Skipulag og stjórnun

Landspítali  er aðalsjúkrahús landsins og háskólasjúkrahús.  Það starfar samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu 2007 nr. 40 27. mars þar sem kveður á um að ráðherra fari með yfirstjórn heilbrigðismála.
Skipurit Landspítala 2016 (pdf)

Ábyrgðarsvið stjórnenda á Landspítala (pdf) 
Staða yfirlækna í skipuriti Landspítala (pdf)
Handhafar valds frá forstjóra Landspítala (pdf)

Forstjóri
Forstjóri Landspítala er skipaður af heilbrigðisráðherra til fimm ára í senn og starfar samkvæmt erindisbréfi þar sem tilgreind eru helstu markmið í þjónustu og rekstri stofnunar og verkefni hennar til lengri og skemmri tíma.  Forstjóri ber ábyrgð á stofuninni í samræmi við lög, stjórnvaldsfyrirmæli og erindisbréf, á þeirri þjónustu sem stofnunin veitir og að rekstrarútgjöld og rekstrarafkoma sé í samræmi við fjárlög og að fjármunir séu nýttir á árangursríkan hátt.

Framkvæmdastjórn
Fjöldi í framkvæmdastjórn heilbrigðisstofnunar fer eftir skipuriti hennar.  Á Landspítala skipa 13 framkvæmdastjórar framkvæmdastjórn, auk forstjóra.  Áður en forstjóri tekur mikilvægar ákvarðanir er varða þjónustu og rekstur stofnunar skal hann taka mál upp á vettvangi framkvæmdastjórnar og leita ráðgjafar og álits stjórnarmanna.  Framkvæmdastjórn skal boða til upplýsinga- og samráðsfunda með starfsmönnum stofnunar eftir þörfum og eigi sjaldnar en einu sinni á ári. 

Fagstjórnendur
Framkvæmdastjóri lækninga og framkvæmdastjóri hjúkrunar starfa á Landspítala samkvæmt lögunum um heilbrigðisþjónustu og eftir atvikum aðrir faglegir yfirstjórnendur sem bera faglega ábyrgð á þjónustu stofnunarinnar gagnvart forstjóra.
Yfirlæknar sérgreina eða sérdeilda bera faglega ábyrgð á þeirri læknisþjónustu sem undir þá heyrir gagnvart framkvæmdastjóra lækninga eða næsta yfirmanni samkvæmt skipuriti stofnunarinnar.
Deildarstjórar hjúkrunar bera faglega ábyrgð á þeirri hjúkrunarþjónustu sem undir þá heyrir gagnvart framkvæmdastjóra hjúkrunar eða næsta yfirmanni samkvæmt skipuriti stofnunarinnar.
Aðrir fagstjórnendur bera faglega ábyrð á þeirri þjónustu sem þeir veita og undir þá heyrir í samræmi við stöðu þeirra i skipuriti stofnunarinnar.

Hjúkrunarráð og læknaráð
Á háskólasjúkrahúsinu skulu vera starfandi læknaráð og hjúkrunarráð og eftir atvikum önnur fagráð.  Fagráðin skulu vera forstjóra og framkvæmdastjórn til ráðuneytis um fagleg atriði í rekstrinum.  Ber að leita álits fagráða um mikilvægar ákvarðanir sem varða heilbrigðisþjónustu stofnunarinnar, þar á meðal eftir því sem við á álits læknaráðs um læknisþjónustu og álits hjúkrunarráðs um hjúkrunarþjónustu.

Ráðgjafarnefnd
Ráðherra skipar níu manns og jafn marga til vara í ráðgjafarnefnd Landspítala til fjögurra ára í senn. Nefndin skal vera forstjóra og framkvæmdastjórn til ráðgjafar og álits um þjónustu, starfsemi og rekstur spítalans.  Skal nefndin m.a. fjalla um árlegar starfs- og fjárhagsáætlanir spítalans og langtímastefnu hans.  Nefndin skal m.a. skipuð fulltrúum notenda þjónustu spítalans.  Formaður skal í samráði við forstjóra boða til upplýsinga- og samráðsfunda eftir því sem þurfa þykir og eigi sjaldnar en tvisvar á ári.