Sérfræðilæknir í klínískri ónæmisfræði og/ eða blóðgjafafræði
Laust er til umsóknar starf sérfræðilæknis við Blóðbanka- og ónæmisfræðiþjónustu Landspítala. Starfshlutfall er 100%, nema um annað verði samið. Til greina getur komið að ráða lækni með sérfræðiviðurkenningu í skyldum greinum, svo sem öðrum rannsóknagreinum eða blóðsjúkdómafræði.
Blóðbanka- og ónæmisfræðiþjónusta Landspítala varð til við sameiningu Blóðbankans og ónæmisfræðideildar Landspítala í eina kjarnaeiningu árið 2025. Eftir sameininguna starfa á deildinni um hundrað einstaklingar, læknar, lífeindafræðingar, náttúrufræðingar, hjúkrunarfræðingar, skrifstofufólk og aðrir. Starfsandinn einkennist af metnaði, samvinnu, stuðningi og góðum liðsanda. Unnið er í öflugum þverfaglegum teymum innan deildar sem og í nánu samstarfi við aðrar starfseiningar Landspítala.
Hin nýja sameinaða deild veitir alhliða blóðbanka- og ónæmisfræðiþjónustu og er ein sinnar tegundar á Íslandi. Deildin sinnir meðal annars innköllun og nýliðun blóðgjafa, blóðsöfnun, blóðhlutavinnslu, stofnfrumuvinnslu, vefjaflokkagreiningum vegna líffæraígræðslna sem og öðrum þjónusturannsóknum í tengslum við fyrrgreinda þjónustuþætti. Á ónæmisfræðihluta deildarinnar er veitt sérhæfð þjónusta til að greina ofnæmissjúkdóma, gigtar- og sjálfsónæmissjúkdóma, ónæmisgalla og annars konar konar van- eða ofstarfsemi ónæmiskerfisins. Nýttar eru fjölbreytilegar rannsóknaraðferðir til mats og greiningar virkni ónæmiskerfisins. Í tengslum við blóðbanka- og ónæmisfræðiþjónustu Landspítala er rekin göngudeild á sviði ofnæmis- og ónæmislækninga.
Á Blóðbanka- og ónæmisfræðiþjónustu Landspítala fer fram öflug kennsla háskólanema, starfsþjálfun nema í heilbrigðisgreinum, sem og kraftmiklar vísindarannsóknir í samvinnu við rannsakendur innan og utan Landspítala. Deildin hefur formleg tengsl við læknadeild Háskóla Íslands og við Háskólann í Reykjavík.
- Almenn sérfræðilæknisstörf við Blóðbanka- og ónæmisfræðiþjónustu Landspítala
- Yfirferð á rannsóknasvörum, þar með talin túlkun og ráðgjöf til aðila innan og utan Landspítala
- Almenn ráðgjöf á sviði ónæmis- og blóðbankafræði til starfsfólks Landspítala og til annarra stofnana og fagaðila
- Sérfræðiumsjón með tilteknum rannsóknum og/ eða sérsviðum
- Þróun og innleiðing nýrra rannsóknaaðferða í samráði við yfirlækni og aðra stjórnendur
- Þátttaka í gæðastarfi og eftirfylgni
- Kennsla og handleiðsla deildarlækna og háskólanema
- Þátttaka í kennslu og vísindarannsóknum
- Önnur verkefni sem taka mið af þekkingu og reynslu viðkomandi
- Íslenskt sérfræðileyfi í klínískri ónæmisfræði og/ eða blóðgjafafræði
- Íslensk sérfræðiviðurkenning í skyldum sérgreinum, ef í starfið verður ráðinn læknir sem ekki er með sérmenntun á sviði ónæmis- eða blóðgjafafræði
- Jákvæðni, sveigjanleiki og lipurð í samskiptum
- Mikilvægt er að umsækjendur geti unnið sjálfstætt að verkefnum, en geti líka unnið sem hluti af í teymum
- Þekking og reynsla af öryggis-, gæða- og umbótastarfi er kostur
- Reynsla af kennslu- og vísindastarfi er æskileg
Frekari upplýsingar um starfið
Fullt starf er bundið við sjúkrahúsið eingöngu sbr. grein 3.3 í gildandi kjarasamningi lækna og ríkisins.
Í umsóknarformið skal skrá inn upplýsingar um:
- Fyrri störf, menntun og hæfni
- Félagsstörf og umsagnaraðila
Nauðsynleg fylgiskjöl:
- Vottað afrit af prófskírteinum og starfsleyfum
- Ferilskrá þar sem tilgreind er reynsla af kennslu, vísindavinnu, gæðavinnu og stjórnunarstörfum
- Yfirlit yfir birtar ritrýndar vísindagreinar sem umsækjandi er höfundur að. Umsækjandi skal annaðhvort setja upp Google Scholar aðgang og senda vefslóð að síðunni eða senda staðfestingu á birtum greinum á PubMed
- Kynningarbréf með rökstuðningi fyrir hæfni og sýn á starfið
Fylgiskjöl skulu vera á pdf formi.
Viðtöl verða tekin við umsækjendur og byggist ákvörðun um ráðningu í starfið á þeim og innsendum gögnum. Tekið er mið af jafnréttisstefnu Landspítala við ráðningar á spítalanum. Öllum umsóknum verður svarað.
Landspítali er lifandi og fjölbreyttur vinnustaður þar sem um 7000 manns starfa í þverfaglegum teymum og samstarfi ólíkra fagstétta. Framtíðarsýn Landspítala er að vera háskólasjúkrahús í fremstu röð þar sem sjúklingurinn er ávallt í öndvegi. Lykiláherslur í stefnu spítalans eru öryggismenning, skilvirk og vönduð þjónusta, uppbygging mannauðs og stöðugar umbætur.
Landspítali hefur hlotið jafnlaunavottun samkvæmt jafnlaunastaðlinum ÍST85:2012, úttekt framkvæmd af Versa vottun ehf.
Umsóknir geta gilt í 6 mánuði frá birtingu auglýsingar, sbr. 3. tl. 2. mgr. 2. gr. reglna nr. 1000/2019 um auglýsingar lausra starfa með síðari breytingum
Starfsmerkingar: Heilbrigðisþjónusta, Sérfræðilæknir, læknir með lækningaleyfi
Tungumálahæfni: Íslenska 4/5