinnar undir stjórn til samþykktar.

 

Framkvæmdastjórn Landspítala er skipuð eftirtöldum frá og með 1. janúar 2023 þegar nýtt skipurit spítalans tók gildi:

Runólfur Pálsson tók við starfi forstjóra Landspítala 1. mars 2022. 

Runólfur lauk kandídatsprófi í læknisfræði frá Háskóla Íslands árið 1985, sérfræðinámi í lyflækningum frá Hartford Hospital og University of Connecticut árið 1991 og sérfræðinámi í nýrnalækningum frá Massachusetts General Hospital og Harvard Medical School árið 1996. Runólfur hefur starfað á Landspítala samfellt frá árinu 1996 og gegnt þar ýmsum stjórnunarstöðum, síðast starfi forstöðumanns lyflækninga- og bráðaþjónustu.  Hann hefur jafnframt verið prófessor við læknadeild Háskóla Íslands.
Runólfur tók í október 2021 tímabundið við starfi framkvæmdastjóra meðferðarsviðs á Landspítala af Guðlaugu Rakel Guðjónsdóttur, sem gegndi tímabundið starfi forstjóra spítalans.

 

Helstu verkefni forstjóra

Forstjóri Landspítala er skipaður af heilbrigðisráðherra til fimm ára í senn. Í erindisbréfi frá nóvember 2022 er helstu verkefnum forstjóra tilgreind:

  • Hafa með höndum yfirstjórn Landspítala.
  • Sitja fundi stjórnar Landspítala, nema stjórn ákveði annað í einstökum tilvikum.
  • Gera stjórnskipurit fyrir spítalann í samráði við framkvæmdastjórn, sé slík starfandi, stjórn spítalans og fagráð þess og leggja tillögu fyrir heilbrigðisráðherra til kynningar.
  • Gera árlega starfs- og ársáætlun fyrir spítalann í samráði við framkvæmdastjórn og stjórn spítalans.
  • Gera áætlanir fyrir spítalann til þriggja ára í senn í samráði við framkvæmdastjórn, stjórn spítalans og í samræmi við ákvæði laga um opinber fjármál nr. 123/2015.
  • Stjórna daglegum rekstri spítalans, ráða starfsmenn og bera ábyrgð á starfsmannahaldi.
  • Tryggja að mönnun sé í samræmi við hlutverk spítalans. 
  • Vinna að nýjungum og umbótum í starfsemi spítalans með gæði þjónustu að leiðarljósi.
  • Stuðla að gæðaþróun og árangursmati í starfi spítalans.
  • Vinna að samhæfingu þjónustuþátta.
  • Vinna að því að spítalinn annist starfsnám í heilbrigðisgreinum í samvinnu við menntastofnanir og aðrar heilbrigðisstofnanir.
  • Efla teymisvinnu og þverfaglegt samstarf við aðrar heilbrigðisstofnanir.
  • Vinna önnur verkefni sem heilbrigðisyfirvöld fela forstjóra.

 

Framkvæmdastjórar klínískra sviða

Björn Rúnar Lúðvíksson

Björn Rúnar lauk sérfræðinámi í almennum lyflækningum við University of Wisconsin í Madison og síðan framhaldsnámi í klínískri ónæmisfræði við National Institutes of Health í Bandaríkjunum. Hann lauk síðan doktorsprófi við læknadeild Háskóla íslands 1999.

Björn Rúnar var skipaður yfirlæknir ónæmisfræðideildar Landspítala og prófessor í ónæmisfræði við læknadeild árið 2007. Rannsóknir hans hafa á undanförnum árum helst beinst að samspili meðfæddra ónæmisgalla við tilurð sjálfsónæmissjúkdóma með áherslu á ósértækt ónæmissvar.   Einnig hefur Björn unnið að þróun rafrænna lausna við greiningu og meðferð sjúkdóma.

Björn Rúnar hefur hlotið margvíslegar viðurkenningar fyrir störf sín, var m.a. valinn heiðursvísindamaður Landspítala árið 2017. Hann hefur gegnt margvíslegum trúnaðarstörfum og formennsku í fjölmörgum innlendum og alþjóðlegum nefndum, ráðum og fagfélögum m.a. sem formaður Vísindsiðanefndar og forseti Norrænu ónæmisfræðisamtakanna (2023).

Netfang: bjornlud@landspitali.is

Dögg Hauksdóttir, framkvæmdastjóri kvenna- og barnaþjónustu

Dögg lauk kandídatsprófi frá læknadeild Háskóla Íslands árið 2004 og sérnámi í fæðinga- og kvensjúkdómalækningum við Sahlgrenska sjúkrahúsið í Gautaborg árið 2013. Að lokinni þjálfun í undirsérgrein í grindarbotns og þvagfæravandamálum kvenna árið 2015 tók hún við sem yfirlæknir á Gyn Östra á Sahlgrenska sjúkrahúsinu.

Árið 2016 lauk hún „Processorienterad ledarskap námi“ við Gautaborgarháskóla og árið 2021 MBA gráðu frá Háskólanum í Reykjavík.

Dögg hefur starfað á Landspítala frá árinu 2017 sem sérfræðilæknir á kvenlækningadeild. Frá 2021 til 2022 var hún forstöðumaður kvenna- og barnaþjónustu.

Dögg hefur sérstakan áhuga á gæða- og umbótastarfi og hefur verið heiðruð fyrir verk á því sviði bæði á Sahlgrenska sjúkrahúsinu og á Landspítala.

Netfang: dogghauk@landspitali.is

Guðný ValgeirsdóttirGuðný lauk BS-prófi í hjúkrunarfræði frá Háskóla Íslands árið 1994 en hafði áður lokið sjúkraliðaprófi frá Fjölbrautaskólanum í Breiðholti. Árið 2012 lauk Guðný svo MBA-prófi frá Háskólanum í Reykjavík.

Hún hefur víðtæka reynslu af störfum innan heilbrigðiskerfisins og hefur m.a starfað sem hjúkrunarfræðingur á Landspítala og á sjúkrahúsum í Danmörku.

Guðný var markaðsfulltrúi hjá lyfjafyrirtækinu Vistor í 10 ár. Frá 2016 hefur hún gegnt stjórnunarstörfum á Landspítala, sem deildarstjóri á dag-, göngu- og samfélagsdeild á Landakoti og sem forstöðumaður öldrunar- og endurhæfingarþjónustu.

Netfang: gudnyval@landspitali.is

Már Kristjánsson

Már lauk kandídatsprófi í læknisfræði frá Háskóla Íslands árið 1984, sérfræðinámi í lyflækningum frá New Britain General Hospital og University of Connecticut árið 1990 og sérfræðinámi í smitsjúkdómalækningum frá Boston University Medical Center og Boston University Medical School árið 1993.

Hann hefur starfað á Landspítala nánast samfellt frá árinu 1993 og gegnt þar ýmsum stjórnunarstöðum, síðast starfi yfirlæknis smitsjúkdómalækninga. Hann hefur jafnframt verið klínískur prófessor við læknadeild Háskóla Íslands.

Már tók í október 2021 tímabundið við starfi forstöðumanns lyflækninga- og bráðaþjónustu á Landspítala af Runólfi Pálssyni sem gegndi tímabundið starfi framkvæmdastjóra sama sviðs spítalans.

Netfang: markrist@landspitali.is

Nanna BriemNanna lauk kandídatsprófi frá læknadeild Háskóla Íslands árið 1994. Hún lærði geðlækningar í Noregi á Ullevaal háskólasjúkrahúsinu í Osló og Vestre Viken - Blakstad Sykehus og fékk norsk sérfræðiréttindi í geðlækningum árið 2003. Hún hefur verið sérfræðingur í geðlækningum á Landspítala frá 2003.

Nanna var yfirlæknir á Laugarásnum meðferðargeðdeild frá 2014 og byggði þar upp öflugt meðferðarúrræði fyrir ungt fólk með geðrofssjúkdóma á byrjunarstigi. Frá árinu 2016 var Nanna yfirlæknir á Laugarásnum og Sérhæfðri endurhæfingargeðdeild.

Nanna gegndi starfi kennslustjóra sérnáms í geðlækningum í 10 ár frá 2009. Hún hefur einnig gegnt margvíslegum nefndarstörfum bæði innan og utan spítalans. Frá 2019 til 2022 var hún forstöðumaður geðþjónustu Landspítala.

Netfang: nannabri@landspitali.is

Vigdís Hallgrímsdóttir

Vigdís er hjúkrunarfræðingur að mennt með framhaldsnám í stjórnun frá Royal College of Nursing í London og meistarapróf í verkefnastjórnun (MPM) frá verkfræðideild Háskóla Íslands.

Vigdís hefur starfað á Landspítala um margra ára skeið. Eftir útskrift frá hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands vanni hún við gjörgæsluhjúkrun. Að loknu námi í verkefnastjórnun var Vigdís við verkefnastjórnun á gæðadeild Landspítala, á skurðlækningasviði og á aðgerðasviði. Á þeim tíma stýrði hún verkefnum sem tengdust breytingum og umbótum á starfsemi sviðanna auk þess að vera verkefnastjóri við Hringbrautarverkefnið.

Vigdís var ráðin í starf framkvæmdastjóra á aðgerðasviði 2018. Árið 2019 varð hún forstöðumaður skurðstofu- og gjörgæslukjarna og sumarið 2020 forstöðumaður krabbameinskjarna.

Netfang: vigdisha@landspitali.is

 

 

 

Þórir Svavar Sigmyndsson, framkvæmdastjóri skurðlækningaþjónustu og gjörgæsluþjónustu

Þórir lauk læknaprófi frá læknadeild Háskóla Íslands 2006 og sérnámi í svæfinga- og gjörgæslulækningum við Karolinska sjúkrahúsið í Stokkhólmi 2013.

Þórir varði doktorsritgerð sína „Performance of the revised Capnodynamic method for cardiac output monitoring“ við Karolinska Institut í Svíþjóð árið 2019.

Þórir starfaði sem yfirlæknir á Karolinska sjúkrahúsinu frá 2019 og sem stjórnandi á svæfingadeild spítalans frá árinu 2020 ásamt því að sinna klínískri vinnu og áframhaldandi rannsóknum..

Netfang: thorirsv@landspitali.is

 

 

Framkvæmdastjórar stoðsviða

Gunnar Ágúst BeinteinssonGunnar Ágúst lauk prófi í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands árið 1991 og meistaranámi með áherslu á stefnumótun og stjórnun frá Viðskiptaháskólanum í Kaupmannahöfn árið 2002.

Hannt hóf störf hjá Actavis Group árið 2004 sem forstöðumaður stefnumótunar og á árinu 2006 sem framkvæmdastjóri mannauðsmála.

Árið 2015 varð Gunnar Ágúst framkvæmdastjóri rekstrar og mannauðsmála hjá Xantis Pharma AG í Sviss. Frá fyrri hluta ársins 2020 starfaði hann við við eigið ráðgjafarfyrirtæki í Sviss.

Gunnar Ágúst spilaði handbolta með FH og íslenska landsliðinu á árunum 1985-2000.

Netfang: gunnarab@landspitali.is

Ólafur G. Skúlason

Ólafur útskrifaðist með BS-gráðu í hjúkrunarfræði árið 2006, diplóma í skurðhjúkrun árið 2010 og MS-gráðu í hjúkrunarstjórnun árið 2018, allt frá Háskóla Íslands. Hann er jafnframt menntaður sjúkraliði og sjúkraflutningamaður.

Ólafur er aðalmaður í nefnd um hæfi framkvæmdastjóra hjúkrunar á vegum Heilbrigðisráðuneytis, varaformaður Samtaka evrópskra skurðhjúkrunarfræðinga (EORNA), stjórnarmaður í Fagdeild skurðhjúkrunarfræðinga og gjaldkeri Fagdeildar um forystu í hjúkrun innan Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

Ólafur hefur lengst  starfað á Landspítala. Hann hóf störf í eldhúsi árið 1998, var svo sjúkraliðanemi, sjúkraliði, hjúkrunarnemi, hjúkrunarfræðingur og loks skurðhjúkrunarfræðingur innan veggja sjúkrahússins. Hann hefur jafnframt reynslu af því að starfa i einkarekinni heilbrigðisþjónustu, heilsugæslu á landsbyggðinni og hjúkrunarheimilum. Hann sinnir stundakennslu við hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild Háskóla Íslands.

Ólafur var formaður og framkvæmdastjóri Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga árin 2013-2016, hjúkrunardeildarstjóri á skurðstofum Landspítala Fossvogi 2016-2020 og forstöðumaður kjarna skurðstofa og gjörgæslna 2020-2022.

Netfang: olafursk@landspitali.is

Svava María Atladóttir

Svava María lauk MS-gráðu frá Boston University 2008 og BS-gráðu í heilbrigðisverkfræði frá Rensselaer Polytechnic Institute í New York árið 2001. Hún er með viðbótardiplóma í nýsköpun og framleiðslu frá Stanford háskóla í Kaliforníu og er meðhöfundur kennslubókar um skapandi hugsun í heilbrigðiskerfum.

Frá 2020-2022 starfaði Svava María sem verkefnastjóri á Landspítala þar sem hún vann m.a. við uppbyggingu Brjóstamiðstöðvar.

Á tímabilinu 2001-2020 vann hún í Kísildalnum í Kaliforníu bæði sem verkfræðingur og ráðgjafi fyrir þróun spítala og fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu.

Netfang: svavam@landspitali.is

 

 

Tómas Þór Ágústsson

Tómas þór lauk embættisprófi í læknisfræði frá Háskóla Íslands 2001. Hann stundaði framhaldsnám í Oxford og Lundúnum 2002-2012 en hefur síðan verið sérfræðilæknir í lyf- og innkirtlalækningum á Landspítala. Frá febrúar 2020 hefur Tómas verið yfirlæknir sérnáms á Landspítala og formaður framhaldsmenntunarráðs frá 2018.

Tómas hefur verið lektor við heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands frá 2017 ásamt því að standa fyrir uppbyggingu handleiðaraþjálfunar og menntavísinda lækna í samstarfi við aðra heilbrigðisstofnanir og menntavísindasvið HÍ. Hann hefur einnig tekið virkan þátt í félagsstörfum, m.a. innan Fræðslustofnunar Læknafélags Íslands og gegnt formennsku Samtaka um meðferð sára.

Auk áframhaldandi þróunar gæða-, skráningar- og öryggismála, menntamála og vísindastarfa vinnur Tómas að frekari uppbyggingu lækninga á Landspítala á vettvangi framhalds- og símenntunar ásamt aukinni áherslu á vinnuskipulag og starfsumhverfi lækna.

Netfang: tomasa@landspitali.is 

 

 

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir
Af hverju ekki?